5.4.2003

Frjálslynd og farsæl menntastefna

Vettvangur í Morgunblaðinu, 05. 04. 03.

 

 

 

 

Fyrir réttum sex árum, mánudaginn 7. apríl árið 1997, var tekin fyrsta skóflustunga að nýju skólahúsi við við Ofanleiti í Reykjavík. Var þá boðað, að næsta haust tæki nýr háskóli þar til starfa.  Gekk þetta eftir. Hinn 4. september 1998 var Viðskiptaháskólinn í Reykjavík settur, síðar Háskólinn í Reykjavík.

 

Um svipað leyti og fyrsta skóflustunga vegna nýja háskólans var tekin birtist stjórnarfrumvarp um almenna háskólalöggjöf á alþingi. Áður höfðu gilt lög um hvern einstakan háskóla. Háskólafrumvarpið náði ekki fram að ganga vorið 1997 en varð hins vegar að lögum í desember 1997 með gildistöku frá 1. janúar 1998. Síðan hefur orðið meiri breyting á háskólastarfi í landinu en á þeim tæpu nítíu árum, sem þá voru liðin, frá því að Háskóli Íslands var stofnaður.

 

Kennaraháskólinn tók á sig nýja mynd í ársbyrjun 1998, þegar þrír framhaldsskólar voru fluttir á háskólastig, Fósturskóli Íslands, Þroskaþjálfaskóli Íslands og Íþróttakennaraskóli Íslands, og úr varð nýr Kennaraháskóli Íslands. Listaháskóli Íslands kom til sögunnar sem einkarekinn skóli haustið 1999. Samvinnuháskólinn á Bifröst fékk fastara land undir fætur og árið 2000 varð hann að Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Ný lög voru sett um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Loks varð Tækniskóli Íslands að Tækniháskóla Íslands með nýjum lögum árið 2002.

 

Undir forsjá landbúnaðarráðuneytis starfar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og í vikunni veitti landbúnaðarráðherra Hólaskóla heimild til að útskrifa nemendur með háskólagráðu. Á landsfundi sjálfstæðismanna á dögunum var samþykkt, að landbúnaðarskólarnir skyldu flytjast undir menntamálaráðuneytið, en þeir starfa nú samkvæmt lögum um búnaðarfræðslu.  Yrði það enn til að efla þessa skóla.

 

***

 

Frá því að lögbundið fræðslustarf hófst hér á landi árið 1907, hefur ekki verið staðið jafnskipulega að endurbótum á íslenska mennta- og skólakerfinu en á lokaáratugi 20. aldarinnar. Í fyrsta sinn var sköpuð samfella milli allra skólastiga með metnaðarfullum námskrám. Nútímavæðing varð í viðhorfi til stjórnarhátta í skólum og horfið að því ráði að tengja fjárveitingar og árangur. Launakjör kennara og annarra starfsmanna skóla bötnuðu til mikilla muna.

 

Leikskólastigið var viðurkennt sem fyrsta skólastig og því sett námskrá. Grunnskólar voru fluttir í nýtt og betra starfsumhverfi frá ríki til sveitarfélaga. Framhaldsskólastigið hefur tekið stakkaskiptum með nýjum námsbrautum og inntökuskilyrðum, eftir að skipting landsins í skólahverfi var afnumin. Háskólastigið hefur tekið á sig gjörbreytta mynd og kallar á fleiri nemendur en nokkru sinni fyrr. Símenntunarmiðstöðvar láta æ meira að sér kveða um land allt. Upplýsingatæknin hefur kallað þúsundir manna í fjarnám og veldur því, að unnt er að afla sér menntunar hvar og hvenær sem er. Nýtt hugtak, dreifmenntun, setur æ sterkari svip á framkvæmd menntastefnunar. Á bakvið það er markviss viðleitni til að sameina staðbundið nám og fjarnám til að koma sem best til móts við þarfir hvers og eins.

 

Sú staðhæfing, að íslenska skólakerfið standist ekki alþjóðlegan samanburð og samkeppni, er alröng. Íslenska þjóðfélagið væri ekki jafnfjölbreytt og vel á vegi statt á alla alþjóðlega mælikvarða, ef menntakerfið hefði brugðist þjóðinni. Höfum við þó ekki enn kynnst áhrifum hinna stórstígu framfara í menntamálum síðustu ár, þegar starfsemi á öllum skólastigum hefur sprungið út og blómstrað sem aldrei fyrr.

 

Listaháskóli Íslands er mikilvægt nýmæli í blómlegu menningarlífi þjóðarinnar.  Áhrif hans teygja sig auk þess um öll skólastig og út í atvinnulífið. Sköpunarmátturinn ræður  úrslitum um virðisaukann í allri framleiðslu. Með því að virkja íslenska og alþjóðlega strauma menningar og lista á akademískum forsendum innan íslensks listaháskóla verður til nýr kraftur.

 

***

 

Þegar litið er til fjárveitinga til skóla- og rannsóknarmála eru Íslendingar í fremstu röð á alla alþjóðlega mælikvarða. Með gerð reiknilíkana hefur verið unnið að því í framhaldsskólum og háskólum að tengja fjárveitingar við fjölda nemenda. Rennur meira fé úr ríkissjóði með þeim nemendum, sem stunda verknám en bóknám, vegna þess að það kostar meira að bjóða verkmenntun en bóknám. Þá er leitast við að sporna gegn brottfalli með því að miða fjárveitingar við fjölda þeirra nemenda, sem skrá sig til prófs.

 

Fyrir stjórnmálamenn og þá sem stjórna framkvæmd menntamála er mikilvægt að átta sig á valdmörkum sínum. Ákvörðun nemenda vil val á námsbrautum ræðst ekki af opinberum fyrimælum. Líklegt er að umræður um, hve fáir innrita sig hér í verknám og leit að sökudólgi vegna þess, letji til dæmis nemendur frekar frá því að fara í verknám en hvetji.

 

Aðstöðubyltingin í verknámsskólunum síðustu ár er alls ekki í samræmi við þá bölsýni, að stjórnvöld eða fjárveitingarvaldið hafi þrengt að verknámi með óhæfilegum hætti. Hinn neikvæði áróður gefur ókunnugum alranga mynd af hinni frábæru aðstöðu til verknáms í mörgum skólum víða um land. Galdurinn er að kalla fleiri nemendur inn á þessar brautir. Spennandi verður að fylgjast með því, hvort rekstur atvinnulífsins á Stýrimannaskólanum og Vélskóla Íslands hvetur fleiri til að stunda þetta mikilvæga starfsnám.

 

***

 

Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa hin almennu starfsskilyrði og líta fram á veginn. Á undanförnum árum hefur í þeim anda verið unnið að því að gera fötluðum nemendum kleift að stunda fjögurra ára nám í framhaldsskóla með vaxandi starfstengingu eftir því sem skólaárunum fjölgar. Skýr pólitískur vilji var á bakvið þessa þróun, sem hefur opnað fjölda nemenda ný tækifæri.

 

Tilvist einkarekinna háskóla byggist einnig á því, að alþingi samþykkti háskólalög byggð á þeirri trú, að með samstarfi við einkaaðila mætti efla þetta skólastig. Lögin gera ekki ráð fyrir neinni takmörkun á umsvifum einkareknu skólanna. Með fjárveitingum til þeirra er farið að reglum, sem byggjast á því, að ríkið greiði jafnmikið fyrir sambærilegt nám, án tillits til þess, hver rekur viðkomandi skóla. Síðan er það skólanna að nýta fjármagnið sem best í samræmi við umsamdar kröfur.

 

Á stjórnmálavettvangi er deilt um, hvort greiða skuli jafnmikið með nemanda í einkareknum skóla og ríkisreknum. Vinstri flokkarnir eru sjálfum sér samkvæmir og vilja mismuna í þágu ríkisins. Þeir mismuna í þágu borgarrekinna leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. R-listinn hefur ekki viljað láta jafnmikið fé fylgja nemanda sem stundar grunnskólanám í Ísaksskóla eða Landakotsskóla og í borgarreknum skóla. Standa þessir skólar nú höllum fæti vegna fjárhagslegrar mismununar. Á bakvið þessa afstöðu eru ekki önnur sjónarmið en þau, að hygla beri opinberum stofnunum á kostnað einarekinna.

 

***

Á landsfundi sjálfstæðismanna um síðustu helgi var mótuð skýr stefna í skóla- og vísindamálum, sem miðar að því, að fjárveitingar til málaflokkanna eigi ekki að byggjast á því, hvort um er að ræða einkarekstur eða opinberan rekstur. Í ályktun um vísindamál segir meðal annars:

„Einstaklingar og rannsóknahópar í háskólum keppi um fjárveitingar til rannsókna úr sterkum samkeppnissjóðum til að byggja upp og efla fjölbreyttar háskólarannsóknir á Íslandi. Auk þess keppi háskóladeildir sín á milli um beina rannsóknasamninga við ríkið samkvæmt alþjóðlegum gæðakröfum. Þannig njóti hæfustu háskóladeildir hverju sinni opinberra fjárveitinga til rannsókna án tillits til rekstrarforms og uppruna. “

Í þessu orðalagi felst, að ekki skal mismunað milli skóla eða stofnana eftir rekstrarformi við úthlutun á opinberu fé til rannsóknamála. Tekið skal mið af alþjóðlegum gæðakröfum en ekki því, hvort rannsóknir séu stundaðar við þennan háskólann eða hinn. Einkareknir háskólar eiga ekki síður en ríkisreknir að hafa tækifæri til að bjóða nám til meistara- og doktorsprófs. Þetta frjáslynda viðhorf vill Sjálfstæðisflokkurinn að gildi um allt skólastarf.

Á alþjóðavettvangi er samkeppni hvergi harðari en á sviði menntunar, rannsókna og vísinda. Úttekt á íslenskum grunnrannsóknum í alþjóðlegum samanburð sýnir, að staða íslenskra vísindamanna er sterk. Staða þeirra eða íslenskra skóla verður ekki efld til framtíðar með því að skipa þeim skjól opinberra aðila. Farsæld í íslenskum menntamálum ræðst af því að nýta krafta einkaframtaksins eins og frekast er unnt til að styrkja skóla- og rannsóknastarf.