29.9.1998

Stóriðjuskóli - ÍSAL

Stóriðjuskóli
ÍSAL 29. september 1998

Í dag fögnum við ekki aðeins nýjum áfanga í stóriðjusögunni heldur einnig skólasögunni. Vil ég í upphafi máls míns óska öllum, sem að málinu standa innilega til hamingju með framtakið.

Síðastliðinn laugardag efndu kennarasamtökin til fjölmenns framhaldsskólaþings um nýjar áherslu í framhaldsskólum. Í ræðu minni við upphaf þingsins komst ég þannig að orði, að sá atburður, sem hér er að gerast í dag væri merk nýjung í samskiptum skóla og atvinnulífs.

Er gleðilegt að verða vitni að því, að samstarf Íslenska álfélagsins, trúnaðarráðs starfsmanna þess og formanna tíu verkalýðsfélaga skuli bera þennan ávöxt. Tel ég sérstaklega mikilvægt, að leitað var samstarfs við hið almenna skólakerfi og óska ég Iðnskólanum í Reykjavík sérstaklega til hamingju með að hafa verið valinn til að annast kennsluna.

Ég vona, að fleiri fyrirtæki fari sömu leið og hér hefur verið valin. Hún ýtir mjög undir tengsl skóla og atvinnulífs. Bæði hér á landi og erlendis sjást þess merki, að öflug fyrirtæki telji menntun starfsmanna sinna og annarra betur komna í eigin höndum en hefðbundinna skóla. Eru til dæmis miklar umræður um þetta á háskólastiginu, því að skólar eru komnir í harða samkeppni um kennara og nemendur við háskóladeildir innan stórfyrirtækja.

Slíkt gæti hæglega gerst á framhaldsskólastigi, þegar litið er til starfsnáms. Vilji menn, að skólarnir séu þungamiðja í menntakerfinu, verða stjórnendur þeirra og starfsmenn að sýna þann sveigjanleika, sem atvinnulífið krefst, annars leitar það úrræða utan skólanna og nemendur fara einfaldlega þangað, sem þeir telja menntunina besta. Skólar án nemenda eru lítils virði.

Fyrir nokkrum vikum samþykkti ríkisstjórnin, að menntamálaráðuneytið færi með yfirstjórn símenntunar og endurmenntunar. Með þeirri samþykkt er áréttað, að við skipulag og kröfur í slíku námi eigi fyrst og fremst að leggja menntun og þjálfun í krafti hennar til grundvallar. Vil ég, að framhaldsskólar og háskólar nýtist sem best fyrir þá, sem vilja stunda símenntun.

Innan ráðuneytisins er nú verið að undirbúa fimm ára átak til að efla símenntun og verður sérstakri verkefnisstjórn falið að stýra þessu átaki.

Eitt fyrsta markmiðið, sem menn þurfa að hafa að leiðarljósi, þegar hugað er að símenntun og endurmenntun, er að forgangsraða í þágu menntunar. Það er að taka ákvarðanir við stjórn og rekstur fyrirtækja sinna með menntun í fyrirrúmi. Við erum einmitt hér í dag, af því að þetta hefur verið gert innan ÍSAL, sem stendur að Stóriðjuskólanum.

Rekstur þess skóla kostar töluvert fé eins og annað skólastarf. Ég er hins vegar sannfærður um, að þeir peningar skila sér fljótt aftur til fyrirtækisins. Enginn stenst samkeppni nú á tímum nema hann sé reiðubúinn að fjárfesta í rannsóknum, þróun og menntun. Fjárfesting sem felst í góðri menntun er arðbær í mörgum skilningi. Ég nefni tvennt. Í fyrsta lagi verður hún aldrei frá þeim tekin, sem nýtur menntunarinnar. Í öðru dragast þeir einfaldlega fljótt aftur úr, sem tileinka sér ekki hið nýjasta og besta.

Ég er sannfærður um, að það verða ekki einungis þeir, sem menntast í Stóriðjuskólanum, sem njóta góðs af því. Áhrifanna mun fljótt gæta í starfi þeirra og þar með gera hin öflugu fyrirtæki enn sterkari í alþjóðlegri samkeppni.