30.12.1998

Dreifbýlisstyrkir, símenntun, fjarnám - Morgunblaðsgrein

Morgunblaðið 30. desember 1998.

Dreifbýlisstyrkir, símenntun, fjarnám

UNNIÐ hefur verið markvisst að því að hrinda hinni nýju skólastefnu, sem kynnt var á fyrri hluta ársins, í framkvæmd. Jafnrétti til náms er meðal þeirra þátta, sem einkenna stefnuna. Í henni er lýst yfir því, að eitt mikilvægasta úrlausnarefni skóla og skólayfirvalda sé að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, það er að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins. Eru ólíkar aðstæður vegna búsetu meðal þess, sem taka þarf tillit til í þessu sambandi.

Alþingi samþykkti nýlega frumvarp mitt um breytingu á lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Þessi lög fjalla um svonefnda dreifbýlisstyrki til þeirra, sem stunda nám í framhaldsskóla fjarri heimabyggð sinni og fjölskyldu, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili. Lagabreytingin fólst í því, að skapa samræmi milli þessara styrkveitinga og úthlutunarreglna Lánsjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Fyrir lagabreytinguna nutu þeir ekki dreifbýlisstyrks, sem áttu rétt á láni úr LÍN, en þar er um nemendur í sérnámi til starfsréttinda að ræða. Eftir að breytingin hefur verið samþykkt geta nemendur í þessu námi á framhaldsskólastigi hins vegar valið á milli þess að sækja um lán frá LÍN eða um styrkinn. Hér er um brýnt mál að ræða, sem snertir allt að 400 nemendur. Var samþykkt að auka útgjöld á fjárlögum um 25 milljónir króna af þessu tilefni. Þar að auki samþykkti alþingi að hækka almenna fjárveitingu til að jafna námskostnað um 40 milljónir króna. Ber að skoða þá hækkun sem mikilvægan lið í viðleitni þingmanna til að styrkja forsendur búsetu um land allt.

Nýlegar ákvarðanir alþingis leiða til þess, að námsstyrkjanefnd, sem úthlutar dreifbýlisstyrkjum til framhaldsskólanema, hefur 67,9 milljónum króna meira fé til ráðstöfunar á árinu 1999 en 1998. Fjárveitingar til að jafna námskostnað og til skipulegs skólaaksturs á framhaldsskólastigi eru 191 milljón króna í fjárlögum 1998 og verða 258,9 milljónir á árinu 1999. Til samanburðar má geta þess að árið 1996 nam þessi fjárhæð 111,5 milljónum króna, nemur hækkunin því um 130% á þremur árum.

Jafnrétti einkennir skólakerfið

Fyrir skömmu var dreift á alþingi skýrslu minni um framfærslukostnað og lögheimilisflutninga íslenskra námsmanna. Þar benda skýrsluhöfundar, sem eru frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, á, að eitt af megineinkennum íslenska skólakerfisins sé, að hér hafi ríkt meira jafnrétti til náms en víða annars staðar, hvort sem litið er til kynferðis, efnahags, búsetu eða annarra þátta. Liður í þessari stefnu sé úthlutun dreifbýlisstyrkja til nemenda af landsbyggðinni, sem sækja nám fjarri heimabyggð. Á árabilinu 1988-97 hafi verið varið um 900 millj. kr. í þessum tilgangi en fjárveitingin hafi hækkað jafnt og þétt frá 1990.

Þessi skýrsla til alþingis er unnin í samræmi við ályktun, sem alþingi samþykkti í febrúar 1995. Með henni var menntamálaráðherra falið að láta gera úttekt á kjörum og stöðu námsmanna, sem stunda nám fjarri heimabyggð. Niðurstöður skýrslunnar sýna m.a. að viðbótarkostnaður við að hafa nemanda á framhaldsskólastigi eða háskólastigi í skóla fjarri heimabyggð er á bilinu 130-375 þús. kr. að teknu tilliti til dreifbýlisstyrks. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 hefur enn verið stigið skref til að draga úr þessum viðbótarkostnaði með hækkun styrkja.

Símenntun

Í greinargerð, sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri samdi fyrir stjórn Byggðastofnunar um menntamál á landsbyggðinni, segir: „Efling framhaldsskóla og háskóla á landsbyggðinni er ein skilvirkasta aðgerð sem stjórnvöld geta gripið til gegn búsetuflutningnum.”

Um leið og undir þetta sjónarmið er tekið, er nauðsynlegt að árétta, að ekki er líklegt, að ráðist verði í að reisa fleiri framhaldsskóla eða háskóla á landsbyggðinni í bráð. Ég tel því, að leita eigi allra leiða til að efla þá skóla, sem fyrir eru og nýta hina nýju upplýsingatækni til hins ýtrasta í því skyni að gera mönnum sem víðast kleift að stunda gott nám. Til þess ber að nýta þann búnað, sem best dugar til að flytja þekkingu á milli staða, og virkja krafta þeirra til kennslu, sem mestu hafa að miðla. Með því er innra starf skólanna best styrkt.

Í fyrrnefndri greinargerð segir einnig: „Vænleg leið til að efla framhalds- og háskólamenntun á landsbyggðinni virðist geta verið að tengja þessi tvö skólastig með samningum milli framhaldsskóla og háskóla um að hinir síðarnefndu taki ábyrgð á ákveðnum námskeiðum sem kennd eru í hinum fyrrnefndu. Vilji nemandi síðan hefja nám í háskóla getur hann fengið þessi námskeið metin að fullu inn í háskólanám sitt.”

Við afgreiðslu fjárlaga ársins 1999 kom fram aukin áhersla á að styrkja símenntun og endurmenntun víða um land meðal annars með þeim hætti, sem lýst er hér að ofan. Menntamálaráðuneytið undirbýr nú, hvernig best verði staðið að því að nýta aukna fjármuni til símenntunar í samvinnu við skóla og þá, sem þeir kalla til samstarfs við sig. Á þessu ári hefur ráðuneytið unnið að því með Fræðsluneti Austurlands að hrinda góðum áformum undir merkjum þess í framkvæmd. Einnig hefur verið stuðlað að viðgangi Miðstöðvar fyrir símenntun á Suðurnesjum. Með staðfestingu ríkisstjórnarinnar fyrr á þessu ári, um að yfirstjórn símenntunar sé í höndum menntamálaráðuneytisins hefur það fengið nýtt umboð til að sinna þessum mikilvæga og sívaxandi þætti menntamálanna. Er sérstök verkefnisstjórn vegna símenntunar að hefja störf á vegum ráðuneytisins.

Fjarkennsla

Út frá almennum sjónarhóli og ekki síst frá bæjardyrum þeirra, sem á landsbyggðinni búa, er æskilegt, að fjölskyldur þurfi ekki að flytjast búferlum til að fólk geti stundað framhaldsnám eða aflað sér endurmenntunar. Best er, að unga fólkið geti dvalist sem lengst í heimabyggð sinni og notið þar hinnar bestu menntunar. Þróunin er í þá átt, að æ meira nám verður í boði í gegnum tölvur og hvers kyns fjarfundabúnað. Má hiklaust orða það svo, að í þessu efni sé um byltingarkenndar breytingar að ræða, er þá í senn vísað til tækninnar, námsframboðs og námsefnis. Markmiðið er, að landið verði einn námsmarkaður á framhaldsskólastigi. Nemendur í einum skóla geti lagt stund á nám í öðrum skóla, ef henta þykir.

Fjarkennsla rýfur ekki aðeins landfræðilega einangrun heldur gefur hún sveigjanleika í menntun, sem erfitt er að koma við í hefðbundnu skólastarfi. Fjarkennsla eykur möguleika dreifbýlisins til að bjóða sérhæfða námsáfanga og gerir skólakerfinu í heild kleift að nýta sér aðgang að þekkingu í öðrum löndum á markvissari hátt. Mikilvæg forsenda þess, að fjarkennsla þróist sem raunverulegur kostur í námi, er, að námskrár séu það skýrar, að ekki fari milli mála til hvers er ætlast af nemendum. Í endurskoðuðum námskrám verða námskröfur settar fram á skýran og ótvíræðan hátt, þannig að unnt sé að verða við þeim með fjarkennslu, þegar hún hentar.

Nýjar kröfur

Breyttar aðstæður og nýjar áherslur í menntamálum móta nýjar kröfur. Með nýjum námskrám fyrir þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, hefur þegar verið lagður grunnur að enn betri skóla í anda nýrrar skólastefnu. Þar er leitast við að koma til móts við þarfir hvers einstaklings eins og frekast er kostur.

Höfuðkrafan á að vera, að tíma og fjármunum til menntunar sé vel varið. Skólar eru til vegna nemendanna, þegar allt kemur til alls. Skólakerfið er að taka breytingum, sem auðvelda að svara sífellt fleiri kröfum allra nemenda.

Höfundur er menntamálaráðherra.
BjörnBjarnason

Allur réttur áskilinn, © Morgunblaðið.