6.3.2003

Reykjavík er ekki lengur í fyrsta sæti!

Borgarstjórn, 6. mars, 2003. 

 


 


 


 


 


Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 gerði ég athugasemd við þá tilhögun, að umræðum um áætlunina og afgreiðslu hennar væri skipt í tvennt, fyrst væri farið yfir málefni borgarsjóðs og síðan aðra þætti samstæðureikningsins. Tel ég, að með þessu hafi verið farið á svig við skýr ákvæði sveitarstjórnarlaga.


 


Þegar  þessi þriggja ára áætlun var kynnt í borgarráði, lagði ég fram svohljóðandi bókun:


 


„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á, að í 63. gr. sveitarstjórnarlaga segir, að þriggja ára áætlun skuli unnin og afgreidd af sveitarstjórn innan eins mánaðar frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar.


 


Um leið og harðlega er gagnrýnt, að þessu lagaákvæði hefur ekki verið fylgt er óskað eftir áliti borgarlögmanns á því, hvaða áhrif það hefur á gildi áætlunarinnar.“


  


Þórólfur Árnason, borgarstjóri sagði  hinn 26. febrúar í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins í tilefni af bókun okkar sjálfstæðismanna, að óskað hefði verið eftir undanþágu frá félagsmálaráðuneyti fyrir seinkun og hefði hún fengist. Ástæðurnar sagði hann vera borgarstjóraskiptin og vinnu við breytingar á áætluninni vegna flýtiframkvæmda borgarinnar.


 


Í ljósi yfirlýsingar borgarstjóra ritaði ég félagsmálaráðherra til að kanna að með hvaða rökum félagsmálaráðuneytið hefði veitt undanþágu frá hinu fortakslausa ákvæði 63. greinar sveitarstjórnarlaganna.


 


Í svari félagsmálaráðuneytisins til mín, sem er dagsett 4. mars 2003 kemur fram, að ráðuneytið hefur ekki neina heimild til að veita sveitarstjórnum undanþágu frá 63. grein sveitarstjórnarlaganna. Er ljóst af svari ráðuneytisins, að borgarstjóri fór með rangt mál í útvarpsfréttum 26. febrúar. Það liggur ekki fyrir nein undanþága frá félagsmálaráðuneytinu.


 


Svar borgarlögmanns vegna fyrrgreindrar bókunar okkar sjálfstæðismanna, en svarið var lagt  fram í borgarráði síðastliðinn þriðjudag, hefur  að geyma vangaveltur um túlkun á 63. grein sveitarstjórnarlaganna. Telur borgarlögmaður ekki ástæðu til að efast um gildi þriggja ára áætlunarinnar, þótt hún verði afgreidd nú í mars, enda hafi hið sama gilt um flestar eldri áætlanir.


 


Bréfi borgarlögmanns fylgdi minnisblað frá borgarritara til borgarstjóra, sem einnig hefur að geyma lögskýringar með sagnfræðilegum tilvísunum. Í minnisblaðinu segir, að borgaryfirvöld hafi gætt þess að tikynna félagsmálaráðuneytinu, oftast bréflega, um drátt á samþykkt þriggja ára áætlunar og ástæður tafa.


 


Hvorki borgarlögmaður né borgarritari geta þess, að leitað hafi verið eftir undanþágu frá félagsmálaráðuneytinu og hún fengist.


 


Við sjálfstæðismenn gagnrýndum það harðlega í borgarráði, að ekki skyldi fylgt lögum við framlagningu þessarar þriggja ára áætlunar. Er ekki einleikið að bæði við afgreiðslu fjárhagsáætlunar og þriggja ára áætlunar sé nauðsynlegt að kanna það sérstaklega, hvort frávik borgaryfirvalda frá lagaskyldum séu með þeim hætti að varði ólögmæti og þar með ógildingu.


 


Í svari sínu til mín segir félagsmálaráðuneytið, að einu úrræði þess gagnvart sveitarstjórnum, sem ekki virða fresti samkvæmt sveitarstjórnarlögum, sé að finna í 102. grein sveitarstjórnarlaga, það er að veita sveitarstjórn áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni. Með vísan til álits borgarlögmanns, þar sem því er lýst, hve frjálslega Reykjavíkurborg hefur umgengist fresti vegna þriggja ára áætlunarinnar, virðist fullt tilefni til þess fyrir félagsmálaráðuneytið að huga að áminningarleiðinni, sé því á annað borð annt um að lagaákvæðum um framlagningu fjárhagsáætlana sé fylgt.


 


Hitt er síðan vandamál, sem við verðum að eiga við okkur sjálf hér í borgarstjórn Reykjavíkur, að hvorki í borgarráði né af borgarstjóra var skýrt rétt frá málavöxtum, þegar við sjálfstæðismenn spurðum 25. febrúar síðastliðinn um þetta frávik frá lagaskyldum. Staðfestir þetta aðeins fyrir mér, hve brýnt er að hafa allan vara á, þegar rætt er um mál stjórnsýslulegs eðlis á þessum vettvangi. Í stjórnmálastarfi mótast traust milli manna á því, hve mikið er að marka þau orð, sem falla hverju sinni, hvort sem tilefnið er stórt eða smátt.


 


Ég ætla í stuttu máli að nefna nokkrar forsendur þeirrar áætlunar, sem hér er til umræðu, áður en ég vík að því, hvaða mynd hún birtir af skuldaþróun Reykjavíkurborgar.


 


Ég fagna þeirri viðurkenningu á efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar, sem felst í áætluninni, því að þar segir um þjóðhagslegar forsendur, að fullyrða megi, að þjóðarbúskapurinn sé í betra jafnvægi nú en um langt árabil. Þá er í forsendunum einnig tekið undir það meginsjónarmið mitt í umræðunum hér í borgarstjórn um svonefndar mótvægisaðgerðir vegna Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði, að án „styrkrar efnahagsstjórnunar“ eins og það er orðað, sé veruleg hætta á ofþenslu í þjóðarbúskapnum. Ég tel, að kjósendur ákveði það í þingkosningunum í vor, hvort þessi mikilvæga forsenda um styrka efnahagsstjórn verði fyrir hendi eða ekki á næstu árum. Hafni þeir forystu Sjálfstæðisflokksins við stjórn efnahagsmála er víst, að þessi forsenda brestur


 


Þegar ég skoða sértækar forsendur þessarar þriggja ára áætlunar, vakna tvær meginspurningar, sem æskilegt er, að verði svarað.


 


Í fyrsta lagi er reiknað með, að fólksfjölgun í Reykjavík verði 1% að meðaltali árin 2004 til 2006. Fólksfjölgunin í Reykjavík var aðeins 0,2% á síðasta ári – jafnmikil og á landsbyggðinni, þar sem menn hafa miklar áhyggjur vegna fólksfækkunar, enda fjölgaði landsmönnum um 0,7%. Íbúum höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur fjölgaði um 2,4%  á síðasta ári.


 


Í forsendum þriggja ára áætlunar fyrir árin 2003 til 2005 var gert ráð fyrir, að árið 2002 fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 1,5% en raunin varð 0,2% .


 


 


Í áætluninni núna  eru ekki færð nein rök fyrir því, að íbúum í Reykjavík fjölgi um 1% árin 2004 og 2005 en samkvæmt gildandi áætlun er talið, að fjölgunin verði 1,3% hvort árið. Á hverju byggist þessi breyting á spánni? Hvaða útreikningar eru að baki henni? Hvers vegna er talið, að fjölgun íbúa verði 1,3% árið 2006?


 


Hér er að sjálfsögðu um lykilatriði að ræða við alla þróun Reykjavíkur.  Það segir sitt fyrir borgarsjóð, hvort íbúum fjölgar um 200 á ári eða 1500 á ári. Skatttekjurnar ráðast mjög af þessari þróun.  Ef mikil óvissa er um þessar tölur, dregur það úr gildi alls annars í áætluninni.


 


Í öðru lagi er sagt, að áætlunin byggist á því, að úthlutað sé  lóðum fyrir 570 íbúðir árið 2004, 600 íbúðir 2005 og 600 íbúðir árið 2006. Í frétt á forsíðu fasteignablaðs Morgunblaðsins var hinn 25. febrúar síðastliðinn skýrt frá því, að lóðaúthlutun drægist saman í Reykjavík. Hefst fréttin á þessum orðum:


 


„Færri lóðum var úthlutað hjá Reykjavíkurborg á síðasta ári en árið þar á undan. Alls var í fyrra úthlutað 16 einbýlishúsalóðum og lóðum fyrir 442 íbúðir í fjölbýli og skilað eða sölu byggingarréttar rift vegna fleiri rað- og parhúsalóða en úthlutað var.“


 


Má ráða það af súluriti, sem fylgdi fréttinni, að 24 rað- eða parhúsalóðum hafi verið skilað, þannig að alls hafi 434 lóðum verið úthlutað á síðasta ári.  Í ljósi þessa er eðlilegt að spyrja: Hvaða rök eru fyrir því, að um 150 fleiri lóðum verði úthlutað á næstu árum en var árið 2002?


 


Ég fagna því, að í áætluninni er gert ráð fyrir, að frá og með næsta ári skuli koma framlag úr borgarsjóði til framkvæmda við framhaldsskóla í borginni. Er ekki einleikið að lesa um það fréttir dag eftir dag, að menntamálaráðherra sé að rita undir samninga við sveitarfélög í kringum Reykjavík um nýbyggingar við framhaldsskóla en hér sitji allt við hið sama vegna þvermóðsku Reykjavíkurborgar og úreltrar lagatúlkunar. Vil ég hvetja til þess að samið verði um nýbyggingar vegna hinna rótgrónu framhaldsskóla í borginni, áður en ráðist verði í að reisa nýjan skóla.


 


 


Í þessari þriggja ára áætlun  er gert ráð fyrir áframhaldandi skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Kemur það í sjálfu sér ekki á óvart miðað við þá gleði, sem R-listinn hefur oft lýst hér í borgarstjórn yfir því, hve skuldir Reykvíkinga hækka mikið þvert á loforð R-listans vorið 1994. Hefur jafnvel verið látið í veðri vaka hér í þessum ræðustól, að íbúar annarra sveitarfélaga öfundi Reykvíkinga af því, hve þungur skuldabaggi þeirra er. Ætti þessi öfund mjög að aukast við lestur þessarar áætlunar.


 


Miðað við árslok 2006 munu hreinar skuldir Reykjavíkurborgar (samstæðunnar) án lífeyrisskuldbindinga verða komnar í 64 milljarða króna. Það er 16 földun frá árslokum 1993 eða 1500% hækkun. Í árslok 2006 er gert ráð fyrir að heildarskuldir með lífeyrisskuldbindingum verði orðnar rúmar 100 milljarðar!


 


Einkar athyglisvert er að skoða áætlun um fjármagnskostnað á bls. 73 í


áætluninni. Þar er gert ráð fyrir að fjármagnskostnaður nettó (þ.e.


vaxtagjöld að frádregnum vaxtatekjum) verði 1,1 Mkr. (1.122.659) á árinu 2003, 1,1 Mkr. 2004, 1,2 Mkr. á árinu 2005 og 1,8 milljarðar á árinu 2006 eða um 50% hækkun milli ára! Ástæða er til að spyrja: Hvað veldur? Hvers vegna er þetta stökk svona mikið milli þessara ára?


 


Raunar er fráleitt að áætla fjármagnskostnað ekki hærri. Ef gert er ráð fyrir að eðlilegt sé að miða við 5% vexti af hreinum skuldum borgarinnar er  líklegt, að fjármagnskostnaður á árinu 2006 verði a.m.k. 3 milljarðar. Má örugglega telja fyrirhyggjuleysi, að tvöfalda ekki áætlaðan fjármagnskostnað frá því sem áætlun gerir ráð fyrir. Heldur borgarstjóri að unnt sé að taka lán á lán ofan án þess að greiða samsvarandi hærri vexti? Gerir hann kannski ráð fyrir endalausri styrkingu íslensku krónunnar og þar með gengishagnaði? Hið sama á við um þessar tölur og það, sem ég hef áður nefnt, þær þarfnast skýringa og rökstuðnings.


 


Ég hef hér sýnt fram á, að ekki er farið að lögum við framlagningu þessarar áætlunar. Ég hef einnig vakið athygli á þeirri staðreynd, að rangt var farið með staðreyndir, þegar sagt var að áætlunin væri lögð fram með undanþágu félagsmálaráðuneytisins. Loks hef ég bent á veikar forsendur fyrir mörgum lykilþáttum í þessari þriggja ára áætlun.


 


Um leið og ítreka ósk mína um svör við þeim spurningum, sem ég hef lagt hér fram, vil ég lýsa þeirri skoðun, að þessi áætlun er enn til marks um þau losaralegu tök, sem R-listinn hefur á stjórn Reykjavíkurborgar og birtist hvað skýrast í hinni alvarlegu skuldaþróun og þeim auknu byrðum, sem lagðar eru á komandi kynslóðir Reykvíkinga og líklegt er að hlutfallslega færri íbúar landsins axli vegna samdráttar á öllum sviðum innan borgarmarkanna.


 


Sú alvarlega staðreynd blasir við, þegar þessi áætlun er skoðuð, að Reykjavík er ekki fyrsti kostur þeirra, sem vilja setjast að á höfuðborgarsvæðinu eða stofna þar fyrirtæki og hefja atvinnurekstur. Reykjavík er ekki lengur í fyrsta sæti.