16.11.2002

Bush saumar að Saddam

Vettvangur í Morgunblaðinu 16.11.02

 

George W. Bush Bandaríkjaforseti vann tvo stórsigra í síðustu viku. Annars vegar í þingkosningunum þriðjudaginn 5. nóvember og hins vegar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) föstudaginn 8. nóvember. Raunar var því haldið á loft í fjölmiðlum, að nú vissu menn fyrir hvaða orð stafurinn W. stæði – millinafn forsetans væri Winner, eða sigurvegari.

 

Repúblíkanar, flokksbræður forsetans, juku þingmannafjölda sinn í báðum deildum Bandaríkjaþings og eiga nú meirihluta bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni. Er það einstætt, sögulegt afrek repúblíkana á forsetastóli að ná þessum árangri á miðju kjörtímabili sínu. Forsetinn getur fagnað sigrinum með góðri samvisku, því að hann lagði hart að sér og raunar allt undir í kosningabaráttunni.

 

Eftir hinn nauma sigur yfir Al Gore í forsetaskosningunum haustið 2000, er meira virði en ella fyrir Bush að ná þessum góða árangri í þingkosningunum. Hann eyðir með því öllum efasemdum um, að hann hafi óljóst eða veikt umboð til að leiða bandarísku þjóðina.

 

Einróma samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á tillögu Bandaríkjamanna um hertar og ótvíræðar aðgerðir til að knýja Saddam Hussein, einræðisherra í Írak, til að uppræta gjöreyðingarvopn sín, veitir síðan George W. Bush skýrt umboð til að beita herafla Bandaríkjamanna.

 

***

 

Sigurganga Bush í síðustu viku gengur þvert á allar hrakspár andstæðinga hans innan og utan Bandaríkjanna. Honum hefur tekist að ná markmiði sínu og tryggja sér samtímis aukið fylgi heima fyrir og einhuga samstöðu í öryggisráðinu.

 

Hér á þessum vettvangi var því haldið fram, eftir að Bandaríkjaþing samþykkti stuðning við Bush í Íraksmálinu og það var lagt fyrir öryggisráð SÞ, að heiður Sameinuðu þjóðanna væri í húfi. Innan vébanda þeirra yrðu þjóðir heims að hafa þrek til að fylgja eftir fyrri samþykktum um afvopnun Saddams Husseins. Ef það gerðist ekki, yrðu samtökin marklaus.

 

Ég átti þess kost að hlusta á umræður í öryggisráði SÞ í aðdraganda þess, að tillaga Bandaríkjamanna var lögð fyrir það. Varð mér betur ljóst eftir það en áður, að með öllu er óviðunandi fyrir Sameinuðu þjóðirnar, að líða framkomu Saddams Husseins lengur. Hann hefur haft samþykktir þeirra að engu í fjögur ár. Að álasa Bandaríkjastjórn fyrir að hvetja Sameinuðu þjóðirnar til dáða vegna þessa máls, er fráleitt, ef menn vilja á annað borð, að samtökin hafi einhverju hlutverki að gegna.

 

Thomas L. Friedman, dálkahöfundur við The New York Times og sérfræðingur í samskiptum Bandaríkjanna við arabalöndin, sagði síðastliðinn miðvikudag, að einróma samþykkt öryggisráðsins 8. nóvember hefði kveikt fyrstu vonina um betri framtíð í brjósti sér síðan 11. september 2001.

 

„Í fyrsta sinn síðan þá virtist þjóðasamfélagið vera tilbúið til að ýta öllum menningarlegum, trúarlegum og hernaðarlegum ágreiningi sínum til hliðar til að setja hnattræna reglu – að ríki sem nauðgaði nágranna sínum og hefði að engu kröfur SÞ um að uppræta gjöreyðingarvopn sín, kæmist ekki upp með það,” segir Friedman og spyr síðan:

 

„Hvernig gerðist þetta? Í stuttu máli má segja, að við höfum kynnst dálitlu furðulegu í síðustu viku – að í heimi, þar sem aðeins er eitt voldugt risaveldi, verði vegur öryggisráðs SÞ jafnvel meiri en áður en ekki minni. Frakkar, Rússar og Kínverjar komust að því, að besta mótvægið gegn yfirþyrmandi mætti Bandaríkjamanna væri líklega ekki að hundsa hann, heldur að beina honum í gegnum SÞ. Og menn Bush komust að því, að besta leiðin til að beita þessum mikla mætti á lögmætan hátt – í stríði að eigin vali – fælist ekki í því einu að láta til skarar skríða heldur að beina honum í gegnum SÞ.”

 

***

 

Sú mynd af utanríkisstefnu George W. Bush, að hún einkennist af einangrunarhyggju og ofurtrú á eigin mátt Bandaríkjanna til að fá sitt fram með einhliða aðgerðum, á ekki við rök að styðjast. Myndin er líka oftast dregin af andstæðingum Bandaríkjastjórnar heima fyrir og erlendis.

 

Árásin á New York og Washington 11. september 2001 hefur ekki orðið til þess að ýta undir einangrunarstefnu Bandaríkjastjórnar. Þvert á móti hefur stjórnin lagt sig fram um að virkja sem flesta í baráttunni við hryðjuverkjamenn og aðra illvirkja. Henni tókst það í viðleitni sinni til að koma talibönum frá völdum í Afganistan fyrir réttu ári. Sú aðgerð tók mun skemmri tíma en spáð var og leiddi ekki til þeirra allsherjarátaka, sem margir spáðu.

 

Nú hefur öryggisráð SÞ sameinast um tillögu Bandaríkjastjórnar gegn gjöreyðingarvopnum Saddams Husseins. Hans Blix, yfirmaður eftirlitsaðgerða SÞ, ætlar að fara til Bagdad á mánudaginn. Einræðisherrann í Írak samþykkti á miðvikudag, tveimur dögum fyrir lok frestsins, sem honum var gefinn, að hlíta ályktun öryggisráðsins nr. 1441. Þar eru Írökum gefin fyrirmæli um að afvopnast eða taka ella „alvarlegum afleiðingum” þess að gera það ekki.

 

***

 

Írakar höfðu sjö daga frá samþykkt ályktunar öryggisráðsins til að fallast á að hlíta henni. Hefðu þeir neitað því, jafngilti það stríðsyfirlýsingu.

 

Írakar hafa allt að 30 dögum til að skýra frá því, hvernig þeir hafa staðið að áætlunum um efnavopn, lífræn vopn og kjarnorkuvopn og smíði flugskeyta eða eldflauga. Bandaríkjamenn hafa lýst yfir því, að verði ekki skýrt frá þessu undanbragðalaust jafngildi það „efnislegu broti” á skuldbindingum Íraka, það er að forsenda sé til styrjaldaraðgerða.

 

Vopnaeftirlitsmenn skulu hafa hafið störf í Írak innan 45 daga frá samþykkt ályktunarinnar. Eins og áður sagði ætlar fyrsti hópur þeirra að fara til Bagdad mánudaginn 18. nóvember, tíu dögum eftir afgreiðslu öryggisráðsins.

 

Eftirlitsmennirnir skulu innan 60 daga gefa öryggisráðinu skýrslu. Af ályktun 1441 verður ekki ráðið, hvort byrjað hafi verið að telja dagana 8. nóvember eða það hefjist ekki fyrr en eftirlitsmennirnir koma til Íraks. Eftirlitsmennirnir geta hvenær sem er komist að þeirri niðurstöðu, að þeim sé gert ókleift að sinna verkefni sínu.

 

Neiti Írakar að eiga samstarf við eftirlistmennina, ætla Bandaríkjamenn að taka málið upp við ríki í öryggisráðinu. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar gefið til kynna, að hún þurfi ekki að bíða eftir annarri ályktun öryggisáðsins, áður en hún ákveður að grípa til vopna gegn Saddam.

 

Eftirlitsmennirnir hafa ótakmörkuð réttindi til að kanna allt, sem þeir telja nauðsynlegt vegna starfa sinna. Þeir mega fara í hallir Saddams og aðra á staði, sem voru þeim lokaðir samkvæmt fyrra umboði öryggisráðsins frá 1991. Nú geta þeir í fyrsta sinn kallað vitni og fjölskyldur þeirra út fyrir Írak, svo að þau geti skýrt frá vitneskju sinni án ótta við hefndaraðgerðir frá Saddam.

***

 

Saddam Hussein hefur sagst óhræddur við allar rannsóknir á vegum SÞ, af því að hann hafi ekkert að fela. Hann hrakti þó vopnaeftirlitsmenn öryggisráðsins frá landi sínu 1998. Hans Blix vildi ekki taka að sér núverandi verkefni sitt án skýrara og skarpara umboðs ráðsins.

 

Áður en eftirlitsmennirnir taka til við að grandskoða líklega felustaði Saddams munu þeir láta reyna á samstarfsvilja hans og skoða sannleiksgildi skýrslnanna, sem hann á að leggja fram um vopnakerfi sín innan 30 daga. Hann hefur hingað til neitað því staðfastlega, að hann sé að hlaða gjöreyðingarvopnum í vopnabúr sín.

 

Er líklegt, að Saddam snúi við blaðinu og viðurkenni, að hann hafi stundað lygar og pretti gagnvart öryggisráðinu til þessa? Hann er alræðisherra, sjálfsmynd hans og leyndardómsfullir stjórnarhættir byggjast á því, að hann þurfi aldrei að lúta í lægra haldi fyrir keppinaut sínum eða öðru ríki.

 

Arabískir stjórnarerindrekar segja, að Saddam muni vinna með Hans Blix og mönnum hans. Hann eigi ekki annarra kosta völ og geti hvergi leitað skjóls. Hann verði að sætta sig við niðurlæginguna, sem felst í eftilitferlinu, til að halda lífi, og því sé hann ekki tilbúinn til að fórna.

 

***

 

Staðfesta George W. Bush hefur dugað honum best, frá því að árásin var gerð New York og Washington. Hann hefur náð ótrúlegum árangri heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

 

Næstu daga og vikur fylgist öll heimsbyggðin með því, hver verður framvinda mála í Írak. Það er undir viðbrögðum Saddams Husseins komið, hvort grípa þarf til vopna til að knýja hann til hlýðni við einróma samþykkt öryggisráðs SÞ. Fyrsti frestur hans rennur út 8. desember. Bush hefur sagt, að engin undanbrögð verði liðin: Afvopnist Saddam Hussein ekki afvopni Bandaríkjamenn hann.

 

Íraska þjóðin hefur þolað miklar raunir undir hrammi harðstjórans. Fyrir hana er mest í húfi, að hann hlíti samþykkt 1441 í einu og öllu og kalli ekki yfir sig og þjóðina hina miklu refsingu, sem við blasir, geri hann það ekki.

 

bjorn@centrum.is