21.11.2002

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.

Borgarstjórn,21. nóvemeber, 2002

 

7946187752_2a39af9b47_b

Ég kveð mér hljóðs vegna tillögu, sem við sjálfstæðismenn lögðum fram í borgarráði 19. nóvember vegna höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur.

Tillagan er svohljóðandi:

 „Nú dregur að því, að nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) verði teknar í notkun. Deilur hafa verið um kostnað við gerð þeirra og flutning OR í hið nýja húsnæði auk þess sem ekki er með öllu ljóst, hvernig fyrirtækið ætlar að nýta það.  Reykvíkingar eiga hér mikilla hagsmuna að gæta sem 92.22% eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

Mikilvægt er, að allar staðreyndir um fjárútlát vegna þessa mikla mannvirkis og um nýtingu þess liggi fyrir, svo að unnt sé að meta réttmæti fjárfestingarinnar á hlutlægum forsendum. Þess vegna er lagt til að borgarendurskoðanda, Deloitte & Touche og Fasteignastofu Reykjavíkur verði falið að tilnefna einn fulltrúa hver í starfshóp, sem skili borgarráði skýrslu um öll útgjöld vegna smíði höfuðstöðva OR og flutnings þangað auk yfirlits yfir nýtingu hins nýja húss í þágu OR.”

Samkvæmt „síðustu áætlun“ er kostnaður við OR-húsið 2,485 milljónir króna. Fleiri áætlanir eru væntanlega, því að ekki eru öll kurl enn komin til grafar, til dæmis er ekki í þessari  síðustu áætlun gert ráð fyrir kostnaði við að leggja hita í bílastæði við höfuðstöðvarnar.

Inn í heildardæmið vegna höfuðstöðvanna vantar einnig kostnað við kaup á húsi fyrir framkvæmdasvið OR undir verkstæði, skrifstofur og vinnuflokka, það er 4/5 hluta af Réttarhálsi 4 fyrir 395 milljónir króna, en starfsmannaaðstaða í nýju höfuðstöðvunum á að nýtast fyrir þá, sem vinna að Réttarhálsi 4. Ekki hefur verið lokið við að innrétta húsnæðið að Réttarhálsi 4 eða tengja húsin, en kostnaður við þær framkvæmdir hefur að sögn forstjóra OR einungis verið gróflega áætlaður um 150 milljónir króna.

Séu þessar tölur, sem allar eru opinberar frá OR, lagðar saman kemur í ljós, að kostnaður við nýjar höfuðstöðvar er að minnsta kosti kominn í 3030 milljónir króna.

Ástæðulaust er að menn séu að togast á um þessar tölur. Einfaldasta leiðin til að eyða ágreiningi um þær er að fela hlutlausum aðilum að taka saman skýrslu með þeim hætti, sem lýst er framangreindri tillögu. Ég tel víst, að borgarráð samþykki hana.