28.11.2002

Inn í heim Microsoft 

Málþingstofnunar Vigdísar Finnbogadóttur,28. nóvember, 2002. 

Stórfyrirtæki á borð við Microsoft eru tákngervingar hnattvæðingarinnar bæði vegna þess að þau teygja sig um allan heim og einnig vegna þess að þau gera kröfur til þess, að heimurinn lagi sig að þeirra þörfum. Þegar rætt er um kröfur Microsoft í þessu efni lúta þær meðal annars að því, að þjóðir hagi tungmálakunnáttu sinni í samræmi við stefnu fyrirtækisins en ekki sé sjálfsagt og eðlilegt, að það viðurkenni þjóðtungur eða leyfi þeim, sem ekki eru á málsvæði Microsoft, að ákveða sjálfir, hvort þeir fari inn á málsvæðið eða stækki það sér í hag.

Ég var beðinn að segja hér nokkur orð vegna samskipta minna við Microsoft í þágu íslenskrar tungu. Í þessu erindi styðst ég við gögn frá þeim tíma, þegar ég var menntamálaráðherra og vísa beint til þeirra, meðal annars tölvubréfa, sem mér bárust, vegna þess að þau lýsa vel, hvernig menn litu á þessi samskipti á tíma líðandi stundar. Í lokin dreg ég ályktanir af þessari reynslu. 

Stefnan mörkuð.

Miðvikudaginn 20. janúar 1999 ritaði ég undir samning við fulltrúa frá Norðurlandaskrifstofu bandaríska tölvufyrirtækisins Microsoft, sem miðaði að því, að á næstu níu mánuðum yrði hugbúnaðurinn Windows 98 og Internet Explorer íslenskaður. Samningurinn þótti merkur áfangi í tölvu- og hugbúnaðarsögu okkar. Í fyrsta sinn hafði okkur tekist að komast inn fyrir skörina hjá öflugasta fyrirtæki heims á þessu sviði.  Mikilvægt er að hafa í huga, að Microsoft heldur sjálft á öllum réttindamálum, þegar að því kemur að þýða og staðfæra stýrikerfi eða annan hugbúnað. Var íslenskan 31. tungumálið, sem samþykkt var, að yrði hluti af tungumálaheimi Microsoft. Nú er talið, að um 5000 tungumál séu í heiminum.

Í hópi fyrstu gesta til mín, eftir að ég varð menntamálaráðherra vorið 1995, voru skólamenn, sem töldu óviðunandi, að íslenskan væri ekki hærra skrifuð í hugbúnaði í tölvum í skólum landsins. Bentu þeir á Macintosh til marks um, að unnt væri að íslenska stýrikerfi og hugbúnað. 1993 hefði hins vegar verið ákveðið að DOS/Windows yrði lagt til grundvallar við gerð kennsluhugbúnaðar, væri ekki vansalaust, að hann mætti aðeins nota á ensku.

Menntamálaráðuneytið setti sér á árinu 1996 það markmið að frumkvæði nefndar, sem Ásdís Halla Bragadóttir, þáverandi aðstoðarmaður minn, stýrði, að íslenska þennan hugbúnað. Guðbjörg Sigurðardóttir, sem síðar varð verkefnisstjóri í upplýsingatækni á vegum forsætisráðuneytisins og er nú aðstoðarmaður Tómas Inga Olrich menntamálaráðherra, stýrði starfshópi um íslenskunina í nefndarstarfinu undir forystu Ásdísar Höllu.

Þegar við Guðbjörg Sigurðardóttir hittumst í Þjóðarbókhlöðunni við undirritun Microsoft-samningsins, hafði hún á orði, að ýmsir hefðu efast um, hvort raunhæft væri að setja sér sem markmið, að íslenska hugbúnaðinn, hvort menn væru ekki að reisa sér hurðarás um öxl. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað til hlítar enn, eins og ég vík að síðar í máli mínu.

Skrifað til Microsoft.

Í sjálfu sér lá ekki í hlutarins eðli, að Microsoft kæmi til móts við óskir okkar um íslenskun. Erfiðast var að ná sambandi við réttu mennina innan þessa stóra fyrirtækis. Ýmsir kraftar bæði innlendir og erlendir gerðu okkur kleift á árinu 1998 að ná þessu sambandi innan veggja Microsoft.

Fyrsta formlega erindið fór frá menntamálaráðuneytinu til Microsoft í Danmörku með bréfi, sem Pétur Ásgeirsson, þáverandi deildarstjóri í ráðuneytinu, skrifaði 19. júní 1998.  Þar var vísað til viðræðna ráðuneytisins við fulltrúa Einar J. Skúlasonar og Ríkiskaupa um nauðsyn þess, að íslensk skólabörn ættu aðgang að kennsluhugbúnaði á íslensku.

Ósk menntamálaráðuneytisins um íslenskun hafði áður verið kynnt á fundi fulltrúa Ríkiskaupa með Microsoft Danmörku, þegar rætt var um  kaup á hugbúnaði fyrir íslenskar ríkisstofnanir, en þá rituðu fulltrúar Microsoft Danmörku undir yfirlýsingu, þar sem þeir hétu því að finna leiðir fyrir menntamálaráðuneytið til að koma óskum sínum á framfæri innan Microsoft.

Í bréfinu frá 19. júní vísaði ráðuneytið til þessarar yfirlýsingar, auk þess var minnt á, að árið 2000 yrði þess minnst, að 1000 ár yrðu frá því að Leifur Eiríksson fann Ameríku. Yrði ánægjulegt að fagna þeim tímamótum með því að eiga Windows-forrit á íslensku. Óskaði ráðuneytið eftir fundi með fulltrúum frá Microsoft um málið.

Microsoft svarar.

Tíu dögum eftir að þetta bréf var dagsett eða hinn 29. júní 1998 birtist grein í The Los Angeles Times undir fyrirsögninni: Icelanders, Microsoft in War of Words, eða Íslendingar, Microsoft heyja orðastríð, en hún féll vel að megininntaki bréfsins og hófst á þessum orðum:

"Haldið þið, að dómsmálaráðuneytið sæki harðast að Bill Gates og markaðsmönnum Microsoft Corp? Hlustið á hvað kemur frá Íslenskri málstöð: "Þeir eru að í stuttu máli að eyðileggja það, sem við höfum verið að byggja upp í margar aldir, " segir Ari Páll Kristinsson, forstöðumaður stöðvarinnar."

Ari Páll vísaði þarna til íslenskrar tungu og í greininni var það harðlega gagnrýnt, að Microsoft hefði ekki heimilað að íslenska hugbúnað sinn. Fyrirtækið var undir smásjá fjölmiðla um heim allan á þessum tíma vegna málshöfðunar bandaríska dómsmálaráðuneytisins á hendur því fyrir brot á samkeppnislögum. Varð umræðan um andstöðu Microsoft við að íslenskan, hin forna og hreina nútímatunga, fengi sess í hugbúnaði þess ekki til að bæta ímyndina, en margir öflugir fjölmiðlar sigldu í kjölfar Los Angeles Times, meðal annars BBC, breska ríkissjónvarpið og útvarpið.

Hinn 2. júlí barst okkur Pétri Ásgeirssyni tölvubréf frá Microsoft, svar við bréfinu frá 19. júní. Andréas Berglund, markaðsstjóri alþjóðadeildar Windows Microsoft, og Davd Brooks, framkvæmdastjóri alþjóðadeildar þróunardeildar Microsoft, rituðu undir bréfið, sem var sent frá höfuðstöðvum Microsoft í Redmond í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Bréfið, sem við sendum til Danmerkur, hafði sem sagt farið rétta boðleið til höfuðstöðvanna.  Síðar fengum bréfið í pósti, var það á íslensku dagsett 6. júlí 1998 og þar stendur, að það hafi verið þýtt af Kristínu Björnsdóttur hjá Microsoft í Redmond. Þar sagði:

"Microsoft biðst afsökunar á því að hafa ekki brugðist skjótt við tillögu ykkar að þýða Windows stýriforritið á íslensku. Okkur þykir leitt að þetta mál skyldi verða að almennu umtalsefni í kjölfar blaðagreinar Los Angeles Times í stað þess að vera tekið fyrir á fundi eins og mælst var til í bréfi ykkar til Microsoft í Danmörku, dagsett 19. júní."

Af þessum orðum má ráða, að Microsoft-menn hafi talið okkur Íslendinga standa á bakvið Los Angeles Times greinina eftir Mary Williams Walsh. Víst er, að menntamálaráðuneytið beitti sér ekki gagnvart blaðinu og ég hitti ekki þessa ágætu blaðakonu og góða málsvara íslenskunnar.  Ari Páll Kristinsson sagði mér, að Mary William Walsh hefði verið ein af fjölmörgum erlendum blaðamönnum, sem leita til Íslenskrar málstöðvar, og hefði tilviljun í raun ráðið því, að Microsoft-málið var þá ofarlega í huga hans vegna stefnumótunarvinnu í tengslum við menntamálaráðuneytið og fleiri. En lítum aftur í bréfið frá Microsoft:

"Microsoft virðir baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir varðveislu íslenskrar tungu. Fyrri ákvarðanir okkar um þýðingar á Microsoft forritum voru ekki teknar vegna þess að við virðum ekki íslenska tungu og menningu, eins og sumir hafa haldið fram, heldur vegna takmarkaðra viðskiptatækifæra sem rekja má til smæðar íslenska hugbúnaðarmarkaðarins og ólöglegrar afritunar forrita.

Við viljum gjarnan taka á þessum málum í samvinnu við íslensk stjórnvöld og gefa út íslenska þýðingu á Windows-forritinu. Nefna mætti að við höfum unnið að svipuðum málum með stjórnum baska og katalóníumanna??

Microsoft hefur lengi haft það að reglu að eiga gott samstarf við tungumálastofnanir og ríkisstjórnir um allan heim og við værum mjög stolt af því að geta aðstoðað íslensk stjórnvöld við að varðveita tungumál Leifs Eiríkssonar. Að fá að taka þátt í hátíðahöldum, sem tengjast þúsund ára afmæli landafunda Leifs í vesturheimi, er frábær hugmynd og Microsoft hefur mikinn áhuga á því."

Samþykki ríkisstjórnar.

Í þessu jákvæða bréfi er tekið vel í þá hugmynd að efna til fundar um málið og var hann haldinn í menntamálaráðuneytinu 23. júlí 1998 og af hálfu Microsoft komu þeir, sem rituðu undir bréfið, til fundarins.  Til undirbúnings fundinum kallaði menntamálaráðuneytið ýmsa sérfróða menn til samráðs og tillögugerðar. Mótaðist þá það meginarkmið, að íslenskun á hugbúnaði Microsoft yrði ekki afmarkað verkefni heldur yrði íslenskan fastur liður í útgáfu hugbúnaðar hjá Microsoft. "Sérstaklega með tilliti til framtíðar tungutækni," eins og það er orðað í minnisblaði Péturs Ásgeirssonar frá 21. júlí 1998.

Hinn 22. desember 1998 fór ég með minnisblað um íslenskun á Microsoft-hugbúnaði á fund ríkisstjórnarinnar. Þá lá fyrir samkomulag við Microsoft, sem hafði mótast frá því að fundinum 23. júlí. Í minnisblaðinu var samkomulaginu lýst með þessum hætti:

" Microsoft íslenski Windows 98 innan níu mánaða frá undirskriftardegi.

Íslensk stjórnvöld taka að sér að gera sérstakt og markvisst átak til að sporna við þjófnaði á hugbúnaði og útrýma ólögmætum hugbúnaði úr ríkisfyrirtækjum fyrir árslok 1999.

Til að fullnægja kröfum Microsoft um átak gegn hugbúnaðarþjófnaði verður athugað hvort breyta eigi lögum á þann veg, að rétthafar hugbúnaðar geti með aðstoð dómstóla leitað að ólögmætum hugbúnaði.

Ljóst er að fyrir ríkissjóð verður nokkur kostnaður af því að útrýma ólögmætum hugbúnaði, en það er óhjákvæmilegt, hvað sem öðru líður.

Fulltrúar Ríkiskaupa hafa tekið þátt í viðræðunum við Microsoft með fulltrúum menntamálaráðuneytisins."

Lagði ég til við ríkisstjórnina, að mér yrði heimilað að rita undir samkomulagið við Microsoft, að leitað yrði til Ríkisendurskoðunar og mælst til þess, að hún kannaði, hve mikið af ólögmætum hugbúnaði væri í notkun í ríkisfyrirtækjum og ráðgjafarnefnd um upplýsinga- og tölvumál yrði falið að hafa yfirumsjón með átakinu um útrýmingu á ólögmætum hugbúnaði, undir forystu verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið.

Er skemmst frá því að segja, að ríkisstjórnin samþykkti þessa málsmeðferð og eins og áður sagði ritaði ég undir samning við Microsoft hinn 20. janúar 1999, sjö mánuðum eftir að við sendum bréfið til Danmerkur og sex mánuðum eftir að við hittum Microsoft-mennina fyrst á fundi um málið í menntamálaráðuneytinu.

Efni samningsins.

Þegar ritað var undir samninginn var ákveðið, að menntamálaráðuneytið og Microsoft hæfu þegar viðræður er miðuðu að því að ná samkomulagi um þýðingu á Office 2000 hugbúnaði fyrirtækisins og þeim kerfishugbúnaði sem leysa mun Windows 98 af hólmi. Stefnt skyldi að því að viðræðum þessum lyki ekki síðar en 1. ágúst 1999.  Því miður náðist það markmið ekki, enda stóðst ekki heldur tímaáætlun Microsoft vegna þýðingarinnar á Windows 98.

Þá var ákveðið að unnið skyldi að aukinni notkun upplýsingatækni í íslenska menntakerfinu m.a. með samningum um lækkað verð á Microsoft hugbúnaði til íslenskra skóla. Hefur þetta gengið eftir. Loks skyldi komið á fót sameiginlegum þróunarsjóði til að efla gerð íslensks kennsluhugbúnaðar. Má enn herma þetta loforð upp á Microsoft en af hálfu íslenska ríkisins var ákveðið að verja auknu fé til að framleiða kennsluhugbúnað á íslensku.

Eitt af meginatriðum samkomulagsins var, að það skyldi ekki leiða til neinna annarra útgjalda fyrir íslenska ríkið en að greiða fyrir hugbúnað og uppræta stolinn hugbúnað innan ríkisstofnana. Ríkisendurskoðun gekk skipulega til verks við að kanna, hvernig notkun hugbúnaðar væri háttað. Skilaði hún skýrslu sinni um lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum í desember 1999. Þar kemur fram að 40.3% hugbúnar að verðmæti 700 milljónir króna er lögmætur. 8,8% fyrir 150 milljónir króna ólögmætur, óljóst lögmæti er á 19,1% hugbúnaðar fyrir 300 milljónir króna og óþekkt lögmæti 31% hugbúnaðar fyrir 550 milljónir króna.

Þetta er í stuttu máli lýsing á því, hvernig við komumst inn í heim Microsoft. Virðing þeirra, sem ræddu við okkur sumarið 1998, fyrir íslenskri tungu og menningu réð þar miklu. Þeir vörðu málstað sinn innan Microsoft á þeirri forsendu, að þeir vildu uppræta ólögmætan hugbúnað hjá svonefndum ríkisaðilum á Íslandi. Þótti mér það alltaf nokkuð vandræðalegt, að málið væri rætt á þeirri forsendu, að íslenska ríkið hætti að stunda lögbrot til að fá íslenskuna viðurkennda á málsvæði Microsoft.

Viðbrögðin.

Nýr kapítuli hófst, eftir að samkomulagið var í höfn. Flestir lýstu ánægju með það og vakti niðurstaðan athygli út fyrir landsteinana. Ekki var lengur unnt að halda því fram, að Microsoft útilokaði íslenska tungu. Ekki voru þó allir ánægðir. Hinn 25. janúar 1999 barst mér tölvubréf, þar sem stóð meðal annars:

 "Ágæti ráðherra.

Það sárnar mér mjög að heyra að sjálft menntamálaráðuneytið hafi tekið þá ákvörðun að taka ekki aðra möguleika til greina varðandi íslenskun stýrikerfa/viðmóta í íslensku menntakerfi.  Íslenskun á Windows er ekki jafn  rómuð og hún kann að vera.  Þetta hefur óbeint í för með sér að einungis verður íslenskt Windows á Íslandi, þar liggja einmitt vandamálin.  Ef t.d.  notandi ætlar að setja upp hugbúnað (á ensku) á íslenskt Windows verður hugbúnaðurinn á ensku hvort eð er.....

Mér er einnig spurn hvort hæstvirtur ráðherra hafi á annað borð athugað  aðra valkosti?  A.m.k. virtist ráðherra ekki sýna Apple Macintosh neinn áhuga á þessu sviði, þrátt fyrir að oft hafi sést í Macintosh tölvu á borði hjá ráðherranum í fréttum, þó er stýrikerfi Macintosh tölva búið að vera á íslensku í 10-15 ár.  Athugaði ráðherra nokkuð KDE verkefnið, en íslenskun á því lauk einmitt þann sama dag og hæstvirtur ráðherra skrifaði undir samning við Microsoft um íslenskun Windows, það verk unnu þeir í sínum frístundum án þess að þiggja krónu fyrir.

Hvað leiddi til þess að menntamálaráðuneytið skrifaði undir samning við fyrirtæki sem í krafti stærðar sinnar getur gleypt smáfyrirtæki, til þess eins að komast yfir tæknikunnáttu þeirra eða ryðja þeim úr vegi.  Hvar er lýðræðið í því að þetta sama fyrirtæki gerir samninga við söluaðila um allan heim sem gera fólki ókleift að kaupa tölvur án þess að á þeim sé Microsoft Windows, en eini möguleiki fólks virðist vera sá að kaupa hluti og setja saman sjálft. Hvaða hagsmunir, utan það að ríkið þarf ekki að greiða neinn kostnað annan en þann sem skapast af upprætingu notkunar á ólöglegum hugbúnaði innan ríkisstofnana, lágu baki þessum samningi við Microsoft?  Fýsir mig mjög að vita það."

Þetta bréf var ekki einsdæmi. Þegar það er lesið, er enn ástæða til að minna á hina öflugu höfundarréttarvernd, sem gildir um hugbúnað frá Microsoft. Í mínum huga hefur frá upphafi skipt miklu að rjúfa þessa vernd í nafni íslenskunnar, hvernig svo sem staðið er að framkvæmd einstakra verkefna.   Apple hefur veitt opna heimild til að íslenska hugbúnað sinn og LINUX-forritið er öllum opið.

Athygli vakin á tungutækni.

Eftir að samningurinn var í höfn beindist athygli menntamálaráðuneytisins ekki lengur sérstaklega að Micorosoft nema varðandi framkvæmd samningsins. Ráðuneytið þróaði hins vegar áfram hugmyndina um að styrkja stöðu íslenskunnar undir merkjum tungutækninnar. Fjallaði ég meðal annars um þetta í setningarræðu á fyrstu UT-ráðstefnu ráðuneytisins hinn 26. febrúar 1999 og sagði:

"Krafan um íslenska tungu í tölvuheiminum er skýr og ótvíræð.  Samningurinn við Microsoft frá 20. janúar síðastliðnum felur í sér mikla viðurkenningu á réttmæti þessarar kröfu.  Næsta stórverkefni verður að beita tungutækninni í þágu íslenskunnar."

Þegar litið er til baka, er augljóst, að samningurinn við Microsoft hefur aukið þekkingu á sviði tungutækni í landinu. Hinn 10. maí 1999 gekk dótturfyrirtæki Kögunar hf., sem heitir Navision Software Ísland ehf., frá samningi um að sjá um allar þýðingar á Microsoft hugbúnaði yfir á íslenskt mál.  Við samningsgerðina var sagt, að gengi vel hér yrði til alveg nýr ?iðnaður? fyrir fólk sem menntað er í tungumálum þar sem Microsoft hefði áhuga á að fá Íslendinga til að annast þýðingarvinnu af ensku yfir á fleiri mál en íslensku.

Þýðingarvinnan.

Þýðingarvinnan kallaði á umræður um einstök orð eins og þetta bréf til mín sýnir:

"Einn er sá ágreiningur milli Navision þýðenda og Málstöðvarhópsins sem erfitt hefur verið að leysa, en það er þýðing á orðinu "internet".  Vill Navision þýða það sem Net með stórum staf, en Málstöðin heldur fram orðinu "Lýðnet".  Kann svo að fara að ráðuneytið þurfi að úrskurða í þessu máli ef niðurstaða á að fást. ..Langar okkur að leita eftir afstöðu þinni til þýðingar á þessu hugtaki. Eru fulltrúar Íslenskrar málstöðvarhópsins fúsir til að hitta þig til þess að ræða þetta mál, en niðurstaða þarf að liggja fyrir í byrjun næstu viku."

Enn fékk ég  tölvubréf 25. október 1999, þar sem lýst var reynslunni af samskiptum hollvina íslenskrar tungu við Microsoft í hinu þunga ferli:

 "Kæri Björn.

Eins og þig rekur vafalaust minni til, gerðir þú samning við Microsoft fyrirtækið um þýðingu Windows hugbúnaðarins á íslensku. Íslenskri málstöð var síðan falið eftirlit með þýðingunni. Málstöðin hefur haft Tölvuorðanefnd (Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins) sér til ráðgjafar við verkefnið. Sem meðlimur þeirrar nefndar kem ég að þessu máli.

Það er skemmst frá að segja, að Microsoft virðist ekki ætla að standa við sinn hluta samningsins. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli höfum við aldrei fengið í hendur þá þýðingarlista sem getið er um í samningnum. Við höfum fengið að sjá nokkur brot af því sem verið er að vinna við og höfum gert fjölmargar athugasemdir, en fátt bendir til þess að ætlunin sé að taka þær athugasemdir til greina svo að nokkru nemi."

Erfiðar tímasetningar.

Allt leystist þetta á einhvern veg en 31. janúar, 2000, fæ ég þetta bréf frá gjörkunnugum manni, sem fagnar mjög samningnum við Microsoft en segir svo:

"Aðalklúðrið að mínu mati er náttúrlega það að Windows 98 á íslensku kemur á markað um miðjan febrúar (15. febrúar), en tveimur dögum síðar kemur Windows 2000 á markað! Þetta er frekar vandræðaleg aðstaða.

Síðan geri ég fastlega ráð fyrir því að betri og öruggari útgáfa af vafranum Internet Explorer 5.2 komi á markað fljótlega í kjölfarið. Það er í samræmi við eðli vafraþróunar sem er miklu hraðari en gerist með annan hugbúnað. En þetta með vafrana er hins vegar erfiðara mál.

Eins mun ekki vera vitað hvenær Windows 2000 og nýrri vafrar en Internet Explorer 5.2 koma á íslensku -- og mér hefur reynst gjörsamlega ókleift að fá nokkurn aðila, tengdan málinu, til að skjóta á dagsetningu í þeim efnum. Getur þú komið með "educated guess" um hugsanlega dagsetningar eða jafnvel árstíma um útkomu Windows 2000 á íslensku?

Ég veit að Kögunarfólkið hefur ekki samskipti við Microsoft, heldur við þýðingarfyrirtæki í Svíþjóð sem Microsoft skiptir við. Og þar sem það fyrirtæki gerir samning beint við Kögun (með einhverri milligöngu þinna manna, geri ég ráð fyrir) þá hlýtur ákvörðunin um frekari þýðingar að liggja hjá Microsoft. Þurfum við í stríð við Microsoft í hvert skipti sem okkur vantar þýðingu -- eða mun það ráðast af einföldum markaðslögmálum?

Og þýðir þessi síðbúna útgáfudagsetning ekki að tölvufólk og lengra komnir tölvunotendur munu alls ekki fá sér íslensku útgáfuna heldur stefna beint í Windows 2000, sem hefur mikla yfirburði á Windows 98 að flestu leyti? Varla getum við með góðri samvisku hvatt til þess að fólk noti frekar Windows 98 með hina íslenskuðu skel heldur en hið tæknilega fullkomnara Windows 2000...

Er ekki slæmt mál að fákunnandi tölvunotendur og hið opinbera ? ásamt hugsanlega fáeinum þjóðernissinnuðum stórfyrirtækjum -- verði ef til vill eina fólkið sem nýtir sér Windows 98 á íslensku?

Og er það ekki sorglegt að helstu notendaforritin (Office-pakkinn) hafi ekki íslenskt viðmót? Eins og með Windows 2000 á íslensku hefur mér ekki tekist  að grafast fyrir um hugsanlegan útgáfutíma á Office á íslensku. Hefur þú eitthvað heyrt um það mál? Það er stórt í mínum huga."

Ég svaraði bréfritara samdægurs á þennan veg:

"1. Ákvörðun um þýðingu á íslensku hefur verið tekin. Einhvers staðar varð að byrja, það sama á við um þetta og þá ákvörðun, hvort maður kaupir sér tölvu eða GSM í dag eða bíður þar til næsta kynslóð kemur. Sú næsta er fullkomnari en í grunninum er um sama hlutinn að ræða. 

2. Microsoft er seljandi vörunnar og ber allan kostnað, ef Microsoft ætlar að fylgja þessari fjárfestingu sinni eftir, hlýtur Microsoft að huga fljótt að Windows 2000.

3. Grunnvinnan vegna W98 hefur verið mikil, íslensku orðin breytast ekki, það ætti að vera minna mál að íslenska WOO.

4. Samskiptin hafa verið mjög flókin og erfiðari en ég vænti, ef um opinberan aðila hefði verið að ræða, hefðu menn kvartað undan skriffinnskunni.

5. Eftirlitsmenn á mínum snærum hafa ekki séð enn texta, sem þeir telja endanlegan. Tengslin í ferlinu hafa verið of margbrotin.

6. Það á að halda áfram að þýða en ég veit ekki nánar um þann þátt og hef ekki viljað spyrja um hann fyrr en ég sé fyrir endann á þessum.

7. Mér finnst þessi umræða um að of skammt sé á milli W98 og W00 snúa að Microsoft en ekki okkur hér, því að við vorum í góðri trú um að tímasetningar Microsoft mundu standast og það er fyrirtækisins að markaðsetja vörur sínar á skynsamlegasta hátt."

Næstu skref.

Þýðingu á Windows 98 stýrikerfinu á íslensku var lokið í apríl árið 2000 og síðan hefur menntmálaráðuneytið haft reglubundið samband við Microsoft og til dæmis á árinum 2001 hitti Arnór Guðmundsson, tengliður ráðuneytisins við Microsoft fulltrúa þess á tveimur fundum. Hefur ráðuneytið lagt áherslu á að áfram verði haldið með þýðingar á hugbúnaði Microsofts og þeim komið í reglubundinn farveg.

Í samræmi við mótaða stefnu sína hélt menntamálaráðuneytið áfram að þróa hugmyndina um átak í þágu tungutækni og var skipuð sérstök verkefnisstjórn til að hafa forystu. Samþykkti ríkisstjórnin að verja 104 millj. kr. til þessa verkefnis. Verkefnisstjórnin hefur lagt fram tillögur um stuðning við upplýsingatækniiðnaðinn vegna þróunar hugbúnaðar og tungutæknilausna. Hefur verið ákveðið að styðja við frekari þýðingar á hugbúnaði í gegnum tungutækniverkefnið.

Microsoft ákvað að láta aðlaga að íslensku leiðréttingaforrit sem fylgir hugbúnaði frá fyrirtækinu.  Er það t.d. hluti af Word-forritinu og leiðréttir stafsetningarvillur og skiptir orðum á milli lína. Microsoft greiðir fyrir þetta verk og réð til þess hollenskt fyrirtæki, Polderland. Hollenska fyrirtækið leitaði  síðan eftir aðstoð hér á landi við gerð forritsins en það kom út í vor.

Hinn 13. nóvember 2001 setti ég tungutækniráðstefnu á vegum menntamálaráðuneytisins.  Minnti ég á stefnu ráðuneytisins, sem ég vitnaði til hér í upphafi máls míns og sagði síðan:

"Sú stefna skilaði m.a. árangri í samningum ráðuneytisins við Microsoft fyrirtækið um þýðingu á stýrikerfinu Windows 98 yfir á íslensku. Þetta framtak vakti nokkra athygli á sínum tíma en hins vegar verður ekki sagt, að tölvuáhugamenn eða íslenskufólk hafi sýnt þýðingunni mikinn áhuga, þegar hún kom til sögunnar. Vantrú á, að fleiri forrit yrðu þýdd, kann að vera ein af ástæðunum fyrir þessu. Ýmsir virðast hafa gert það upp við sig, að forrita-umhverfi tölvuheimsins skuli vera á ensku. Loks eru þeir, sem eru alfarið andvígir Microsoft og telja samstarf við fyrirtækið óþarft. "

Ómetanlegur vegvísir.

Ég hef stiklað á stóru og farið hratt yfir rúm fjögur ár. Tengslin við Microsoft eru áfram byggð á bréfunum frá sumrinu 1998 og ávallt er unnt að vísa til heitstrenginga Micorsoft-manna þar um góðan hug þeirra í garð íslenskrar tungu. Þeir þurfa þó einnig að líta til annarra atriða, þar á meðal þess fjármagns, sem þeir hafa á milli handa og kostnaðar við einstök verkefni. Fulltrúar Microsoft hafa á þessu ári skýrt frá því að kostnaður við þýðingar fari vaxandi og að þýðing á Windows XP yrði líklega 10 sinnum dýrari en þýðing á Windows 98.

Ný verkefni eru á döfinni eins og þýðing  Skýrr á fjárhagskerfi ríkisins, þar sem safnað verður orðalistum með þýðingum úr ensku á íslensku. Skiptir miklu að geta nýtt orðalista úr Windows 98 við slíkar þýðingar. Þá er sjálfsagt og eðlilegt, að undir merkjum tungutækniverkefnisins verði auðveldað að þýða forrit á borð við Windows XP eða Office XP auk forrita sem eru opin eins og Star Office og frá Apple.

Microsoft telur notkun ólöglegs hugbúnaðar mun meiri hér en í Danmörku. Ef  hægt væri að draga úr notkun ólöglegs hugbúnaðar væru meiri líkur á því að heimild fengist fyrir frekari þýðingum.

Hvað sem líður framkvæmd Microsoft á samningi þeim, sem við gerðum í ársbyrjun 1999, var rétt leið farin sumarið 1998 og skilaði hún meiri árangri en ég vænti, þegar af stað var farið. Mikilvægt er að hafa fengið þá skuldbindingu, sem Microsoft gaf á þeim tíma. Á þessu sviði eins og öðrum þurfa menn að læra af reynslunni og hún er margvísleg af samskiptum okkar við Microsoft síðan. Við reistum okkur ekki hurðarás um öxl, þvert á móti höfum við verið að stíga skref, sem styrkja stöðu íslenskrar tungu á nýju málsvæði tölvunnar. Þessi reynsla verður ekki metin til fjár en hún er ómetanlegur vegvísir í frekari viðleitni til að treysta stöðu íslenskunnar í tölvuheiminum.

Sagan kennir okkur, að einangrun er ekki sú leið, sem farnast íslensku þjóðinni best. Við eigum ekki að skapa okkur verndað umhverfi eða skjól heldur vera virkir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi á öllum sviðum og skapa tungumáli okkar það svigrúm, sem við frekast getum til að unnt sé að nýta það við hvaða tæknilegar aðstæður sem er, þótt ekki aðrir skilji það en við sjálf.