6.3.2003

Vandræðin vegna Stjörnubíóreitsins.

Borgarstjórn, 6. mars, 2003. 

 

 

 

 

 

Á síðasta fundi borgarráðs urðu töluverðar umræður um skipulagsmál við Laugaveginn á svonefndum Stjörnubíóreit og bílastæðahús eða kjallara þar. Kom þar greinilega fram, að öll áform varðandi 250 bílastæði á þessum stað eru í lausu lofti. Er greinilegt, að kaup þessa reits fyrir 140 milljónir króna hafa verið illa ígrunduð. Reykjavíkurborg veit ekkert hvað hún á að gera við þessar lóðir frekar en fyrri eigandi þeirra, sem hlýtur að hrósa happi yfir að hafa fengið svo fjársterkan kaupanda sem skipulagssjóð borgarinnar til að losa sig við vanhugsaða fjárfestingu.

 

Þegar borgarráð samþykkti kaupin með mótmælum okkar sjálfstæðismanna 16. júlí síðastliðinn bókaði R-listinn, að Reykjavíkurborg hefði “lengi haft augastað á lóðinni”. Hefði mátt ætla, að þessi áhugi á lóðakaupunum hefði byggst á skýrt mótuðum hugmyndum um nýtingu reitsins. Síðan hefur komið í ljós, að svo var ekki. Tilgangurinn virðist fyrst og síðast hafa verið sá að kaupa þessar eignir en ekki að ganga markvisst til þess að nýta þær eða selja öðrum til að greiða fyrir endurreisn Laugavegar.

 

Lóðin var keypt á grundvelli deiliskipulags, sem sýndi 100 bílastæða kjallara undir húsum, sem þar skyldu rísa, og átti kjallarinn að mæta bílastæðakröfum húsbyggingarinnar á reitnum. Þegar kaupin voru gerð lá fyrir skýrt mótuð tillaga um, að stefnt skyldi að því að stofna til samstarfs við eigendur að Laugavegi 77 um gerð bílastæðahúss. Byggðist starfsáætlun Bílastæðasjóðs á þeim áformum og hið sama kemur fram í þriggja ára áætlun fyrir árin 2003 til 2005. Samkvæmt henni skyldi bílastæðahús verða við Laugaveg 77.  

 

Nú hefur verið auglýst nýtt deiliskipulag, þar sem gert er ráð fyrir 250 bílastæða kjallara á Stjörnubíóreit. Var ráðist í að fjölga þessum bílastæðum til að finna rök fyrir þessari 140 milljón króna fjárfestingu, því að jafnvel R-listanum varð ljóst,  að hann yrði með einum eða öðrum hætti að réttlæta þessa fjárfestingu sína.

 

Þessi réttlæting byggist hins vegar á þeirri rangfærslu, að til þrautar hafi verið reynt að ná samningum við húseiganda að Laugavegi 77.  Á síðasta fundi borgarráðs skýrðu embættismenn frá því, að áhugi væri hjá nýjum eiganda Laugavegs 77 á að eiga samstarf við borgaryfirvöld um gerð bílastæðahúss. Þessi sama skoðun kom fram hjá framkvæmdastjóra Aflvaka hf. á stjórnarfundi í félaginu hinn 24. febrúar síðastliðinn. Þar var jafnframt skýrt frá því, að erfitt væri að setja svona mörg bílastæði í kjallara á Stjörnubíóreitnum vegna þess að það stuðlaði að umferðaröngþveiti við hornið á Laugavegi og Snorrabraut.

 

Furðulegt var að hlusta á borgarráðsfulltrúa R-listans og þó sérstaklega formenn skipulags- og bygginganefndar og samgöngunefndar segja frá því á þriðjudag, að þeir hefðu ekki hugmynd um þennan áhuga eiganda hússins að Laugavegi 77. Var það á sinn hátt dæmigert fyrir þann losarabrag, sem orðinn er á stjórnsýslu borgarinnar vegna miðborgarinnar sérstaklega, þar sem hver silkihúfan er upp af annarri og enginn virðist vita, hvað hin er að gera.

 

Skipulagssjóður var látinn kaupa Stjörnubíóreitinn á sínum tíma. Um bílastæðakjallarnn hefur verið fjallað í samgöngnefnd og skipulags- og byggingarnefnd auk þess sem bílastæðasjóðurinn hefur verið að gera sínar áætlanir um framkvæmdina. Á borgarráðsfundinum var skýrt frá því, að áætlanir sjóðsins um að ráðast í framkvæmdir við Laugaveg 77 á síðasta ári hefðu verið reistar á sandi og ekkert væri að marka það, sem segði í nýrri þriggja ára áætlun frá sjóðnum, sem kynnt var í borgarráði, þar sem segir,  að bygging bílastæðahúss að Laugavegi 77 hefjist af krafti árið 2003.

 

Fyrir utan þessa aðila er síðan starfandi framkvæmdastjóri miðborgarstjórnar, sem hefur verið lögð niður. Hefur þessi framkvæmdastjóri þó enn einhverju óskilgreindu hlutverki að gegna í málefnum miðborgarinnar og Laugavegar.  Þá var samþykktum Aflvaka hf. breytt núna skömmu fyrir áramótin, svo að félagið gæti látið að sér kveða við eflingu miðborgarinnar. Er framkvæmdastjóri þess félags tekinn til við að ræða við einstaklinga og fyrirtæki um málefni Laugavegar.

 

Samkvæmt skilgreiningu þeirra, sem einkum bera hag Laugavegar fyrir brjósti, er í stuttu máli allt frosið á Stjörnubíóreitnum, hið eina, sem þar er að gerast, er þetta dæmalausa brölt í þeim tilgangi að fjölga bílastæðum neðanjarðar. Binda einhverjir vonir við, að hugsanlega takist Aflvaka hf. að stuðla að því, að einhver lýsi áhuga á mannvirkjagerð á þessum reit.

 

Borgarráðasfulltrúar R-listans vilja ekki horfa á málið eins og það er, en þeir bókuðu meðal annars á síðasta fundi borgarráðs: „Þessi tiltekni hluti Laugavegar er mjög spennandi uppbyggingarmöguleiki og framundan er að byggja 3. hæða verslunarhús með 4. hæð inndreginni fyrir íbúðir, auk bílastæðakjallara.“

 

Vissulega hljótum við öll að vona, að þessi sýn rætist, en því miður felur það deiliskipulag, sem nú hefur verið auglýst með 250 bílastæða kjallara það ekki í sér. Raunar féllu orð í borgarráði á þann veg hjá talsmönnum R-listans, að varla gæti neinn haft á móti því, að þetta yrði auglýst svona, hvort sem í gerð kjallarans yrði ráðist eða ekki, þannig að ekki fylgir mikill hugur þessu kjallaramáli.

 

Á því er síðan önnur hlið, sem enn á ný hefur leitt til umræðna undanfarna daga vegna orða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í morgunviðtali við ríkisútvarpið síðastliðinn mánudag en þá sagði hann meðal annars:

 

„Mér er óskiljanlegt hvernig t.a.m. Reykjavíkurborg, R-listinn skömmu eftir kosningar kaupir lóðadraslið í kringum Stjörnubíó af Jóni Ólafssyni án þess að það sé nokkur þörf á því fyrir borgina. Ég er gamall borgarstjóri ég veit að svona ákvörðun hefur ekki verið tekin á þeim örfáu dögum sem liðu eftir kosningar. Það er augljóst að þetta var undirbúið fyrir  kosningar og það hefur ekki verið hægt að gefa neina skynsamlega skýringu á því að þetta var gert.“   

 

Í tilefni af þessum ummælum Davíðs Oddssonar var rætt við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarfulltrúa og formann skipulags- og bygginganefndar í ríkisútvarpinu að morgni síðastliðins þriðjudags. Taldi hún af sinni alkunnu hógværð, að þessi ummæli forsætisráðherra lýstu svo mikilli vanstillingu að þau dæmdu sig að öllu leyti sjálf. Þótti henni það hafa verið fullkomlega eðlilegt hvernig staðið var að kaupunum af Jóni Ólafssyni og fráleitt að halda því fram að engin þörf hefði verið á þessum lóðum fyrir borgina. Þá sagði hún orðrétt:  „Við erum í uppkaupum víða í borginni vegna skipulags og þarna á Laugaveginum er fyrirhuguð mikil uppbygging á næstunni. Á gamla Stjörnubíósreitnum þar er m.a. fyrirhuguð uppbygging bílastæðakjallara og nýtísku verslunarhúsnæðis á fjórum hæðum sem að reyndar hagsmunaaðilar hafa verið að kalla eftir lengi. Þannig að það er algjörlega fráleitt að halda því fram að það hafi ekki verið þörf á því að kaupa þetta upp.“

Ég vil inna borgarfulltrúann eftir því, hvar þessi miklu uppkaup eru vegna skipulags, nema hún eigi við Norðlingaholtið fræga. Einnig óska ég eftir, að hún skýri borgarstjórn frá því hverjir þessir hagsmunaaðilar eru og hvernig áhugi þeirra á því að koma að þessum reit birtist henni. Ætti hún að koma skilaboðum um það til dæmis til framkvæmdastjóra Aflvaka hf.

Í lok samtalsins gaf fréttamaðurinn ranglega til kynna, að forsætisráðherra hefði talið þýðingarmikið að koma fram, að frá kaupum á reitnum hefði verið gengið fyrir borgarstjórnarkosningar.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi botnaði þessa spurningu fréttamannsins með þessari rangfærslu: „Það er ekki rétt sem forsætisráðherra segir. Það var gengið frá þessu máli í júlí, fyrst í skipulagssjóði og síðan í borgarráði. Þannig að það er rangt sem að hann heldur fram að þetta mál hafi verið gengið frá því fyrir kosningar.“

Forsætisráðherra hélt þessu ekki fram í hinu fræga morgunviðtali, sem var þarna til umræðu, heldur benti á hið sama og R-listinn gerði í bókun sinni í borgarráði í fyrra, að kaupin hlytu að hafa verið undirbúin lengi.

 

Í Morgunblaðinu í gær kemur síðan í ljós, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir treystir sér ekki lengur til að axla póltíska ábyrgð á þeirri ákvörðun að kaupa þessa lóð.  Nú er ekki lengur um það að ræða, að R-listinn sé að styrkja forsendur mannlífs í miðborginni heldur voru það embættismenn borgarinnar, sem settu R-listanum þann kost að kaupa Stjörnubíóreitinn.

 

Í viðtali við Morgunblaðið segir formaður skipulags- og byggingarnefndar: „Það er því af og frá að það hafi verið einhver pólítísk ákvörðun sem lá þar að baki. Þetta er klárlega mál stjórnsýslunnar og embættismannakerfisins og eftir að hafa fengið umsögn fasteignasala var það mat þeirra, sem sátu í skipulagssjóði, að þetta verð væri í takt við fasteignamarkaðinn og mjög eðlilegt.“

 

Með þessu er Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi að stilla sig inn á bylgjulengd með Jóni Ólafssyni en Fréttablaðið hafði eftir honum í gær: „Það var fasteignasali sem annaðist söluna fyrir okkur. Við fengum tilboð og við vissum ekki einu sinni hver kaupandinn var.“

 

Við eigum sem sagt að trúa því, að hvorki kaupandinn né seljandinn hafi vitað af þessum viðskiptum. Þarna hafi 140 milljónir króna farið á milli manna í ábyrgðarlausu tómarúmi og seljandinn orðið jafnundrandi yfir niðurstöðunni og kaupandinn. Hvers vegna voru kaupin borin undir borgarráð? Hvers vegna eru mál almennt borin undir borgarráð, ef þeir, sem þar sitja eru aðeins í skjóli embættismanna? Að kjörnir fulltrúar skuli reyna að skjóta sér undan ábyrgð með þessum hætti er síst til þess fallið að vekja traust á þeim gjörningi, sem þeir eru að flýja.

 

 

Forseti!

Hvort heldur rætt er um efni málsins: Kaupin á þessum reit, sem kenndur er við Stjörnubíó, áformin um bílstæðakjallara á honum eða útleggingu formanns skipulags- og bygginganefndar á málinu – við endum alltaf á sama reitnum: Það er reynt að skjóta sér undan ábyrgð.

Besti kostur fyrir bílastæðahús á þessu svæði við Laugaveginn er ekki valinn með bílastæðakjallara á Stjörnubíóreit. Í raun er allt frosið á þessum reit við Laugaveginn og engin raunhæf úrræði hafa verið kynnt um það, hvernig á að nýta þessa 140 milljón króna ráðstöfun á skattfé Reykvíkinga – að skjóta sér á bakvið embættismenn vegna þeirrar ákvörðunar er ekki til marks um mikið póltískt þrek.