5.12.2002

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar

Fyrri umræða.

 

 

Á þessu kosningaári hafa verið lausatök á fjármálum Reykjavíkurborgar. Að loknum kosningum hefði mátt ætla, að mörkuð yrði skýr og afdráttarlaus stefna um viðfangsefni næstu fjögurra ára og þessi stefna mótaði fyrstu fjárhagsáætlun kjörtímabilsins. Málum er alls ekki þannig háttað, þvert á móti er spólað áfram í sama farinu. Tilraunum til að sporna gegn þenslunni er beint að gömlu fólki, börnum á leikskólaaldri og foreldrum þeirra.

 

Fjármálastjórn Reykjavíkurborgar hefur einkennst af þenslu og mikilli skuldasöfnun undanfarin ár. Á næsta ári heldur þessi þróun áfram skatttekjur hækka samkvæmt fjárhagsáætlun um rúm 5% og rekstrargjöld um 7%. Þenslan eykst og samkvæmt þeim hluta af fjárhagsáætlun, sem hér er kynntur, hækka skuldir en minnka ekki. Þegar R-listinn tók við voru heildarskuldir Reykjavíkur rúmir 3 milljarðar - nú eru þær komnar á fimmta tug milljarða! Þetta segir í raun allt sem segja þarf um fjármálastjórnina. Í ár jukust skuldir um 2 milljarði króna, þvert á áætlun um skuldalækkun.

 

Gjaldskrár hækka. Þegar hefur verið kynnt 12% hækkun húsaleigu hjá Félagsbústöðum og 8% hækkun leikskólagjalda. Samkvæmt fjárhagsáætluninni á að hækka tímagjald fyrir heimaþjónustu um 30%, hækka á þjónustugjöld í íbúðum aldraðra um 11,7% og sama hækkun verður á gjöldum fyrir námskeið í félags- og þjónustumiðstöðvum, einnig á verði matar- og kaffiveitinga, akstur vegna heimsendingar á mat hækkar um 13%. Gjaldskrá fyrir mengunar- og heilbrigðiseftirlit hækkar um 13,17% og fyrir sorphirðu fyrir íbúðarhúsnæði um 10% og fyrir atvinnurekstur um 15%. Loks hækkar gjaldskrá vegna hundahalds og munar mest um rúmlega 25% hækkun á árlegu eftirlitsgjaldi.

 

Á þessu ber R-listinn ábyrgð!  Hann ber líka ábyrgð á því að á undanförnum dögum og vikum höfum við séð fálmkenndar aðgerðir til að spara, sem beinast að gömlu fólki og leikskólabörnum.  Ætlunin er að að spara 12 milljónir með sumarlokunum leikskóla, sem bitnar hart á barnafjölskyldum í borginni!  Þetta er álíka fjárhæð og R-listinn vill verja til þess nýmælis að standa undir kostnaði við sérfræðiaðstoð fyrir borgarstjórnarflokka eins og það er orðað.  Þessum styrk höfnum við sjálfstæðismenn.  Við teljum ekki að skattfé borgarbúa eigi að ráðstafa með þessum hætti.  Okkar tillaga er því sú að það fé sem R-listinn vill leggja í styrk til starfa borgarfulltrúa, að upphæð 11,3 milljónir króna, verði færður til leikskólanna og þannig verði komið í veg fyrir sumarlokanir þeirra, sem eiga að spara 12 milljónir króna.

 

R-listinn ber ábyrgð á því að draga saman í félagsþjónustu við aldraða og spara þar um 15 milljónir króna!  Léttvæg fjárhæð fyrir borgarsjóð en niðurskurðurinn raskar lífsmynstri þeirra, sem þjónustunnar njóta.

 

R-listinn ber ábyrgð á því, að hækkun leigu í Félagsbústöðum bitnar helst á einhleypum konum og einstæðum foreldrum, sem flestar eru konur.

 

Og þessi sami R-listi ber ábyrgð á því, að Orkuveita Reykjavíkur keypti nýlega ljósleiðarakerfið af Línu.Neti fyrir tæpar 1800 milljónir króna og hann beitir sér fyrir því, að nú rís höfuðstöðvahús undir orkuveituna, sem mun kosta á 4 milljarð króna!  

 

Með þessu er í raun sagt allt, sem segja þarf um forgangsröðun R-listans, þegar hagsmunir borgarbúa eru annars vegar. 

 

Fjármálastefna R-listans ber þess merki, að hann hafi misst sjónar á því meginhlutverki okkar borgarfulltrúa að tryggja borgarbúum góða grunnþjónustu. Borgarbúar vilja geta treyst því, að borgin standi vörð um leikskólana þeirra. Borgarbúar vilja, að borgin búi eldri borgurum þægilegt ævikvöld. Í stað þess að setja verkefni af þessum toga í öndvegi við ráðstöfun opinberra fjármuna er sex milljörðum króna varið í gæluverkefni undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem Reykjavíkurborg er um 93% eigandi.

 

Við minnumst þess öll úr kosningabaráttunni á liðnum vetri, að hart var tekist á um fjármál og skuldastöðu Reykjavíkurborgar. Sýndist sitt hverjum og litu menn oft til ólíkra þátta, þegar um málin var rætt. Stafaði ágreiningurinn um efnistök meðal annars af því, að við sjálfstæðismenn töldum rétt og eðlilegt að hafa fjárhag borgarsjóðs Reykjavíkur, stofnana og félaga í eigu borgarinnar, svonefndan samstæðureikning til hliðsjónar, en aðrir vildu skilgreina viðfangsefnið með þrengri hætti og líta aðeins á borgarsjóðinn sjálfan, það er þann hluta af fjárhagslegri starfsemi Reykjavíkurborgar, sem borinn er uppi af skatttekjum, útsvari og fasteignasköttum.

 

Hér í dag erum við aðeins að ræða hluta af fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, það er þann hluta, sem er borinn uppi af skatttekjum. Við upphaf umræðunnar mótmæli ég þessari málsmeðferð. Er með öllu óviðunandi, að ekki skuli staðið þannig að framlagningu fjárhagsáætlunarinnar, að hún nái yfir borgarsjóð auk stofnana og fyrirtækja borgarinnar, sem mynda samstæðureikninginn.

 

Skýringar borgarstjóra í þá veru, að breyttar reikningsskilareglur kalli á þetta ófullburða frumvarp að fjárhagsáætlun, eru fráleitar. Hvergi er gert ráð fyrir því í lögum, að áætlunin sé lögð fram í pörtum.

 

Ástæðan fyrir þessari hálfköruðu fjárhagsáætlun er sögð skortur á upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum dótturfyrirtækjum hennar, en þar er Lína.Net frægast eins og við vitum. Virðist enginn endir á því, hve seint og illa gengur að afla upplýsinga um það fyrirtæki. Borgarstjóri hefur ítrekað neitað að ræða kaupin á ljósleiðarakerfinu hér í borgarstjórn. Stjórnarmenn orkuveitunnar fá ekki svör við spurningum um fjárhag Línu.Nets og frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er hálfsmíðað vegna skorts á upplýsingum um Línu.Net.

 

Þótti mér það með slíkum ólíkindum, að hér ætti ekki að leggja fram heildstæða fjárhagsáætlun, að ég spurðist fyrir um það hjá félagsmálaráðuneytinu, hvort löglegt væri að leggja hana fram í bútum.

 

Í 21. gr. sveitarstjórnarlaga segir, að sveitarstjórnir skuli hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja. Í þessari lagagrein er ekki veitt nein undanþága frá því að leggja gögn þessara aðila fram samtímis til tveggja umræðna.  Samkvæmt orðanna hljóðan er þessu lagaákvæði  því aðeins fylgt, ef fyrir okkur borgarfulltrúa er lögð fjárhagsáætlun, sem nær til Reykjavíkurborgar, stofnana hennar og fyrirtækja. Það hefur ekki verið gert.

 

Lýsi ég ábyrgð á hendur borgarstjóra fyrir að fjárhagsáætlunin sé vanbúin að þessu leyti, þegar hún er lögð hér fram. Að standa þannig að verki er þeim mun einkennilegra, vegna þess að á árinu 2000 þurfti Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi að knýja á um það með úrskurði félagsmálaráðuneytisins, að borgarstjóri og samstarfsmenn hennar við gerð fjárhagsáætlunar kynntu hana í samræmi við sveitarstjórnarlög. Hefði mátt ætla, að eftir þann úrskurð yrði þess gætt í hvívetna, að öll gögn, sem höfuðmáli skipta, yrðu lögð með viðunandi hætti fyrir borgarstjórn.

 

Með hliðsjón af áformum félagsmálaráðuneytisins árið 2000 um að ætla að herða kröfur til sveitarfélaganna við gerð fjárhagsáætlana, þótti mér eðlilegt að kanna, hvort það teldi nú rétt að málum staðið hjá borgarstjóra.

 

Svar ráðuneytisins, sem mér barst sl. þriðjudag,  sýnir, að full ástæða var til að draga lögmæti vinnubragða borgarstjóra í efa. Ráðuneytið segist  ekki hafa tekið afstöðu til  málsins  með formlegum hætti en kemst samt að niðurstöðu um það. Vekur þetta svar stjórnsýslulegar spurningar, sem ég ætla þó ekki að svara hér. Ráðuneytið segir, að embættismenn borgarinnar hafi í óformlegum viðræðum við ráðuneytið viðrað hugmyndir, sem ætlað sé að tryggja vandaðri málsmeðferð við afgreiðslu svonefnds b-hluta fjárhagsáætlunar borgarinnar, eins og það er orðað.

 

Þessi „vandaðri” meðferð felur í sér, að búta fjárhagsáætlunina niður og ræða hana á þremur fundum í stað tveggja. Er þakkarvert, að ekki skuli vera nein c-hluta fyrirtæki á vegum borgarinnar, því að með þessum rökum væri þá unnt að skera fjárhagsætlunina niður í enn fleiri búta til að lengja afgreiðsluferlið og flækja enn heildarmyndina, sem á þó að sjálfsögðu að vera skýr, þegar fjallað er um frumvarpið. 

 

Segist ráðuneytið hafa aflað sér þeirra upplýsinga frá Reykjavíkurborg, að fjárhagsáætlanir annarra b-hluta fyrirtækja Reykjavíkurborgar verði lagðar fram á fundi borgarstjórnar 19. desember nk. og muni þá einnig liggja fyrir samantekin fjárhagsáætlun. Gert sé ráð fyrir því, að hinn 19. desember muni fara fram síðari umræða um a-hluta fjárhagsáætlunar og fyrri umræða um b-hluta áætlunarinnar en síðari umræða um b-hlutann fari síðan fram í fyrri hluta janúarmánaðar 2003.

 

Voru þetta ný tíðindi fyrir mig, þegar ég las um þau í bréfi ráðuneytisins, að ekki ætti að afgreiða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 á fundinum 19. desember heldur eftir áramót. Er það einsdæmi, að þrjár umræður séu um fjárhagsáætlun hér í borgarstjórn og ekki í samræmi við lög.

 

Er nauðsynlegt, að forseti borgarstjórnar upplýsi okkur um það, hvernig á að standa að afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar. Hvort bera eigi hana upp til samþykktar eða synjunar í bútum eða einni heild.

 

Þrátt fyrir þessa einstæðu málsmeðferð, telur félagsmálaráðuneytið ekki ástæðu til að ætla, að hún sé í andstöðu við ákvæði 61. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Eins og áður sagði stendur þessi niðurstaða ráðuneytisins á mjög veikum grunni, svo að ekki sé meira sagt, og er undarlegt, að ráðuneytið líti ekki til 21. greinar sveitarstjórnarlaganna. Þar er alls ekki gert ráð fyrir, að frumvarp að fjárhagsáætlun sé lagt fram í pörtum og mælt er fyrir um tvær umræður um það. Að sjálfsögðu á heildarmyndin að blasa við okkur borgarfulltrúum, þegar fjallað er um fjárhagsáætlunina í fyrri umræðu. Það sýnir best lausatökin við gerð þessarar áætlunar, að ekki sé einu sinni unnt að fullnægja þessari grundvallarkröfu.

 

 

Ég hef ekki áður tekið þátt í umræðum um fjárhagsáætlun hér í borgarstjórn eða í þeirri vinnu, sem býr að baki áætluninni, og felst meðal annars í því, að áætlanir einstakra sviða eru kynntar og ræddar í borgarráði. Af þeim umræðum dreg ég þá ályktun, að mikill metnaður sé víða í borgarkerfinu og viðleitni til að veita góða og fjölbreytta þjónustu. Hitt var sérkennilegt, að eftir að skýrslur höfðu verið gefnar og farið yfir einstaka þætti, kom fram tillaga frá borgarstjóra um 514 milljón króna flatan niðurskurð á áætluninni fyrir næsta ár, sem hefur ekki verið útfærður.

 

Ber þessi tillaga enn merki um lausatök og að tilviljun ræður oft, hvaða niðurstaða fæst innan stjórnsýslu borgarinnar. Eru mál sett á flot, án þess að auðvelt sé að átta sig á því, hvaða rök eru þar að baki. Nefni ég þá enn á ný, hve illa hefur verið staðið að ákvörðunum um framtíð þjónustu við eldri borgara á heimilunum við Dalbraut, Lönguhlíð og Furugerði og vandræðganginn vegna áforma um fjögurra vikna sumarlokun leikskóla borgarinnar. Í báðum tilvikum ber mál að með þeim hætti, að rökin á bakvið ákvarðanirnar eru mjög misvísandi. Hver veit, hvort þau eru fjárhagslegs eðlis, byggjast á hugmyndafræðilegum sjónarmiðum eða jafnvel viðleitni til að hafa vit fyrir gömlu fólki eða foreldrum leikskólabarna  um hvað þeim sé fyrir bestu.

 

Þessi flausturslegi undirbúningur birtist í fleiri myndum. Þrátt fyrir að borgaryfirvöld hefðu undir höndum álit borgarlögmanns um, að breyting á lögreglusamþykkt til að koma á banni við einkadansi, væri í andstöðu við ákvæði stjórnaraskrárinnar um atvinnuréttindi, var siglt áfram með málið til dómsmálaráðherra. Kann bannið að leiða til skaðabótakrafna á hendur borgarsjóði og þar með aukinna útgjalda á kostnað skattgreiðenda.

 

Á liðnu sumri lá svo mikið á að taka ákvarðanir um bílastæðahús undir Tjörninni hér austan við ráðhúsið, að efnt var til blaðamannafundar um afgreiðslu borgarráðs um málið, áður en henni var lokið. Þá var sagt, að framkvæmdir í Tjörninni hæfust nú í haust, enda mundi málið fara með hraði í gegnum nefndir borgarinnar. Enn hafa þær þó ekki lokið umsagnarferlinu og allt óljóst um framtíð málsins.

 

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár kemur síðan fram í starfsáætlun Bílastæðasjóðs, að nýting bílastæðahúsa í miðborginni hefur minnkað. Mælist nýting Kolaports, Bergstaða og Traðarkots umtalsvert lægri í ár en áður og samt er ekki gert ráð fyrir, að tekjur sjóðsins aukist á árinu 2003.

 

Umsvif Bílastæðasjóðs eru mælikvarði á þróun umferðar í miðborginni. Hún dregst saman á sama tíma og viðskipti og verslun aukast annars staðar. Þrátt fyrir minnkandi tekjur sjóðsins, hefur R-listinn ákveðið að nota fjármuni hans til að styrkja starfsemi Þróunarfélags Reykjavíkur, án þess að fullnægjandi greinargerð hafi legið fyrir af hálfu félagsins um það, hvernig þessir fjármunir skyldu nýttir.

 

Handahófskennd vinnubrögð við gerð áætlana eru síður en svo einsdæmi. Fyrir kosningar var töluvert rætt um gildi áætlanagerðar um fjárhag Reykjavíkurborgar. Töldum við sjálfstæðismenn, að þar væri nauðsynlegt að standa betur að verki. Réttmæti þeirrar gagnrýni er auðvelt að staðfesta þegar litið er á framvindu fjármála Reykjavíkurborgar á þessu ári.

 

Hinn 1. febrúar 2001 samþykkti borgarstjórn þriggja ára áætlun fyrir árin 2002 til 2004. Þann dag var talið, að í árslok 2002 yrðu heildarskuldir Reykjavíkurborgar án lífeyrisskuldbindinga 33.901 m. kr. Þegar síðan kom að því að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 í desember 2001 var þessi tala um heildarskuldir borgarinnar komin í 44. 692 m. kr. og nam frávikið sem sagt 10.791 m.kr., það er frávikið var 32%.

 

Því miður liggur ekki fyrir útkomuspá um heildarskuldirnar í lok þessa árs, en eitt er víst, að þeir, sem kalla þetta nákvæmni í áætlanagerð, eru ekki með háar kröfur í því efni. Í skjóli þess, að heildarskuldir eru ekki birtar í frumvarpinu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 eru síðan dregin upp súlurit fyrir fjölmiðla til að slá sér upp á því, að skuldir á hvern Reykvíking séu lægri en skuldir á íbúa í öðrum sveitarfélögum.

 

Er með ólíkindum að fylgjast með þessari sjálfsblekkingu R-listans um hina raunverulegu skuldastöðu Reykjavíkurborgar og borgarbúa. Er ekki aðeins trúverðugleiki borgarstjóra í húfi við slíka kynningu á skuldum Reykvíkinga vegna sameiginlegrar ábyrgðar í nafni R-listans heldur einnig þeirra embættismanna, sem taka þátt í því að setja mál fram þessum hætti.

 

Við höfum nú upplýsingar um skuldaþróunina hjá borgarsjóði á árinu 2002, það er þeim hluta af fjárhagsáætluninni, sem hér er til umræðu. Samkvæmt útkomuspá hækka skuldir borgarsjóðs um tvo milljarði króna umfram áætlun á þessu ári, að sögn vegna fjárfestinga í landi og lóðum. Gengur það gegn línuritunum, sem birt voru af borgaryfirvöldum fyrir kosningar og sýndu stórlækkun skulda borgarsjóðs. Gerði fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 ráð fyrir 638 milljón króna afgangi í stað þessarar nýju skuldar! Í 9 mánaða árshlutauppgjöri borgarsjóðs er jafnframt vakin athygli á mikilli óvissu um fjárbindingu borgarsjóðs vegna eftirstöðva skatttekna, sem fjármagna þarf með lántöku - skuldir borgarsjóðs kunna með öðrum orðum enn að aukast fram að áramótum.

 

Samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2002 verða skuldir borgarsjóðs fyrir utan lífeyrisskuldbindingar tæpir 17 milljarðar í lok þessa árs í stað 15, 5 samkvæmt þriggja ára áætlun og ekki er gert ráð fyrir að skuldir lækki á næsta ári samkvæmt frumvarpinu að fjárhagsáætlun, sem nú er lagt fram, heldur hækki um 180 milljónir króna á milli ára, þegar miðað er við verðlag frumvarpsins.

 

Að gefnu tilefni vegna súlurita borgarstjóra um þróun skulda bendi ég á blaðsíðu 6 í frumvarpinu, sem hefur verið lagt fram.  Þar segir, að samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2002 verði skuldir borgarsjóðs samtals án lífeyrisskuldbindinga 16.720 milljónir króna í lok þessa árs en 16.897 milljónir í lok árs 2003, sem jafngildir 177 milljón króna hækkun skulda samkvæmt frumvarpinu.  Í súluritunum sem hönnuð hafa verið til að fegra frumvarpið við kynningu fyrir fjölmiðlamenn, eru hins vegar notaðar aðrar verðlagsforsendur til að sýna, að skuldirnar lækki um 120 milljónir króna!

 

Helsta rósin í hnappagati borgarstjóra við opinbera kynningu á þessu frumvarpi er, að af 28 milljarða króna skatttekjum af borgarbúum og af öðrum tekjum, sem nema tæpum 6 milljörðum, af 34 milljarða tekjum, séu 4,4 milljarðir til ráðstöfunar til að sinna framkvæmdum og borga skuldir, sem hækka að vísu milli ára samkvæmt frumvarpinu. Borgarbúar greiða einmitt skatta í borgarsjóð til að standa undir því að byggja skóla og íþróttamannvirki og leggja götur. Það er einfaldlega bæði sjálfsagt og eðlilegt. Þeir vilja einnig komast undan því að bera þyngri skuldabagga, sem gengur ekki eftir á næsta ári. Að flagga því sérstaklega, að nota eigi tekjur borgarsjóðs með þessum hætti, staðfestir aðeins að ekki er verið að boða neitt nýtt með þessu frumvarpi.

 

Síðastliðinn mánudag voru sagðar fréttir af því, að trésmiðir í Reykjavík kviðu samdrætti í grein sinni vegna minnkandi byggingaframkvæmda. Kemur þetta heim og saman við þá þróun á þessu ári, að sala byggingaréttar í Reykjavík, það er að segja ágóðinn af uppboðsstefnu R-listans í lóðamálum, verður 200 m. kr. undir áætlun samkvæmt útkomuspá. Þá verða tekjur af  gatnagerðargöldum í ár 300 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Á sama tíma og eignakaup borgarinnar valda skuldaaukningu langt umfram áætlun, dregst sala á lóðum undir nýbyggingar saman.  Það verða 500 milljón króna minni tekjur af sölu og úthlutun lóða í ár, en áætlað hafði verið. Þetta er ávöxturinn af uppboðs- og skömmtunarstefnunni í lóðamálum.

 

Ekki er líklegt, að breyting verði til batnaðar í þessu efni, því að í samningi Reykjavíkurborgar við Rauðhól, væntanlegan byggingaraðila á Norðlingaholti, er gert ráð fyrir, að Rauðhóli verði tryggt hæsta hugsanlegt verð auk þess sem byggingarréttur verði ekki seldur annars staðar, ef Rauðhóll hefur ekki náð markmiðum sínum. Það á með öðrum orðum ekki að slaka neitt á uppboðs- og skömmtunarstefnunni, þótt hún leiði til tekna undir áætlun og húsnæðisskorts í borginni.

 

Hvernig sem á þetta frumvarp er litið, er nauðsynlegt að hafa fyrirvara um gildi þess. Hvort heldur rætt er um lögmæti aðferðarinnar við að leggja það fram eða einstakar tölur, sem þar eru birtar. Í mörgum tilvikum er aðeins um tölur á blaði að ræða, án þess að tryggt hafi verið til hlítar með skýrri pólitískri stefnu, að hinum fjárhagslegu markmiðum verði náð.

 

Hvaða stefna hefur til dæmis ráðið, þegar viðbótarlán hafa verið veitt vegna íbúðarlána? Í níu mánaða árshlutauppgjöri borgarsjóðs kemur fram, að fimm prósenta framlag vegna þessara viðbótarlána stefnir í 120 milljónir króna, sem er 60 milljónum króna eða 100% umfram áætlun ársins. Er ekki að undra þótt í greinargerð með uppgjörinu segi: „Í undirbúningi er frekari greining á þessari þróun m. a. athugun á verklagi og reglum við afgreiðslu viðbótarlána.”

 

Ég spyr:  Hvers vegna hefur borgarráði ekki verið gerð grein fyrir þessari þróun við ráðstöfun viðbótarlána og þeirri stefnu, sem ræður við að skuldbinda borgarsjóð með þessum hætti?

 

Hér er um póltískt viðfangsefni að ræða og er brýnt að mótuð verði stefna um nýtingu á fé til viðbótarlána, svo að borgararnir viti, að hverju þeir geta gengið og ekki skapist sú óvissa, sem ríkir núna vegna þess, að Félagsþjónusta Reykjavíkur hefur gefið loforð um fleiri lán en fjárveitingar frá Íbúðalánasjóði leyfa og hefur sjóðurinn þó leitast við að koma til móts við óskir Félagsþjónustunnar með auknum lánsheimildum til hennar.

 

Því er nú spáð, að rekstrarútgjöld borgarsjóðs verði 899 milljónir króna umfram fjárhagsáætlun líðandi árs. Er þar annars vegar athyglisvert hve umhverfis- og heilbrigðismál fara mikið fram úr áætlun og hins vegar hve mikil útgjaldaþensla er á sviði Félagsþjónustunnar. Er kostnaður við fjárhagsaðstoð hennar orðin 42% hærri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Þegar þessar tölur eru kynntar, hlýtur sú spurning að vakna, hvort farið hafi verið ofan í saumana á þessum málum til að fá haldgóðar upplýsingar um, hvað þarna er um að vera.  Á tímabilinu júlí til september í ár var fjöldi þeirra, sem þáðu fjárhagsaðstoð, 34% hærri en sömu mánuði í fyrra.

 

Eins og kunnugt er veitir Miðgarður í Grafarvogi sambærilega þjónustu og Félagsþjónustan.  Þar virðist hafa verið haldið allt öðru vísi á fjármunum til fjárhagsaðstoðar,  því að hún er innan endurskoðaðrar áætlunar. Hefur dregið úr hækkun aðstoðarinnar í Miðgarði síðustu mánuði öfugt við þróunina hjá Félagsþjónustunni. Í Miðgarði fjölgaði fjárhagsaðstoðarþegum til dæmis í september á þessu ári um 5% frá 2001 en í öðrum borgarhlutum var fjölgunin 35 til 63%.

 

Er nauðsynlegt að skýra, hvað veldur þessum mikla mun við ráðstöfun á skattfé borgarbúa til fjárhagsaðstoðar. Ætla má, að fylgt sé sömu stefnu hjá Félagsþjónustunni og í Miðgarði en hún ráðist ekki af borgarhverfum. Er skipting þeirra, sem fá aðstoð, mismunandi eða er framkvæmdin með mismunandi hætti? Sé þessi munur ekki skýrður, áður en áætlun fyrir árið 2003 kemur til framkvæmda, er áfram stefnt út í óvissu.

 

Virðulegur forseti!

 

Ég gæti haldið lengi áfram að rekja á hve veikum grunni þessi fjáhagsáætlun er reist. Það er eins og áður sagði ekki aðeins óvissa um marga stóra fjármálalega þætti hennar heldur sjálft lögmæti þess, hvernig hún er lögð fram.

 

Við síðari umræður um áætlunina verður af hálfu okkar sjálfstæðismanna  farið yfir einstaka liði hennar og þá munum við einnig gera grein fyrir breytingatillögum okkar.

 

Besta staðfestingin á því, hve mikil vantrú er á þessari áætlun, blasti við okkur borgarráðsfulltrúum á lokastigum umræðna um hana í borgarráði 26. nóvember, þegar  borgarstjóri lagði annars vegar fram tillögu um 514 milljón króna niðurskurð, sem ekki er enn útfærður samkvæmt frumvarpinu, og hins vegar um að skipuð skyldi sparnaðarnefnd með þremur borgarráðsfulltrúum til að sporna gegn útgjöldum og ná fram varanlegri hagræðingu og sparnaði í rekstri og stofnkostnaði.

 

Útgjaldaþenslan í ár er verulegt áhyggjuefni. Hún ber öll merki þess, að ekki hafi verið nægilegt aðhald á þessu kosningaári. Öll viðvörunarorð okkar sjálfstæðismanna um skuldasöfnun  höfðu andstæðingar okkar að engu síðastliðið vor og látið var í veðri vaka, að síst af öllu þyrftu Reykvíkingar að hafa áhyggjur af afkomu borgarsjóðs. Annað er nú uppi á teningnum. Nú segja þeir, sem hæst létu þá um ágæti eigin fjármálastjórnar, að skipa þurfi sparnaðarnefnd og eru undrandi á því, að við viljum ekki setjast í hana með þeim.

 

Hvers vegna í ósköpunum skyldum við tilnefna fulltrúa í slíka nefnd?  Þeir verða að axla ábyrgð á fjármálum Reykjavíkurborgar, sem bera hana. Tal um fjölskipað stjórnvald í þessu sambandi eða öðru, þegar litið er til stjórnarhátta R-listans í Reykjavík, er merkingarlaust. Er engu líkara en borgarstjóri líti á það, sem eitthvert skjól fyrir vanhugsaðar ákvarðanir R-listans, að við sjálfstæðismenn séum kjörnir til setu í nefndum og ráðum borgarinnar. Þetta er einfeldningslegur misskilningur í besta falli ef ekki vísvitandi blekking. Við berum enga ábyrgð á þessum ákvörðunum. Þegar á reynir hefur borgarstjóri svo ekki einu sinni þrek til að samþykkja tilnefningar okkar sjálfstæðismanna um menn í nefndir og ákveður þess í stað sjálf, hvernig þær skulu skipaðar. Hvað segja slíkir einræðistilburðir okkur um fjölskipað stjórnvald?

 

Undrunarefnið vegna sparnaðarnefndarinnar er, að borgarstjóri skuli sjálf  setjast í hana. Hún stýrði auðvitað vinnu við gerð þessarar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003, þar sem hún telur bogann greinilega of hátt spenntan.  Er líklegt, að öðru vísi verði að verki staðið, þótt borgarstjóri setjist í sparnaðarnefnd með borgarráðsfulltrúunum Árna Þór Sigurðssyni og Stefáni Jóni Hafstein? Skylt er skeggið hökunni – eða halda menn, að þetta ágæta fólk hugsi öðru vísi um fjármál Reykjavíkurborgar, af því að það sest saman í sparnaðarnefnd?  Kannski breytir öllu, að þarna eru tveir samfylkingarmenn og einn vinstri/grænn en enginn framsóknarmaður. Hvers á Framsóknarflokkurinn að gjalda, þegar þríeyki R-listans er sent af stað til að spara og ná fram varanlegri hagræðingu í rekstri og stofnkostnaði?

 

Forseti og borgarfulltrúar!

 

Fyrir okkur er lagt hálfbakað frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003. Frumvarp, sem á að ræða hér við þrjár umræður í stað tveggja vegna þess að ekki hefur reynst unnt að búa gögn í hendur okkar með þeim hætti, sem lög krefjast. Þetta er ekki aðeins óvirðing við borgarstjórn heldur alla borgarbúa, sem standa undir rekstri borgarsjóðs og borgarfyrirtækja með skatttekjum sínum eða öðrum gjöldum. Í nafni Reykvíkinga er staðið að stóraukinni skuldasöfnun ár eftir ár. Í nafni Reykvíkinga er bruðlað með milljarði króna í Línu.Neti.

 

Lausatök og tilviljanir ráða niðurstöðu um málefni, sem snerta daglegt líf eldri borgara og starfsemi leikskóla. Áætlunum skeikar um hundruð milljóna, en loka á leikskólum í fjórar vikur til að spara 12 milljónir króna, álíka fjárhæð og R-listinn vill nota til að kosta sérfræðiaðstoð við stjórnmálaflokkana í borgarstjórn.

 

Hér vantar vantar metnað og skýra stefnu. Við eigum að vera miklu metnaðarfyllri fyrir hönd Reykvíkinga en fram kemur í þessu frumvarpi að fjárhagsáætlun. Að sjálfsögðu er R-listanum ekki alls varnað frekar en öðrum, en hann er að gera alltof margt rangt.  Unnt er að gera margt miklu betur.  Við eigum að skoða rekstur borgarinnar frá grunni og spyrja okkur grundvallarspurninga í því sambandi!   Við eigum að skoða öll verkefnin og segja: – Borgin á fyrst og síðast að tryggja íbúum sína góða grunnþjónustu – hún á ekki að standa í rekstri fyrirtækja!  Hún á að veita einstaklingum og fyrirtækjum þeirra svigrúm til þess.

 

Borgaryfirvöld eiga að tryggja góða þjónustu fyrir börn á leikskólum og í grunnskólum og skapa öldruðum gott umhverfi.   Þetta skiptir mestu.   Að keppa við einkaaðila um þjónustu á þeirra sérsviði er utan við verksvið borgarstjórnar eða fyrirtækja á hennar vegum.

 

Borgarstjórn á að forgangsraða í þágu framúrskarandi þjónustu við borgarbúa. Hún á að nota skattfé borgaranna til að búa þeim betra umhverfi á öllum sviðum, ungum sem öldnum.  Höfuðhlutverk okkar er að tryggja, að hér sé gott að búa, hér sé veitt góð þjónustu og íbúarnir greiði lága skatta.