Vinstri/grænir í sömu sporum
Vettvangur í Morgunblaðinu
Víða um lönd hafa á undanförnum árum verið miklar umræður, sem byggjast á uppgjöri vegna stjórnmáladeilna og afstöðu einstakra flokka og manna á tímum kalda stríðsins. Deilurnar hafa meðal annars snúist um hollustu sósíalista og kommúnista við Sovétríkin og leiðtoga heimskommúnismans í Moskvu. Þá hafa þær verið um afstöðu manna til ákvarðana í utanríkis- og varnarmálum. Loks snúast þær að sjálfsögðu um ólíkar leiðir að því markmiði að tryggja einstökum þjóðum sem mesta hagsæld.
Hér hefur ekki farið fram neitt pólitískt uppgjör af þessum toga. Að vísu hafa komið út bækur um samskipti sósíalista á Íslandi við kommúnista í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu. Umræður um þetta pólitíska skeið Íslandssögunnar hafa hins vegar verið svipur hjá sjón miðað við það, sem gerst hefur annars staðar. Raunar eru ýmsir þeirrar skoðunar, að sársauki þeirra, sem sáu lífshugsjónir sínar og hugmyndafræði hrynja með brotthvarfi Sovétríkjanna, hafi verið og sé svo mikill, að í mannúðarskyni sé ekki vert að setja salt í þau sár.
***
Við höfum séð á síðum Morgunblaðsins undanfarna daga, hve aumur hinn pólitíski blettur er á þeim, sem telja sig handhafa kennisetninga og skoðana sósíalista.
Í leiðara Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag var vikið að því, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, hefði sagt á flokksráðsfundi flokks síns föstudaginn 15. nóvember, að flokkurinn vildi gerbreytta stefnu í landsmálum, sem fælist í vinstri stefnu og myndun velferðarstjórnar. Hann hefði bætti því við, að eðlilegir samherjar flokksins í baráttu fyrir gerbreyttri stjórnarstefnu væru hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn.
Morgunblaðið taldi af þessu tilefni ástæðu til að staldra við og spyrja, hvort vinstri flokkarnir væru líklegri til að stuðla að öflugra velferðarkerfi en núverandi stjórnarflokkar. Niðurstaðan í leiðaranum var þessi:
„Steingrímur J. Sigfússon er handhafi pólitískrar arfleifðar, þ.e. hinnar sósíalísku arfleifðar, sem hefur frá upphafi til þessa dags komið lítið við sögu í uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi að svo miklu leyti, sem um það hefur verið að ræða, fyrst og fremst vegna áhrifa þessara þjóðfélagsafla á sínum tíma innan verkalýðshreyfingarinnar.
Hugmyndir Steingríms J. Sigfússonar um velferðarstjórn á þeim forsendum, sem hann gefur sér, ganga því ekki upp.”
Steingrímur J. svarar fyrir sig í Morgunblaðinu 20. nóvember. Hann segist ekki vita, hvort hann standi undir handhafanafnbótinni en segist fulltrúi „róttækrar vinstri stefnu” (nú þorir enginn lengur að segjast vera sósíalisti) og segir undir lok greinar sinnar, að hlutur vinstri sinnaðra stjórnmálamanna sé glæsilegur við úrlausn einstakra mála:
„Er þá enn ótalið stærsta framlagið, hið sameiginlega og sígilda, þ.e. að leggja til sjálfan hinn hugmyndafræðilega grundvöll. Hugsjónirnar um jöfnuð, jafnrétti og félagslegt réttlæti eru ekki ættaðar af hægri væng stjórnmálanna heldur þveröfugt.
Morgunblaðinu mun ekki takast að ræna því af íslenskum vinstri mönnum að hafa með hugmyndafræði sinni og baráttu lagt grunninn að velferðarsamfélaginu og átt stærstan þátt í að byggja það upp.”
Í leiðara 21. nóvember telur Morgunblaðið, að Steingrímur J. sé ekki nógu vel að sér í pólitískri sögu á síðari helmingi 20. aldarinnar, ef marka megi svar hans við fyrri leiðara blaðsins. Morgunblaðið hafi ekki verið að gera tilraun til að ræna einu eða neinu af vinstrimönnum. Rannsóknir sagnfræðinga á þessum þáttum muni leiða í ljós, að sú söguskýring, sem Morgunblaðið hafi sett fram, eigi við full rök að styðjast. Það geti varla skaðað hugmyndir Steingríms J. um velferðarstjórn, þótt sögulegum staðreyndum um uppbyggingu velferðarríkis á Íslandi sé haldið til haga!
***
Fáum kemur líklega á óvart, að ég sé sammála afstöðu Morgunblaðsins í viðræðum þess við Steingrím J. Sigfússon. Íslenska velferðarþjóðfélagið hefði einfaldlega aldrei komið til sögunnar, ef sósíalistar hefðu náð undirtökum í íslenskum stjórnmálum.
Steingrímur J. kýs að fjalla aðeins um aðra hlið málsins, það er þá, sem snýr að úrræðum af hálfu ríkisvaldsins til að bæta hag borgaranna, til dæmis með setningu laga um velferðarmál. Stjórnmálasagan sýnir þó, að í því efni þurftu sjálfstæðismenn engin ráð frá sósíalistum. Flokkur þeirra var reistur á þeim grunni, að stétt skyldi starfa með stétt. Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði stéttaátökum kommúnista og sósíalista og marxískri hugmyndafræði, sem nú hvílir á sorphaug sögunnar.
Formaður vinstri/grænna sleppir auk þess alveg hinni hliðinni á peningnum. Það er afstöðunni til atvinnumála og viðleitni til að skapa sem mest svigrúm fyrir einstaklinga til að njóta sín og eigin frumkvæðis. Hann lítur fram hjá þeirri staðreynd, að forverar hans og hugsjónabræður höfðu þá stefnu, að ríkið ætti að hafa algjöra forystu í atvinnumálum og eiga öll atvinnutækin. Hugsjónalegt fordæmi þeirra sást í framkvæmd í ríkjum kommúnista, fátæktar- og ofstjórnarríkjunum, þar sem markmiðið var að ná betri árangri en í ríkjum kapítalismans, hins frjálsa framtaks. Allir vita nú, hvernig því kapphlaupi lauk.
***
Fleyg urðu þau ummæli eins af forverum Steingríms J. á einhverjum fundi Alþýðubandalagsins, að finna mætti tengsl á milli skoðana Marx og Engels annars vegar og Jóns Sigurðssonar forseta hins vegar. Ekki er lengri tími liðinn en um tveir áratugir, frá því að fráleitar söguskýringar af þessum toga voru notaðar til að fegra sósíalismann á Íslandi.
Ef marxismi hefði ráðið hér ferð í stað borgararlegrar frjálsræðisstefnu í anda Jóns Sigurðssonar, hefði íslenska þjóðfélagið aldrei öðlast fjárhagslegt bolmagn til að standa undir velferðarkerfinu. Ef andstaða sósíalista eða vinstri róttæklinga við erlenda fjárfestingu, hefði hlotið stuðning kjósenda, væri íslenskt atvinnulíf enn óburðugt og verkmenntun til virkjana, stórframkvæmda og stóriðju ekki fyrir hendi. Ef andstaða sósísalista eða vinstri róttæklinga gegn aðild Íslands að EFTA, evrópska efnahagssvæðinu og öðrum alþjóðasamningum í þágu viðskiptafrelsis hefði ráðið, væru íslenskir útflutningsatvinnuvegir og iðnaður í molum. Ef óvild sósíalista eða vinstri róttæklinga í garð NATO og varnarsamstarfsins við Bandaríkin, hefði mótað utanríkisstefnu Íslands væri öryggi þjóðarinnar og stöðu á alþjóðavettvangi öðru vísi háttað.
***
Deila Morgunblaðsins við Steingrím J. Sigfússon fer fram á síðum blaðsins sömu daga og leiðtogar 19 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) koma saman í Prag til að verða við eindregnum óskum 7 fyrrverandi leppríkja Sovétríkjanna um aðild að bandalaginu.
Vinstri/grænir undir forystu Steingríms J. eru hins vegar þeirrar skoðunar, að Ísland eigi að ganga úr NATO. Þeir eru enn sama sinnis og á tímum kalda stríðsins, þegar jafnan var samhljómur í stefnu róttækra vinstrisinna og Sovétríkjanna eða friðarhreyfinganna, sem störfuðu undir handarjaðri þeirra.
Fyrir nokkrum vikum var Vaira Vike-Freiberga, forseti Lettands, hér í opinberri heimsókn og flutti erindi um réttmæti þess, að land hennar fengi aðild að NATO. Var það liður í baráttu Letta fyrir þeirri niðurstöðu, sem nú hefur fengist í Prag við fögnuð þeirra og annarra umsóknarþjóða.
Lettlandsforseti tók þátt í hringborðsumræðum um NATO og hlutverk smáþjóða í Þjóðmenningarhúsinu. Þar spurði Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna og andstæðingur NATO, Vike-Freiberga, hvernig friðarhreyfingum liði í Lettlandi. Forseti Lettlands var ekki í neinum vafa um eðli og tilgang hinna svonefndu friðarhreyfinga frá áttunda og níunda áratugnum. Lettar hefðu ekki mikinn áhuga eða skilning á starfsemi þeirra, eftir að hafa mátt þola, að áróðri þeirra var troðið ofan í kokið á þeim af kommúnistum og marxistum undir stjórn Rússa. Friðarhreyfingar eins og þær, sem Kolbrún spurði um, væru enn svo nátengdar sovéska ánauðartímanum í hugum Letta, að ekki væru miklar líkur á því, að menn tækju mark á málflutningi þeirra í bráð.
Hvað sem má segja um vinstri/græna, er eitt ljóst: Þótt allt breytist, standa þeir áfram í sömu sporum.
bjorn@centrum.is