28.9.2002

Velferðarmál á kosningaþingi - vettvangur Morgunblaðinu

Velferðarmál á kosningaþingi


ALÞINGI verður sett á þriðjudag, 128. löggjafarþingið og kosningaþing. Störf Alþingis í vetur taka að sjálfsögðu mið af því, að efnt verður til þingkosninga 10. maí 2003. Tónninn í umræðum vetrarins verður sleginn daginn eftir þingsetningu, því að þá flytur Davíð Oddsson forsætisráðherra stefnuræðu sína og talsmenn annarra flokka láta ljós sitt skína. Fjárlög fyrir árið 2003 eru fyrsta þingmálið. Á föstudag verður fyrsta umræða um þau.
Fram að áramótum einnkennist starf Alþingis af vinnu við fjárlagafrumvarpið. Fjárlaganefnd leiðir verkið innan þings en í öllum nefndum eru sérstakir kaflar frumvarpsins teknir til meðferðar. Verkaskipting milli fagnefnda, það er þingnefnda, sem fjalla um einstaka málaflokka, og fjárlaganefndar hefur verið að mótast undanfarin ár. Hefur ekki verið laust við togstreitu um það, hvort fjárlaganefnd eða fagnefnd á síðasta orðið um ráðstöfun fjár til verkefna. Formlega er valdið fjárlaganefndar en efnislega telur fagnefndin sig hafa betri forsendur til að velja og hafna.

Almennt viðkvæði er, að ríkisstjórn og þingmenn sýni ekki nægilega aðgæslu við meðferð á skattfé almennings á kosningaári. Mönnum hættir til að verða of rausnarlegir í útgjöldum í þeirri trú, að þar með ávinni þeir sér meiri hylli kjósenda. Vitundin um gagnrýni af þessum toga er hins vegar rík hjá þingmönnum og hún setur eyðsluþránni skorður.


Stærsti einstaki útgjaldaliður fjárlaga lýtur að heilbrigðismálum og almannatryggingum. Á undanförnum árum hefur hvað eftir annað verið gripið til úrræða í því skyni að koma böndum á þessi útgjöld. Því miður hafa hvorki þingmenn né aðrir haft erindi sem erfiði. Rammar bresta og vá er sögð fyrir dyrum vegna fjárskorts.
Í umræðum um tugmilljarða fjárveitingar til heilbrigðismála virðist stundum eins og mönnum fallist hendur gagnvart viðfangsefninu. Það er svo stórt og flókið, að ekki er við því að búast, að aðrir en sérfróðir hafi sýn yfir það allt. Deilur snúast oft um ákveðna hópa lækna eða kaup á einstökum tækjum. Vandanum er lýst með myndum af aðstöðuleysi í sjúkrahúsum eða lýsingu á því, hve lengi fólk þarf að bíða eftir aðgerðum.

Lesendur Morgunblaðsins, sem gefa sér tíma til að lesa allt í blaðinu um vanda heilbrigðiskerfisins og lausn hans, vita áreiðanlega ekki sitt rjúkandi ráð. Úrræðin vegna verkefna í þessum dýrasta málaflokki ríkisins eru næstum jafnmörg og mennirnir, sem lýsa þeim. Fyrir utan miklar umræður um heilbrigðismál í fjölmiðlum og við meðferð fjárlagafrumvarps ár hvert er málaflokkurinn vinsæll til upphlaupsumræðna á Alþingi. Alltaf er unnt að finna eitthvert gagnrýnisatriði og draga mynd af því, sem vekur athygli fjölmiðla.


Á kosningaþingi verður mikið um harðar umræður utan dagskrár eða í upphafi þingfunda. Þingsköp heimila, að í 20 mínútur við upphaf þingfundar geti menn rætt um störf þingsins. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, hefur túlkað ákvæðið svo rúmt, að þingmenn geta blásið út um næstum hvað sem er undir þessum lið. Léttir þetta oft á spennu í þinginu og dregur úr umræðum utan dagskrár.
Kapphlaup þingmanna um að verða fyrstir til að vekja máls á einhverju, sem hátt ber í þjóðfélaginu, er oft mikið og skondið. Þar bítast stjórnarandstöðuþingmenn gjarnan innbyrðis um það, hver lagði fyrstur fram beiðni um umræður utan dagskrár um eitthvert mál, ekki síst ef unnt er að gera það að hitamáli. Málshefjandi hefur lengri ræðutíma en almennir þingmenn og líklegra er, að ljós fjölmiðla beinist að honum frekar en öðrum þátttakendum í umræðunum.

Þessi leið til að vekja á sér athygli verður notuð á fyrstu vikum þings, þegar frambjóðendur í prófkjörum þurfa að láta á sér bera. Hún verður einnig farin til að draga fram mál, sem talin eru einstökum ráðherrum til ámælis. Loks er þetta kjörin leið til að láta umræður á Alþingi snúast um mál, sem hæst ber í fréttum dag frá degi.

Þótt þessar stuttu umræður um einstök mál dragi mesta athygli fjölmiðla að Alþingi gefa þær alls ekki neina mynd af störfum þingmanna. Þau snúast einkum um athugun á einstökum málum, stórum og smáum, sem rædd eru í þingsalnum, en einkum í nefndum þingsins. Störf í þingnefndum eru bæði fræðandi og gefandi, því að þau veita sýn á úrlausnarefni, þar sem unnt er að kalla hina hæfustu einstaklinga til að veita upplýsingar og ráð.

Stundum er rætt, einkum af stjórnarandstöðu, að æskilegt sé að opna fundi þingnefnda. Hætt er við, yrði það gert, að hyrfi sá trúnaður, sem almennt ríkir í nefndastörfum og gefur þeim meira gildi en hitt að fá tækifæri til að slá um sig með sama hætti og unnt er að gera í þingsalnum.


Viðleitni undanfarinna ára hefur miðast að því að færa málefni frá ríkinu til einkaaðila. Davíð Oddsson skýrði frá því í vikunni, að þessi viðleitni takmarkaðist ekki við sölu á bönkum og Símanum, heldur yrði að líta til fleiri þátta, og nefndi hann þar meðal annars starfsemi sjóða eins og Íbúðalánasjóðs. Einnig má nefna Lánasjóð íslenskra námsmanna í þessu samhengi.
Innan menntakerfisins hefur verið unnið að því undanfarin ár að efla samstarf við einkaaðila á mörgum sviðum. Árangur þess sést best af blómlegri starfsemi þriggja einkarekinna háskóla, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Viðskiptaháskólans Bifröst.

Þar hleypur ríkisvaldið ekki frá skuldbindingum um að leggja fé til æðri menntunar heldur gerir samning við einkaaðila um nýtingu á þessu fé til skólastarfs. Samstarf um notkun upplýsingatækninnar á sviði menntamála og við þróun landskerfis fyrir bókasöfn, svo annað dæmi sé tekið, byggist á samningum milli hins opinbera og einkaaðila.

Vekur undrun, að ekki sé unnt að vinna með sambærilegum hætti að fjármögnun og þróun heilbrigðiskerfisins. Skilgreina mælanlegar einingar og þjónustustig og greiða fé úr ríkissjóði á þeim grundvelli, hvort sem um ríkisrekna eða einkarekna starfsemi er að ræða.


Á sautjánda landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri nú í vikunni var Ejgil W. Rasmussen, formaður Danska sveitarfélagasambandsins, meðal ræðumanna. Í máli hans kom fram, að í Danmörku væru velferðarmálin meira en áður viðfangsefni á landsvísu. Sérhver stjórnmálaflokkur í danska þinginu reyndi að eigna sér ákveðna stöðu í umræðum um velferðarmál. Á undanförnum 30 árum hefði sú breyting orðið, að velferðarmálum væri ekki lengur stjórnað af framboði heldur eftirspurn - sveitarfélögin ættu að láta það í té, sem borgararnir krefjast.
Á þetta ekki einnig við hér á landi? Ekki er spurt, hvort nóg hafi verið gert, heldur hvers vegna ekki sé gert meira. Umræður á Alþingi munu verða á þessum forsendum um velferðarmálin í vetur. Þess verður krafist af flokkum og einstökum stjórnmálamönnum, að þeir hafi skýra stefnu til að koma til móts við einstaka hópa innan velferðarkerfisins.

Skattahækkanir verða ekki á dagskrá kosningaþings. Eigi að auka útgjöld til velferðarmála verður annaðhvort að gera það með betri nýtingu á skattfé almennings eða með því að forgangsraða með nýjum hætti og færa fé á milli málaflokka. R-listinn í Reykjavík hafnaði forgangsröðun í þágu aldraðra og öryrkja með lækkun fasteignaskatta á þeirri forsendu, að um óeðlilega mismunun í þágu þessara hópa væri að ræða. Hvar eru mörkin að þessu leyti?

Á Alþingi og í komandi kosningaumræðum verða stjórnmálamenn og flokkar þeirra að glíma við hin stóru velferðarmál og svara áleitnum spurningum um þau með sannfærandi hætti til að fá góðan hljómgrunn meðal kjósenda.