26.9.2002

Pólitíkin og formaður KÍ - Morgunblaðsgrein


Pólitíkin og formaður KÍ


EIRÍKUR Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, leitast við að verja veikburða málflutning sinn vegna Áslandsskóla í Morgunblaðinu 25. september. Ræðst hann þar enn á ný á mig vegna málsins og endurtekur þá staðleysu, að lög hafi verið brotin með því að heimila tilraunina í skólanum að ósk Hafnarfjarðarbæjar.
Eiríkur Jónsson kaus að blanda mér inn í Áslandsskóladeiluna með þeim hætti, sem fram kom í hádegisfréttum RÚV 16. september, þar sem sagði:

"Þar kom fram að Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, telur að einkarekstur Áslandsskóla hafi farið af stað til að fullnægja pólitískum hvötum fyrrverandi menntamálaráðherra og bæjarstjóra í Hafnarfirði. Skólinn hafi verið settur á stofn sem ógnun við samtök kennara og í óþökk þeirra. Þá hafi ekki verið ljóst frá hvaða lagaákvæðum skólinn hafi fengið undanþágu."

Af þessu tilefni sendi ég fréttastjóra RÚV athugasemd og var greint frá henni í hádegisfréttum RÚV 17. september. Athugasemdin er svohljóðandi:

"Það er sérkennilegt, svo að ekki sé meira sagt, að formaður Kennarasambands Íslands fullyrði, að þeir, sem koma að rekstri Áslandsskóla, hafi gert það að mínum óskum eða hvötum. Skora ég á hann að færa sönnur á þessa fullyrðingu sína. Undir minni forystu brást menntamálaráðuneytið hins vegar við tilmælum um, að Áslandsskóli yrði einkaskóli og rekinn í tilraunaskyni samkvæmt heimild í grunnskólalögum. Veitti ráðuneytið skólanum starfsleyfi eftir nákvæma athugun af hálfu embættismanna og með vísan til skýrra lagaákvæða. Formaður Kennarasambandsins hefur allt frá fyrsta degi lagt stein í götu starfsins í Áslandsskóla og nú kemur í ljós, að hann hefur gert það vegna pólitískrar andstöðu við mig og fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Íhlutun formanns Kennarasamsambandsins í málefni skólans á þessum forsendum sýnir aðeins, að hann getur ekki fjallað málefnalega og faglega um Áslandsskóla."

Í pistli á vefsíðu minni (bjorn.is) sagði ég meðal annars í tilefni af þessu frumhlaupi Eiríks Jónssonar:

"Ekki er ég síður undrandi á því, hvernig Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), tekur á málinu og leitast jafnvel við að klína þessum vandræðum á mig í samtali við fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Lét hann orð falla á þá leið, að vegna pólitísks áhuga míns hefði verið farið út í rekstur skólans á þessum forsendum. Ég veit ekki, hvað Eiríkur hefur fyrir sér í þessu. Eitt er víst, að allt frá fyrsta degi hefur afstaða hans til Áslandsskóla einkennst af mikilli þröngsýni og viðleitni til að leggja stein í götu skólastarfsins. Er auðvelt að færa rök fyrir því, að í því efni hafi Eiríkur farið út fyrir umboðið, sem hann hefur sem formaður KÍ."

Þetta eru þau orð, sem ég hef látið falla um Eirík Jónsson og Áslandsskóla. Í tilefni af þeim segir hann meðal annars í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein:

"Yfirlýsing af þessu tagi [athugasemd mín til RÚV] eru skilaboð frá Birni um að þeir sem ekki aðhyllast skoðanir sjálfstæðismanna séu óhæfir til að fjalla um þjóðfélagsmál. Ég hélt satt að segja að þessi lína hefði dáið með falli gömlu Sovétríkjanna. Björn hefur hins vegar kosið að endurvekja austantjaldsstílinn og gera hann að sínum þegar hann sakar menn um "andsjálfstæðisflokksískan áróður"."

Þessi sérkennilegu ummæli Eiríks í Morgunblaðinu dæma sig sjálf. Þau staðfesta aðeins, að honum virðist ókleift að fjalla um einkarekinn Áslandsskóla á málefnalegan hátt. Biðst ég enn undan því, að formaður Kennarasambands Íslands sé að setja mig í þá skúffu með sér.-------------------------------------------