6.2.2003

Skuldastaða – framhaldsskólar -Aðalstræti 16

Borgarstjórn,6. febrúar 2003.

 

 

 

 

Erfið skuldastaða.

 

Ég tek undir með nýjum borgarstjóra um gildi góðs samstarfs í borgarstjórn. Borgarstjóri hefur sagt frá því í fjölmiðlum, að til undirbúnings störfum sínum hafi hann rætt einslega við hvern og einn borgarfulltrúa R-listans. Á hinn bóginn hefur hann ekkert samband  haft við okkur, sem sitjum í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og því ákváðum við að leggja skriflegar spurningar fyrir nýja borgarstjórann á fyrsta fundi hans með borgarráði síðastliðinn þriðjudag. Vona ég, að borgarstjóri sitji þá fundi í viku hverri en orð hans í fjölmiðlum mátti skilja á þann veg, að hann mundi sitja fundi borgarráðs fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði.

 

Spurningar okkar til borgarstjóra lúta að skuldasöfnun Reykjavíkurborgar undanfarin ár, þegar hreinar skuldir borgarinnar án lífeyrisskuldbindinga hafa hækkað um 1100% á sama tíma og sambærilegar skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 13%. Þá er staðfest, að heildarskuldir á hvern Reykvíking eru 733 þúsund krónur og þar með hærri en í nokkru öðru stóru sveitarfélagi eða sveitarfélagi hér á höfuðborgarsvæðinu.

 

Við spyrjum borgarstjóra, hvort hann ætli að óska eftir úttekt á því, hvað hafi valdið þessari miklu skuldaaukningu. Einnig viljum við kanna hug borgarstjóra til þess, hvort hann ætli að beita sér fyrir því að snúið verði af þessari braut skuldaaukningar – en frá árslokum 1993 til þessa árs hafa hreinar skuldir hvers Reykvíkings vaxið úr 40 þúsund krónum í 415 þúsund krónur.

 

Við höfum einnig vakið athygli nýs borgarstjóra á þeirri staðreynd, að um 30% frávik varð á fjárhagsáætlun ársins 2002, þegar litið er til skuldaaukningar. Gert var ráð fyrir, að hreinar skuldir Reykjavíkurborgar án lífeyrisskuldbindinga yrðu 33,2 milljarðar króna í árslok 2002 en útkomuspá fyrir árið gerir nú ráð fyrir að niðurstaðan verði rúmir 43 milljarðar króna eða tæpum 10 milljörðum hærri. Við viljum fá að vita, hvort nýr borgarstjóri ætli að grípa í taumana, svo að þróunin verði ekki hin sama að þessu leyti í ár og á síðasta ári, að skuldir aukist 30% umfram áætlun.

 

Við getum að sjálfsögðu haft þessar spurningar til nýja borgarstjórans fleiri. Væri til dæmis fróðlegt að kynnast viðhorfum hans til þeirra aðferða, sem hafa verið stundaðar undanfarin ár og felast í því að færa fjármuni milli fyrirtækja og borgarsjóðs í því skyni að fegra stöðu sjóðsins og styrkja hann í samanburði við aðra sveitarsjóði. Þannig má geta þess, að gert er ráð fyrir, að í árslok 2003 nemi nettóskuldir Félagsbústaða hf. 8,5 milljörðum króna, en við stofnun félagsins árið 1997 voru leiguíbúðir borgarinnar fluttar þangað ásamt skuldum. Frá árinu 1995 hefur viðbótararður borgarsjóðs frá Orkuveitu Reykjavíkur verið tæpir 9,5 milljarðar króna umfram það, sem var á árinu 1993. Árið 1999 kom sérstök aukagreiðsla, sem nam 6 milljörðum króna, frá Orkuveitunni til að lækka skuldir borgarsjóðs. Samtals hefur þetta fegrað stöðu borgarsjóðs um 24 milljarði króna en hefur að sjálfsögðu engin áhrif á heildar-nettóskuld Reykjavíkurborgar. Spyrja má, hvort nýr borgarstjóri ætlar að halda áfram á þessari braut.

 

Hér er alvörumál á ferð. Málsvörn þeirra, sem hafa staðið að þessari ótrúlega veiku fjármálastjórn, snýst einkum um, að ekki sé sanngjarnt að bera hluti saman með þeim hætti, sem við sjálfstæðismenn gerum. Þetta er veik málsvörn, enda byggist hún á því að slá ryki í augu fólks. Hún breytir ekki þeirri staðreynd, að tölurnar, sem við nefnum eru réttar og þróunin, sem við lýsum er rétt. Spurningar okkar snúast einnig um þá staðreynd, að skuldabaggar á hvern Reykvíking hafa þyngst ótrúlega hratt í stjórnartíð R-listans, sem bauð sig fram undir þeim merkjum í upphafi að lækka skuldir. Spurningin er, hvort nýr borgarstjóri hefur burði til að snúa af þessari braut - þrátt fyrir R-listann.

 

Frumkvæði vegna framhaldsskóla.

Undir 19. lið í fundargerð borgarráðs frá því í fyrradag lýstum við sjálfstæðismenn ánægju okkar með að Reykjavíkurborg sýndi nú frumkvæði og áhuga á að endurnýja og byggja upp framhaldsskólana í Reykjavík. Teljum við löngu tímabært að Reykjavíkurborg taki upp viðræður um þau mál við menntamálaráðuneytið og nágrannasveitarfélögin.

 

Við áréttum hins vegar nauðsyn þess, að í þeim viðræðum og framkvæmd málsins verði sérstaklega hugað að Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum við Hamrahlíð, Menntaskólanum við Sund og Kvennaskólanum í Reykjavík.

 

Það er ekki að ástæðulausu, sem við leggjum sérstaka áherslu á þessa skóla, þegar Reykjavíkurborg kemur að málefnum framhaldsskólanna, því að undir stjórn R-listans hefur hag þeirra ekki verið sýndur hinn minnsti áhugi, svo að ekki sé talað um virðingu fyrir því starfi sem þar er unnið. Sést það best á því, hve lengi hefur dregist að útvega nýjar lóðir fyrir Menntaskólann við Sund og Kvennaskólann í Reykjavík og hvaða undanbrögðum hefur verið beitt til að komast hjá þátttöku í nýbyggingum við Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð.

 

Með hliðsjón af því góða starfi, sem er unnið í þessum skólum, er fráleitt að haga forgangsröðun við framkvæmdir í þágu framhaldsskóla í Reykjavík þannig, að litið sé fram hjá hagsmunum þessara skóla og höfuðáhersla lögð nýjan framhaldsskóla í Suður-Mjódd eins og gert er í tillögunni, sem samþykkt var í borgarráði síðastliðinn þriðjudag.

 

Vissulega er verðugt markmið að nýr framhaldsskóli rísi á höfuðborgarsvæðinu en að setja hann í forgang, áður en Reykjavíkurborg kemur með skipulegum og samningsbundnum hætti að lausn á lóða- og húsnæðismálum þeirra skóla, sem starfa í borginni, er ekki skynsamlegt.

 

Uppbygging við Aðalstræti.

 

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 17. lið þessarar fundargerðar borgarráðs. Þar gagnrýndum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hvernig staðið var að gerð samnings við Innréttingar ehf. um uppbyggingu á lóðunum nr. 14-18 við Aðalstræti og nr. 2 við Túngötu frá 31. janúar 2003.

 

Vissulega á rétt á sér, að ritað sé undir samninga við þriðja aðila með fyrirvara um samþykki borgarráðs, eins og gert var í þessu tilviki. Hins vegar krefst vönduð stjórnsýsla þess, að hvert einstakt tilvik sé skoðað og metið, hvernig að málum skuli staðið í ljósi þess, sem áður hefur gerst.

 

Í þessu tilviki hafði borgarráði í löngu máli og með dýrum skýrslum eftir ótrúlega flókið og mikið samráð við heilan her sérfræðinga verið kynnt niðurstaða um varðveislu fornminja á þessum stað, sem byggðist meðal annars á því, að ráðist yrði í mikinn uppgröft í Víkurkirkjugarði.

 

Síðan gerist það, án þess að eitt aukatekið orð sé sagt um það við borgarráð, að horfið er frá þessum áformum og skrifað undir samning, sem byggist á gjörbreyttum forsendum, þótt enn sé því haldið opnu, að ráðist sé í uppgröft í Víkurkirkjugarði.

 

Spyrja verður, hvað olli því, að sú leið var farin, að skrifa undir þennan samning án þess að kynna borgarráði fyrst hinar nýju forsendur. Hvað knúði á um að gera samninginn í þessu óðagoti? Þar sem ég veit ekki, hver er hinn pólitíski talsmaður R-listans í þessu máli eða öðrum, dettur mér helst í hug að beina þessari spurningu til formanns menningarmálanefndar. Fjárveitingar vegna fornminjanna við Aðalstræti renna í gegnum nefndina hans, ef ég man rétt. Hafa hinar breyttu forsendu verið kynntar menningarmálanefnd?

 

Í borgarráði var sérstaklega spurt um örlög hússins að Aðalstræti 16. Húsið er að stofni til frá tíma innréttinganna og eru hlutir í því allt frá árinu 1764 og má því með réttu kalla það eitt elsta hús Reykjavíkur. Í borgarráði var leitast við að fá skýr svör við því, hver yrðu örlög þessa húss og var þá sagt, að neðsta hæð þess mundi hverfa en efri hlutinn yrði notaður.

 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður og forstöðumaður Árbæjarsafns, segir hins vegar  í Morgunblaðinu í gær, að stefnt sé að því að byggja neðstu hæðina aftur í samræmi við það hvernig hún leit út og síðan lyfta húsinu upp á hana. Telur hún það alveg viðunandi lausn og aðferð sem standist fullkomlega út frá varðveislusjónarmiði og því sem tíðkist við endurbyggingar og endurnýjun gamalla húsa.

 

Af orðum borgarminjavarðar verður ekki ráðið, hvort ætlunin sé að nýta í fyrstu hæð hússins grind útveggja og stafgólf, sem heilleg eru frá 1764. Er mikilvægt að átta sig á því, ef fylgja á reglum um húsafriðun.

 

Saga Aðalstrætis er afar merkileg og einstök í miðri höfuðborg.  Við Reykvíkingar erum  þar með afar mikilvægan, sögulegan efnivið í höndunum, sem sannarlega getur aukið aðdráttarafl miðborgarinnar og almennan skilning  á gildi hennar.

 

Þegar litið er annars vegar til minjanna frá landnámstíð á þessum reit við Aðalstræti og húsið, sem á rætur aftur til 1764, vaknar sú spurning, hvort rétt sé með þessar sögulegu minjar farið með því að reisa ofan á þeim og umhverfis eftirlíkingu af öðrum húsum eins og af Fjalakettinum og Uppsölum.  Er það ekki  í raun fölsk virðing fyrir sögunni og minjunum við Aðalstrætið, okkar elstu götu, sem gengið hefur verið um allt frá landnámi?

 

Nú hefur verið skrifað undir samning um að reist skuli með fjárhagslegri aðild Reykjavíkurborgar stór ný hús í dulargervi undir þeim formerkjum,  að þetta sé gert í virðingarskyni við hina merku sögu Aðalstrætis þar sem varðveittar eru minjar um landnám og  elstu þéttbýlismyndun. Aðalstræti 16 mun einfaldlega  hverfa inn í ný hús í gömlum stíl.

 

Þrátt fyrir samninginn, sem hefur verið gerður, er ekki of seint að staldra við og ræða málið enn einu sinni. Það verður ekki aftur snúið, verði ráðist í þær framkvæmdir, sem um er rætt í samningnum.