17.4.2003

Skilin markast í kosningabaráttunni

Vettvangur í Morgunblaðinu, 17. 04. 03

Fara stjórnmálamenn betur með fé fólks en fólkið sjálft? Þetta er klassísk spurning í stjórnmálaumræðum. Til er stjórnmálastefna, sem byggist á því grundvallarstefi, að fyrst eigi að gæta opinberra hagsmuna og síðan hagsmuna einstakra borgara. Sumir stjórnmálamenn hika ekki við að segja, að best sé að treysta þeim fyrir aflafé annarra og þess vegna skuli innheimtir háir skattar. Lengst hefur verið gengið á þeirri braut að svipta fólk forræði á eigin aflafé í kommúnistaríkjunum. Þau urðu að ríkjum fátæktar og fangelsa.

Hin klassíska spurning um skatta er enn einu sinni lögð fyrir kjósendur í alþingiskosningunum 10. maí næstkomandi. Með atkvæðaseðlinum er að þessu sinni unnt að velja á milli skýrari kosta en oft áður.

Sjálfstæðismenn vilja ganga lengst við að afsala ríkissjóði fjármunum í hendur skattgreiðandans, sem aflar þeirra. Allir, sem hafa hærri laun en 104 þúsund krónur á mánuði, 89% skattgreiðenda, hagnast meira af tillögum sjálfstæðismanna um lækkun tekjuskatts en af tillögum Samfylkingarinnar, svo að dæmi sé tekið.

Auk þess að gera tillögu um lækkun tekjuskatts vilja sjálfstæðismenn lækka virðisaukaskatt á matvæli, húshitun, bækur og fleira úr 14% í 7%. Þeir vilja afnema eignarskatt og lækka erfðafjárskatt. Þá vilja sjálfstæðismenn hækka barnabætur um 2.000 milljónir króna.

Skattalækkanirnar eru rökrétt framhald stefnunnar, sem fylgt hefur verið undanfarin ár með lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 30% í 18%. Tekjur ríkissjóðs hafa ekki minnkað eftir að ákvörðun var tekin um að treysta fyrirtækjunum frekar fyrir tekjum sínum en láta þær renna í gegnum hendur stjórnmálamannanna. Umsvif fyrirtækjanna hafa aukist og fjárhagslegur styrkur þeirra eflst.

Gerist þetta ekki einnig, þegar einstaklingar eiga í hlut? Skattastefna, sem hvetur til frumkvæðis og vinnu, er líklegri til að efla allt þjóðarbúið en stefna, sem miðar að því, að ríkisvaldið seilist sífellt dýpra ofan í vasa hins vinnandi manns. Miklu skiptir, að slíkri stefnu sé fylgt á komandi hagvaxtarárum, þegar framkvæmdir verða stærri en íslenska þjóðarbúið hefur nokkru sinni kynnst.

x x x

Hræðsluáróður er hið fyrsta, sem kemur í huga margra, þegar bent er á, að kannanir sýni líklegast, að Samfylking, frjálslyndir og vinstri/grænir myndi ríkisstjórn að loknum kosningunum 10. maí. Að slík stjórn sé í spilunum er þó enginn áróður, heldur rökrétt ályktun af viðhorfum þeirra, sem svara.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að samfylkingarfólk fagnaði vísbendingum um nýja flokka í ríkisstjórn. Annað var þó upp á teningnum hjá talsmanni Samfylkingarinnar í Stöð 2 á mánudagskvöld. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi, að rykið hefði verið dustað af gamalli glundroðakenningu, þegar rætt var um ríkisstjórn stjórnarandstöðunnar og með svona tali væru kjósendum settir afarkostir!

Í sjónvarpsviðræðum talsmanna stjórnmálaflokkanna að kvöldi sunnudagsins 13. apríl setti Ingibjörg Sólrún nokkur skilyrði fyrir aðild Samfylkingarinnar að ríkisstjórn. Forsenda samstarfs Samfylkingarinnar við aðra væri meðal annars, að þeir tækju upp skattastefnu hennar, samþykktu landið eitt kjördæmi og færu 10% fyrningarleið til að breyta kvótakerfinu.

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi þessi skilyrði á fundi á Akureyri á mánudagskvöld. Hann sagði skattastefnu Samfylkingarinnar eyðileggja staðgreiðsluna og hækka skatta. Fyrningarleiðin setti landsbyggðina á annan endann og græfi undan íslenskum sjávarútvegi. "Ég hef aldrei áður heyrt kröfur settar fram með þessum hætti," sagði Davíð. "Einhliða skilyrði með þessum hætti, og það sem meira er að þau eru öll óaðgengileg, hvert og eitt þeirra. Ekki fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur fyrir íslensku þjóðina."

x x x

Í sjónvarpsumræðunum voru Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður frjálslyndra, þeirrar skoðunar, að stjórnarandstöðuflokkarnir ættu að sjálfsögðu að taka höndum saman um stjórn að kosningum loknum, ef úrslitin veittu þeim til þess umboð.

Spurning er, hvort skilyrði Samfylkingarinnar fæla vinstri/græna og frjálslynda frá samstarfi við hana. Formönnum þessara flokka eins og formönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru kynnt einhliða skilyrði af hálfu Ingibjargar Sólrúnar. Voru þau sett fram í nauðvörn í sjónvarpsumræðunum í von um að skilja hana frá vinstri/grænum og frjálslyndum? Að óreyndu skal því ekki trúað. Varla var talsmaður Samfylkingarinnar markvisst að mála sig og flokk sinn út í horn?

Skattamál ættu ekki að útiloka, að stjórnarandstöðuflokkarnir gætu starfað saman. Samfylkingin hefur gefið svo misvísandi fyrirheit um áform sín í skattamálum, að líklegast þætti forystumönnum hennar best að skýla sér á bakvið það að kosningum loknum, að samstarfsflokkar hennar, frjálslyndir og vinstri/grænir, vildu ekki neinar markverðar breytingar á skattalögunum. Þá yrði stjórn fjármála ríkisins einnig væntanlega í höndum vinstri/grænna, sem vilja hlut ríkisins eins mikinn og frekast má á öllum sviðum. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, er enginn skattalækkunarsinni.

Í utanríkismálum er einnig skjól fyrir hendi. Saddam Hussein og andúðin á samstöðu ríkisstjórnar Íslands með ríkisstjórnum Bandaríkjanna og Bretlands í baráttunni við hann hefur orðið að sameiningartákni stjórnarandstöðunnar í utanríkismálum. Frjálslyndir hljóta að gera kröfu til embætta utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra í þriggja flokka ríkisstjórn. Guðjón Arnar yrði sjávarútvegsráðherra og í fréttaskýringu Steingríms Sigurgeirssonar í Morgunblaðinu í gær voru færð fyrir því rök, að kalla yrði á hinn gamalreynda Sverri Hermannsson, til að verða utanríkisráðherra.

Frjálslyndir mundu ekki setja kvótann fyrir sig, ef spurning væri að komast í ríkisstjórn. Á hinn bóginn yrði öllum stöðugleika í útgerð og fiskvinnslu stefnt í voða með stjórnarsetu þeirra.

x x x

Í upphafi kosningabaráttunnar, hinn 9. febrúar, vakti ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Borgarnesi athygli. Ekki vegna skýrrar póltískrar stefnu heldur vegna árása á Davíð Oddsson forsætisráðherra. Gaf hún til kynna, að hann drægi fyrirtæki í landinu í dilka, réðist að sumum og hyglaði öðrum, en öll bæru þau skaða af afskiptum hans. Í framhaldi af ræðunni spurði Morgunblaðið Ingibjörgu Sólrúnu, hvort hún væri að saka ríkislögreglustjóra og skattrannsóknastjóra um að hafa önnur sjónarmið en fagleg í huga við rannsóknir sínar á þeim fyrirtækjum sem hún nefndi eða eigendum þeirra, það er Baugi og Norðurljósum. Sagðist hún ekki hafa verið að ræða það heldur skortinn á trausti í íslensku samfélagi. "Fólk treystir ekki stofnunum samfélagsins, það treystir ekki stjórnmálamönnum, það treystir ekki ríkisstjórn, ráðherrum, það treystir ekki lögreglu, kirkju, fjölmiðlum," sagði hún í Morgunblaðsviðtalinu. Spurði blaðið þá í forystugrein: "Getur ábyrgur stjórnmálamaður leyft sér að styðjast við almannaróm en láta staðreyndir lönd og leið?"

Viðbrögðin við þessari ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur voru á þann veg, að kosningabaráttan þótti sett á lágt plan. Greinilegt er, að talsmaður Samfylkingarinnar vill hafa baráttuna á þessu plani, þótt allir flokkar hafi nú kynnt kosningastefnu og lagt áherslu á skýr málefni.

Ingibjörg Sólrún fer á ný í Borgarnes 15. apríl og heggur í sama knérunn. Nú með þeim orðum, að forysta Sjálfstæðisflokksins "hamist á forsetanum og biskupnum" og "neyti aflsmunar gagnvart fjölmiðlamönnum". Hún vænir fjölmiðlamenn um, að þeir þori ekki að "segja frá". Gefur með öðrum orðum til kynna, að í þjóðfélaginu ríki óttafullt þagnarsamsæri, þar sem forseti, biskup og rithöfundar eigi sérstaklega um sárt að binda.

Eftir hringferð um landið, vorþing Samfylkingarinnar og þátttöku í tveimur sjónvarpsþáttum með forystumönnum annarra stjórnmálaflokka treystir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sér ekki til að ræða meira um málefni. Hún vill að gróusögur og samsæriskenningar móti síðustu vikur kosningabaráttunnar. Að boða vinstri stjórn á þeim forsendum frekar en afstöðu til málefna og hagsmuna lands og þjóðar hæfir málstaðnum.