31.10.1998

Hólmavík- grunnskólinn 50 ára

Grunnskólinn á Hólmavík
50 ára afmælishátíð
31. október 1998

Bestu þakkir fyrir boðið að sækja þessa glæsilegu afmælishátíð, þegar þess er minnst, að grunnskólinn á Hólmavík hefur starfað í 50 ár. Er vel við hæfi að gera sér dagamun af því tilefni. Það er að minnsta kosti ánægjulegt fyrir okkur gesti skólans að fá tækifæri til að sækja hann heim og samfagna með nemendum, kennurum og foreldrum og öðrum velunnurum skólans.

Á þessu ári eru 90 ár liðin frá því, að fyrsta fræðslulöggjöfin tók gildi hér á landi. Fram til þess tíma hafði ekki verið skólaskylda í landinu. Samkvæmt lögunum frá 1908 var hins vegar öllum börnum á aldrinum 10 til 14 ára skylt að stunda skólanám. Þessi löggjöf markaði merk þáttaskil í sögu þjóðar okkar.

Nú er skólaskyldan frá 6 til 16 ára og það er hlutverk sveitarstjórna að byggja og reka skólahúsin og ráða starfsfólk til að sinna kennslu og öðrum störfum í skólunum. Menntamálaráðuneytið á að sjá til þess, að skólarnir starfi í samræmi við námskrár, ráðuneytið á einnig að setja aðalnámskrár og loks er það í verkahring ríkisins að leggja grunnskólanemendum til námsbækur.

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á gerð nýrra námskráa fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Er það í fyrsta sinn í 90 ára skólasögu okkar, sem unnt er að endurskoða þessar námskrár í samfellu. Er ástæða til að binda miklar vonir við árangurinn af þessu starfi hann mun örugglega gera góðan skóla enn betri. Einnig er unnið að námskrá fyrir leikskóla, þannig að segja má, að við séum nú að setja vinnuáætlun fyrir kennara og nemendur á aldrinum tveggja ára til tvítugs, hvorki meira né minna.

Ráðist verður markvisst í gerð nýs námsefnis í samræmi við nýju námskrárnar. Einnig verður lögð meiri áhersla en áður á endurmenntun kennara.

Eftirlitshluverk menntamálaráðuneytisins felst meðal annars í því að birta meiri upplýsingar en áður um skólastarfið. Má þar til dæmis nefna kynningu á niðurstöðum í samræmdum prófum í grunnskólum, sem hófst á síðasta ári.

Þessi miðlun upplýsinga mæltist misjafnlega fyrir. Sífellt fleiri átta sig þó á gildi þess að fá meiri vitneskju en áður um það, sem er að gerast í skólunum.

Við þetta tækifæri vil ég færa Skarphéðni Jónssyni skólastjóra sérstakar þakkir fyrir það, hvernig hann brást við, þegar þessar upplýsingar voru fyrst birtar. Hann sagðist þá vera mjög ánægður með, að pukur með einkunnir skyldi vera liðin tíð. Hann minnti einnig réttilega á þá staðreynd, að einkunnir væru bara einn mælikvarði á skólastarf. Skólastjóri, kennarar og heimamenn hér á Hólmavík brugðust einnig rétt við þessum niðurstöðum. Sótt var um styrk í Þróunarsjóð grunnskóla, sem er í vörslu menntamálaráðuneytisins. Styrkféð var síðan notað til að fá sérfræðinga frá Rannsóknastofnun Kennaraháskólans til að gera úttekt á skólastarfinu. Er ég viss um, að þetta starf skilar sér í enn betri árangri en áður.

Ég vil einnig þakka fyrir Skólafréttir grunnskólans á Hólmavík. Les ég þær jafnan mér til fróðleiks og ánægju. Gefur fréttirnar glögga mynd af metnaðarfullu starfi og markvissri viðleitni til að upplýsa foreldra og aðra um stefnu og störf innan skólans.

Að mínu mati er það lykilatriði fyrir hvern þann, sem vill efla skólastarf að eiga gott samstarf við nánasta umhverfi sitt og kalla sem flesta til liðs við kennara og nemendur. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna er ekki aðeins mesta valddreifing í stjórnsýslu hér á landi heldur einnig fyrsta skrefið á þeirri braut að færa skólann nær foreldrum en nokkru sinni fyrr. Niðurstöður þeirrar úttektar, sem gerð hefur verið á skólanum hér, sýna, að hann nýtur mikils trausts í samfélaginu og íbúar eru jákvæðir í garð skólans. Sannast þetta hugarfar vel, þegar litið er yfir fjölmennið, sem sækir þessa glæsilegu afmælishátíð. Ætti þessi mikli velvilji að vera öllum hollvinum skólans sérstakt fagnaðarefni.

Nýja upplýsingatæknin er að valda meiri byltingu á flestum sviðum mannlegra samskipta en við skynjum í daglegum störfum okkar. Á þetta ekki síst við um skólastarf. Í gær tók ég þátt í því að stofna Fræðslunet Austurlands og vorum við samtímis á sama fundi á Hornafirði, Norðfirði, Egilsstöðum, Akureyri, Borgarnesi og Reykjavík og tengdi fjarfundabúnaður okkur saman, ræður voru fluttar og stofnskrá fræðslunetsins samþykkt. Þarna tengdust þrír framhaldsskólar og fimm stofnanir á háskólastigi formlegum böndum.

Á Ísafirði sitja nemendur og stunda hjúkrunarfærðinám við Háskólann á Akureyri. Framboð og þróun á fjarnámi á framhaldsskólastigi hefur einnig verið ör undir tilraunastjórn Verkmenntaskólans á Akureyri. Á vegum menntamálaráðuneytisins er unnið að enn frekari aðgerðum til að nýta hina nýju tækni til að efla skólastarf. Nýlega veitti ráðuneytið Sambandi íslenskra sveitarfélaga styrk til að gera tilraun með fjarkennslu á grunnskólastigi. Beinist athyglin í því efni meðal annars að svæðinu hér í nágrenni Hólmavíkur, grunnskólinn hér kynni því að geta fengið lykilhlutverk við þróun þessarar tækni á sínu skólastigi. Er beðið ákvarðana Sambands íslenskra sveitarfélaga um það efni.

Fjarlægðir skipta ekki lengur máli, vilji menn afla sér menntunar. Einangrun í menntun og skólastarfi er því úr sögunni.

Enginn sá þessa þróun í menntamálum fyrir árið 1908, þegar fyrstu fræðslulögin voru sett, eða 1948, þegar barnaskóli var stofnaður hér á Hólmavík. Við lifum ekki síður spennandi tíma nú en þá. Við erum ekki síður nú en þá þátttakendur í skapa eitthvað nýtt í skólastarfi. Vil ég hvetja alla til að nýta sér sem best þau nýju tækifæri, sem blasa við á öllum sviðum.

Með þessum orðum óska ég nemendum, kennurum og öllum aðstandendum grunnskólans á Hólmavík innilega til hamingju með daginn. Megi metnaðarfullt skólastarf halda áfram að dafna hér á Hólmavík öllum til heilla.