21.11.2002

Þjóðarhagsmunir og Evrópusambandið.

Íslenskir þjóðarhagsmunir krefjast ekki aðildar að ESB.

Umræður um Ísland og Evrópusambandið (ESB) eru á villigötum þegar sagt er, að Íslendingar þurfi að sækja um aðild að ESB til að skilgreina samningsmarkmið sín. Þegar um ákvörðun af þessum toga er að ræða, eiga þjóðarhagsmunir að sjálfsögðu að ráða. Íslendingar þurfa ekki að leiða hugann að ESB til að átta sig á þeim.

 

Þegar þjóðarhagsmunir  eru skilgreindir líta þjóðir í eigin barm og meta stöðu sína í ljósi eigin reynslu. Þetta hafa aðildarþjóðir Evrópusambandsins gert og komist að þeirri niðurstöðu, að náið samstarf undir merkjum þess þjóni hagsmunum þeirra best. Skýrasta dæmið er frá Þýskalandi, þar sem aðild að Evrópusambandinu er skilgreind sem ein af grunnforsendum lýðræðislegra og friðsamlegra stjórnarhátta.

 

Höfuðmarkið samstarfsins undir fána Evrópusambandsins er að útiloka um aldur og ævi átök milli Frakka og Þjóðverja. Allir nágrannar þessara þjóða á meginlandi álfunnar höfðu að sjálfsögðu mikla hagsmuni af því að leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang ríkjasamstarfs í nafni friðar.

 

Besta leiðin til að efla samskipti þjóða er að opna landamæri þeirra fyrir gagnkvæmum viðskiptum. Með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu urðu Íslendingar virkir þátttakendur í þróun frjálsra viðskipta í Evrópu. Með aðildinni að Schengen-samkomulaginu opnuðust landamæri Íslands gagnvart Evópu með sama hætti og þau voru opnuð milli aðildarríkja ESB.

 

Rétta spurningin

 

Krefjast þjóðarhagsmunir okkar þess, að við göngum lengra á braut samningsbundinna samskipta við Evrópusambandið? Þessa spurningu á að ræða, en ekki hitt, að ekki sé unnt að átta sig á svarinu, nema sótt sé um aðild að ESB.

 

Svarið við spurningunni snýst meðal annars um það, hve mikið stjórnmálavald við viljum færa héðan til Brussel. Það snertir yfirráð okkar yfir eigin fiskimiðum. Endurmeta verður náið samstarf okkar við Bandaríkjamenn í varnarmálum. Huga ber að málsvörn okkar í ýmsum mikilvægum alþjóðastofnunum, hvort hún verði í okkar höndum eða ESB.

 

Ekki óskhyggja

 

Reynslan af deilunum um stefnuna í varnar- og öryggismálum á tímum kalda stríðsins ætti að kenna okkur, að aldrei má missa sjónar af aðalatriðum í hagsmunagæslu þjóðarinnar og gefast óskhyggjunni á vald.

 

Með hliðsjón af íslenskum þjóðarhagsmunum hafa ekki verið færð rök fyrir nauðsyn þess, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Velgengni þjóðarinnar á öllum sviðum undanfarin ár staðfestir, að við fylgjum farsælli stefnu í eigin málum inn á við og gagnvart öðrum þróðum. Ekki þarf að skilgreina nein samningsmarkið gagnvart ESB til að átta sig á því.