15.3.2003

Eldhúsdagur – skattar – vinstri/grænir – varnarmál.

Morgunblaðið, vettvangur, 15. mars, 2003.

 

 

 

Störfum alþingis er lokið á þessum vetri og við taka annasamir pólitískir dagar fram að kosningunum 10. maí. Stjórnmálamenn verða næstu vikur á ferð og flugi til að sannfæra kjósendur um ágæti eigin starfa og stefnu – auk þess að leita að snöggum bletti á andstæðingunum.

 

Í eldhúsdagsumræðunum á alþingi síðastliðið miðvikudagskvöld fengu menn nasasjón af því, sem verður, þegar flokkarnir skerpa línur enn frekar sín á milli til að kynna kjósendum sem skýrasta kosti. Ólíklegt er að vísu, að málefni verði efst á dagskrá hjá stærsta stjórnarandstöðuflokknum, Samfylkingunni, því að hún ákvað í janúar, að hanna eigin leikreglur og bjóða forsætisráðherraefni í stað stefnu.

 

Ekkert varðandi meginlínur stjórnmálanna og samstarf milli flokka kom á óvart í eldhúsdagsumræðunum. Góðum árangri af samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var  hampað af stjórnarsinnum. Andstæðingar stjórnarinnar töldu brýnast að kjósendur höfnuðu ríkisstjórninni í vor.

 

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, rakti helstu átakamálin undanfarið: Kárahnjúkavirkjun, álver á Reyðarfirði, Norðlingaölduveitu, stækkun Norðuráls, Kyoto-bókunina, einkavæðingu banka og lækkun tekjuskatts á fyrirtæki. Taldi hann einsýnt, að í öllum þessum málum hefði ríkisstjórnin markað rétta stefnu og í samræmi við skoðanir alls þorra Íslendinga, stjórnarandstaðan hefði hins vegar tekið rangan pól í hæðina. Efnahagsstjórnin hefði gert kleift að auka kaupmátt um meira en 30%, án þess að hér hefði orðið verðbólgubál. Af málflutningi stjórnarandstæðinga mætti ætla, að ógæfuspor hefði verið stigið með því að bæta svo hag fyrirtækja og almennings.

 

***

 

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar á síðasta ári voru skattamál eldri borgara nokkuð til umræðu. Kynntu sjálfstæðismenn stefnu um stórlækkun fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja. Þegar tillaga um þessa skattalækkun var síðan lögð fram í borgarstjórn síðastliðið haust, snerust vinstrisinnarnir í R-listanum eindregið gegn henni. Þeir töldu, að ekki mætti mismuna skattgreiðendum á þennan hátt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, kvað fastast að orði gegn skattalækkuninni.

 

Lækkun fasteignaskatta á eldri borgara er besta einstaka úrræði stjórnvalda í skattamálum til að létta sérstaklega undir með þeim. Um og yfir 90% fólks, 65 ára og eldra, býr í eigin húsnæði. Eldri borgurum kemur því vel, að ríkisstjórn og alþingi lækkuðu undir forystu Davíðs Oddssonar eignarskatta um ríflega helming. Sveitarfélög hafa á valdi sínu að lækka fasteignaskatta.

 

Þegar lækkun fasteignaskatta var til umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur síðastliðið haust, létu talsmenn eldri borgara, sem gjarnan taka til máls um skattamál umbjóðenda sinna fyrir kosningar, ekki mikið að sér kveða. Nú hafa fulltrúar eldri borgara kvatt sér hljóðs fyrir þingkosningar vegna tekjuskattsins og endurómaði málflutningur þeirra í eldhúsdagsumræðunum hjá fulltrúum flokkanna,  Samfylkingar og vinstri/grænna, sem felldu lækkun fasteignaskattanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

 

Í umræðum um þessi mál nú er aðeins hálf sagan sögð, ef þeirri staðreynd er ekki haldið á loft, hve bætur hafa hækkað mikið á undanförnum árum og þar með kaupmátturinn. Geir H. Haarde fjármálaráðherra hefur nefnt dæmi um 117% hækkun bóta frá 1990 og 39% aukningu kaupmáttar. Fjármálaráðherra spyr í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag: „Hvort er nú mikilvægara að hafa meiri tekjur í vasanum eftir skatta en að borga einhvern skatt?“

 

Í einföldustu mynd snýst málið um þá staðreynd, að hækki laun manna yfir skattleysismörk, þurfa þeir að greiða skatta. Er nú svo komið, að vegna hækkunar tekna standi of mörg bök undir hinni samfélagslegu byrðum með sköttum? Á að fækka bökunum eða lækka skattana almennt?

 

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, leiðtogar stjórnarflokkanna, hafa báðir boðað lækkun tekjuskatts á komandi árum. Nýta eigi tekjur af auknum umsvifum í þjóðfélaginu til að lækka hina almennu tekjuskattsbyrði.

 

***

 

Ræður vinstri/grænna á eldhúsdegi þingsins báru merki um áhyggjur þeirra af því að gleymast í kosningabaráttunni. Þeir verði undir í umræðum vegna falskra forsendna Samfylkingarinnar um kjör á forsætisráðherra.

 

Íslensk stjórnmálasaga geymir frásagnir af hatrömmum átökum milli kommúnista og jafnaðarmanna. Kommúnistum var ekki eins illa við neina af andstæðingum sínum og jafnaðarmenn, sögðu þá túlka kenningu sósíalismans á rangan hátt.

 

Í máli Ögmundar Jónassonar, þingmanns vinstri/grænna, glittir í þessi gömlu átök: Samfylkingin er eins og Tony Blair í Bretlandi svikari við hinn sanna málstað vinstrisinna. Ingibjörg Sólrún gefur meira að segja til kynna, að Tony Blair hafi stolið „þriðju leiðinni“, því vitlausasta af öllu vitlausu í nafni vinstrimennsku, frá sér og Kvennalistanum. Hin nýja vinstrimennska Samfylkingarinnar er svik við málstað þeirra, sem eru andvígir aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og á móti einkavæðingu. Samfylkingin bregst íslenskri náttúru í þágu þungaiðnaðar.

 

Fyrir þá, sem standa utan hugmyndafræðilegra vébanda vinstrimennskunnar, eru deilur um inntak kenninga sósíalismans og hve langt má teygja þær og toga ekki spennandi. Fyrir hina er um póltískt líf eða dauða að tefla. Forystumenn vinstri/grænna súpa nú seyðið af því að hafa staðið að R-listanum og heyra vonarpening sinn í hópi kjósenda spyrja:  „Er ekki langbest að kjósa Samfylkinguna, ef við viljum breyta? Þið hafið hvort sem er hvatt okkur til að treysta Ingibjörgu Sólrúnu og kjósa hana í þágu breytinga gegn íhaldinu.“

 

***

Utanríkismál settu ekki sterkan svip á eldhúsdagsumræðurnar. Kristján Pálsson, óháður frambjóðandi, ræddi ranglega um að „endurskoðun varnarsamningsins“ væri ekki lokið. Þessu var einnig ranglega haldið fram í leiðara DV á fimmtudaginn. Engin endurskoðun á varnarasmningnum stendur yfir. Hann er í fullu gildi, óbreyttur frá árinu 1951. Hins vegar hefur bókun við samninginn, sem ritað var undir 1996, ekki verið endurnýjuð. Í henni er fjallað um fyrirkomulag varnanna, framkvæmd samningins frá 1951.

 

Varnir Íslands voru til umræðu á fjölmennum fundi Varðbergs þriðjudaginn 11. mars, þar sem við vorum þrjú, sem svöruðum spurningunni:  Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öldinni? Halldór Ásgrímsson talaði fyrir Framsóknarflokkinn, Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkinguna og ég fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

 

Þótt hver ræðumanna hafi nálgast viðfangsefnið frá sínum sjónarhóli, varð niðurstaða okkar allra í grófum dráttum hin sama: Gera verði ráðstafanir til tryggja varnir Íslands og ekki beri að hrófla við þeirri meginskipan, sem byggist á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningnum við Bandaríkin.

 

Frómt frá sagt, er þó erfitt að átta sig á stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum fyrir þessar kosningar. Um tíma mátti ætla, að hún vildi gera þau að höfuðmáli kosninganna með Evrópusambandsaðild að leiðarljósi. Frá því hefur líklega verið horfið.

 

Á dögunum fékk ég fyrirspurn frá jafnaðarmanni, sem hafði verið á Samfylkingarfundi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Reykjanesbæ. Hún teldi varnarsamninginn ekki lengur í gildi og áréttaði, að hún hefði verið herstöðvaandstæðingur. Bað hann mig að skýra stöðu samskiptanna við Bandaríkjamenn fyrir sér, því að málflutningur Ingibjargar Sólrúnar hafði greinilega vakið fleiri spurningar en svör,

 

Frásögn Morgunblaðsins í gær af ræðu Ingibjargar Sólrúnar á Höfn í Hornafirði segir okkur, að hún búist við því, að ekki líði á löngu, þar til Íslendingar taki við stjórn Keflavíkurflugvallar af Bandaríkjamönnum og þá verði Reykjavíkurflugvelli lokað. Hvaða viðhorf til varnar- og öryggismála Íslendinga felst í þessum orðum?

 

Hafi stjórnmálamenn eða flokkar ekki skýra sýn á stöðu þjóðarinnar í öryggis- og varnarmálum eiga þeir mikla heimavinnu óunna fyrir kosningar. Eitt er að vera ósammála um hvaða leið eigi að fara til að tryggja varnir Íslands á 21. öldinni, annað er að vita ekkert um málið og taka samt þátt í umræðum um það.

 

***

 

Í stjórnmálastarfi um heim allan er deilt um hlutverk ríkisvaldsins og þar með stjórnmálamanna. Alls staðar er ágreiningur um leiðir í skattamálum, hvort þeir séu of háir eða lágir. Hvarvetna geta stjórnmálamenn haft mismunandi sjónarmið í umhverfis- eða atvinnumálum. Hvergi geta þeir gengið fram fyrir umjóðendur sína, án þess að eiga svar við spurningunni um það, hvernig þeir ætli að tryggja öryggi lands og þjóðar.

 

bjorn@centrum.is