3.11.1998

Tómstundir barna - ársfundur æskulýðsfulltrúa

Ársfundur æskulýðs- íþrótta- og tómstundafulltrúa.
5. nóvember 1998.

Í gær voru umræður á Alþingi um fíkniefnavandann. Nokkrir ráðherrar og fjölmargir þingmenn tóku til máls og lýstu áhyggjum sínum yfir því, hvernig við stöndum í baráttunni við þennan mikla vágest. Ekkert eitt úrræði dugar. Allir verða að taka höndum saman til að sporna við hættunni.

Kannanir sýna, að það er ekki síst veganestið frá heimilunum, sem skiptir miklu í þessari baráttu. Hitt er ljóst, að við erum ekki aðeins kölluð til ábyrgðar sem foreldrar heldur einnig sem borgarar. Hin samfélagslega ábyrgð leggst misjafnlega þungt á okkur eftir því, hvaða störfum við gegnum. Okkur, sem falin hefur verið umsjá barna og ungmenna, rennur blóðið til skyldunnar. Vil ég í upphafi máls míns hér á þessum árfsundi æskulýðs- íþrótta og tómstundafulltrúa hvetja til þess, að hvergi verði látið undan síga í baráttunni gegn fíkniefnum. Mest er í húfi að leiða ungu fólki fyrir sjónir, hve hættulegt er að leika sér að þessum efnum.

Frá því að síðasti ársfundur ykkar var haldinn hefur margt gerst á vettvangi menntamálaráðuneytisins eða fyrir tilstuðlan þess, sem snertir starfsvettvang ykkar. Dagskráin hér í dag ber svipmót af ýmsum þessara verkefna. Áður en þið farið ítarlega yfir hvern málaflokk vil ég nota tækifærið við upphaf fundarins og drepa á þessi meginatriði.

Í fyrsta lagi ræðir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður um ábyrgð og öryggismál í félags- og tómstundastarfi. Hann hefur samið álitsgerð um þetta mikilvæga málefni en menntamálaráðuneytið stóð að því að fá Jón Steinar til þessa ráðgjafarstarfs ásamt Slysavarnafélagi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Landssambandi KFUM og KFUK, Ungmennafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra skáta, Æskulýðsráði ríkisins og Íþróttanefnd ríkisins. Öyggismál á þessu sviði hafa verið nokkuð á reiki og ábyrgð þeirra, sem að þessum mikilvægu málaflokkum starfa, ef til vill ekki nægilega skýr í hugum allra. Tel ég til mikilla bóta, að jafngóður lögmaður og Jón Steinar skuli hafa tekið saman álit um það, hvernig ábyrgð starfsmanna með börnum og ungmennum er háttað. Hvet ég til þess, að tekið verði fullt tillit til ábendinga hans.

Í öðru lagi ræðir Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna, um einelti. Fyrir tilstilli umboðsmanns var fyrir nokkru efnt til ráðstefnu um einelti. Þar kom meðal annars fram, að umræður um málið væru mikilvægur liður í því að vinna bug á þessum vanda. Sé ég ekki betur en áhrifa þessarar ráðstefnu sé þegar farið að gæta í opinberum umræðum og tek ég þar meðal annars mið af áhrifamiklum greinum, sem hafa birst í Morgunblaðinu, eftir þolendur eineltis. Hafa þær vakið verðuga athygli. Nauðsynlegt er að rannsaka einelti, eðli þess og umfang, og hef ég í því skyni ritað undir samning við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála um, að hún rannsaki einelti í grunnskólum landsins. Er þessi rannsókn þegar hafin og má vænta þess, að haustið 1999 verði unnt að kynna niðurstöður hennar. Tel ég, að þær verði forsendur fyrir enn markvissari aðgerðum gegn einelti. Þið sem vinnið með ungu fólki hljótið að átta ykkur betur en flestir aðrir á nauðsyn þess, að um þessi mál sé rætt og tekið á þeim. Við þurfum að skilgreina bestu forvarnarúrræðin gegn einelti og hrinda þeim í framkvæmd.

Í þriðja lagi gerir Guðjón Guðmundsson, alþingismaður og formaður Íþróttanefndar ríkisins, grein fyrir nýjum íþróttalögum, sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor. Með lögunum er settur rammi um afskipti ríkisins að íþróttamálum og þau koma í stað laga, sem voru að stofni til meira en hálfrar aldar gömul. Frjálsa íþróttahreyfingin skiptir enn mestu máli fyrir allt íþróttastarf í landinu og hlutur sveitarfélaganna er mun meiri en ríkisins, þegar rætt er um opinber afskipti. Meginmarkmið laganna er að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við hagstæðust skilyrði og lögð er áhersla á gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnarstarf.

Hér má geta þess, að með hliðsjón af hinum nýju lögum og með vísan til skýrslu nefndar, sem ég skipaði, og skilaði skýrslu um eflingu íþróttastarfs, hefur menntamálaráðuneytið fyrir hönd ríkisins gert samning við ÍSÍ um að efla Afreksmannasjóð ÍSÍ með 10 milljón króna framlagi á ári næstu fimm ár. Var samningur um þetta efni undirritaður síðastliðið vor og með honum er komi til móts við óskir, sem íþróttahreyfingin hefur lengi talið sanngjarnar. Bind ég vonir við, að þessi samvinna um Afreksmannasjóðinn eigi eftir að efla íþróttastarf almennt. Rannsóknir sýna, að fátt er betur til þess fallið að forða ungu fólki frá fíkniefnum en virk þátttaka í íþróttum.

Í fjórða lagi gerir Jónmundur Guðmarsson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, grein fyrir endurskoðun aðalnámskránna fyrir leikskólann, grunnskólann og framhaldsskólann. Þessi vinna gengur samkvæmt áætlun en með henni má segja, að við séum að setja börnum og ungmennum starfskrá í skólum frá tveggja ára aldri til tvítugs.

Lögin um æskulýðsmál eru frá 1970 og hefur oft verið sest niður til að endurskoða þau. Það er rétt, sem segir í álitsgerð Jóns Steinars Gunnlaugssonar, að þau snúast einkum um oprinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi. Ástæðan fyrir því, hve erfiðlega hefur gengið að komast að niðurstöðu um nýjan lagatexta er kannski helst sú, að einhverjir telja hættu á því, að þeir missi spón úr aski sínum verði lögunum breytt.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi lög standist ekki lengur þær kröfur, sem gera eigi til laga um málefni af þessu tagi. Hef ég kallað ýmsa til ráðgjafar við mig um þessi mál á undanförnum árum. Niðurstaða mín er sú, að skynsamlegra sé að lögin snúist frekar um rétt barna til að taka þátt í tómstundastarfi en hvernig haga eigi samskiptum ríkisins við þau félög, sem sinna verkefnum á þessum sviðum. Félögin breytast í tímans rás og eiga að starfa á eigin forsendum en ekki samkvæmt opinberri forskrift. Ríkið getur komið að stuðningi við slík félög án þess að þau séu tíunduð í lagatexta og þannig að mati einhverra tekin fram fyrir önnur, sem hafa orðið til, eftir að lögin voru samþykkt.

Inntakið í skyldum ríkisvaldsins gagnvart börnum og ungmennum er nauðsynlegt að skilgreina, svo að við höfum þar skýr markmið ekki síður en í skólunum með nýjum námskrám. Í lögum um tómstundir barna á að marka leiðir til að auka færni þeirra til að takast á við dagleg viðfangsefni, úrræði til að efla sjálfstraust þeirra, félagslegan og siðferðilegan styrk, andlegan, sálrænan og líkamlegan þroska.

Sumir segja vafalaust, að ekki sé unnt að leysa mál af þessu tagi með lögum. Undir það get ég tekið. Hið sama hins vegar við um þetta efni og gerð námskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Við leysum ekki vanda allra, sem stunnda nám frá 2ja ára aldir til tvítugs með nýjum og nútímalegum námskrám. Við leggjum hins vegar kennrunum til starfsramma, setjum markmið og mótum reglur til að mæla árangur.

Ég tel, að skynsamlegt sé að huga að slíkum reglum fyrir yfirvöld æskulýðsmála, þegar hugað er að stöðu barna utan skóla eða í tómstundum sínum. Með því er verið að tryggja betur en áður, að því fé, sem varið er úr opinberum sjóðum til stuðnings við æskulýðsstarfsemi nýtist á skipulegan hátt og í samræmi við markaðar og augljósar kröfur.

Að minni ósk hafa Guðný Björk Eydal og Helgi Grímsson tekið saman drög að frumvarpi til laga um tómstundastarf barna. Þessi drög eru enn til meðferðar í menntamálaráðuneytinu.

Á þeim tæpu þremur áratugum, sem eru liðnir frá því að núgildandi æskulýðslög voru sett hafa miklar breytingar orðið á högum íslenskra barna og ungs fólks. Tilboðum um tómstundastarf hefur fjölgað og fleiri standa að tómstundastarfi fyrir börn en áður hefur þekkst. Á sama tíma hafa réttindi barna hlotið aukna umfjöllun og lög verið sett um ýmis hagsmuna- og réttindamál barna. Íslendingar hafa ritað undir sáttamála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18!1992. Hins vegar hefur almenn löggjöf um æskulýðsmál ekki tekið mið af þessum breytingum öllum, þótt lög um barnaverndarmálefni, skólastarf og fleiri slíka þætti hafi verið löguð að breyttum kröfum. Í lög skortir heildarstefnu varðandi börn, rétt þeirra til tómstundastarf og um það hvaða kröfur eigi að gera til þeirra, sem sinna slíku starfi. Er ég sannfærður um, að þið sem sinnið æskulýðs- íþrótta- og tómstundarstarfi áttið ykkur betur en flestir aðrir á nauðsyn þess að löggjöf á þessu sviði veiti ykkur stuðning og skilgreini réttindi og skyldur.

Samkvæmt drögum að frumvarpi að lögum um tómstundir barna, sem er til skoðunar í menntamálaráðuneytinu og þarf að kynna mörgum áður en það er lagt fram í endanlegri gerð, er lögð áhersla á eftirfarandi þætti:


Réttindi barna til tómstundastarfs, sem hafi skilgreint inntak.
Formlega umgjörð um atbeina opinberra aðila til þess að efla skipulagt tómstundastarf barna.
Kröfur til þeirra sem vinna með börnum í skipulögðu tómstundastarfi.
Af þessum áhersluatriðum má ráða, að tillögurnar eru um gjörbreytt inntak í löggjöfinni frá því sem nú gildir. Ég er þeirrar skoðunar, að skynsamlegt sé að halda áfram á þeirri braut, sem mörkuð er í tillögunum. Ráðuneytið þarf nú að taka afstöðu til þeirra og síðan er nauðsynlegt að kynna þær fyrir þeim, sem starfa að þessum málum utan ráðuneytisins. Til dæmis er mikils virði að fá fram skðanir ykkar, sem starfa að þessum málum á vettvangi sveitarfélaganna og fyrir hin frjálsu félagasamtök. Hið sama á við á þessu sviði og að því er íþróttamálin varðar, ríkið á ekki að skipta sér af fleiru en brýnasta nauðsyn krefst, með lögum á að setja ramma og skilgreina efnislegt inntak.
Ég lýk máli mínu með því að óska ykkur góðs gengis í mikilvægum störfum ykkar. Ítreka ég það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að nú beinist athygli almennings ekki síst að því, hvernig þeir, sem sinna málefnum barna og ungmenna, snúast gegn vágesti fíkniefnanna. Hvet ég ykkur öll til að halda ótrauð áfram þeirri baráttu.