7.11.2002

Réttarstaða Orkuveitu Reykjavíkur - borgarstjórnarræða

Réttarstaða
Orkuveitu Reykjavíkur.


Borgarstjórn Reykjavíkur
7. nóvember, 2002.
Ég vísa til töluliðar 23 í fundargerð borgarráðs frá 22. október. Þar er meðal annars að finna bókun frá fulltrúum R-listans í borgarráði, þar sem segir:

„Fulltrúar D-listans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa óskað eftir ýmsum upplýsingum um forsendur samninga um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á ljósleiðaraneti Línu.nets. Formaður stjórnar hefur lýst því yfir að þeirra upplýsinga verði aflað. Málið er því til meðferðar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og þar af leiðandi í eðlilegum farvegi.”

Þessi bókun R-listans er í samræmi við orð borgarstjóra hér í borgarstjórn 15. október síðastliðinn, þegar hún sagði, að upplýsingar sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru að óska eftir ættu þeir að fá inni í Orkuveitu Reykjavíkur eins og hún orðaði það og gerði hún ráð fyrir, að þær yrðu lagðar fram þar og kynntar, ef þær hefðu ekki komið til manna með öðrum hætti.

Nú eru þrjár vikur liðnar frá því að þessi orð féllu og haldinn hefur verið stjórnarfundur í Orkuveitu Reykjavíkur, án þess að upplýsingarnar væru lagðar fram.

Borgarstjóri sagði einnig af þessu tilefni í ræðu sinni hér í borgarstjórn, að málefni Orkuveitu Reykjavíkur ættu ekki undir borgarráð vegna þess að nú væri Orkuveita Reykjavíkur orðin að sameignarfélagi einkaréttarlegs eðlis og starfaði í samræmi við það.

Þessi orð borgarstjóra stangast á við skilning formanns stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, sem vísaði til 19. greinar sveitarstjórnalaga í bókun í stjórn Orkuveitunnar, þegar hann hafnaði því, að hann væri vanhæfur til að ráðskast með milljarði króna í nafni Orkuveitunar og Línu.nets sem stjórnarformaður í báðum fyrirtækjunum. Hefði formaðurinn ekki vísað í sveitarstjórnalögin, ef hann liti þannig á að opinberar stjórnsýslureglur giltu ekki um Orkuveituna.

Í öðru orðinu er því sem sagt haldið fram af fulltrúum R-listans, að Orkuveita Reykjavíkur sé ekki lengur opinbert fyrirtæki heldur einkafyrirtæki og lúti lögmálum einkaréttar. Í hinu orðinu er sagt, að beita eigi vanhæfisreglum 19. greinar sveitarstjórnarlaganna um stjórnarformann fyrirtækisins. En í lagagreininni er fjallað um vanhæfi sveitarstjórnarmanns við störf sín í sveitarstjórn. Hvernig sem á málið er litið, er langsótt að jafna stjórn Orkuveitunnar við sveitarstjórn, en um það álitamál skal ekki fjallað hér heldur hitt, hver sé hin raunverulega réttarstaða fyrirtækisins, úr því að borgarstjóri kaus að bera hana fyrir sig til að skjóta sér undan að ræða efnislega um málefni fyrirtækisins í borgarráði.

Þegar um þetta er rætt er nauðsynlegt að vísa til þess, sem umboðsmaður alþingis segir í skýrslu sinni fyrir árið 2001, sem rædd var á alþingi í dag. Hann segir: „Ég hef orðið þess var í störfum mínum að sífellt fleiri álitaefni vakna um það hvort og þá með hvaða hætti almennar reglur stjórnsýsluréttar eiga við um hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Hafa verður í huga að ekki er sjálfgefið að breytt rekstrarform opinberrar þjónustu eða verkefni leiði til þess að mögulegt sé að láta hjá líða að taka tillit til stjórnsýslureglna við framkvæmd slíkra málefna. Taka þarf jafnan afstöðu til þess m.a. hvaða reglur eigi að gilda um nánari útfærslu á einstökum þjónustuþáttum eða verkefnum og þá t.d. hvort það að þjónustan sé í raun veitt af opinberum aðila hafi það í för með sér að framkvæmd hennar þurfi þrátt fyrir hið breytta rekstrarform að byggjast á reglum um jafnræði og á öðrum málefnalegum sjónarmiðum.”

Réttaróvissan, sem umboðsmaður alþingis, lýsir í skýrslu sinni setur mikið mark sitt á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Lögin um Orkuveituna, sem samþykkt voru í desember 2001, eyða alls ekki þessari óvissu. Hvorki alþingi né þeir, sem ákváðu að breyta Orkuveitunni í sameignarfélag sex sveitarfélaga, tóku afstöðu til þess í hvaða mæli sjónarmið um aukið hagræði og skilvirkni við framkvæmd þjónustu Orkuveitunnar ætti að skerða það réttaröryggi, sem býr að baki almennra stjórnsýslureglna í samskiptum stjórnvalda og borgaranna. Til að taka af allan vafa um réttarstöðu fyrirtækja á borð við Orkuveituna telur umboðsmaður, að alþingi eigi að setja rammalöggjöf slík fyrirtæki og tóku þingmenn undir nauðsyn þess í umræðunum á alþingi í morgun.

Taka má sem dæmi, að gjaldskrá Orkuveitunnar er háð staðfestingu iðnaðarráðherra. Umboðsmaður alþingis spyr, hvort gjaldtaka slíks fyrirtækis fyrir veitta þjónustu eigi einungis að miðast við kostnað við að veita þjónustuna og í hvaða mæli arðgreiðslur til eigenda megi til dæmis hafa þar áhrif. Spurning er, hvort umboðsmaður telji skýrar lagaheimildir varðandi þetta atriði að finna í lögunum um Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir einnig, að fyrir slík fyrirtæki þurfi að gilda skýrar leikreglur um þátttöku þeirra í öðrum atvinnurekstri og um ráðstöfun fjármuna úr sjóðum þeirra.

Meinbugur er að þessu leyti varðandi Orkuveitu Reykjavíkur og víst er, að mjög langsótt er að ætla, að leikreglurnar, sem umboðsmaður telur nauðsynlegar, hefðu heimilað hina umdeildu ráðstöfun á milljörðum Orkuveitunnar til Línu.nets.

Undanfarna daga og vikur hefur komið í ljós, að ekki var nægilega vel staðið að gerð laganna um Orkuveitu Reykjavíkur, sem samþykkt voru 21. desember á síðasta ári. Sérstaklega er þetta bagalegt vegna þess hve illa er haldið á forystu í stjórn fyrirtækisins. Er nú svo komið, að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar reynir að bjarga sér úr eigin vandræðum með vafasamri túlkun á 1. grein laganna og 7. sameignarsamningsins um fyrirtækið í þrákelkni sinni við að komast hjá því að kynna eigendum fyrirtækisins skuldbindingar þess vegna Línu. nets.

Það er ekki aðeins dregið úr hömlu eða beinlínis látið undir höfuð leggjast að veita stjórnarmönnum upplýsingar heldur einnig tekið til við að túlka lög og samninga vegna fyrirtækisins á þann veg, að draga sem mest úr upplýsingaskyldu við eigendur fyrirtækisins. Var offorsið við þessa einstæðu lagatúlkun svo mikið á síðasta stjórnarfundi Orkuveitunnar að hafnað var ósk okkar sjálfstæðismanna að fá að skoða málið milli funda. Gafst því ekki færi á að benda á þá ótrúlegu villu í lagatúlkun meirihluta stjórnar Orkuveitunnar að líkja ákvörðunum um raforkukaup af Landsvirkjun við fjármálasviptingarnar vegna Línu.nets.

Spurning er, hvort borgarstjóri ætli að láta við það sitja sem gæslumaður 92,22% eignarhluta í Orkuveitunni, að lög og samningar um fyrirtækið séu skýrðir á þann veg að útiloka eigendur sem mest frá ákvörðunum um skuldbindingar í nafni fyrirtækisins á ábyrgð eigenda þess.

Af hálfu meirihluta stjórnar Orkuveitunnar hefur verið stofnað til ágreinings um það, hvað felst í 1. grein laganna, þar sem segir, að Orkuveitan þurfi að fá fyrir fram samþykki allra eignaraðila, ef nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju. Þetta ákvæði er áréttað í 7. grein sameignarsamningsins og þar segir: „Með skuldbindingum er í ákvæði þessu átt við lántökur, kaup. sölu eða veðsetningu á fasteignum fyrirtækisins eða öðrum veigameiri eignum þess, hlutabréfum, lánveitingar, o.þ.h.”

Stjórnarmeirihlutinn áttar sig greinilega ekki á mikilvægi þess fyrir hagsmunagæslu eigenda fyrirtækisins, að gera greinarmun á almennum rekstrarskuldbindingum, sem ekki þurfa almennt að fara fyrir eigendur sameignarfélags og öðrum verulegum skuldbindingum sem ber að leggja fyrir eigendur. Ljóst er, að heimildir forstjóra og stjórnar til að skuldbinda félagið ná til alls daglegs rekstrar. Aðrar skuldbindingar í sameignarfélögum þurfa samkvæmt reglum um sameignarfélög almennt samþykki eigenda. Í lögum Orkuveitunnar og sameignarsamningi er hins vegar gerð sú undanþága til hagræðis, að séu skuldbindingar innan við 5% mörkin, þarf ekki samþykki eigenda. Þetta er gert til að auka heimildir stjórnar frá því sem ella væri. Ef komið er yfir 5%, falla samkvæmt lagaákvæðinu allar skuldbindingar undir það, sem ekki eru venjulegar rekstrarskuldbindingar.

Í lögskýringarsamþykkt sinni síðastliðinn þriðjudag er meiri hluti stjórnar Orkuveitunnar að skjóta sér undan skyldunni til að bera skuldbindingar umfram 5% mörkin undir eigendur fyrirtækisins á þeirri forsendu, að skyldan skapi „mjög þunglamalega afgreiðslu mála” eins og það er orðað. Heimili lög Orkuveitunnar undanbrögð með slíkum rökum til að skapa eigendum ábyrgð án fyrir fram vitneskju þeirra eru þau meingölluð.

Raunar sýnir það best fljótaskriftina á lögunum, að þau kalla á deilur um það, hvernig eigi að taka á jafneinföldu viðfangsefni og því, hver sé höfuðstóll fyrirtækisins. Ef ætlunin hefði verið að taka þar mið af áætluðum stofnefnahagsreikningi Orkuveitunnar, hefði átt að taka af skarið um það efni í bráðbirgðaákvæði með lögunum. Það var ekki gert og liggja fyrir tvö gagnstæð lögfræðiálit um þetta efni.

Loks er rétt að minna á, að lögin um Orkuveitu Reykjavíkur ganga þvert á það, sem lögfræðingar og sérfræðingar í orkumálum töldu skynsamlegast, þegar þau voru samin og samþykkt, það er að fyrirtækið skyldi verða gert að hlutafélagi. Voru það pólitískar deilur innan R-listans, sem ollu því, að stofnað var sameignarfélag en ekki hlutafélag.

Forseti!

Eitt er, að lögin um Orkuveitu Reykjavíkur séu gölluð. Hitt gerir illt verra, að hvað eftir annað er staðið með ámælisverðum hætti að töku ákvarðana í stjórn fyrirtækisins og meira að segja látið undir höfuð leggjast að veita stjórnarmönnum upplýsingar til að auðvelda þeim að átta sig á stöðu þess og skuldbindingum.

Borgarstjórn Reykjavíkur getur ekki skotið sér undan ábyrgð á þessu fyrirtæki. Reykjavíkurborg á 92,22% í Orkuveitunni og ber ríka fjárhagslega ábyrgð vegna hennar. Á borgarráðsfundi hinn 22. október minntum við sjálfstæðismenn á þá staðreynd, að ábyrgðir sveitarfélaga hefðu áhrif á lánskjör þeirra og spurðum hve mikil áhrif ábyrgðin vegna kaupanna á ljósleiðarakerfi Línu. nets hefði á lánskjör Reykjavíkurborgar. Mæltumst við til þess, að borgarstjóri legði fyrir borgarráð skýrslu um áhrif skuldbindinga Orkuveitunnar á lánskjör Reykjavíkurborgar.

Við bíðum enn eftir þessari skýrslu í borgarráði. Við bíðum einnig enn eftir upplýsingum í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur um forsendur samninga um kaup Orkuveitunnar á ljósleiðaraneti Línu.nets.

Í fyrrgreindri skýrslu umboðsmanns alþingis rifjar hann upp, þegar hann ræðir stöðu hlutafélaga og sameignarfélaga í opinberri eigu í stjórnsýsluréttarlegu tilliti, að hann hafi skyldað Landsvirkjun til að veita einstaklingi aðgang að gögnum fyrirtækisins á þeirri forsendu, að starfsemi, resktur og ákvarðanataka hjá Landsvirkjun væri alfarið undir áhrifum opinberra aðila í krafti eignarhalds og líta bæri á það sem „stofnun” ríkis eða sveitarfélaga. Ef allt um þrýtur, kann að þurfa láta á það reyna með vísan til stjórnsýslulaga og laga um upplýsingaskyldu, hvort ekki eigi að líta á Orkuveitu Reykjavíkur sem stofnun í þessu tilliti, hvað sem líður breytingu fyrirtækisins í sameignarfélag.

Það er til marks um hina einstæðu stjórnarhætti í fyrirtækinu, ef stjórnarmenn þess þurfa að grípa til slíkra úrræða í því skyni að geta sinnt störfum sínum og axlað þá ábyrgð, sem á þá er lögð lögum samkvæmt.

Forseti!

Einn eiganda Orkuveitu Reykjavíkur, Garðabær, hefur nú óskað eftir að selja hlut sinn í fyrirtækinu og stjórn Orkuveitunnar mælir með því að gengið verði til samninga um það mál.

Ég tel skynsamlegt að um leið og sú breyting verður á eignarhaldi Orkuveitunnar verði gengið til þess verks að endurskoða lögin um fyrirtækið til að taka með ótvíræðum hætti af skarið um þau álitamál, sem hér hefur verið lýst, auk þess sem Orkuveitan verði hlutafélag í eigu sveitarfélaga en ekki sameignarfélag, því að með því yrðu nýttir bestu kostir einkaréttar við rekstur fyrirtækja, þótt Orkuveitan lyti áfram stjórnsýslulegum boðum og bönnum sem fyrirtæki í opinberri eigu.