24.4.2003

Vald og upplýsingar

Morgunblaðsgrein, 24. 04. 03

Nú hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,  fyrrverandi borgarstjóri og talsmaður Samfylkingarinnar, kvartað undan því og látið berast til fjölmiðla, að sér þyki óviðunandi, að fjármálaráðherra fái vitneskju um útreikninga ríkisskattstjóra á skattatillögum Samfylkingarinnar, en samfylkingarfólk fái ekki upplýsingar um störf ríkisskattstjóra fyrir ráðherra.

 

Þegar ég heyrði frá þessu sagt í fréttum útvarpsins og í frásögninni glitti í hinn hrokafulla hneykslunartón, sem ávallt setur svip á málflutning talsmannsins, var mér hugsað til fundar í borgarráði í vetur, á meðan Ingibjörg Sólrún var enn borgarstjóri og formaður ráðsins. Þá vildi hún beita valdi sínu til að koma í veg fyrir, að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gætum leitað álits borgarlögmanns á viðfangsefni í ráðinu. Taldi hún sig hafa makt til að bregða fæti fyrir, að tilmæli okkar um álit næðu fram að ganga. Svo reyndist ekki vera.

 

Hvað skyldi Ingibjörg Sólrún segja, ef fjármálaráðherra vildi ekki, að ríkisskattstjóri  reiknaði skattadæmi Samfylkingarinnar? Hún var sjálf að búa sig undir að beita boðvaldi borgarstjóra, til að koma í veg fyrir, að  sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur fengju umsögn borgarlögmanns um álitamál, sem var borið undir þá til ákvörðunar. Þegar á reyndi  sá hún að sér, líklega eftir leiðsögn kunnáttumanna í stjórnsýslu.

 

Hitt er, að öll svör, sem við sjálfstæðismenn fáum vegna fyrirspurna um málefni borgarinnar frá embættismönnum borgarinnar fara í afriti til borgarstjóra. Nýjasta dæmið er, að ég spurði Gunnar Eydal, skrifstofustjóra borgarstjórnar, í tölvubréfi, hvernig háttað væri framlagningu ársreiknings Reykjavíkurborgar. Afrit af tölvusvarinu var sent til borgarstjóra.

 

Ég spurði um þetta, þar sem bæði vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003 og vegna þriggja ára áætlunar um fjárhag Reykjavíkur hef ég orðið að rita félagsmálaráðuneytinu bréf til að fá fullvissu um, að óvenjuleg aðferð við framlagningu og brot á tímafrestum í sveitarstjórnarlögunum leiddi ekki til ólögmætis við afgreiðslu áætlananna. Afrit af svörum við fyrirspurnum mínum sendi ráðuneytið til borgarstjóra. 

 

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn fá ekki send afrit af bréfaskiptum embættismanna Reykjavíkurborgar til borgarstjóra. Sjálfstæðismenn fá ekki heldur send afrit af bréfum ráðuneyta til borgarstjóra. Telur Ingibjörg Sólrún, að senda eigi stjórnarandstöðunni í borgarstjórn Reykjavíkur slík gögn? Meiri rök eru raunar fyrir því, að það sé gert, en að embættismenn ríkisins sendi stjórnarandstöðu á alþingi gögn, sem ganga á milli þeirra og ráðherra. Reykjavíkurborg er stjórnað af fjölskipuðu stjórnvaldi meirihluta og minnihluta. Embættismenn starfa fyrir þetta stjórnvald. Embættismenn ríkisins starfa fyrir ríkisstjórnina. Þeim er hins vegar skylt að veita þriðja aðila upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.

 

Reynsla mín segir, að Ingibjörgu Sólrúnu hafi ekki verið sérstaklega í mun að miðla upplýsingum til sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún gerði meira að segja tilraun til að beita boðvaldi sínu sem borgarstjóri til að hindra að sjálfstæðismenn gætu leitað upplýsinga hjá borgarlögmanni, embættismanni Reykjavíkurborgar. 

 

Höfundur er borgarfulltrúi og í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður.