24.10.1998

Fimleiksamsamband Íslands 30 ára

Fimleikasamband Íslands 30 ára
24. október 1998

Ég færi Fimleikasambandi Íslands innilegar hamingjuóskir. Á síðustu 30 árum hefur sambandið lagt drjúgan skerf af mörkum til íþróttastarfs í landinu. Fyrir þetta mikilvæga framlag skal þakkað hér á þessum tímamótum.

Fimleikar eru fjölþætt íþróttagrein og þurfa þeir, sem leggja stund á hana, að rækta með sér styrk, þol, liðleika, tækni og samhæfingu. Árangri ná þeir einir, sem beita sjálfan sig aga og sýna áhuga, metnað og einbeitingu.

Fimleikar hafa jafnan sett sterkan svip á skólaíþróttir. Á undanförnum árum hefur það komið betur og betur í ljós, að íþrótta- og hreyfinámskennsla hefur ekki aðeins jákvæð áhrif á líkams- og hreyfiþroska einstaklinga, heldur njóta aðrir þroskaþættir góðs af námsþáttum skólaíþrótta.

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á gerð nýrra aðalnámskráa fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Þar er meðal annars byggt á því grundvallarsjónarmiði, að markviss íþróttakennsla í skólum, þar sem heilbrigði og hollar lífsvenjur eru hafðar að leiðarljósi, ráði miklu um heilbrigði þjóðarinnar. Það er því ekki einungis hagur fyrir hvern og einn að fá gott og markvisst líkamsuppeldi heldur er þar um þjóðarhag að tefla.

Unglingar sem stunda íþróttir og eru í góðri líkamlegri þjálfun eru ekki eins líklegir og aðrir til að reykja, drekka eða neyta fíkniefna. Einnig hefur komið í ljós, að þeir, sem stunda íþróttir fá hærri einkunnir en aðrir, telja sig betur undirbúna fyrir kennslustundir og líður betur í skólanum. Þeir hafa meira sjálfstraust og þjást síður af þunglyndi og kvíða.

Undir merkjum Fimleikasambands Íslands hefur því verið unnið mikið mannræktarstarf undanfarin þrjátíu ár. Sambandið er ekki aðeins mikilvægur vettvangur íþróttamanna. Innan þess er einnig öflugt foreldrastarf. Hvarvetna sannast, að virk þátttaka foreldra og lifandi áhugi þeirra er ekki síður til að efla árangur og velgengni í íþróttum en handleiðsla góðs þjálfara. Ber sérstaklega að þakka Fimleikasambandi Íslands hve mikla áherslu það leggur á hlut foreldra.

Hlut kvenna í íþróttum þarf að bæta. Niðurstaða nefndar um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna, sem ég skipaði og skilaði áliti fyrir réttu ári, var sú, að víða væri pottur brotinn hvað varðar jafnrétti kynja til þátttöku í íþróttum. Fimleikar eru sú íþróttagrein, sem ber einna mestan svip kvenna. Um það bil 80% þeirra, sem stunda fimleika hér eru konur. Hvet ég eindregið til þess, að merki greinarinnar sé haldið vel fram í umræðum um jafnrétti og íþróttir.

Fimleikahópar íslenskra kvenna hafa oft borið hróður lands og þjóðar víða með glæsilegum sýningum sínum. Sjálfur ólst ég til dæmis upp við minningu móður minnar um för hennar með fimleikaflokki ÍR til Svíþjóðar árið 1938. Rifjaði hún þá ferð oft upp með gleði.

Í fimleikum eins og öðrum íþróttagreinum er í senn nauðsynlegt að kalla marga til leiks og standa sérstaklega við bakið á þeim, sem standa sig best. Fyrr á þessu ári var skrifað undir samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og ÍSÍ, sem miðar að því að efla Afreksmannasjóð ÍSÍ verulega á næstu fimm árum.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er mælt fyrir um fyrstu 10 milljón króna greiðsluna af fimm úr ríkissjóði til afreksmanna í íþróttum. Vona ég, að sem flestir fimleikamenn verði verðugir stuðnings úr Afreksmannasjóði ÍSÍ.

Góðar fyrirmyndir skipta æ meira máli, þegar leitast er við að beina ungu fólki inn á réttar brautir. Fáir eru betri fyrirmyndir en góðir og sannir afreksmenn í íþróttum.

Hvort sem við lítum á skólastarf, heilbrigðismál, baráttu gegn fíkniefnum, jafnréttismál eða leitum að góðum fyrirmyndum, alls staðar verða íþróttir að góðu liði fyrir einstaklinga og þjóðina í heild. Fimleikasamband Íslands og íþróttahreyfingin öll skiptir miklu og vaxandi hlutverki meðal okkar.

Ég ítreka hamingjuóskir mínar til Fimleikasambandsins og árna því heilla og velgengni á komandi árum.