30.1.2003

Alþjóðahús - þjónustusamningur við Rauða krossinn.

Borgarstjórn 30. janúar 2003.

 


 


 


Í fundargerð borgarráðs frá 21. janúar er þess getið í 20. lið, að lagt sé fram erindi borgarstjóra um gerð þjónustusamnings við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands um rekstur Alþjóðahússins. Þá voru einnig lögð fram drög að þessum þjónustusamningi og voru þau samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum en við sjálfstæðismenn greiddum ekki atkvæði.


 


Ástæðan fyrir því, að við greiddum ekki atkvæði, var ekki sú, að við teldum ekki skynsamlegt að flytja forræði á rekstri þessa húss til Rauða krossins, heldur hitt, að við vildum ekki bera ábyrgð á þessum gjörningi í ljósi aðdraganda hans.


 


Starfsemi Alþjóðahússins undanfarin misseri er kapítuli í sögu samstarfs sveitarfélaganna á höfunborgarsvæðinu, sem leiðir hugann að því, hvernig er háttað ábyrgð og eftirliti einstakra sveitarfélaga með slíkum félögum, sem færist í vöxt að stofna um rekstur mikilvægra þjónustuþátta við borgarana.


 


Í ræðu minni um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir þetta ár vakti ég sérstaklega athygli á stórauknum útgjöldum til Strætó bs., en málefni þess fyrirtækis koma ekki reglulega fyrir borgarráð og borgarstjórn og að vissu leyti starfar það í tómarúmi og án nægilegra tengsla við hina kjörnu fulltrúa, sem bera ábyrgð gagnvart skattgreiðendum, sem bera sífellt þyngri byrðar vegna þess.


 


Raunirnar í rekstri Alþjóðahússins er víti til að varast. Ég ætla að rekja þær að svo miklu leyti, sem upplýsingar hafa verið veittar í borgarráði. Þær bar að með sérkennilegum hætti í borgarráði hinn 22. október síðastliðinn, þegar þar var lögð fram fréttatilkynning um að ætlunin væri að semja við Rauða kross Íslands um, að hann tæki að sér rekstur hússins.


 


 


Ég samþykkti að gengið yrði til þessara samningaviðræðna með þeim fyrirvara, að greinargerð borgarstjóra um rekstur og fjárhagslega stöðu hússins og skýrsla stjórnar yrðu lögð fyrir borgarráð. Var mér sagt, að ég þyrfti ekki að bóka þennan fyrirvara. Á þessum fundi spurði ég einnig um ástæður þess, að framkvæmdastjóra Alþjóðahúss hefði verið sagt upp störfum, hvort það tengdist meðferð fjármuna. Jafnframt leitaði ég upplýsinga um það, hvenær borgaryfirvöldum hefði verið kynntur vandi hússins.


 


Í framhaldi af fundi borgarráðs ritaði ég borgarstjóra bréf vegna þessa máls dags. 28. október, þar sem ég greindi frá því, að ég teldi ekki hafa verið rétt greint frá þróun mála og tímasetningum á borgarráðsfundinum. Hefur það verið staðfest hér áður í ræðu Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, sem situr í fráfarandi stjórn Alþjóðahúss. Ítrekaði ég ósk mína um greinargerð borgarstjóra og skýrslu frá stjórn Alþjóðahússins, svo að unnt væri að hafa þessi gögn til hliðsjónar, þegar borgarráð tæki ákvörðun sína um samning við Rauða krossinn.


 


Borgarstjóri svaraði bréfi mínu 29. október og áréttaði þar, að ekkert hefði komið fram um fjármálalegt misferli af hálfu stjórnenda Alþjóðahúss. Formlegt erindi um liðsinni eigenda hússins við aðstoð vegna fjárhagsvanda og samskiptaörðugleika milli stjórnar og framkvæmdastjóra Alþjóðahúss hefði fyrst borist með samþykkt stjórnar þess frá 5. september.


 


Síðan gerist ekkert í málinu á vettvangi borgarráðs fyrr en hinn 21. janúar sl. að fram kemur tillaga frá borgarstjóra um að gengið verði frá samkomulagi við Rauða krossinn. Tillögunni fylgir greinargerð um að Alþjóðahúsið ehf. hafi verið stofnað í maí 2001 með 10 milljón króna hlutafé og þátttöku Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar, Seltjarnanesbæjar og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, hlutafjáreign taki mið af fjölda íbúa í sveitarfélögunum og  Reykjavíkurborg hafi lagt fram 6, 3 m. kr. en Rauði krossinn 1 m. kr. Í desember 2001 hafi Reykjavíkurborg ritað undir þjónustusamning við hlutafélagið og síðan önnur sveitarfélög.


 


Að lokum segir aðeins í þessari greinargerð, að hinn 15. nóvember 2002 hafi verið ráðinn sérstakur tilsjónarmaður til að gera tillögur að breyttu rekstrarformi Alþjóðahússins í samvinnu við Reykjavíkurdeild Rauða krossins, sem taki að sér rekstur einkahlutafélagsins, sem hafi rekið húsið. Óendurskoðað uppgjör sýni 14 milljón króna tap á rekstri Alþjóðahússins árið 2002 en árið 2001 hafi verið milljón króna hagnaður.


 


Í samkomulaginu sé gert ráð fyrir því að Reykjavíkurdeildin taki að sér allar eignir og skuldir Alþjóðahússins, en skuldirnar nemi nú um 20 milljónum króna, þar af 15 milljónum króna til Reykjavíkurborgar, sem verði greiddar á næstu þremur árum. Reykjavíkurborg muni ekki krefjast endurgreiðslu á stofnframlaginu, 6,3 milljónum króna.


 


Engin skýrsla fylgdi frá stjórn Alþjóðahússins, hins vegar kom tilsjónarmaðurinn á fund borgarráðs og greindi frá niðurstöðum í starfi sínu.


 


Þar kemur fram, að rekstur túlkaþjónustu hússins og fræðsludeildar hefur gengið vel bæði fjárhags- og faglega. Þegar kemur að öðrum þáttum í starfi hússins verður myndin dekkri. Alþjóðahúsið leigði eign að Hverfisgötu 18 með því skilyrði að greiða endurbætur á húsnæðinu samkvæmt samkomulagi og var ráðgert, að þær mundu kosta um 10 milljónir, en fara að mati Fasteignastofu Reykjavíkur í að minnsta kosti 29 milljónir króna, það er um 20 milljónir fram úr áætlun. Um ábyrgðina á þessu óhæfilega fráviki frá áætlun hafi verið deilt milli stjórnar, starfsmanna og framkvæmdaaðila.


 


Tilsjónarmaður segir einnig, að um 5 milljónir króna hafi tapast vegna reskturs á kaffihúsi í Alþjóðahúsinu.


 


Með hinni nýju skipan, sem felst í samningnum við Rauða krossinn og samningi við einkaaðila um rekstur kaffihússins, sé stefnt að því að snúa resktri Alþjóðahússins til betri vegar.


 


Ég vona svo sannarlega, að það takist, því að mikilvægt er að veita þá þjónustu, sem starfsmönnum hússins er ætlað.


 


Forseti!


 


 


Eins og ég sagði í upphafi máls míns færist í vöxt, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki höndum saman um rekstur af ýmsum toga, og í því sambandi er rekstur Alþjóðahússins hvað viðaminnstur. Tölurnar, sem ég hef hér rakið og lýsing tilsjónarmanns á því, hvernig staðið var að ákvörðunum um fjárhagsleg málefni og hve seint var í raun gripið í taumana til að framkvæmdir og rekstur væru innan fjárhagslegs ramma um starfsemina, sýna, að ekki var að ástæðulausu spurt í borgarráði í október, hvenær embættismönnum borgarstjórnar Reykjavíkur barst vitneskja um hvað þarna var að gerast.


 


Spurningum um það hefur ekki enn verið svarað með fullnægjandi hætti. Skiptir þó miklu máli að fá þessa vitneskju til að átta sig á því, hvernig er háttað afskiptum og eftirliti embættismanna borgarinnar með starfsemi af þessum toga. Fái borgarráð ekki vitneskju með formlegum hætti frá stjórnum stofnana og fyrirtækja, ber embættismönnum að upplýsa um það, þegar stefnir í slíkt óefni, sem þróunin í rekstri Alþjóðahússins sýnir. Ég sakna þess enn, að ekki liggur fyrir nein skýrsla frá fráfarandi stjórn Alþjóðahúss um störf hennar og skýringar hennar á því, hvað fór úrskeiðis. Hún kynni að leiða í ljós, hvaða víti er að varast, þegar stofnað er til samstarfs af þessu tagi.


 


Ég lýk máli mínu með ósk um, að lögð verði fram skilagrein um starfsemi Alþjóðahúss fyrir borgarráð, þegar rekstur þess færist yfir til Rauða krossins og niðurstaða hennar verði staðfest af þeirri stjórn, sem farið hefur með forræði hússins frá því á árinu 2001.