20.11.2002

Raforkufrumvarp í vanda

Frumvarpið er að litlum hluta byggt á EvrópuréttiMorgunblaðsgrein

Á nokkrum þingum hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp til nýrra raforkulaga, án þess að það hafi náð fram að ganga. Kveikjan að frumvarpinu eru breytingar á Evrópurétti, þar sem mælt er fyrir um samkeppni og markaðsvæðingu á sviði orkumála.

Fyrir nokkru lýsti ég andstöðu minni við frumvarpið á þeirri forsendu, að reglur Evrópusambandsins byggðust á allt öðrum meginviðhorfum en ríkja hér á landi. Hefði verið skynsamlegast fyrir Íslendinga að leita eftir undanþágu frá þessum reglum, ef verið væri að framfylgja þeim með hinu nýja raforkulagafrumvarpi.

Tilefni notað

Við nánari umræður og skýringar kemur í ljós, að frumvarpið til raforkulaga er ekki nema að litlum hluta byggt á Evrópurétti. Tilefnið vegna breytinga á honum hefur einfaldlega verið notað til að semja frumvarp að nýjum íslenskum raforkulögum.

Hér skal ekki dregið í efa, að nauðsynlegt sé að setja ný raforkulög á Íslandi og skapa orkufyrirtækjum nýjan almennan starfsramma. Hitt er óskynsamlegt að standa þannig að málum, að blanda þessu tvennu saman, kröfunni um að laga sig að Evrópuréttinum og nýju heildarlöggjöfinni. Ganga síðan fram með þeim hætti, að þingmenn séu að bregðast skyldum samkvæmt samningum um evrópska efnahagssvæðið með því að veita raforkulagafrumvarpi ekki brautargengi.

Einföld leið

Aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu hefur hvatt til endurnýjunar á mörgum lagaákvæðum og kallað á ný. Þegar staðið er að málum eins og gert hefur verið við nýja raforkulagafrumvarpið, vekur það tortryggni meðal þingmanna um, að verið sé að knýja fram mál í krafti Evrópusamþykkta á haldlitlum eða jafnvel röngum forsendum.

Iðnaðarráðherra og embættismenn iðnaðarráðuneytisins eiga einfalda leið út úr þessum vanda. Þeir geta lagt fram frumvarp til laga, sem tekur á þeim málum, sem leiða beint af Evrópurétti. Það ræðst síðan af afdrifum þess, hvaða þættir Evrópuréttarins þurfa að móta nýja almenna, íslenska raforkulöggjöf. Unnt verður að ræða hana og afgreiða án þess að eiga hina evrópsku eftirlitsaðila yfir höfði sér.