27.2.2003

Rafræn kosningabarátta - ný nálgun.

Fundur hjá Ský, 27. febrúar, 2003.

 

 

 

Sagan sýnir, að hvers kyns barátta um fylgi fólks, hefur áhrif á þá tækni, sem notuð er til að miðla upplýsingum. Nú er á heimsvísu háð mikil barátta um skoðanir almennings, þegar rætt er um leiðir til að hafa hemil á einræðisherranum í Írak.

 

Síðast þegar til átaka kom við hann um þetta leyti árið 1991 urðu viss þáttaskil í fjölmiðlun á Íslandi, þegar opinberum málverndunarreglum var breytt á þann veg, að Stöð 2 og sjónvarpið gátu endursent viðstöðulaust og án þýðingar beinar sendingar frá CNN og Sky News frá orrustuvellinum við Persaflóa.

 

Þess má sjá skýr merki núna, að alþjóðleg fréttamiðlun hefur magnast vegna spennunar í kringum Saddam Hussein og undanbrögð hans gagnvart ákvörðunum Sameinuðu þjóðanna. Nú skiptir Netið ekki síður máli við öflun og miðlun upplýsinga á heimsvísu en sjónvarpið.

 

Árið 1991 var Netið aðeins varafjarskiptaleið Bandaríkjahers og veraldarvefurinn var að koma til sögunnar í vísindastofnuninni CERN í Sviss. Síðan hefur netvæðingin verið ótrúlega ör í iðnríkjunum og setur æ meiri svip á samskipti manna. Við Íslendingar erum eins og kunnugt er þar í fremstu röð en um 80% landsmanna á aldrinum 16-75 ára hafa aðgang að Netinu. Til samanburðar má nefna, að sérfræðingar telja, að á síðasta ári hafi aðeins 2,5% jarðarbúa haft aðgang að því og hlutfallið verði orðið 30% árið 2010 en af þeim 70%, sem þá verði ekki tengdir, muni helmingurinn aldrei hafa hringt í síma.

 

Við erum því í nokkrum sérflokki hér á landi, þegar komið er saman til að ræða um notkun Netsins. Meðal fárra þjóða er unnt að beita því með jafnalmennum hætti og meðal okkar Íslendinga.

 

Vegna hinnar miklu útbreiðslu þess er ekki óeðlilegt, að íslenskir stjórnmálamenn og aðrir, sem vilja ná til sem flestra í landinu, velti fyrir sér, hvernig unnt sé að nýta hina nýju boðleið sem best til að koma skoðunum á framfæri og hafa samband við fólk. Við sjáum, að vinsælustu vefsíðurnar, eins og til dæmis Mbl.is,  eru skoðaðar af tug þúsundum manna á hverjum degi. Efast enginn lengur um, að mikill fjöldi fólks leggur leið sína inn á upplýsingahraðbrautina til að fræðast. Við kynningu á mönnum, málefnum og sjónarmiðum hefur nýr, öflugur vettvangur komið til sögunnar.

 

Í opinberum umræðum um rafræn áhrif á íslenska stjórnmálastarfsemi hefur enginn fjallað meira um mikilvægi hinnar nýju tækni til að auka lýðræðislega þátttöku Íslendinga en einmitt Morgunblaðið. Fetaði blaðið í því efni í spor vikuritsins The Economist og íslenskaði sérstakan blaðauka þess árið 1997 um að auka bæri þátttöku almennings í töku ákvarðana um eigin málefni með atkvæðagreiðslum um einstök mál, þetta yrði auðveldara eftir því sem rafræn tækni yrði almennari og fleiri hefðu aðgang að henni.

 

Hefur Morgunblaðið síðan verið öflugur málsvari þessara sjónarmiða og telur kjöraðstæður til að hrinda þeim í framkvæmd hér landi vegna fámennis þjóðarinnar og góðrar menntunar almennings.

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, flutti fróðlegt erindi um þetta efni á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri síðastliðið haust. Ræddi ég röksemdir hans á vefsíðu minni eftir landsþingið og sagðist efast  um, að unnt yrði að virkja almenning til beinnar þátttöku í ákvörðun um einstök mál með skipulegum hætti, þótt það væri auðveldara en áður með tölvunni.

Ég sagði við Styrmi að loknu erindi hans, að hann sæi greinilega fyrir sér, að sveitarstjórnarmenn hyrfu úr sögunni. Fólk þyrfti ekki annað en kynna sér skoðun Morgunblaðsins og síðan setjast við tölvuna og taka ákvörðun. Miðla henni til embættismanna sveitarfélagsins, sem önnuðust framkvæmdina. Hvert er hlutverk kjörinna fulltrúa, ef svigrúm þeirra til að taka ákvarðanir í krafti þess umboðs, sem þeir fá í kosningum, er horfið, spurði ég í þessum pistli.

Ég er enn sömu skoðunar. Unnt er að ganga svo langt í túlkun sinni á kostum Netsins til að kalla fram lýðræðislega niðurstöðu, að kjörnir fulltrúar verði óþarfir, að minnsta kosti ef þeir eru sviptir réttinum til að starfa eftir eigin samvisku. Hið milliliðalausa lýðræði, þar sem almenningur velur á milli kosta í stað þess að treysta á kjörna fulltrúa til að komast að ákvörðun fyrir sig er eftirsóknaverð draumsýn að mati margra. Reynslan segir okkur hins vegar, að þessi leið kallar síður en svo á fleiri til þátttöku í stjórnmálum. Nægir að benda á Sviss því til stuðnings, en þar eru þjóðaratkvæðagreiðslur um allt milli himins og jarðar, almennt ekki með mikilli þátttöku kjósenda.

 

Í The Economist hinn 23. janúar síðastliðinn birtist úttekt á áhrifum Netsins á stjórnmálastarf. Þar er minnt á, að bjartsýnir áhugamenn um framgang Netsins hafi bundið miklar vonir við áhrif þess í gamalgrónum lýðræðisríkjum. Þeir hafi talið, að með því tækist að efla áhuga almennings á því að láta að sér kveða við töku lýðræðislegra ákvarðana. Kjósendur þyrftu ekki lengur að búa við að stjórnmálamenn mötuðu þá á  upplýsingum heldur gætu þeir aflað sér þeirra sjálfir. Síðan mundi fólk setjast við tölvuna heima hjá sér og greiða atkvæði. Lýðræðislegir stjórnarhættir gengju í endurnýjun lífdaganna með því að „færa valdið til fólksins.“

 

Niðurstaða The Economist er, að mál hafi ekki enn þróast á þennan veg. Ríkisstjórnir í lýðræðisríkjum hafi birt ógrynni af upplýsingum á Netinu og tekið upp rafræna þjónustu á ýmsum sviðum, en stjórnmálastarfið sjálft hafi ekki breyst mikið. Stjórnmálaflokkar og frambjóðendur hafi opnað vefsíður og dembt tölvubréfum yfir kjósendur. Flestar rannsóknir sýni hins vegar, að skipulagt kynningarstarf á Netinu höfði helst til þeirra kjósenda, sem þegar hafi tekið afstöðu og einnig er náð til með gamaldags pósti og heimsóknum frambjóðenda. Ljósvakaauglýsingar kalli enn þann dag í dag á mest fjármagn í kosningabaráttu.

 

Kemur þessi lýsing ekki heim og saman við reynslu okkar Íslendinga?  Einnar netvæddustu þjóðar í heimi. Ég tel, að svo sé. Netvæðingin hefur ekki valdið neinum þáttaskilum í stjórnmálastarfi, þótt hún hafi auðveldað stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og stjórnvöldum að miðla upplýsingum til almennings. Slík miðlun skiptir vissulega miklu í kosningabaráttu, ef stefna og upplýsingar um framkvæmd hennar ráða afstöðu kjósenda, en aðrir miðlar eru meira skoðanamyndandi en Netið.

 

Greið og gagnvirk samskipti eru æðakerfi stjórnmálastarfs. Nýja upplýsingatæknin er betri en prentvélin og sjónvarpið að því leyti, að hún er gagnvirk. Þess vegna gefur hún stjórnmálamanninum nýtt og einstakt tækifæri til að skiptast á skoðunum við umbjóðendur sína.

 

Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi heldur þó úti vefsíðu, sem vekur umtal eða  athygli. Við heyrum aldrei vitnað í slíkar flokkssíður í fjölmiðlum. Það er til lítils að fara inn á síður flokkanna til að átta sig á því, hvernig þeir eða forystumenn þeirra hafa brugðist við í þessu málinu eða hinu. Ef til vill verður kosningabaráttan núna til þess að eitthvert líf hleypur í þessa starfsemi flokkanna. Eins og málum er háttað er vefsíðum þeirra greinilega ætlað annað hlutverk en ýta að undir líflegar stjórnmálaumræður.

 

Fyrir um það bil ári skipti ég um starfsvettvang í stjórnmálunum, hvarf úr stjórnarráðinu og hóf þátttöku í borgarmálum. Þegar ég lít á tölvubréfin, sem ég hef fengið síðan, og hef svarað eða sinnt með einum eða öðrum hætti, eru þau að minnsta kosti um sjö þúsund. Síðustu daga hef ég til dæmis fengið nokkurn fjölda bréfa frá nemendum í Háskóla Íslands, sem eru að fræðast um opinbera stjórnsýslu og skrifa um það, hvernig staðið var að ákvörðun um blandaða skóla, það er að skólinn sé fyrir alla nemendur án aðgreiningar.

 

Ég reyni að svara öllum slíkum bréfum en það dregur áreiðanlega úr spurningum til mín, að á vefsíðu minni eru ræður mínar og greinar um allt milli himins og jarðar frá því að ég opnaði hana í janúar 1995, fyrir átta árum. Áhugamenn um þau málefni, sem ég læt mig skipta, geta því auðveldlega kynnt sér sjónarmið mín.

 

Er í senn kostur og galli fyrir stjórnmálamann að halda úti síðu með þeim hætti, sem ég geri. Kosturinn er sá, að auðvelt er að afla sér upplýsinga um skoðanir mínar og störf. Gallinn er, að unnt er að herma eitthvað upp á mann, sem hefði kannski betur verið ósagt í hita leiksins, eða var lofað, án þess að vera efnt. Regla mín er sú, að breyta ekki eftir á efni á vefsíðu minni, sem er freistandi ef í ljós kemur, að maður hefur greinilega rangt fyrir sér, þegar litið er á framvindu einhvers máls. Fráleitt væri að fikta í textanum á vefsíðunni og breyta honum, þótt í ljós komi, að ekki standist þar allt tímans tönn.

 

Stundum er reynt að hafa áhrif á stjórnmálamenn með því að efna til herferða á hendur þeim með tölvupósti. Fyrir mestu áreiti hef ég orðið, þegar ákveðið var að leggja höfundargjald á óbrennda geisladiska eins og gert hefur verið vegna myndbanda um langt árabil. Alþingi samþykkti lög um þetta til að vernda höfundarréttinn og opna mönnum samhliða lögmælta leið til að afrita verk annarra til einkanota. Hefur þessi leið verið farin víða um lönd og er að mínu mati til þess fallin að draga úr ágreiningi í þjóðfélaginu, sem er höfuðverkefni stjórnvalda.

 

Í þessu máli kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, að netverjar og aðrir yrðu illir, vegna þess að hið opinbera tók að sér að gæta réttar fyrir höfunda, heldur hitt, hve seint þeir létu frá sér heyra, eða eftir að alþingi hafði samþykkt lög um gjaldtökuna. Spurning er, hvort lögin hefðu verið samþykkt, ef sótt hefði verið hart að þingmönnum, á meðan málið var í þeirra höndum.

 

Tímasetningar skipta máli, þegar leitast er við að hafa áhrif á stjórnmálamenn eins og aðra. Fylgist menn ekki með, telji þeir sig hafa hagsmuna að gæta, er til lítils barist, eftir að málinu er í raun lokið. Þá virkar andóf oft frekar sem nöldur en afstaða, sem fylgt er eftir af þunga og sannfæringu. Eins og miðlun upplýsingar er háttað bæði af hálfu stjórnarráðsins og alþingis er almennt mjög erfitt að færa sannfærandi rök fyrir því, að fólk hafi ekki átt kost á því að kynna sér málefni, sem höfðar sérstaklega til þess, fyrr en eftir að lokaákvörðun hefur verið tekin.

 

Netið hefur gjörbreytt allri miðlun opinberra upplýsinga. Lagði ég mikla áherslu á gildi vefsíðu menntamálaráðuneytisins, á meðan ég var þar og er stoltur að því, hve mikil alúð var lögð við hana. Áttuðu embættismenn sig einnig fljótt á því, hve dró úr fyrirspurnum, eftir að upplýsingar voru komnar á Netið og fólk kveikti á gildi þess. Þá er vefsíða alþingis til mikillar fyrirmyndar og sparar mörgum sporin. Þegar ég settist í borgarstjórn Reykjavíkur varð ég undrandi vegna þess, að á þeim bæ voru menn og eru ekki næstum því eins langt komnir og hjá alþingi og í stjórnarráðinu við að veita rafræna þjónustu.

 

Lýðræðislegir stjórnarhættir byggjast á því að komast að niðurstöðu, sem nýtur stuðnings og rýfur ekki traust. Notkun netmiðla auðveldar leitina að slíkri niðurstöðu. Oft hefur verið sagt, að lýðræðið sé tímafrekt í framkvæmd. Með netmiðlunum má stytta tímann til að kynna mál fyrir einstökum hópum og kalla fram svör þeirra með skýrum og ótvíræðum hætti. Skiptist menn á skriflegum skilaboðum er dregið úr hættunni á misskilningi og hártogunum. Ég hef aldrei orðið fyrir því, að menn hafi misnotað netmiðla í samskiptum við mig á þann veg, að bréfum hafi verið breytt eða þau afflutt.

 

Sé efnt til skipulegra herferða á hendur stjórnmálamönnum, er til lítils að senda þeim stöðluð bréf,  því að þau missa fljótt marks. Mestu skiptir, að bréfritari setji fram skoðun sína með persónulegum rökum og kalli á umræðu. Þá er til lítils að gera tilraun til áhrifa á stjórnmálamenn með því að fá alþjóðahópa til að senda þeim bréf eins og gert hefur verið vegna virkjana hér á landi eða vegna falun gong. Barnalegt er að reyna að telja mönnum trú um, að slík bréf endurspegli viðhorf almennings í öðrum löndum, því að svo augljóst er, að um skipulagða tilraun til að knýja menn til að fallast á sjónarmið þrýstihóps er að ræða.

 

Ég hef þá reglu að svara ekki nafnlausum bréfum. Sameiginlegt einkenni þeirra er, að höfundurinn er með skítkast í garð þess, sem bréfið fær, eða einhverjar dylgjur.

 

Í fyrrnefndri úttekt The Economist frá því í janúar á þessu ári segir, að á tímum alltof tíðra skoðanakannana í flestum lýðræðisríkjum, hafi stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar og jafnvel ríkisstjórnir gripið til þess ráðs að vera sífellt að kanna viðhorf almennings. Skyndi-kannanir, sem oft séu hróplega óvísindalegar, hafi orðið að reglu í alls kyns fréttaþáttum og á vefsíðum.

 

Hér er haldið úti stjórnmálaumræðum á Visir.is, þar sem til dæmis er rifist  um frammistöðu stjórnmálamanna í sjónvarpsþáttum og greinilega oft gripið til þess ráðs að upphefja sinn mann, ef á hann hallar, um leið og andstæðingurinn er úthrópaður. Þessar umræður um stjórnmál eru marklitlar að mínu mati vegna þess, að aðeins örfáir þátttakendur í þeim treysta sér til að skrifa undir nafni.

 

 

Góðir áheyrendur!

 

Af eigin reynslu segi ég, að noti stjórnmálamenn Netið með markvissum og reglubundnum hætti, geta þeir skapað sér eigin fjölmiðil, sem vegur ekki síður þungt en hinir hefðbundnu miðlar. Þeir geta eignast mörg hundruð manna póstlista og komið skoðunum sínum reglulega til þeirra, sem þar hafa skráð sig.  Þetta ættu stjórnmálaflokkarnir auðvitað einnig að geta, ef þeir einbeittu sér að því. Þeir gera það ekki og að óbreyttu mun Netið ekki skipta miklu máli sem baráttutæki í komandi kosningabaráttu. Eins og málum er nú háttað verður hún að minnsta kosti ekki rafræn í þeim skilningi, að hún verði háð af miklum þunga með umræðum stjórnmálamanna eða flokka á Netinu.

 

Að lokum þetta: Íslenskir stjórnmálamenn eiga nýja og öfluga leið til að rækta samband við umbjóðendur sína. Netið hefur opnað spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og um slík samskipti snúast stjórnmál, en Netið er kröfuharður miðill og betra er að loka síðu og þurrka hana út af veraldarvefnum en láta hana rykfalla þar með gömlu eða óspennandi efni  sérstaklega ef maður keppir að því að laða sem flesta til fylgis við sig.