11.11.1998

Speglar samtímans - Listasafn Íslands

Listasafn Íslands
6. nóvember 1998

80/90 Speglar samtímans

Sýningin, sem opnuð er hér í kvöld, er hin viðamesta á evrópskri og bandarískri samtímalist sem okkur Íslendingum hefur boðist. Nú gefst okkur einstakt tækifæri til að kynnast því, sem framsæknir listamenn víða um lönd eru að skapa.

Við værum ekki í þessum sporum nema vegna góðs samstarfs við Museet for Samtidskunst í Osló. Hefur safnið lánað verkin á sýninguna. Fyrir það skulu færðar einlægar þakkir.

Hin góðu samskipti okkar við Norðmenn birtast í ýmsum myndum. Enn á ný getum við tekist á um uppruna Leifs Eiríkssonar. Hélt ég þó, að úr þeirri deilu hefði verið skorið í eitt skipti fyrir öll á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 með þeirri ályktun Bandaríkjaþings, sem lesa má á stöpli Leifsstytturnar hér á Skólavörðuholtinu, að Leifur væri sonur Íslands.

Ekki er nóg með að listaverkin séu fengin frá Osló. Þau hefðu líklega aldrei komist hingað nema fyrir stuðning úr norsk-íslenska menningarsjóðnum, sem nefnist Norska lýðveldisafmælisgjöfin. Sjóðinn stofnuðu Norðmenn árið 1994 í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldis á Íslandi. Var þá fyrsta norska milljónin veitt í sjóðinn og hefur verið svo árlega síðan.

Fulltrúar frá norska menningarmálaráðuneytinu og menntamálaráðuneyti okkar fara með stjórn þessa ágæta sjóðs og gera tillögur um ráðstöfun fjár úr honum. Sjást góð merki hans víða.

Frá upphafi var til dæmis ákveðið að styrkja verkefnið Tónlist fyrir alla með ákveðinni fjárhæð fram til ársins 2001. Hefur þetta orðið kveikjan að víðtækri tónlistarkynningu í grunnskólum víða um land. Þá lagði sjóðurinn fram fé til mikillar kirkjulistasýningar, sem var í Þjóðminjasafninu á síðasta ári og síðan einnig í Noregi. Nú í ár er þessi glæsilega sýning á samtímalist stærsta einstaka verkefnið, sem nýtur stuðnings úr sjóðnum.

Hugmyndir eru um að sjóðurinn veiti næst verulegum fjármunum til að stuðla að þýðingum og kynningu á íslenskum barnabókum í Noregi.

Góðir sýningargestir!

Ég færi norskum stjórnvöldum enn á ný innilegar þakkir okkar Íslendinga fyrir Norsku lýðveldisafmælisgjöfina. Hún sýnir og sannar, að fjárveitingar til að stuðla að menningartengslum milli listafólks, safna og menningarstofnana í Noregi og Íslandi bera ríkulegan ávöxt.

Ég hvet til góðrar samvinnu Norðmanna og Íslendinga á öllum sviðum. Við eigum fleira sameiginlegt en flestar þjóðir, þegar litið er til hins sögulega uppruna. Menning okkar sækir styrk sinn til þeirra íslensku manna, sem skrásettu þessa sögu á sínum tíma. Hvarvetna leggja menn nú meiri rækt en áður við menningarlegar rætur sínar til að þekkja sjálfa sig betur, þegar þeir líta í spegla samtímans.

Ég lýsi sýninguna 80/90 Speglar samtímans opna.