Róið á röng mið
Bréf í Morgunblaðinu 10.12.02
Vill Jakob Frímann lækka skatta á þennan iðnað og breyta skattheimtu. Þá vill hann opinberan ferða- og markaðssetningarsjóð og nefnir til sögunnar útflutnings- og tónlistarsjóð, sem hann segir lengi hafa verið á teikniborði viðskipta- og iðnaðarráðherra en ég hafi veitt hugmyndinni markvissa og staðfasta andstöðu og beri "stærsta ábyrgð á því að málið er aftur komið á núllpunkt".
Hér er hallað réttu máli, eins og ég hef margsinnis skýrt, en þessi stjórnmálaandstæðingur minn vill ekki viðurkenna. Áður en ég kem að sjóðnum vil ég minna Jakob Frímann og aðra á þá staðreynd varðandi skattamálin, að ég beitti mér fyrir niðurfellingu skemmtanaskatts, sem hafði um árabil verið þyrnir í auga tónlistarmanna.
Í tíð minni tilnefndi menntamálaráðuneytið fulltrúa í nefnd á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins til að fjalla um sjóðinn, sem Jakobi Frímanni er svo kær. Frá nefndinni kom tillaga að frumvarpi. Þegar fjallað var um frumvarpið á vettvangi ríkisstjórnar spurði ég, hvort þetta málefni félli undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti eða menntamálaráðuneyti. Forsætisráðuneytið svaraði spurningunni á þann veg, að málið félli undir menntamálaráðuneytið. Beindi ég málinu þá í þann farveg, að tekið yrði af skarið í heildarlöggjöf um tónlistarmálefni, en vinnu við hana hafði ég ýtt úr vör.
Rói menn á röng mið fiska þeir ekki. Þeir, sem treysta leiðsögn Jakobs Frímanns Magnússonar vegna þessa frumvarps, róa á röng mið. Fráleitt er fyrir Jakob Frímann að varpa eigin ábyrgð á mínar herðar.
Að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið skuli ekki hafa áttað sig sjálft á valdmörkum sínum í þessu máli heldur hafi forsætisráðuneytið þurft að úrskurða um þau er umhugsunarefni fyrir áhugamenn um stjórnsýslulega hlið málsins. Málflutningur Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, meðal annars hér í Morgunblaðinu, vegna andstöðu við raforkulagafrumvörp hennar í þingflokkum ríkisstjórnarinnar, sýnir, að henni er hvorki tamt né auðvelt að líta í eigin barm til að leita að farsælli leið fyrir frumvörp sín, þegar þeim er andmælt með skýrum og efnislegum rökum.