4.1.2003

Kurlin koma til grafar

Vettvangur í Morgunblaðinu, 04.01.03

 

Við lok ársins 2002 urðu söguleg umskipti í stjórn Reykjavíkurborgar. Tæplega níu ára samstarf vinstri flokkanna undir merkjum R-listans rann sitt skeið vegna svikabrigsla.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk á bak orða sinna, bauð sig fram til þings fyrir Samfylkinguna og varð að hætta sem borgarstjóri.

Morgunblaðið sagði í forystugrein um afsögn Ingibjargar Sólrúnar: „Þetta mál er áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem stjórnmálamann og áfall fyrir Reykjavíkurlistann sem haldið hefur meirihlutavöldum í borgarstjórn Reykjavíkur nú á þriðja kjörtímabil. Raunar má segja að um sé að ræða einn mesta afleik íslenzks stjórnmálamanns á taflborði stjórnmálanna um langt árabil.”

***

Í janúar 1994 var lagður grunnur að samstarfi fjögurra vinstri flokka um stjórn borgarinnar í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta voru Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Kvennalisti. Var talsvert tekist á um skipan samstarfsins, þegar það var að mótast. Ekki síst var deilt um aðferðir við val á borgarstjóra. Voru vinstri mennirnir þó sammála um eitt: Þeir ætluðu ekki sömu leið og í meirihlutatíð sinni 1978 til 1982, það er að ráða borgarstjóra utan borgarstjórnar. Um tíma var ráðgert, að sá úr hópnum, sem veldist til þess að gegna stöðu borgarstjóra, segði af sér sem borgarfulltrúi og varamaður tæki sæti borgarstjórans í borgarstjórn. Þetta vildi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki samþykkja. Hún sætti sig ekki við að verða borgarstjóri án atkvæðisréttar, eins og það var orðað.

Engir voru meiri talsmenn þess í kosningabaráttunni til borgarstjórnar vorið 1994 en einmitt R-listamenn, að þeir mundu aldrei aftur setja nokkurn utan síns hóps í embætti borgarstjórnar. Nú hefðu þeir fundið leið til að tryggja pólitíska samstöðu um einn úr hópi kjörinna borgarfulltrúa til að vera í forystu fyrir sig. Án þeirrar meginforsendu hefðu þeir aldrei stofnað til sameiginlegs framboðs.

Á grundvelli samnings um kerfi, sem fulltrúar vinstri flokkanna töldu, að kæmi örugglega í veg fyrir svipuð vandræði í samskiptum þeirra og á árunum 1978 til 1982, var gengið til þess verks að sjóða saman málefnaskrá. Hið sérkennilega gerist nú við hrun hins umsamda kerfis, að talsmenn flokkanna, sem standa að R-listanum, láta í veðri vaka, að valdakerfið skipti í raun minna máli en málefnasamningurinn. Með því er verið að réttlæta samstarf flokkanna á fölskum forsendum. R-listinn er úr sögunni sem samstarfsvettvangur, hann snerist um að tryggja fjölflokka samstöðu um borgarstjóra með atkvæðisrétt. Þórólfur Árnason verður ekki með þann rétt.

***

Í tíð R-listans hefur Kvennalistinn horfið en Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag fengið ný nöfn, það er Samfylking og Vinstri hreyfingin, grænt framboð.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat á alþingi fyrir Kvennalistann, þegar hún var valin til að verða borgarstjóraefni R-listans. Hafði hún einkum vakið á sér athygli á þingi fyrir að snúast gegn samherjum sínum innan Kvennalistans í afstöðunni til samningsins um aðild Íslands að evrópska efhagssvæðinu (EES-samningsins). Sat hún hjá við afgreiðslu samningsins en flokkssystur hennar voru á móti honum. Í nýlegu viðtali við Stúdentablaðið gefur Ingibjörg Sólrún ranglega til kynna, að hún hafi stutt samninginn. Hins vegar tók hún sumarið 1991 þátt í að stofna samtök gegn samningnum. Nú virðist hún talsmaður aðildar Íslands að Evrópsuambandinu (ESB)!

Ingibjörg Sólrún afsalaði sé þingmennsku sumarið 1994, eftir að hún varð borgarstjóri. Tók Guðný Guðbjörnsdóttir við sæti hennar sem 10. þingmaður Reykvíkinga. Lá í augum uppi, að það samrýmdist ekki forystuhlutverki Ingibjargar Sólrúnar fyrir fjóra flokka í borgarstjórn að vera fulltrúi eins þeirra á þingi.

Þegar gengið var til þingkosninga vorið 1995, sætti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ámæli frá kvennalistaþingmanninum Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir að hafa sótt kosningafundi hjá helstu andstæðingum Kvennalistans, Þjóðvaka (brot Jóhönnu Sigurðardóttur úr Alþýðuflokknum) og Alþýðuflokksins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svaraði Kristínu fullum hálsi, sagði ímynd Kvennalistans einfaldlega hafa verið veika, hún hefði haldið ræður á tveimur baráttufundum listans og gert allt, sem um var beðið af hans hálfu. Hins vegar minntist hún þess, að ekki hefði verið mikill fögnuður á vorþingi Kvennalistans eftir sigur Reykjavíkurlistans árið 1994. „Ég varð engu að síður mjög hissa og vonsvikin í fyrrasumar þegar ég mætti á vorþing Kvennalistans skömmu eftir kosningar og leið eins og ég væri að mæta í jarðarför,” sagði hún í Mannlífsviðtali sumarið 1995.

Kvennalistinn dó drottni sínum eftir kjörtímabilið 1995 til 1999. Ummæli Ingibjargar Sólrúnar frá árinu 1995 benda til, að listinn hafi ekki orðið henni neinn harmdauði. Eftir hið mikla tap Kvennalistans í þingkosningunum 1995 sagði Ingibjörg Sólrún gleði hafa ríkt á vorþingi listans: „Það er alvarlegt mál ef þörf kvenna fyrir píslarvætti er svo sterk að við leyfum okkur ekki að gleðjast yfir því að fá völd og geta haft áhrif,” var dómur hennar um andrúmsloftið í gamla flokknum sínum.

***

Í kosningaviðtali við Morgunblaðið 19. maí 2002 lagði Ingibjörg Sólrún meðal annars mat á eigin stöðu og komst þannig að orði: „Ég hef umtalsverðan stuðning meðal borgarbúa, meiri stuðning en Reykjavíkurlistinn og meiri stuðning en Alfreð Þorsteinsson, með allri virðingu fyrir honum.”

Í viðtalinu eru einnig þessi orðaskipti:

„Er tryggt að þú verðir borgarstjóri næstu fjögur ár ef þú nærð kjöri?
„Nei, það er ekki tryggt. Ég gæti náttúrlega hrokkið upp af!“
Spurt er vegna þess að oft er talað um að Samfylkinguna vanti nýjan leiðtoga og þú nefnd til sögunnar.
„Það er ekki mitt viðfangsefni. Ég er að bjóða mig fram til næstu fjögurra ára en ætla mér hins vegar ekki að verða ellidauð hérna í Ráðhúsinu.“
En þú ætlar að vera þar næstu fjögur ár?
„Já, ég er ekki á leið í þingframboð að ári ef það spurningin sem undir liggur.””

***

Þetta er undarleg og  sorgleg stjórnmálasaga, þar sem hvorki flokkar, flokkabandalög né skoðanir standa lengur en hentar einstaklingi, sem segist hiklaust hafa meiri stuðning sjálfur en allir í kringum sig.  Næsta átakalína er dregin innan Samfylkingarinnar, þar sem nú er hart sótt að Össuri Skarphéðinssyni og þess krafist af honum, að hann dæmi sjálfan sig úr forystuhlutverki til að þóknast persónlegum og pólitískum hagsmunum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Innan Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur löngum verið um það deilt, hvort flokkurinn ætti að leggja R-listanum lið. Var fjallað um þennan ágreining innan Framsóknarflokksins í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 25. júní árið 2000 og þeir nefndir, sem fulltrúar andstæðra fylkinga Finnur Ingólfsson, þáverandi seðlabankastjóri og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík, og Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi.

Taldi höfundur Reykjavíkurbréfsins, að framtíð Framsóknarflokksins gæti ráðist af því, hvort hann stæði innan eða utan R-listans. Hættan á hruni flokksins væri meiri innan R-listans en utan. Lauk Reykjavíkurbréfinu á þessum orðum: „Þess vegna er afar ólíklegt að áframhaldandi samstarf á vettvangi Reykjavíkurlistans sé jafn sjálfsagt mál og Alfreð Þorsteinsson vill vera láta. Þvert á móti er þessi spurning sennilega stórpólitískasta spurning, sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið frammi fyrir áratugum saman.”

Sumarið 2000 lýsti Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, efasemdum um ágæti R-listasamstarfsins en sjónarmið Alfreðs vógu þyngra. Í rimmunni núna vegna þingframboðs Ingibjargar Sólrúnar varð það enn ofan á, að framsóknarmenn skyldu halda R-listasamstarfinu áfram. Það hlakkar í óvildarmönnum Halldórs Ásgrímssonar yfir því, að framboð Ingibjargar Sólrúnar kunni að útiloka hann frá þingsetu. Án mín verður Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn, segir Halldór.

Morgunblaðið taldi þetta mál allt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Miklu fleiri eiga um sárt að binda vegna ákvarðana hennar – og líklega eru ekki öll kurl komin enn til grafar.