7.12.2002

Samþykkt fjárlög og hálfunnin fjárhagsáætlun

Vettvangur í Morgunblaðinu, 7. desember, 2002.


 

AFGREIÐSLU fjárlaga fyrir árið 2003 er lokið á alþingi. Sitt sýnist hverjum eins og jafnan, þegar stjórnmálamenn fara höndum um skattfé almennings. Eðlilegt er, að gerðar séu kröfur um gegnsæi og efnislegan rökstuðning, þegar fjármunum er skipt með fjárlögum. Oft er sagt, að ríkissjóður eigi í raun fáa vini og helst sé hann í hættu, þegar stjórnmálamenn búa sig undir kosningar eins og nú er, því að þá sé mest freisting fyrir þá að nýta sér aðstöðu sína til að deila út peningum í því skyni að afla sér stuðnings meðal kjósenda.

Í vikunni var fyrri umræða um fjárhagsáætlun stærsta sveitarfélagsins, Reykjavík. Er ólíkt að taka þátt í undirbúningi og umræðu um hana en fjárlög ríkisins, að því leyti að fyrir þingmenn er dæmið lagt í heild strax frá fyrsta degi, en fjárhagsáætlun Reykjavíkur er kynnt í bútum. Fyrst er lagður fram sá hluti hennar, sem byggist einkum á skatttekjum, síðar á svo að leggja fram áætlunina í heild, en þá fyrst gefst tækifæri til að átta sig á raunverulegri fjárhagsstöðu borgarinnar.

Vegna þessarar sérkennilegu aðferðar við að leggja fram fjárhagsáætlun Reykjavíkur sá ég ástæðu til að leita álits félagsmálaráðuneytisins á því, hvort það stæðist sveitarstjórnalög að leggja áætlunina fyrir í bútum. Ráðuneytið sagðist ekki hafa tekið formlega afstöðu til málsins en komst óformlega, hvernig sem það er unnt í máli sem þessu, að þeirri niðurstöðu, að bútasaumurinn við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar væri líklega viðunandi, af því að draga ætti fram í janúar og fjölga fundum við að afgreiða hana. Rök ráðuneytisins fyrir þessari óformlegu afstöðu eru veik, svo að ekki sé meira sagt, þegar litið er til sveitarstjórnalaganna. Hitt er einsdæmi, að þrjár umræður þurfi til að afgreiða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Hvernig halda menn, að þingmenn tækju því, ef fjármálaráðherra dytti í hug, að leggja aðeins fram hluta af fjárhagsdæmi ríkissjóðs við fyrstu umræðu fjárlaga? Að sjálfsögðu dytti engum í hug að standa þannig að málum. Þetta gerist hins vegar í borgarstjórn Reykjavíkur með að minnsta kosti óformlegri blessun félagsmálaráðuneytisins.

Útgjaldaþenslan hjá Reykjavíkurborg á því kosningaári, sem nú er að líða, ber þess merki, að stjórnendur borgarinnar hafi fallið fyrir einhverjum freistingum á árinu. Nú á hins vegar að taka sér tak, því að tillögu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra ætlar hún með R-listamönnunum Árna Þór Sigurðssyni (vinstri/grænum) og Stefáni Jóni Hafstein (samfylkingarmanni) að setjast í sparnaðarnefnd í því skyni að vinda ofan af útgjöldum, vinna að sparnaði og hagræðingu. Nú á að setja upp sparnaðarsvipinn í stað útgjaldabrossins á kosningaári.

Þessir þrír ágætu borgarráðsfulltrúar mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ásamt með framsóknarmönnum innan R-listans, sem lúta forystu Alfreðs Þorsteinssonar. Vekur óneitanlega athygli, að Alfreð skuli ekki valinn í sparnaðarnefndina, heldur sitja þar tveir samfylkingarmenn og einn vinstri/grænn. Hvað sem því líður er sérkennilegt, að sama dag og borgarráð leggur lokahönd á þann hluta fjárhagsáætlunar Reykjavíkur, sem nú hefur verið kynntur, er ákveðið, að þeir setjist í sérstaka sparnaðarnefnd, sem hafa reist borgarsjóði hurðarás um öxl með útgjaldaþenslu á því fjárhagsári, sem senn kveður.

Með vísan til ábyrgðar R-listans á útgjaldaþenslu borgarsjóðs og skuldasöfnunar í nafni Reykvíkinga ákváðu sjálfstæðismenn í borgarráði að hafna boði um setu í þessari dæmalausu sparnaðarnefnd. Er mikilvægt, að ábyrgð sé skýrt skilgreind í störfum sveitarstjórna ekki síður en á alþingi, þar sem menn skipast í stjórn og stjórnarandstöðu.

Stærstur hluti útgjalda ríkisins rennur til heilbrigðis- og tryggingamála. Að þessu sinni skríður kostnaðurinn í fyrsta sinn yfir 100 milljarða. Á þessu sviði er einnig mest deilt opinberlega um, hvernig nýta beri opinbera fjármuni. Furðulegur er málflutningur þeirra, sem segja, að ekki megi virkja krafta einkaaðila í þágu hins opinbera heilbrigðiskerfis. Er fráleitt að halda því fram, að umbætur í þá átt jafngildi einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu eða mismunun á milli fólks eftir efnahag. Í Svíþjóð fara sveitarfélög með yfirstjórn heilbrigðisstofnana. Í Stokkhólmi og víðar hafa sveitarstjórnir farið inn á þá braut að nýta sér kosti einkareksturs til að nýta fjármuni sem best í þágu heilbrigðiskerfisins. Sænsk-íslenska verslunarráðið efndi í lok september til fundar í Reykjavík um einkarekstur á sviði heilbrigðismála. Frummælandi var Johan Hjertqvist frá Timbro-stofnuninni í Svíþjóð, sem er höfundur bókarinnar The Health Care Revolution in Stockholm, sem á íslensku mætti nefna Heilbrigðisbyltingin í Stokkhólmi, en virkjun einkaframtaks í heilbrigðiskerfinu þar hefur vakið heimsathygli.

Breytingarnar í Stokkhólmi felast ekki í því, að skattfé sé ekki lengur notað til að standa undir kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Þeir, sem búa við þröng fjárhagsleg kjör, eru ekki verr settir gagnvart þessari þjónustu en þeir, sem meira mega sín. Samskonar reglur gilda þar og hér um sama aðgang allra að heilbrigðiskerfinu án tillits til efnahags. Í Svíþjóð greiða menn um 1.000 til 2.500 krónur fyrir að nýta sér þjónustu kerfisins. Þeir sem eru á félagslegu framfæri eiga rétt á sérstökum stuðningi til að greiða þetta gjald.

Í Stokkhólmi geta menn ekki keypt sér aðgang að sjúkraþjónustu. Allir, sem nýta sér þá þjónustu, sem kostuð er af skattfé, verða að sætta sig við samskonar biðlista. Skiptir þá engu máli, hvort menn snúa sér til þess, sem starfar sjálfstætt á grundvelli verktakasamnings eða borgarrekinnar stofnunar. Hið opinbera stendur undir lyfjakostnaði á sjúkrahúsum. Allir búa þar við sömu aðstæður og fæði, ekki er unnt að fá séstakan aðbúnað á opinberum sjúkrahúsum með því að borga meira. Þeir, sem sætta sig ekki við þá aðstöðu, sem sköpuð er með opinberum fjármunum, geta í Svíþjóð verið alfarið í höndum einkaaðila og bera þá allan kostnað sjálfir - sænska kerfið leyfir það en bannar ekki.

Innan þessa kerfis í Stokkhólmi er lögð áhersla á árangur. Í stað fastra fjárveitinga fá sjúkrahús fé í samræmi við árangur í starfi þeirra og hafa verið settar mælistikur til að meta hann. Markaðsaðferðir eru nýttar með því að keppt er um opinbera samninga á grundvelli útboða. Öllum sjúkrahúsum hefur verið breytt í fyrirtæki undir eigin stjórn. Skil eru á milli kaupanda þjónustu og þess, sem veitir hana. Starfsmönnum í opinberri þjónustu hefur verið veitt fræðsla og aðstoð til að auðvelda þeim að stofna eigin þjónustufyrirtæki.

Hvort heldur er hlustað á vinstrisinna í borgarstjórn eða á alþingi ræða um ráðstöfun á opinberu fé, er undarlegt að heyra þær röksemdir, að betur sé farið með skattfé almennings í höndum opinberra aðila, þar sem ábyrgðin er oft óljós, en einkaaðila, sem sjálfir taka áhættu. Rík tilhneiging er innan hins opinbera kerfis að þenja sig út. Hlutverk stjórnmálamanna er að stöðva slíka útþenslu í stað þess að ýta undir hana. Þannig þjóna þeir hagsmunum umbjóðenda sinna best. Opinbera kerfið sér um sig sjálft og haldi kerfistrúarmenn um hinn pólitíska stjórnvöl, er það oft eins og hellt sé olíu á eld.

Stjórnmálamenn eiga að hafa forystu innan hins opinbera kerfis við að skilgreina verkefni og þjónustu við umbjóðendur sína á þann veg, að unnt sé að fela einkaaðilum að sjá um framkvæmdina og þeim sé greitt af skattfé almennings í samræmi við þann árangur, sem þeir skila. Jafnvel þessi hugsun er bannorð hjá vinstrisinnum hér á landi.

Skýrasta dæmið um gildi þess að virkja einkaaðila í samstarfi við opinbera er á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðar. Því miður sjást þess of mörg dæmi, að "ríkisvæðing" í þekkingariðnaði sé að aukast í stað þess að verkefni séu með útboði falin einkaaðilum. Forðast ber, að opinberir aðilar þenjist út á þessu sviði eins og öðrum og menn sitji síðan eftir nokkur ár uppi með stöðnuð fyrirtæki, sem engum finnst í raun eiga heima undir opinberri stjórn og fá ekki lífsmark nema stefnt sé að því að einkavæða þau.