21.11.1998

Flokksráðsfundur - enn betri skóli

Flokksráðsfundur
21. nóvember 1998

Menntun, rannsóknir og vísindi munu ráða meiru um stöðu og styrk þjóða á nýrri öld en þeirri, sem við erum að kveðja. Er því fagnaðarefni, að menntamál skuli vera sérstakur dagskrárliður á þessum fundi. Staðfestir það vilja Sjálfstæðisflokksins til að beina athygli að þessum mikilvægu þáttum í þjóðlífi okkar. Einnig er ánægjulegt að fá tækifæri til að meta stöðuna, þegar tæp átta ár eru liðin síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórn þessa málaflokks í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Síðasta áratugar aldarinnar verður ekki síst minnst vegna mikilla breytinga í skólasögunni. Við höfum með markvissum hætti lagt góðan grunn að mikilli sókn við aldahvörf.

Tíminn frá síðustu kosningum hefur verið ótrúlega fljótur að líða. Sem ráðherra hef ég leitast við að halda ýmsu af því til haga sem ég hef verið að gera og birta það á heimasíðu minni á netinu. Þegar ég leit yfir ræðulistana á dögunum sá ég mér til nokkurrar skelfingar, að ég hef haldið á þriðja hundrað skrifaðar ræður um mennta- og menningarmál.

Margar þeirra hafa verið fluttar við hátíðleg tilefni, til að árétta mikilvægi menntunar og menningar og til að minna á þá staðreynd að íslenska samfélagið nær ekki árangri nema vel sé að þessum þáttum staðið. Ég ætla ekki að endurtaka þann góða boðskap fyrir ykkur hér í dag. Við upphaf kosningavetrar er við hæfi að líta um öxl til að átta sig á því, hvað við höfum að bjóða, þegar verk okkar eru lögð í dóm kjósenda.

Við eigum ekki aðeins að líta á markmiðin, sem við settum okkur, heldur einnig meta, hvaða árangri við höfum náð sem sjálfstæðismenn. Hvernig hefur okkur vegnað á sviði menntamála? Hvernig hefur okkur tekist að breyta orðum í athafnir? Við höfum mótað stefnu, sem nú er að komast að fullu í framkvæmd. Við höfðum sýn og kjark til að fylgja henni eftir. Nú er hún orðin að veruleika!

Árangurinn byggist á því, að sjálfstæðisstefnan hefur verið lögð til grundvallar. Við höfum náð árangri með því að hafa tvö meginatriði að leiðarljósi:

Í fyrsta lagi höfum við kosið valddreifingu og samkeppni í stað forsjárhyggju og miðstýringar.

Í öðru lagi höfum við krafist framfara og árangurs í stað þess að sætta okkur við metnaðarleysi og stöðnun.

Valddreifing

Valddreifing og trú á einstaklinginn er forsenda grósku í menntamálum.

Þegar ég hóf störf sem menntamálaráðherra hafði Alþingi samþykkt ný lög um grunnskóla. Lögin voru með þeim fyrirvara, að þau tækju ekki gildi nema samkomulag yrði um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Þetta samkomulag tókst og í góðri sátta allra aðila var unnið að því að flytja stærsta einstaka verkefnið frá ríkinu til sveitarfélaganna. Aldrei fyrr hefur valdi verið dreift jafnvíða með sambærilegum hætti í sögu okkar.

Árangurinn hefur ekki heldur látið á sér standa, þegar litið er til skólastarfsins. Fullyrði ég, að aldrei hafi á jafnskömmum tíma verið gert jafnmikið átak til að bæta starfsaðstöðu nemenda og kennara í grunnskólum en á þeim rúmu tveimur árum, sem eru liðin frá því að sveitarfélögin tóku við skólunum. Sveitarstjórnakosningarnar síðastliðið vor snerust að verulegu leyti um skólamál. Góður árangur okkar sjálfstæðismanna í þeim sýnir, að hvarvetna um landið treysta kjósendur okkur fyrir því að standa vel að skólunum.

Áhrifin á skólastarfið sjálft eru mikil. Foreldrar eru nú virkir þátttakendur í námi barna sinna. Tengslin milli leikskóla og grunnskóla hafa eflst og einnig milli tónlistarskóla og grunnskóla. Sveitarfélög hafa sameinast til að skapa sterkari bakhjarl við skóla. Samstarf skóla og íþróttafélaga er meira en áður.

Í öðru lagi hefur sjálfstæði skóla aukist mikið á síðustu árum. Sum sveitarfélög eru að fikra sig til aukins fjárhagslegs sjálfstæðis skólanna, nægir þar að nefna Kópavog sem dæmi. Samskipti menntamálaráðuneytisins við framhaldsskólana hafa tekið stakkaskiptum með svonefndum skólasamningum. Þeir eiga að tryggja skólum fjármagn í samræmi við fjölda nemenda, sem gengur til prófs innan veggja þeirra, og með hliðsjón af inntaki námsins í hverri grein. Skólarnir eru þannig hvattir til þess að tryggja að nemendur stundi nám sitt og leggi sig fram í því skyni að fara í próf. Þetta er skynsamleg leið til að tryggja nemendum betri þjónustu og draga úr brottfalli, sem hefur verið meira vandamál hér en víða annars staðar. Þessi háttur á fjárveitingum til skóla er einnig í samræmi við aukna ábyrgð skólameistara á öllum þáttum skólastarfsins.

Í þriðja lagi er ánægjulegt að geta skýrt frá því, að einkareknum skólum fjölgar. Ný framhaldsskólalög heimila menntamálaráðherra að semja um það við einkaaðila, að þeir taki að sér rekstur skóla. Þá tóku ný háskólalög gildi um síðustu áramót, sem heimila menntamálaráðherra að semja við einkaaðila um rekstur háskóla.

Á mörgum sviðum hefur leiðin legið frá ríkisrekstri til einkarekstrar. Viðskiptaháskólinn í Reykjavík, nýr einkarekinn háskóli, tók til starfa í haust. Framhaldsskólinn á Skógum og hússtjórnarskólarnir í Reykjavík og á Hallormsstað eru ekki lengur ríkisskólar, þeir eru nú reknir af einkaaðilum á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið. Þrjár gamalgrónar skólastofnanir, sem áttu undir högg að sækja, hafa þannig verið treystar í sessi með einkavæðingu. Listaháskóli Íslands er að stíga sín fyrstu spor sem einkaskóli.

Í fjórða lagi er samkeppni ekki lengur bannorð, þegar rætt er um skólastarf. Hvarvetna sjást þess merki, að nemendur eru teknir til við að keppa í einstökum námsgreinum. Fátt er betra til að efla þeim kappsemi og stuðla að áhuga þeirra á námi í einstökum námsgreinum. Samkeppni stuðlar að markvissara námi og meiri árangri.

Miðlun upplýsinga um innra starf í skólum er leið til þess að auka áhuga á árangri í skólastarfi. Í samvinnu við menntamálaráðuneytið hefur Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála birt niðurstöður samræmdra prófa flokkaðar eftir meðaleinkunnum skóla. Ýmsir töldu, að ég væri að leiða skólana inn á hættulegar brautir, þegar heimilað var að birta þessar upplýsingar. Hið gagnstæða hefur gerst. Samkeppni hefur á þessu sviði eins og öðrum frekar orðið mönnum hvatning til að gera betur en leggja árar í bát. Foreldrar fagna því að fá þessa vitneskju um skólana, og stjórnendur skóla nota hana til umbóta.

Í framhaldsskólum hafa enn ekki verið tekin upp samræmd próf, þannig að ekki er unnt að birta sambærilegar upplýsingar um þá. Á hinn bóginn var á dögunum skýrt opinberlega frá því í fyrsta sinn, hvernig tíminn er nýttur í framhaldsskólunum. Er ljóst, að þær tölur vekja ekki síður athygli en niðurstöður prófa í grunnskólum. Hið sama á þó við um þessar tölur, að úr þeim er ekki unnt að lesa meira um skólastarfið en þær segja.

Þessi fjögur atriði sýna, að hið ytra umhverfi skólastarfsins er að breytast. Er ég sannfærður um, að öll þessi skref eru til þess fallin að bæta skólann.

Framfarir

Ég sagði, að við hefðum krafist framfara og árangurs í stað þess að sætta okkur við metnaðarleysi og stöðnun.

Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna hefur eflt það skólastig meira en nokkurn gat órað fyrir.

Framhaldsskólastigið hefur tekið stakkaskiptum. Ég fullyrði, að aldrei hafi verið jafnvel búið að nemendum á því skólastigi, ekki síst í verknámi. Nægir þar að nefna Borgarholtsskóla í Reykjavík. Hann hefur risið frá grunni á þessu kjörtímabili. Við Menntaskólann í Kópavogi hefur skapast aðstaða til kennslu og náms í matvæla- og hótelgreinum, sem stenst alþjóðlegan samanburð. Nýtt hús hefur risið við Menntaskólann á Akureyri og unnið er að stækkun Verkmenntaskólans þar. Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað hefur verið stækkaður. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ flutti á síðasta ári í nýtt og glæsilegt húsnæði. Lagt hefur verið á ráðin um endurbætur á húsnæði framhaldsskólanna á Akranesi, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði. Unnið er að nýbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að reisa nýtt hús yfir Iðnskólann í Hafnarfirði. Þar er framkvæmdum á vegum ríkisins beint inn á nýjar brautir, því að um svonefnda einkaframkvæmd er að ræða, einkaaðilar reisa húsið og selja auk þess mikla þjónustu til skólans. Er talið, að þessi leið muni spara ríkinu 250 til 300 milljónir króna.

Gróskan er ekki minni á háskólastigi. Ég hef þegar nefnt nýju skólana Viðskiptaháskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þrír framhaldsskólar voru færðir á háskólastig, þegar Fósturskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands sameinuðust Kennaraháskóla Íslands í nýjum kennaraháskóla um síðustu áramót. Nú er unnið að því að undirbúa nýbygginu fyrir þennan nýja skóla á Rauðarárholti. Háskólinn á Akureyri hefur eflst og nýlega var tekin fyrsta skóflustunga að nýbyggingu fyrir hann á Sólborgu, hinu fagra háskólasvæði í hjarta Akureyrar.

Allir eru háskólarnir að laga starfsemi sína og skipulag að nýjum háskólalögum.

Þriðja dæmið um miklar framfarir innan skólakerfisins snertir nýtingu nýju upplýsingatækninnar í þágu skólastarfs. Þar hafa orðið þáttaskil á skömmum tíma og við sjáum alls ekki enn fyrir endann á þeim framförum, sem nýja tæknin veldur. Margar þjóðir líta til okkar öfundaraugum vegna þess, hvernig okkur hefur tekist að nýta tæknina í þágu skólastarfs. Er á döfinni að ráðast í markvisst átak við framleiðslu á íslenskum kennsluhugbúnaði.

Fjarkennsla eykst dag frá degi, ekki síst til hagsbóta fyrir nemendur í dreifbýli. Hvarvetna eru skólar og atvinnulíf að taka höndum saman í því skyni að nýta tæknina til að efla menntun og endurmenntun. Svonefnd byggðabrú Byggðastofnunar, sem tengir saman skóla með fjarkennslubúnaði, hefur við hlið tölvunnar gjörbreytt tækifærum til að bjóða öllum nám án tillits til búsetu. Í gær var ég á Ísafirði og kynntist því af eigin raun í heimsókn minni til níu nemenda í hjúkrunarfræði þar í fjarkennslu frá Háskólanum á Akureyri, hvílík áhrif þessi nýja kennsluleið hefur.

Í fjórða lagi er ekki unnt að ræða um framfarir í stað stöðnunar án þess að minnast á rannsóknir og vísindi. Á síðasta kjörtímabili var gert átak á þessu sviði og Rannsóknarráð Íslands var stofnað með nýjum lögum. Á þessu ári markaði ríkisstjórnin þá stefnu að tillögu minni, að forgangsraða í á sviði rannsóknuma með því að fela Rannsóknarráði að gera áætlun um rannsóknir í á sviði upplýsingatækni og umhverfismáluma. Þegar áætlunin lá fyrir ákvað ríkisstjórnin að verja sérstökum fjármunum til að vinna að framkvæmd hennar. Hafa þegar verið lagðar fram tillögur um 115 milljón króna fjárveitingar til þessara verkefna, en áætlunin, sem er til fimm ára gerir alls ráð fyrir 580 milljónum króna í styrki til rannsókna á þessum sviðum. Ég árétta, að hér er um viðbót við aðrar fjárveitingar til rannsókna og þróunar að ræða. Þá hefur verið lögð meiri áhersla en áður á að styðja við rannsóknanám, sem eflir innra starf háskóla um leið og ungir vísindamenn eru hvattir til dáða. Loks hefur Íslendingum vegnað vel í evrópsku rannsóknasamstarfi og við erum að efla vísindasamvinnu við Bandaríkin með markvissum hætti.

Öllu þessu höfum við áorkað á síðustu árum. Í þessu efni eins og öðrum eru fjármunir mikilvægt afl þeirra hluta, sem að er unnið. Ríkisstjórnin hefur skipað menntamálum í forgang eins og samgöngumálum og heilbrigðismálum við gerð fjárlaga. Framlög til menntamála hafa aukist um marga milljarða króna.

Nýja skólastefnan.

Í stuttu máli hef ég lýst verkefnum síðustu ára. Þau sýna svo að ekki verður um villst, að við höfum náð árangri í menntamálum. Við höfum sett fram kröfur og fylgt þeim eftir á metnaðarfullan hátt.

Enn hef ég þó ekki nefnt nýju skólastefnuna. Þann þátt menntastefnunnar, sem setja mun mestan svip á starf skólanna og ráða mestu um árangur komandi ára.

Nýja skólastefnan birtist í nýju aðalnámskránum fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Stefnuna kynnti ég rækilega á síðasta vetri bæði með riti, sem sent var á hvert heimili, og fundum um allt land. Fyrstu námskrárnar sjá dagsins ljós um áramótin. Vinnunni við að rita þær lýkur næstu daga. Einnig er ný aðalnámskrá fyrir leikskóla á næsta leiti. Við erum með öðrum orðum að skapa samfellu í skólastarfi fyrir þá, sem fara í gegnum þessi þrjú skólastig.

Nýja skólastefnan skapar forsendur fyrir öflugu og markvissu skólastarfi á nýrri öld. Í þessu átaki, sem unnið hefur verið með mikilli þátttöku kennara og í góðri samvinnu við þá, felst viðleitni til að auka sveigjanleika innan skólakerfisins. Markmiðið er að koma betur til móts við þarfir sérhvers einstaklings, auka frelsi nemenda til að velja nám við sitt hæfi en rækta um leið með þeim námsaga og góð vinnubrögð, heilbrigðan metnað og ábyrgð á eigin námi, árangri og lífi.

Nýrri skólastefnu verður ekki hrundið í framkvæmd á viðunandi hátt án þess að tekið sé til hendi á mörgum sviðum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir allt að 260 milljón króna fjárveitingu til að standa að verkefnum, sem tengjast framkvæmd stefnunnar. Gert verður átak í endurmenntun kennara, ráðist verður af þunga í útgáfu á nýju námsefni, leitað verður nýrra leiða til að efla námsráðgjöf, beitt verður nýjum úrræðum til að greina sérþarfir nemenda, svo að fátt eitt sé talið.

Gjörbreyting er að verða í skipulagi á öllu starfsnámi. Menntamálaráðuneytið hefur samið við fjórtán starfsgreinaráð um stuðning við mikilvæg verkefni þeirra. Á næstu mánuðum munum við sjá hverju þau fá áorkað hvert á sínu sviði. Þá er átak í símenntun og endurmenntun í mótun samkvæmt þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar síðastliðið sumar, að menntamálaráðuneytið færi með yfirstjórn þess málaflokks.

Framkvæmd nýju skólastefnunnar er stærsta verkefni þeirra, sem vinna að menntamálum um þessar mundir. Má fullyrða, að ekki hafi áður verið staðið með svo samræmdum og skipulegum hætti að því að skapa nýjar forsendur í íslensku skólakerfi. Er því fyrir öllu, að það takist að ná þeim háleitu markmiðum, sem við höfum sett. Framtíð íslenskrar æsku er í húfi og þar með framtíð þjóðarinnar og styrkur hennar í vaxandi samkeppni, þar sem menntun, þekking og miðlun upplýsinga ræður úrslitum.

Sjálfstæðisstefnan sigrar

Vinstrimenn leitast við að sameinast gegn okkur með öllum tiltækum ráðum. Þeim vex mest í augum velgengni Sjálfstæðisflokksins. Hvarvetna leita þeir að snöggum blettum á stefnu okkar og störfum. Þeir hafa gert margar atlögur að okkur í menntamálum á þessum áratug. Ég fullyrði, að erfiði þeirra í því efni skilar þeim litlum árangri eins og málum er nú háttað. Raunar eiga þeir um þessar mundir fullt í fangi með að berjast fyrir eigin lífi og eiga lítið aflögu til annars en innbyrðis átaka, úlfúðar og metings.

Við þurfum ekki að kvíða því að leggja verk okkar í menntamálum á þessu kjörtímabili undir dóm kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn getur stoltur vísað til stefnu sinnar og starfa á þeim vettvangi eins og öðrum.

Sjálfstæðisstefnan stenst tímans tönn og hefur borið sigur í samkeppni stjórnmálahugmynda meðal Íslendinga. Flokkur okkar hefur haft forystu um öll helstu framafaramál þjóðarinnar í þau tæpu sjötíu ár, sem hann hefur starfað. Sjálfstæðismenn hafa með framsýni og áræði skipað Íslendingum öruggan sess í samfélagi þjóðanna. Þeir hafa ekki gengið til pólitískra hrossakaupa um öryggi og varnir Íslands heldur jafnan haft hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Strengjum þess heit að treysta enn innviði íslensks þjóðfélags við upphaf nýrrar aldar með því að efla menntun á öllum sviðum. Með því leggjum við traustan grunn að velfarnaði Íslendinga á nýrri öld.

Ísland er land tækifæranna. Látum þau ekki ganga okkur úr greipum. Felum æskunni verðug verkefni, treystum henni og kalli okkar verður svarað.