18.1.2003

Upprifjun á Evrópuviðhorfum

Vettvangur í Morgunblaðinu 18. janúar, 2003.

 


 


Í febrúar árið 2002 spurði Gallup þessarar spurningar fyrir Samtök iðnaðarins: „Ertu hlynntur eða andvígur því að taka upp aðildarviðræður við ESB til að ganga úr skugga um hvað Íslandi stendur til boða við aðild?“


Svörin voru skýr: 91% sagðist hlynnt því, fjögur prósent hvorki né, en 5% andvíg. Í þessari sömu könnun kom fram, að rúmlega helmingur þjóðarinnar, eða 52%, væri hlynntur aðild Íslands að ESB og 55% þjóðarinnar væru hlynnt því að taka evru upp sem gjaldmiðil á Íslandi í stað krónu. 


Fréttin um þetta var birt hér í Morgunblaðinu 16. mars 2002 en daginn eftir mátti lesa á baksíðu blaðsins, að Gunnar Bolstad, framkvæmdastjóri Evrópuhreyfingarinnar í Noregi, teldi, að evrópska efnahagssvæðið mundi hrynja um leið og Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Þá neyddist Noregur til að hefja umsóknarferlið gagnvart ESB. Norski utanríkisráðherrann, Jan Petersen, sagði  í Aftenposten, að Norðmenn fylgdust vel með ESB-umræðunni á Íslandi og aðild Íslands að ESB myndi þýða endurskoðun mála í Noregi. Aðstæður yrðu aðrar í Noregi ef Ísland lenti hinum megin borðsins og aðild Íslands mundi hafa afleiðingar fyrir norskan sjávarútveg.


***


Þessi viðbrögð í Noregi voru smámunir miðað við kippinn, sem talsmenn ESB-aðildar tóku hér á landi. Var engu líkara en nú væri ekkert annað að gera en bretta upp ermarnar og hefja aðildarviðræður. Aðrir drógu aðferðafræðina við þessa könnun í efa og þar var Davíð Oddsson forsætisráðherra fremstur í flokki. Hann sagði meðal annars á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins hinn 7. maí 2002 um spurninguna hjá Gallup:


 


„Hver setur sig upp á móti áhættulausri fyrirspurn af þessu tagi? Enda kom á daginn að meira að segja þorri þeirra sem lýstu sig algjörlega andsnúna aðild að Evrópusambandinu svöruðu þessari sakleysislegu spurningu játandi. Ég býst einnig við því að væru menn spurðir, hvort rétt væri að bjóða mönnum frá Brussel góðan daginn, ef maður mætti þeim á götu, fengist svipuð niðurstaða. En hvorug spurningin segir neitt um málið sjálft né hefur nokkuð gildi fyrir umræðuna.


Ég hef ætíð verið fylgjandi mikilli og öflugri umræðu um Evrópusambandsmálin, enda sannfærður um að upplýst umræða um þau muni verða mjög til góðs. En upplýst verður hún að vera. Þá verður ekki lengur hægt að tala gegn betri vitund, og láta eins og hægt sé að semja sig frá öllum ókostunum við Evrópusambandsaðild. Það er ekkert rangt, óheilbrigt eða óheiðarlegt við það að lýsa sig áhugasaman um Evrópusambandsaðild, þrátt fyrir ágallana sem henni fylgja. En það er á hinn bóginn bæði óheiðarlegt og villandi að gefa til kynna að hægt sé að semja sig frá þeim annmörkum.“


 


***


Hinn 8. maí 2002 var kynnt niðurstaða könnunar, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir forsætisráðuneytið  dagana 20. apríl til 2. maí um afstöðuna til Evrópusambandsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 77-87% vera andvíg aðild að ESB  að gefnum þeim forsendum sem nefndar voru í spurningunum.


Um 31% svarenda taldi að Evrópusambandið væri líklegt til að auka öryggi íbúa Evrópu. Flestir töldu þó að þetta skipti ekki máli eða tóku ekki afstöðu. Spurt var hvort fyrirhuguð stækkun Evrópusambandsins bætti sambandið eða gerði það verra. 36% töldu þetta bæta ESB en 18% töldu það gera sambandið verra. 31% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara. 50% gátu nefnt kosti við ESB-aðild, en 43% gátu ekki nefnt neina kosti. 61% gat nefnt ókosti við aðild en 33% gátu ekki nefnt neina ókosti.


Þegar spurt var um aðild að ESB að gefnum þeim forsendum að það þýddi að ákvarðanir um stjórn fiskveiða, þar með talin ákvörðun um heildarafla, færðist til Brussel lýstu 70% yfir andstöðu við aðild.


Þegar spurt var um aðild að gefnum þeim forsendum að ESB stefndi að því að völd stærri þjóða myndu aukast á kostnað minni þjóða lýstu 78% sig andvíg aðild.


Þegar spurt var um aðild að gefnum þeim forsendum að beinar greiðslur Íslendinga til ESB yrðu margir milljarðar á ári sögðust 70% vera andvíg aðild að ESB.


Þegar spurt var um aðild að gefnum þeim forsendum að það þýddi að upptaka evrunnar myndi auka atvinnuleysi þegar illa áraði sögðust 69% vera á móti aðild.


Þegar þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvort þeir teldu að lítið eða mikið svigrúm væri fyrir Ísland til að semja um sérkjör við inngöngu í ESB sögðust 57% telja svigrúmið lítið en 18% að svigrúmið væri mikið.


***


Eftir að þessi niðurstaða lá fyrir eða hinn 9. maí 2002 fór forsætisráðuneytið þess á leit við við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að sérfræðingar hennar endurreiknuðu og uppfærðu mat á hreinum framlögum Íslands til Evrópusambandsins, sem stofnunin reiknaði árið 1994 að beiðni utanríkisráðuneytisins og birtist í skýrslu fjögurra stofnana Háskóla Íslands til ríkisstjórnar Íslands árið 1995. Auk þess var Hagfræðistofnun beðin að leggja mat á hvað hrein framlög Íslands samkvæmt  til ESB gætu breyst við fyrirhugaða stækkun bandalagsins til austurs.


Niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands birtist hér í Morgunblaðinu 5. júní 2002 og þar sagði meðal annars:


„Heildarniðurstaðan er sú að hreint framlag Íslands myndi væntanlega ríflega tvöfaldast við fulla stækkun ESB, eða frá því að vera um 3,7 til 5,6 milljarðar á ári fyrir stækkun í 8,3 til 10,1 milljarða á ári eftir stækkun. Hér er auðvitað um gróft mat að ræða en stuðst er við sambærilega útreikninga frá ýmsum ESB-löndum, s.s. Danmörku, Þýskalandi, Ítalíu og Austurríki og samtöl við starfsmenn sænska fjármálaráðuneytisins.“


Ýmsir drógu þessar tölur í efa. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ákvað að fela ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte & Touche að kanna þessar kostnaðartölur á vegum ráðuneytis síns. Hefur verið sagt frá því í fréttum, að skýrsla þess sé nú á lokastigi og verði birt innan skamms.


***


Í Fréttablaðinu miðvikudaginn 15. janúar 2003 er birt niðurstaða í nýrri  könnun blaðsins á viðhorfi Íslendinga til aðildar að ESB. 600 voru spurðir: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu?


25,5% sögðust fylgjandi aðildarumsókn, 44,5% voru andvíg umsókn, 27,3% voru óákveðin og 2,7% neituðu að svara.


***


Kannanirnar á síðasta ári voru gerðar í öðru andrúmslofti en nú ríkir, þegar athygli beinist að samskiptum Íslands og Evrópusambandsins vegna raunhæfra úrlausnarefna. Viðfangsefnið er, hvernig Evrópusambandið ætlar að standa að því að efna skuldbindingu sína samkvæmt 128 gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið um að nýjum ESB-ríkjum beri að gerast aðilar að EES-samningnum. Viðbrögð ESB eru ekki þau að líta á þetta sem samningsbundið og þar með tæknilegt mál heldur krefst sambandið hárra fjárgreiðslna af Íslendingum og Norðmönnum fyrir að efna þessa skyldu sína.


Hinar háu fjárkröfur samningamanna Evrópusambandsins eiga sér enga stoð í EES-samningnum. Þær sýna Íslendingum hins vegar svart á hvítu, að ESB metur öll samskipti við þá til fjár, jafnvel eigin skyldu til að fara að EES-samningnum. Fjárhagslega mælistikan og aðild ESB-ríkja að auðlindum sjávar við Ísland yrðu einnig efst á baugi, ef til aðildarviðræðna kæmi. Það þarf engar tilraunir í samningatækni til að átta sig á þeirri staðreynd.


Síðastliðið þriðjudagskvöld hittust þeir Jacques Chirac Frakklandsforseti og Gerhard Schröder Þýskalandskanslari í kvöldverði í París. Þeir komu sér saman um, að eftir stækkun ESB skyldi Evrópusambandsþingið kjósa forseta framkvæmdastjórnar ESB og ráðherraráð Evrópusambandsins skyldi kjósa einskonar forseta ESB sem yrði pólitískur talsmaður og leiðtogi. Kynntu þeir þessa niðurstöðu svo að segja sem orðinn hlut við lausn á forystuvanda ESB. Hún gengur þvert á hagsmuni smáríkja innan ESB og staðfestir enn, að pólitísk áhrif þeirra eru ekki meiri en evrópsku stórveldin leyfa. Á næstunni mun reyna verulega á áhrifamátt smáríkjanna við afgreiðslu þessarar kvöldverðartillögu frá París.


Í hinni losaralegu og marklitlu umræðu hér á vegum þeirra, sem vilja aðild að ESB, er dæmigert að heyra Össur Skarphéðinsson, formann (?) Samfylkingarinnar, slá því fram gagnvart ósanngjörnum kröfum ESB vegna stækkunar EES, að við eigum bara að sækja um aðild! Skyldi Samfylkingin breyta um stefnu í ESB-málum eftir síðustu könnun Fréttablaðsins?