3.5.2003

Villuljós um fátækt, menntun og jafnrétti

Vettvangur í Morgunblaðinu, 03. 05. 03.

Í HUGA margra er kosningabaráttan vafalaust flókin og samhengislaus. Erfitt sé að átta sig á meginstraumum hennar og rökum andstæðra fylkinga. Þegar stjórnmálamenn hittist á sjónvarps- eða útvarpsfundum reyni þeir að skjóta sér undan að svara á skýran og afdráttarlausan hátt. Helst hafi verið kafað ofan í tillögur um skattamál, en þegar þær séu ræddar við talsmenn einstakra flokka eins og Samfylkingarinnar eða Frjálslynda flokksins fari þeir undan í flæmingi eða sýni, að þeir skilji hvorki eigin tillögur né viti, hvaða fjárhagslegar skuldbindingar fylgi þeim. Þegar menn geti ekki einu sinni skýrt, hvað þeir sjálfir vilja, hvernig geti þeir þá skýrt, hvað felst í tillögum annarra?

Frá heimspekilegum sjónarhóli er auðvelt að greina ógagnrýnan póstmódernisma í tilburðum Samfylkingarinnar. Hún hefur ekki lagt fram neitt sjálfstætt stefnumál í kosningabaráttunni. Við blasir samhengislaus samsuða ólíkra hugmynda, sannleikanum er oft sýnd nokkur léttúð og alið á umræðum með hálfkveðnum vísum. Mælt er með breytingum bara breytinganna vegna eða jafnvel á þeirri forsendu, að í Bandaríkjunum megi sami maður aðeins vera forseti í átta ár! Hvaða erindi eiga slíkar röksemdir hingað, þegar verið er að kjósa þingmenn, sem semja um stjórn að kosningum loknum? Hvergi svo vitað sé eru því settar skorður, hve oft þingmenn geta boðið sig fram - að minnsta kosti ekki í Bandaríkjunum, þar sem þeir sitja áratugum saman, jafnvel þar til þeir verða 100 ára.

Í skattamálum fór Samfylkingin af stað með umræður um fjölþrepa tekjuskatt en hljóp frá tillögum um hann, þótt talsmaður hennar segi þær þó enn einhvers staðar á kreiki. Þegar kemur að umræðum um, hvernig stjórn eigi að mynda eftir kosningar, segir Össur Skarphéðinsson eðlilegt, að stjórnarandstaðan, Samfylking, vinstri/grænir og frjálslyndir, axli ábyrgðina en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fer undan í flæmingi, þótt enginn hafi talað ákafar um, að Sjálfstæðisflokkurinn megi ekki vera áfram í ríkisstjórn.

Hér skal stuttlega rætt um fjögur mál, sem borið hefur hátt við hlið skattamála og kvótans: fátækt, menntun og jafnrétti.

***

Í fátæktarumræðum hefur vafist fyrir öllum að finna sameiginlegan umræðugrundvöll, vegna þess að hann er hvergi skilgreindur. Stjórnmálamenn geta deilt endalaust um, hver geri mest og best fyrir þá, sem minna mega sín, en erfitt er að meta árangur, ef sameiginlega mælistiku vantar.

Í stað þess að styðjast við skilgreindan mælikvarða er vísað í sérfræðinga. Mest athygli hefur beinst að rannsóknum og ritgerð Hörpu Njáls. Sjálfur forseti Íslands hefur sagt, að Harpa hafi ritað einna merkilegustu félagsfræðiritgerðina á íslensku og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kallar bók Hörpu "nýju biblíuna" sína. Þetta mikla verk segir þó ekkert um það, hvort fátæku fólki vegni betur með því að kjósa þennan eða hinn flokkinn á þing.

Fátæktarmál heyra undir sveitarfélög og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor hefur gefið út bók um rannsóknir á viðhorfi fólks til félagsmála í þeim. Rannsóknirnar sýna, að óánægja með félagslega þjónustu er mest í Reykjavík undir stjórn R-listans, vinstrimanna, sem hafa hækkað skatta en ekki lækkað, auk þess að hækka skuldir Reykjavíkur um 1100%. Harpa Njáls segir frá því, að ásókn í aðstoð Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar hafi aukist, eftir að R-listinn þrengdi verulega heimildarbætur, það er skyndiaðstoð og neyðaraðstoð Félagsþjónustu Reykjavíkur, árið 1995.

Nú hefur Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur birt niðurstöður rannsókna sinna, sem sýna, að 2,6% barna hafi verið undir skilgreindum fátæktarmörkum árið 2001 en 2,9% árið 1995, og aðeins eitt land, Svíþjóð, sé með minni fátækt meðal barna. Gunnlaugur Jónsson fjármálaráðgjafi hefur dregið þá ályktun af rannsóknum Sigurðar, að á árunum 1995 til 2001 hafi fátækt minnkað um helming hér á landi, fjöldi undir fátæktarmörkum hafi verið 4,2% íbúa árið 1995 en 2% árið 2001.

***

Samfylkingin hefur hamast við að reyna að koma því inn, að Íslendingar standi sig illa á sviði menntamála, með því að nota fjárhagslega mælistiku til að sanna mál sitt. Miðar hún gjarnan við síðustu 12 ár til að ná hæfilega löngu tilhlaupi. Þegar þetta er metið má til dæmis skoða opinber útgjöld til menntamála á hvern Íslending á föstu verðlagi. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands námu útgjöld ríkis og sveitarfélaga til menntamála 141 þúsund kr. á mann árið 2000. Árið 1990 voru útgjöld á mann 51 þúsund krónur á sama verðlagi. Hækkunin á þessum tíu árum er 176%! Því fer víðsfjarri, að dregið hafi úr útgjöldum til menntamála síðan árið 2000.

Árið 1999 var 14,5% af heildarútgjöldum hins opinbera hér á landi varið til menntamála og var Ísland næsthæst á þennan mælikvarða ásamt Danmörku, þegar 21 Evrópuríki voru borin saman. Meðaltal ríkja Evrópusambandsins var 11,2%. Í þessum tölum er ekki að finna framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en árið 1992 var honum bjargað frá gjaldþroti og hefur síðan verið stórefldur.

Miðað við heildarútgjöld Íslendinga til fræðslumála, þá eru aðeins fjórar þjóðir í öllum heiminum, sem verja meiru til menntamála af vergri landsframleiðslu en við, þær eru Kanadamenn, Danir, Svíar og Bandaríkjamenn.

Ef litið er til útgjalda til rannsókna og þróunar á Íslandi náðu þau að mati Rannsóknarráðs Íslands 3,01% af vergri landsframleiðslu árið 2001. Ísland er samkvæmt því í þriðja sæti OECD-ríkjanna, auðugustu ríkja heims, í þessu efni. Aðeins Svíar og Finnar eru fyrir ofan okkur.

Í ljósi þessa má spyrja: Er það vanþekking eða vísvitandi ósannindi, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir í Morgunblaðsgrein 1. maí: "Það segir sína sögu um stöðu menntamála á Íslandi að þegar kemur að opinberum framlögum erum við einungis í 14. sæti af 29 á lista OECD."

***

Að ræða jafnfréttismál á þeirri forsendu, að höfuðmáli skipti, hve margar konur skipi stjórnunarstöður innan ríkiskerfisins eða stjórnarráðsins, er til marks um gamaldags skammsýni. Er það einungis gert til að draga athygli frá róttækum breytingum í jafnréttismálum undanfarin ár með nýjum lögum um fæðingarorlof karla og kvenna og stórsókn kvenna innan menntakerfisins. Hvort tveggja á eftir að ráða meiru um þróun jafnréttismála en þjark um hlutfallslega skiptingu fólks í stjórnunarstöðum.

Hitt er einnig til lítils að láta eins og það sé aðför að launajafnrétti karla og kvenna að launakönnun hafi ekki verið gerð meðal starfsmanna ríkisins. Þar er vísað til bókana við gerð kjarsamninga árið 1997, þegar svigrúm var skapað fyrir stjórnendur ríkisstofnana til að gera samninga við starfsmenn sína. Með nokkrum samningum fylgdi bókun um að áhrif nýja launakerfisins yrðu könnuð með tilliti til launamunar kynjanna. Segir sína sögu um þörfina á slíkri launakönnun hjá ríkinu, að í kjarasamningum árið 2001 eru bókanir um hana ekki endurteknar. Ef framkvæmd kjarasamninganna frá árinu 1997 hefðu knúið á um þessa launakönnun hefði málinu verið fylgt eftir af þunga við gerð kjarasamninga árið 2001.

Ekkert bendir til þess, að launamunur karla og kvenna sé meiri hjá ríkinu en annars staðar. Vinstri/grænir tala um að konur séu með 59% af launum karla og Samfylkingin segir, að launamunur milli kynja sé 15%, konum í óhag. Í launakönnun meðal einstaklinga á vinnumarkaði og í sveitarstjórnum, sem nefnd á vegum forsætisráðuneytisins um efnahagsleg völd kvenna gerði í september 2002, kom hins vegar í ljós, að munurinn á launum kynjanna er 7 til 11%. Launakönnun hjá Reykjavíkurborg á síðasta ári sýndi 7% launamun þar.

***

Í greinaflokki um póstmódernisma, sem Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, ritaði í Lesbók Morgunblaðsins haustið 1997 og kom út í bók hans, Mannkostum, haustið 2002, segir hann tíðandarann ekki lengur runninn undan rifjum vísindamanna og heimspekinga heldur nýs afls, kjaftastéttanna, það er þáttastjórnenda, félagsvísindamanna, listrýna, dálkahöfunda og menningarvita af ýmsu tagi, sem móti fjölmiðlaumræðuna. Undanfarið hefur meira verið rætt um skoðanakannanir en nokkru sinni fyrr í sögu íslenskra kosninga. Þær eru fóður í óteljandi fréttir og umræðuþætti. Kannanirnar mæla þó aðeins hug fólks en skipta engu um hag þess í bráð og lengd.

Við ferðumst í þessum tíðaranda og verðum að gæta þess að glata ekki þeim vörðum, sem eru hlaðnar úr staðreyndum - að elta ekki villuljós.