18.10.1998

Einelti - ráðstefna umboðsmann barna

Málþing umboðsmanns barna um einelti
Laugardaginn 17. október 1998.

Í upphafi máls míns vil ég þakka umboðsmanni barna fyrir að boða til þessa málþings um einelti. Tel ég mjög vel til þess fundið að kalla ungt fólk til slíkra umræðna, því að umræðurnar sjálfar eru mikilvægt skref til að vinna bug á þessu vandamáli.

Raunar er ekki langt síðan tekið var til við að skilgreina einelti sem vanda eða viðfangsefni í skólum hér á landi og erlendir. Þegar ég var í skóla, var þetta hugtak ekki notað um það, þegar einstaklingum var gert lífið leitt í skóla eða þeim strítt. Auðvitað var það þó gert þá eins og núna.

Á síðustu árum hefur umræða um einelti meðal barna og ungmenna vaxið mjög hér á landi. Í mörgum tilvikum hafa þeir sem starfa að skólamálum vakið máls á efninu vegna atvika sem átt hafa sér stað innan veggja skólans eða á skólalóðinni. Skólar og foreldrar hafa vaxandi áhyggjur af þessum málum og er kallað á aðgerðir til úrbóta. Hér á landi hefur þó ekki verið gerð rannsókn sem varpar ljósi á heildarumfang og eðli eineltis í skólum. Hins vegar hafa verið gerðar kannanir á tíðni eineltis innan tiltekinna skóla og svæða og benda þær til þess að einelti sé vandi margra ungmenna á Íslandi ekki síður en jafnaldra þeirra erlendis.

Þrátt fyrir að einelti hafi lengi verið vandamál er það eins og áður segir skammt síðan og ekki fyrr en á áttunda ártugnum sem almenningur og fræðimenn víða um Evrópu, Japan og í Bandaríkjunum fara að gefa þessu máli gaum af alvöru, skilgreina hugtakið og rannsaka á kerfisbundinn hátt hvernig málum er háttað í raun og veru.

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að einelti er víða vandamál meðal barna og ungmenna. Þannig kom fram í ítarlegri rannsókn sem gerð var í Noregi á 9. áratugnum að 3% nemenda í grunnskólum landsins voru teknir fyrir í skólanum einu sinni í viku eða oftar og alls töldust um 15% grunnskólanemenda í rannsókninni tengjast einelti á einhvern hátt, annaðhvort sem gerendur eða þolendur.

Mikilvægt er að allir aðilar skólasamfélagsins, þ.e. starfsfólk skóla, foreldrar og nemendur, taki þátt í umræðum og komi að stefnumótun í þeim fjölmörgu málefnum sem snúa að því sem fram fer í skólanum, hvort heldur um er að ræða námið sjálft eða andlega vellíðan nemenda. Grunnskólinn er vinnustaður nemenda í 10 ár og þótt lög, reglugerðir og aðalnámskrá eigi að tryggja sem best samskipti milli nemenda innbyrðis og við kennara.

Ég tel brýnt að allir skólar komi sér upp eins konar forvarnaráætlun sem felur í sér aðgerðir til að fyrirbyggja og vinna gegn einelti á markvissan hátt. Slíkar aðgerðir geta falið í sér að skólar skilgreini í skólanámskrá hvernig skuli unnið skuli gegn einelti. Foreldraráð hvers skóla á að veita umsögn um skólanámskrá og gefst þá foreldrum tækifæri til að koma með hugmyndir um aðgerðir sem vinna gegn einelti. Einnig þarf að vera til staðar áætlun um hvernig skuli brugðist við ef upp kemst um einelti í skólanum, þ.e. hvaða aðili innan skóla vinnur með slík mál og hvernig. Mikilvægt er að gott samstarf sé milli heimila og skóla þegar eineltismál koma upp. Trúlega er vart hægt að gera ráð fyrir að alfarið verði komið í veg fyrir einelti en með því að upplýsa alla aðila um hvað einelti er, má vinna gegn því og því er brýnt að meðferð slíkra mála sé í ákveðnum farvegi innan skóla.

Þá mætti hugsa sér að koma á skipulagðri fræðslu um einelti fyrir bæði foreldra og kennara sem jafnframt stuðlaði að opnari umræðu um málefnið. Það er þó ekki nóg að fullorðna fólkið fræðist um og ræði þessi mál. Umræðan þarf einnig að ná til nemendanna sjálfra sem eru þolendur og gerendur þegar einelti er annars vegar. Því er mikilvægt að settar séu ákveðnar reglur um samskipti og hegðun jafnt í skólanum sem utan hans, að rætt sé opinskátt um einelti og nemendum gert ljóst hvað átt sé við með einelti, fá nemendur sjálfa til að skilgreina einelti og koma með hugmyndir um hvernig megi sporna við því. Reglulegar umræður um einelti í hverjum bekk þar sem nemendur eru virkir þátttakendur mundu án efa skila sér í að einelti í íslenskum skólum minnkar.

Eins og ég gat um áður hefur engin kerfisbundin rannsókn á einelti verið gerð sem nær til landsins alls. Því hef ég undirritað samning við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála um framkvæmd rannsóknar á eðli og umfangi á einelti í grunnskólum landsins. Var sú ákvörðun tekin eftir að umboðsmaður barna óskaði eftir samvinnu við mig um öflun upplýsinga um málið. Megináhersla verður lögð á söfnun gagna í einum árgangi á miðstigi grunnskóla og fer rannsóknin fram á árunum 1998 og 1999.

Markmið rannsóknarinnar eins og Rannsóknastofnunin hefur skipulagt hana, er þríþætt:


Þróaður verði ítarlegur spurningalisti um einelti. Við gerð hans verða tekin viðtöl við börn og unglinga þannig að málfar hans og efnistök verði í samræmi við málfar og hugsanagang barna og unglinga á þeim aldri sem athuga á.

Spurningalistinn verður lagður fyrir stórt úrtak barna og unglinga til þess að fá yfirlit um eðli og umfang eineltis á Íslandi, á miðstigi grunnskólans.

Kannaður verður samtímis orðaforði og hugtök sem börn og unglingar nota um einelti og aðra hegðun af svipuðu tagi. Íslenski orðaforðinn verður síðan borinn saman við erlend gögn.
Vinna við fræðilega undirstöðu rannsóknarinnar er þegar hafin og unnið er að gerð spurningalistans. Þegar hafa verið tekin viðtöl við allmarga hópa barna og unglinga í samvinnu við skóla og foreldra sem hafa sýnt þessu verki mikinn áhuga og greitt götu rannsóknaraðila af fremsta megni. Gerð mælitækja mun ljúka um næstu áramót.

Könnunin á orðaforða barna um einelti, sem er hluti af rannsókninni, er þegar hafin og verður henni lokið í desember 1998 en niðurstöður hennar munu að verulega leyti ráða þeim orðaforða og þeirri hugtakanotkun sem nota á í spurningalistanum. Þetta er gert til þess að tryggja að niðurstöður endurspegli upplifun barnanna á raunsannan hátt og gefi raunverulegar niðurstöður um útbreiðslu og eðli eineltis í íslenskum skólum.

Lokaskýrsla um niðurstöður verksins mun liggja fyrir um miðjan september 1999.

Ætlunin er, að þekkingin, sem aflað verður með rannsókninni nýtist til að meta bestu forvarnarúrræðin gegn einelti og hvernig þeim verður hrundið í framkvæmd. Án þekkingar á eðli eineltis hér á landi er ekki hægt að skilja hvaða þættir liggja þar að baki og á hvaða hátt er best að takast á við það.

Að lokum vil ég minna á, að samkvæmt nýrri skólastefnu, sem var kynnt á síðasta vetri, verður ný námsgrein, lífsleikni, gerð að skyldunámsgrein bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Þessari námsgrein er ætlað að efla sjálfstraust einstaklinga og búa þá undir þátttöku í nútímaþjóðfélagi, kynna þeim tækifærin, sem það hefur að bjóða, og einnig hætturnar. Áhersla verður einnig lögð á umburðarlyndi gagnvart skólafélögum og öðrum. Á málþinginu í dag hefur einmitt komið fram, að sjálfstraust og umburðarlyndi eru þeir þættir, sem ungt fólk telur mikilvæga til að njóta sín í samskiptum við aðra.

Mjög margir nefndu einnig gildi umræðnanna sjálfra. Ég er sammála því, að um einelti eigi að ræða og hvet ykkur öll, ágætu nemendur, að fara með lærdóminn af þessu málþingi inn í skólana ykkar og ræða málið áfram þar. Með því einu stuðlið þið að því að minnka líkurnar á einelti.

Margar góðar hugmyndir hafa komið fram á málþinginu og er ég viss um, að umboðsmaður barna mun fylgja þeim eftir. Sé eitthvað, sem þið viljið, kynna mér sérstaklega hvet ég ykkur til þess. Látum þetta málþing verða upphafið að markvissu átaki gegn einelti.

Ég ítreka þakkir mínar til umboðsmanns barna fyrir að kalla málþingið saman.

Gangi ykkur öllum vel í baráttunni fyrir góðum málstað!

Ég segi málþingi um einelti slitið.