9.11.2002

Sjálfstæðisbarátta á Norður-Atlantshafi

Vettvangur í Morgunblaðinu 9.11.02

 

Sjálfstæðisbaráttan í Færeyjum og Grænlandi hefur verið sett í skipulagsramma á danska þinginu í Kaupmannahöfn. Færeyingurinn Tórbjörn Jacobsen úr Þjóðveldisflokknum og Grænlendingarnir Lars-Emil Johansen úr Síumut-flokknum og Kuupik Kleist úr Inuit Ataqatigiit-flokknum komu til landsins. Hafa þeir stofnað sérstakan þingflokk í því skyni að berjast fyrir sjálfstæði Færeyja og Grænlands frá Danmörku.

Þingmennirnir þrír voru hér á landi í vikunni ásamt aðstoðarmönnum sínum til að kynnast viðhorfum íslenskra stjórnvalda og stjórnmálamanna auk þess sem þeir fóru í kynnisferð til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Tórbjörn Jacobsen var menningarmálaráðherra Færeyja 2000 og 2001 en á nú fast sæti á danska þinginu sem varamaður flokksbróður síns og flokksfomanns, sem er Högni Hoydal, helsti málsvari sjálfstæðis Færeyinga. Athygli beindist mjög að Tórbirni síðastliðið sumar, þegar hann sótti hart að Anfinn Kallsberg, lögmanni færeysku landstjórnarinnar, með ásökunum um meðferð hans á fé annarra. Fram á síðustu stundu hótaði Anfinn að slíta stjórnarsamstarfi við Þjóðveldisflokkinn nema Tórbjörn drægi ummæli sín til baka. Afhenti Tórbjörn afsökunarbeiðni sína í þann mund, sem þingmenn gengu til guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Þórshöfn við þinsetningu og þar með var færeysku landsstjórninni undir forystu Anfinns borgið, en hann sagðist hafa verið með tvær ræður í vasanum við lögþingssetninguna, aðra um afsögn en hina um stefnu landstjórnarinnar.

Lars-Emil Johansen hefur verið í forystu grænlenskra stjórnmála og atvinnulífs um langt árabil. Hann var í fremstu röð þeirra grænlensku stjórnmálamanna, sem unnu að því að koma á heimastjórn árið 1979 og hefur gegnt flestum æðstu trúnaðarstörfum í grænlenska stjórnkerfinum, meðal annars formennsku í heimastjórninni. Lars-Emil er í Siumut, það er sama flokki og Jonathan Motzfeldt, núverandi formaður grænlensku landsstjórnarinnar. Siumut er sósíal-demókratískur flokkur og hvorki sósíal-demókratar í Færeyjum né Jonathan Motzfeldt hafa verið talsmenn þess, að Færeyingar og Grænlendingar slitu ríkjasambandið við Dani.

Kuupik Kleist var í grænlensku landstjórninni 1991 til 1995 og hefur einnig setið á landsþinginu. Hann var forstöðumaður utanríkismálaskrifstofu heimastjórnarinnar 1996 til 1999 og skrifstofustjóri fyrir grænlensku sjálfstjórnarnefndina frá 2000 til 2001, en situr nú á folketinget. Í september síðastliðnum var Kuupik Kleist kjörinn varaformaður Inuit Ataqatigiit, sem er eins og færeyski Þjóðveldisflokkurinn, til vinstri við sósíal-demókrata.

***

Þeir félagar hafa stofnað þar þriggja flokka þingflokk í danska þinnginu undir nafninu: Den Nord-atlantiske Gruppe. Með skipulegu samstarfi sínu hafa þeir stigið sögulegt skref, því að hefðin er sú, að þingmenn frá Færeyjum og Grænlandi á danska þinginu hafa tekið sæti í þingflokkunum þar eftir flokkslit sínum. Segja þeir félagar, að með því að taka aðeins þátt í flokkspólitísku starfi í Kaupmannahöfn hafi forverar þeirra tekist á undir ólíkum merkjum og þar með þurrkað út sameiginlegan áhrifamátt sinn innan þingsins og ekki gætt hagsmuna kjósenda sinna sem skyldi.

Samstarfið hófst að loknum kosningunum til danska þingsins í nóvember 2001. Þá hlaut sjálfstæðissinni annað þingsætið í Færeyjum og sjálfstæðissinnar skipuðu bæði þingsætin á Grænlandi. Auk Tórbjörns er Lisbeth Petersen á danska þinginu fyrir Færeyinga, en hún er formaður Sambandsflokksins og hefur því ekki áhuga á að taka þátt í þessum þingflokki vegna stefnumála hans.  Hann var stofnaður með formlegum og hátíðlegum hætti  hinn 15. desember 2001, þegar ritað var undir samstarfsamning.

Innan þingflokksins gildir ekki sambærilegur flokksagi og meðal annarra þingflokka, þar sem þingmennirnir koma úr ólíkum stjórnmálaflokkum. Í samstarfsamningnum segir, að Norður-Atlantshafsþingfokkurinn sé tæknilegur samstarfsvettvangur milli þriggja stjórnmálaflokka, sem hver um sig haldi sjálfstæði sínu í afstöðu til einstakra mála á þinginu.

Hinu sameiginlega markmiði samstarfsins er lýst á þann veg, að þingflokkurinn stefni að sjálfstæði Færeyja og Grænlands. Auk þess vilji flokkurinn vinna að því að efla samstarfið milli Grænlendinga, Færeyinga og Dana sem sjálfstæðra þjóða.

Þingmennirnir hafa kynnt starf sitt í Færeyjum og Grænlandi en auk þess efnt til funda til að ræða málstað sinn í Óðinsvéum, Álaborg og Árósum í Danmörku. Þar hafa þeir lagt sig fram um að efla tengsl við félög Færeyinga og Grænlendinga og virkja þau í þágu málstaðar síns.

 

***

Til að skilgreina stefnu sína og málstað og afla sér þekkingar um þau málefni, sem setja svip sinn á samstarfið innan þingflokksins, hefur hann ákveðið að stofna nefndir sérfróðra manna til að rannsaka fjögur  meginviðfangsefni: efnahagslegar hliðar utanríkis- og öryggismálastefnunnar á Norður-Atlantshafi, þjóðréttarlega stöðu og kosti Færeyja og Grænlands, leiðir til að tryggja betri lífskjör Norður-Atlantshafsborgara í Danmörku og betri samgöngur á Norður-Atlantshafi.

Þjóðréttarnefndin er að safna gögnum um þjóðréttarleg og stjórnskipuleg málefni, sem snerta hagsmuni Færeyja og Grænlands. Er ætlunin að miðla upplýsingum um málið til almennings og stjórnmálamanna í Grænlandi, Færeyjum og Danmörku til að auðvelda málefnalegar umræður um framtíðarstöðu Grænlands og Færeyja. Meðal nefndarmanna er dr. Guðmundur Alfreðsson, forstöðmaður Raoul Wallenberg stofnunarinnar í Svíþjóð.

Félagsmálanefnd hefur verið komið á fót til að leggja á ráðin um leiðir til að bæta félagslegar aðstæður Grænlendinga í Danmörku. Margir þeirra búa við erfið kjör.

Þegar þessar tvær nefndir hafa lokið störfum á árinu 2003 verður skipaður vinnuhópur til að lýsa hernaðarlegum þáttum, sem tengjast Færeyjum og Grænlandi.

***

Færeyskir kjósendur skiptast í tvær jafnstórar fylkingar í afstöðu sinni til sjálfstæðis eyjanna. Í færeysku landstjórninni sameinast flokkar með ólíka stefnu í innanlandsmálum undir merkjum sjálfstæðisbaráttunnar. Málsvarar stjórnarinnar ræða ekki lengur um það, hvort Færeyjar verði sjálfstæðar heldur hvenær. Hinir áköfustu eins og Tórbjörn Jacobsen nefna árið 2006.

 

Sjálfstæðissinnar í Færeyjum vísa mjög til Íslands sem fordæmis. Minna þeir á hrakspár á sínum tíma, að Íslendingar gætu ekki staðið á eigin fótum efnahagslega eftir slit tengslanna við Danmörk. Allt annað hafi komið á daginn.

 

Eftir opinbera heimsókn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra til Færeyja í ágúst síðastliðnum samþykkti ríkisstjórn Íslands að ósk Anfinns Kallsbergs að taka færeyska embættismenn í starfsþjálfun í íslenska stjórnarráðinu. Vilja færeysk stjórnvöld, að færeyskir embættismenn kynnist starfsemi íslensku ráðuneytanna og starfsháttum innan þeirra. „Ég er viss um að við höfum meira gagn af því að sjá hvernig samfélag sem er fimm sinnum stærra en okkar tekur á málunum en samfélag með fleiri milljónum íbúa," sagði Kallsberg í samtali við Morgunblaðið af þessu tilefni.

***

 

 

Sjálfstæðisþróunin er mun skemmra á veg komin á Grænlandi en í Færeyjum. Grænlendingar ganga til þingkosninga 3. desember næstkomandi og er líklegt að sjálfstæðismálin setji svip sinn á kosningabaráttuna.

 

Lars-Emil Johansen telur, að skynsamlegasta leiðin til að efla sjálfstæðisvitund Grænlendinga sé að efna til þjóðarhreyfingar eins og hann og félagar hans gerðu, þegar þeir börðust fyrir því að segja Grænland úr lögum við Evrópusambandið á sínum tíma og fengu það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kunni að taka nokkur ár, að virkja Grænlendinga í þágu eigin sjálfstæðis en baráttan fyrir því sé hafin og muni setja svip á kosningarnar 3. desember.

 

Íslensk stjórnvöld hafa lagt Færeyingum lið í sjálfstæðisbaráttu þeirra með því að bregðast vel við óskum landstjórnarinnar þar. Sæki Grænlendingar eftir slíkri liðveislu verður hún vafalaust veitt.

 

Skiptir miklu fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með þróun þessara mála í næstu nágrannalöndum okkar. Sameiginlegir hagsmunir þjóðanna eru miklir á mörgum sviðum, ekki síst að því er varðar stjórn auðlindanýtingar á Norður-Atlantshafi og  ákvarðanir um öryggismál.

 

bjorn@centrum.is