19.9.2002

Húsaleiga og lóðaskortur ræða í borgarstjórn


Húsaleiga og lóðaskortur
í Reykjavík.

Fundur í borgarstjórn
19. september, 2002.
Á fundi borgarráðs þriðjudaginn 17. september lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram bókun, eins og fram kemur í 20. lið fundargerðar ráðsins. Í bókuninni segir með leyfi forseta:

Undanfarið hafa verið miklar umræður um gífurlega hækkun húsaleigu á almennum markaði í Reykjavík. Telur félagsmálaráðherra að menn ofmeti húsaleiguna og séu jafnvel að reyna að ,,kjafta hana upp” eins og hann orðaði það í útvarpsfréttum. Fulltrúar leigusala og leigutaka mótmæla þessum fullyrðingum ráðherrans.
Mikilvægt er að fyrir liggi haldgóðar og hlutlægar upplýsingar um þetta mál til að ekki sé deilt um það með þeim hætti, sem gert hefur verið. Er því beint til borgarstjóra, að af hálfu borgaryfirvalda verði teknar saman upplýsingar um húsaleigukjör í borginni í því skyni að skýra þróun þeirra.

Ég þarf ekki að fara hér mörgum orðum um þær umræður, sem vísað er til í bókuninni, þar sem borgarfulltrúum eru þær í fersku minni úr fréttum síðustu daga. Þær snúast um hinn mikla kostnað, sem þúsundir leigutaka í Reykjavík bera vegna síhækkandi leigugjalds.

Páll Pétursson, félagsmálaráðherra vísaði á meðalverð þinglýstra leigusamninga í Reykjavík og studdist meðal annars við upplýsingar frá Félagsþjónustunni í Reykjavík. Samkvæmt þeim eru að meðaltali greiddar 25 þúsund krónur á mánuði fyrir eitt herbergi, tveggja herbergja íbúðir eru leigðar á 35 þúsund, þriggja herbergja íbúðir á 45 þúsund og sex herbergja íbúðir á rúmlega 50 þúsund krónur.
Þeir, sem líta á leigumarkaðinn frá öðru sjónarhorni en ráðherrann, segja þessar tölur ekki réttar.
Stúdentaráð Háskóla Íslands rekur leigumiðlun, sem er eingöngu fyrir stúdenta og segir Brynjólfur Stefánsson, formaður ráðsins, að ef til vill sé unnt að fá eins herbergja íbúð fyrir 25 þúsund krónur, en greiddar séu 50 til 55 þúsund krónur fyrir tveggja herbergja íbúðir og um og yfir 70 þúsund fyrir þriggja herbergja íbúðir.
Fulltrúar tveggja leigumiðlana í Reykjavík nefndu svipaðar fjárhæðir og formaður stúdentaráðs í fréttum útvarpsins. Leiga fyrir stærri íbúðir en þriggja herbergja eru sagðar frá 80 þúsund krónum og upp úr.
Tölur félagsmálaráðherra eru meðaltöl og taka mið af húsaleigusamningum hjá Félagsbústöðum hf., fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, stærsta leigusalanum í borginni. Þar er leigan mun lægri en á almenna markaðnum. Hún er hátt í 23 þúsund fyrir eins til 2ja herbergja íbúðir á mánuði, um 33 þúsund fyrir 3ja herbergja og um 43 þúsund fyrir 4ra herbergja íbúðir svo dæmi séu tekin. Upp í leiguna ganga svo húsaleigubætur.
Rétt að hafa hugfast, að þeir, sem hafa háar tekjur og geta borgað háa leigu sækja einfaldlega ekki um húsaleigubætur. Þær eru tekjutengdar og fara að skerðast þegar árstekjur eru komnar yfir 2 milljónir króna. Þessi staðreynd skekkir að sjálfsögðu mynd félagsmálaráðherra.
Viðbrögðin við ummælum ráðherrans eru á einn veg. Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, flokks borgarstjóra, hefur til dæmis sagt félagsmálaráðherra senda Reykvíkingum nöturlega kveðju. Dagný Jónsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, segir um tölur ráðherrans á vefsíðu sinni með leyfi forseta:
„Allir sem eitthvað hafa komið nálægt leigumarkaðnum vita, að þessar tölur eru langt frá raunveruleikanum. Fólk gefur upp tölu sem nemur hámarki húsaleigubóta sem viðkomandi á rétt á. Ekki er gefin upp rétt leiga því leigusali þarf að greiða 10% í skatt og finnst fólki því óþarfi að fara yfir þá upphæð sem hentar bótunum. Ég er ekki að segja að þetta sé í öllum tilfellum, en algengt engu að síður…. Þess má einnig geta að t.d. námsmenn eru í svo miklum húsnæðisvanda að ef leigusali vill hafa leiguna svarta, þá taka nemarnir því frekar en að verða af íbúðinni. Það eru því of margir óvissuþættir í þessu til að geta tekið þessar tölur alvarlega. Ég harma þessi ummæli Páls og skil þau trauðla….“
Af hinum tilvitnuðu orðum sést, að glannaleg ummæli félagsmálaráðherra hafa leitt til trúnaðarbrests gagnvart honum í þessu mikilvæga máli. Raunar snýr þessi brestur einnig að Félagsþjónustunni í Reykjavík, en til hennar vísar ráðherrann. Vegna þess er brýnna en ella fyrir Reykjavíkurborg að taka af skarið á eigin forsendum og skapa traustan grundvöll fyrir hlutlægum umræðum.


Forseti!
Reykjavíkurborg hefur ráðandi stöðu á húsnæðismarkaðnum bæði sem leigusali og með framboði á byggingarlóðum. Er nauðsynlegt, að skýr stefna sé fyrir hendi af hálfu borgaryfirvalda í þessum málaflokki og við mótun hennar sé byggt á haldgóðum upplýsingum um stöðuna á markaðnum og þar á meðal um leigukjör. Verður borgin í því efni að líta út fyrir eigið fyrirtæki og jafnframt halda þannig á málum, að markaðsráðandi staða hennar hafi jákvæð áhrif og skapi borgurunum eðlilegt svigrúm í húsnæðismálum.
Í umræðunum undanfarna daga hafa verið staðfest hin alvarlegu vandræði á leigumarkaðnum, sem felast í miklum húsnæðisskorti í Reykjavík. Er greinilegt af tölum, að þar hefur ástandið snarversnað á tiltölulega skömmum tíma.
Í fréttum hefur verið haft eftir Sigurði Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Félagsbústaða, að um 780 manns séu á biðlista eftir félagslegu húsnæði og þeim hafi fjölgað mikið í sumar.
Brynjólfur Stefánsson, formaður stúdentaráðs, segir, að um 600 manns séu á biðlista eftir íbúðum hjá Félagsstofnun stúdenta, sem rekur stúdentagarðana.
Samkvæmt þessu eru um 1400 manns á biðlistum eftir leiguhúsnæði hjá félagslegum stofnunum hér í borginni. Þetta eru ógnvekjandi tölur, sem segja meira en mörg orð um ástæðuna fyrir því, að leiguverð hefur hækkað úr hófi fram.
Húsnæðisskorturinn hefur aukist mjög undanfarið og ekki síst síðustu mánuði. Í árslok 1997 voru 130 á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík, 341 í árslok 2001 en nú eru 780 manns á þessum biðlista. Formaður stúdentaráðs segir í Morgunblaðinu í morgun, að fjöldinn á biðlista eftir leiguhúsnæði hjá félagsstofnun hafi tæplega tvöfaldast frá því á síðasta ári.
Ég er ekki í neinum vafa um til hvers má rekja þessa óheillaþróun. Undirrótin er hin óskynsamlega lóðastefna eða réttara sagt lóðaskortsstefna, sem hefur verið fylgt hér í Reykjavík undanfarin ár undir forystu R-listans, hafta- og skömmtunarstefnan.
Við sjáum afleiðingar þessarar óheillastefnu birtast í æ fleiri myndum og er með ólíkindum, að meirihlutinn hér í borgarstjórn vilji ekki horfast í augu við staðreyndirnar, sem við blasa. Á meðan menn viðurkenna ekki vandann, er engin von til að þeir leiti lausna á honum.
Ég velti fyrir mér, hve langur biðlistinn þarf að verða eða hve hátt leiguverð íbúða þarf að verða, áður en R-listinn viðurkennir mistök sín. Verði skipulega unnið að þeirri úttekt, sem við sjálfstæðismenn viljum að borgarstjóri geri á þessu máli, fæst að minnsta kosti grundvöllur til að greina vandann – en það er forsenda skynsamlegra lausna.