28.12.2002

Virkar leikreglur lýðræðisins

Vettvangur í Morgunblaðinu, 28. 12. 02

 

 

FRANSKIR stjórnmálaskýrendur nota latnesku orðin "annus incredibilis" til að lýsa atburðum ársins 2002. Stjórnmálasaga "ársins ótrúlega" í Frakklandi snýst um örlög sósíalista og stórsigur hægri manna undir forystu Jacques Chiracs forseta, fyrst í forsetakosningum og síðan í þingkosningum. Lionel Jospin, leiðtogi sósíalista, var forsætisráðherra í upphafi ársins og talinn sigurstranglegur í keppni við Chirac í forsetakosningunum um vorið. Jospin datt hins vegar úr leik og varð þriðji í fyrri hluta kosninganna 21. apríl á eftir þeim Chirac og Jean-Marie Le Pen, frambjóðanda þjóðernissinnaðs hægri flokks. Í aðdraganda kosninganna var talið, að Jospin þyrfti helst að hafa áhyggjur af þjóðernissinna frá vinstri, Jean-Pierre Chevènement, sem ætlaði sér að hrista upp í flokkakerfinu. Straumhvörf urðu 21. apríl. Chirac fékk hvorki meira né minna en 82% atkvæða í seinni umferð forsetakosninganna og sósíalistar voru malaðir í þingkosningunum.

 

Stjórnmálaþróun í Austurríki á árinu 2002 er ekki síður athyglisverð. Í þingkosningunum þar í október 1999 fékk Frelsisflokkur Jörgs Haiders, þjóðernissinnaður hægri flokkur, tæp 27% atkvæða . Hlaut flokkurinn meira fylgi en hinn gamalgróni hægri flokkur Austurríkis, Þjóðarflokkurinn undir forystu Wolfgangs Schüssels, en um 26% kjósenda studdu hann. Snemma árs 2000 myndaði Schüssel ríkisstjórn með flokki Haiders við mikla reiði og óskammfeilin afskipti sósíalista innan Evrópusambandsins. Þessi ríkisstjórn sprakk í haust og var efnt til þingkosninga 24. nóvember sl. Þá fékk flokkur Schüssels 42,3% atkvæða, jók fylgi sitt um rúm 12%, en flokkur Haiders fékk 10%, tapaði 17%. Sósíalistar juku fylgi sitt úr 33% í 36%. Ný stjórn hefur enn ekki verið mynduð í Austurríki. Vegur Haiders hefur dvínað eftir því sem Austurríkismenn hafa betur kynnst ábyrgðarleysi hans.

 

Í Hollandi urðu einnig stjórnarskipti á árinu og þar settist hægri sinnuð ríkisstjórn að völdum með aðild ráðherra úr flokki Pims Fortuyns, sem var myrtur skömmu fyrir þingkosningarnar í maí. Vegna ágreinings innan Fortuyn-flokksins og milli ráðherra hans neyddist Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, að biðjast lausnar fyrir sig og stjórn sína í október.

 

***

 

 

Sameiginlegt er stjórnmálaþróuninni í Frakklandi, Austurríki og Hollandi á árinu, að þar hafa þjóðernissinnaðir hægri menn haft söguleg áhrif. Á hinn bóginn verður ekki sagt um þá, að þeir hafi erindi sem erfiði. Í Frakklandi reis svo öflug andúðarbylgja gegn Jean-Marie Le Pen, að meira að segja rótgrónir sósíalistar létu sig hafa það að kjósa Chirac forseta. Í Austurríki og Hollandi sannast, að séu fulltrúar þessara stjórnmálaafla leiddir til ábyrgðar, líður ekki á löngu, þar til innbyrðis ágreiningur, öfund eða ótti við að axla ábyrgð verður þeim að falli.

 

Austurríkismenn reyndu, að það getur orðið til vandræða í samskiptum við ríkisstjórnir annarra þjóða að kalla menn á borð við Haider til ábyrgðar. Þegar Schüssel myndaði ríkisstjórn sína, fóru einkum sósíalistar í Evrópusambandinu af hjörunum og lentu sumir forystumenn þeirra síðan í vandræðum heima fyrir vegna bægslagangsins. Spurningar vöknuðu um, hve ríkur réttur til íhlutunar í innanríkismál Austurríkis hefði skapast með aðild landsins að Evrópusambandinu. Hvort ESB-aðild skapaði yfirþjóðlegan rétt til afskipta af lýðræðislegri framvindu í aðildarlöndunum? Nú láta þessir gagnrýnendur ekki eins mikið að sér kveða, þegar Schüssel hefur tekist að afhjúpa lýðskrum Haiders, sem á í vök að verjast innan eigin flokks og veit ekki, hvort hann á að vera eða fara sem formaður hans.

 

Í Noregi á Kjell Magne Bondevik og ríkisstjórn hans í vanda vegna þessað hún hefur ekki meirihluta á þingi og neyðist til þess í mörgum málum að framkvæma aðra stefnu þingsins en hún sjálf kysi. "Leikstjórinn er lýðskrumarinn og flokkseigandinn Carl I. Hagen, sem snýst hart gegn ríkisstjórninni í efnahagsmálum og leggur fram eigið fjárlagafrumvarp. Síðan greiðir hann atkvæði með einstökum fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar, þakkar sér allt hið góða, sem er þar að finna, en lætur ríkisstjórnina eina sitja uppi með hitt, sem er til óvinsælda fallið," segir gjörkunnugur Norðmaður og lýsir þannig, hvernig Carl I. Hagen leikur lausum hala í norskum stjórnmálum, af því að þar hafa forystumenn annarra flokka ekki treyst sér að fara sömu leið og Schüssel í Austurríki eða Balkenende í Hollandi.

 

***

 

 

Mörgum hættir til að lýsa átökum í stjórnmálum eins og útsláttarkeppni. Vissulega gerist það stundum, að flokkar eða einstaklingar eru slegnir svo út af laginu, að þeir detta sjálfkrafa úr keppni. Hitt er þó algengara, að einstaklingurinn sjálfur tekur af skarið um eigin framtíð og rökstyður ákvörðun sína. Þótt Al Gore tapaði fyrir George W. Bush í forsetakosningunum árið 2000, varð ekki ljóst fyrr en nú á dögunum, að hann ætlaði ekki aftur fram gegn Bush - og Gore tók sjálfur af skarið um það.

 

Skýrustu skilaboð um framtíð sína fá stjórnmálamenn frá eigin stuðningsmönnum, hvort heldur um flokksbræður eða samstarfsmenn í ríkisstjórn eða sveitarstjórn er að ræða.

 

Við val á fólki í framboð, hvort heldur með almennu prófkjöri, í kjördæmisráðum eða uppstillingarnefnd er óhjákvæmilegt, að gert sé upp á milli einstaklinga. Án stuðnings hópsins kemst enginn í framboð í nafni hans. Sætti menn sig ekki við slíkar leikreglur eiga þeir lítið erindi í stjórnmálastarf. Er þess vegna undarlegt, hve margir hafa stofnað til framboðs í nafni sjálfra sín eða eigin flokks, eftir að hafa orðið undir meðal þeirra, sem áður veittu þeim umboð sitt. Velji menn að stofna til einkaframboðs, eftir að hafa verið hafnað af rótföstum stjórnmálaflokki, tjalda þeir til einnar nætur í einskonar flóttamannabúðum og hafa lítil áhrif á landstjórnina, nema þar ríki almennt uppnám.

 

Hafi menn verið valdir til opinberra trúnaðarstarfa með lýðræðislegan meirihluta á bakvið sig, eiga þeir sjaldan aðra útgönguleið en segja af sér, ef meirihlutinn brestur. Í ríkisstjórnum Austurríkis og Hollands varð óeining innan flokka Haiders og Fortuyns til þess að ráðherrum flokkanna var ekki lengur sætt og stjórnirnar féllu. Baklandið, eins og stuðningsmannahópurinn er nú gjarnan nefndur, brast og þar með forsendan fyrir meirihluta að baki ríkisstjórnum.

 

Hitt gat einnig gerst, að forsætisráðherrann í Vín gengi fram með þeim hætti, að stuðningsflokkur hans hefði af þeim sökum sagt skilið við hann. Jafnvel hefði Haider getað sett Schüssel skilyrði; veldi hann ekki á milli tveggja skýrra kosta, yrði hann að víkja, ekki yrði þolað, að hann kysi báða kosti. Ef Schüssel hefði haft viðvörun Haiders að engu og setið sem fastast, hefði mátt saka austurríska forsætisráðherrann um að brjóta gegn þingræðinu og lýðræðislegum leikreglum, jafnvel þótt hann ætti í höggi við mann eins og Haider.

 

***

 

 

Þótt Lionel Jospin hafi horfið úr sviðsljósi franskra stjórnmála eftir ósigurinn 21. apríl og ekki sagt neitt um þróun þeirra opinberlega síðan, er enn fylgst grannt með hverju pólitísku skrefi, sem hann stígur. Í nóvember var sagt frá því, að hann hefði skráð sig í flokksdeild sósíalista í 18. hverfi Parísar og væri með því að tryggja sér rétt til að kjósa fulltrúa á landsþing flokksins á næsta ári í borginni Dijon. Kannanir sýna, að Jospin hefur langmest fylgi sósíalista sem frambjóðandi í forsetakosningum 2007.

 

Hér skal engu spáð um framtíð Jospins eða stjórnmála almennt í þeim Evrópulöndum, sem hafa verið nefnd til sögunnar. Hvarvetna hefur verið tekist á innan ramma leikreglna lýðræðisins og menn sætt sig við þau mörk, sem þær setja þeim. Hvergi hefur neinum forystumanni dottið í hug, að hafa viðhorf stuðningsmanna sinna að engu og segja þeim að hafa sig hæga, forystumaðurinn einn viti, geti farið sínu fram og þurfi ekki að taka tillit til sjónarmiða annarra. Að virða leikreglur lýðræðisins að vettugi með þrásetu í embætti, eftir að meirihluti að baki valdsmanni brestur, er hvergi réttlætanlegt. Valdsmaðurinn á það hins vegar við sjálfan sig, hvernig hann hagar eigin pólitískri framtíð.