19.9.2002

Vatnsmýrin, samráð nauðsynlegt - ræða í borgarstjórn

Vatnsmýrin,
greinargerð um landnotkun.
Borgarstjórn 19. sept., 2002.Fyrir kosningar í vor var mikið rætt um framtíð Vatnsmýrarinnar og flugvallarins þar. Stefna okkar sjálfstæðismanna var og er sú, að ekki sé unnt að þoka neinu áfram varðandi nýtt skipulag á þessu svæði nema í samvinnu við samgögnuráðherra og yfirvöld flugmála í landinu. R-listinn taldi, að í þessu viðhorfi fælust undanbrögð ef ekki undansláttur og var látið í veðri vaka, að nú væri þetta mál á beinu brautinni.

Skömmu eftir kosningar kom hins vegar í ljós, að Skipulagsstofnun var einnig þeirrar skoðunar, að samvinna og samráð við samgönguyfirvöld væri nauðsynlegt og setti það fram í bréfi til umhverfisráðherra 31. maí, en ráðherrann sendi Reykjavíkurborg tilmæli stofnunarinnar til umsagnar og leiddi það til breytinga á greinargerð með aðalskipulaginu 2001 til 2024 um landnotkun í Vatnsmýri.

Þegar breytingarnar á greinargerðinni voru til umræðu og afgreiðslu í borgarráði 29. ágúst var samþykkt að forgöngu sjálfstæðismanna að óska eftir umsögn borgarlögmanns um stöðu Vatnsmýrar í skipulaginu miðað við breytinguna á greinargerðinni. Þessi umsgögn var lögð fram í borgarráði sl. þriðjudag.

Hugmyndir voru uppi í skipulagsvinnunni um, að NA-SV flugbrautin yrði lögð af fyrir 2005. – Flugmálastjórn benti á að ekki væri gert ráð fyrir, að brautin yrði lögð niður fyrr en 5-7 árum eftir að framkvæmdum við flugvöllinn væri lokið, enda hefði þá fundist önnur leið til að veita það öryggi, sem þessi flugbraut veitir.

Með orðalaginu í greinargerð með aðalaskipulaginu hefur sá fyrirvari verið settur, að fyrst verði að tryggja flugöryggið, sem brautin veitir, áður en uppbygging svæða, sem myndast við brotthvarf hennar hefst. Telur borgarlögmaður, að borgaryfirvöld eigi að beita sér fyrir því, að samgönguyfirvöld hafi tryggt lendingarskilyrði utan Reykjavíkur, áður en NA-SV brautin hverfur. Takist ekki að mæta þessu skilyrði, verði brautin áfram.

Hitt atriðið lýtur að því, sem á að gerast á timabilinu 2016 til 2024 en þá er ætlunin að undirbúa Vatnsmýrina undir frekari uppbyggingu eins og það er orðað og gerir greinargerðin nú ráð fyrir, að það verði gert í samráði við samgönguyfirvöld, enda hafi þau þá mótað sér stefnu um framtíð innanlandsflugs, auk þess sé það á valdi samgönguyfirvalda að ákveða hvers konar flugstarfsemi er fýsilegt að reka í Vatnsmýrinni 2016 til 2024. Eins og kunnugt er telur flugmálastjórn fráleitt frá öryggissjónarmiði að reka innanlandsflug á einni braut á Reykjavíkurflugvelli, en hugmyndir R-listans eru þær, að það verði gert 2016 til 2024. Þessi afstaða byggist á veðurfræðilegum athugunum, sem sýna, að með einni braut í austur-vestur væri að meðaltali ekki unnt að lenda á flugvellinum í 64,2 daga á ári, sem jafngildir 82,4% nýtingu á flugvellinum, en Alþjóðaflugmálastofnunin gerir ráð fyrir 95% lágmarksnýtingu í stöðlum sínum fyrir áætlunarflugvelli.

Forseti!

Greinargerðin með aðalskipulaginu gerir vissulega ekki ráð fyrir því, að neinu skipulagsvaldi sé framselt af hálfu borgaryfirvalda til annarra, enda leyfa lög það ekki. Hins vegar hefur breytingin á greinargerðinni leitt til þess, að svigrúm til allra ákvarðana er þröngt og staðfest hefur verið, að í raun hefur borgin ekkert einhliða vald á þessu máli. Úrlausn þess krefst tillits til flugöryggis og samráðs við samgönguyfirvöld, viðurkenni menn þetta ekki, fara þeir villur vega eins og athugasemdir Skipulagsstofnunar sýndu.

Morgunblaðið birtir frétt um þetta mál í morgun. Þar telur borgarstjóri, að viðhorf kunni að breytast með nýjum stjórnendum, því að hvorki flokkar né einstaklingar séu eilífir við stjórn samgöngumála. Þetta er barnaleg einföldun á þessu máli, því að það snýst um flugöryggi byggt á tilliti til náttúruaflanna. Vissulega geta stjórnmálamenn snúist eins og vindhanar, en það breytir ekki staðreyndum, sem taka verður mið af við framtíð Reykjavíkurflugvallar og skipulag í Vatnsmýrinni.

Í Morgunblaðinu segir borgarstjóri orðrétt: „Við munum ekki hrófla við flugvellinum fyrr en eftir 2016.“ Af þessu tilefni vil ég spyrja að lokum: Hefur verið horfið frá áformum af hálfu Reykjavíkurborgar um að loka flugbrautum fyrir árið 2016?