14.9.2002

Safn, setur, sýning - vettvangur í MorgunblaðinuSafn, setur, sýning

Hvað er safn? Spurningin vaknaði í umræðum á Höfn í Hornafirði í vikunni, þegar Farskóli safnmanna kom þar saman og skipst var á skoðunum um, hvernig væri að starfa undir nýjum safnalögum. Lögin voru samþykkt í maí 2001 og tóku þegar gildi. Var það mat fundarmanna, að fengur væri að lögunum og þau stuðluðu að nauðsynlegu samstarfi á hinu þrígreinda safnasviði, sem best er lýst með höfuðsöfnunum þremur; Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands og Náttúruminjasafni Íslands.
Undir forystu Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar er unnið að stefnumótunarvinnu, sem snertir safnastarf í landinu öllu. Hefur verið efnt til funda í öllum landshlutum nú í sumar til að fá sjónarmið sem flestra í því skyni að leggja þau til grundvallar stefnunni. Þjóðminjasafnið hefur mesta reynslu höfuðsafnanna í samvinnu og forystu á landsvísu. Listasafnið mun í haust stíga markvissari skref en áður á þessari braut. Náttúrminjasafnið er í lausu lofti, en á grundvelli safnalaganna á að setja sérstaka löggjöf um safnið.

Þegar fagmenn fjalla um viðfangsefni sitt á safnasviðinu, er nauðsynlegt að skilgreina orðið "safn", en í daglegu máli nær það yfir sýningu, setur og safn. Nauðsynlegt er að greina á milli þessara þátta, til dæmis þegar hugað er að úthlutun úr Safnasjóði, sem varð til með nýju safnalögunum. Sýningar og setur falla ekki undir þau. Á það var bent, að það gæfi til dæmis ranga mynd að tala um Sögusafn (Saga Museum) í Perlunni á Öskjuhlíð. Þarna væri sýning en ekki safn. Að baki safna býr fræðastarf og rannsóknir, sem er annars konar en hjá setrum eða þegar efnt er til sýninga.

Í þessu efni verður að gera skýrar kröfur. Þannig mætti auðvelda þeim, sem eru að skoða sýningar víðsvegar um landið, að átta sig á gæðum þeirra með samræmdum merkingum, sem gæfu vottun til kynna.


Við afgreiðslu fjárlaga undanfarin ár hafa fáir liðir tekið meiri breytingum í meðförum Alþingis en einmitt þeir, sem snerta stuðning við söfn, setur og sýningar víðsvegar um land. Hafa þessir liðir hækkað um tugi ef ekki hundruð prósenta á milli umræðna um fjárlagafrumvarpið,
Þessi áhugi alþingismanna endurspeglar meðal annars gildi starfs að safna- og menningarmálum fyrir atvinnulíf í einstökum byggðalögum. Stundum heyrist sagt, að þetta séu síðustu fjárlagaliðir, þar sem einstakir þingmenn geti með ráðstöfun á skattfé almennings reist sér minnisvarða. Nú eigi það við um menningarmál, sem áður gilti um hafna- eða vegamál, áður en farið var að vinna samkvæmt áætlunum um þau og þingmenn eignuðu sér vegarspotta eða hafnargarð með því að koma framkvæmdunum á fjárlög.

Eitt af markmiðum safnalaganna er að tryggja, að gerðar séu skýrar faglegar kröfur við ráðstöfun á opinberu fé til safna. Í stað þess að tekist sé á um styrki til einstakra safna, setra eða sýninga í fjárlaganefnd Alþingis, innan þingflokka eða í þingsalnum sé samþykkt að setja ákveðna fjárhæð í safnasjóð, enda sé henni skipt til umsækjenda á grundvelli reglna, sem Alþingi setur.

Á þetta reyndi á Alþingi í fyrsta sinn á grundvelli safnalaganna síðastliðið haust. Þá varð nokkur togstreita á milli þess sjónarmiðs að setja fé í safnasjóðinn og gamla viðhorfsins, að þingmenn ættu að velja á milli einstakra verkefna og ákveða styrki til þeirra. Þótt alþingismenn samþykki lög um safnasjóð, bannar þeim enginn að ráðstafa fé sjálfir til samskonar verkefna og falla undir sjóðinn. Hitt er verra, ef gerðar eru aðrar og strangari faglegar kröfur til þeirra, sem fá fé úr safnasjóðnum en hinna, sem fá fé milliliðalaust frá Alþingi, svo að ekki sé minnst á það, ef einstakir styrkir eru mun hærri beint frá þinginu en úr sjóðnum.


Í hópi eins og þeim, sem hittist í Farskóla safnmanna, dregur enginn í efa gildi þess og mikilvægi, að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, styðji við bakið á safnastarfi. Ekki er heldur tekist á um slíkan stuðning milli stjórnmálaflokka, þótt innan flokka geti menn deilt um réttmæti þess, að skattfé almennings sé nýtt í þessu skyni.
Gamli vatnstankurinn á Fiskhól á Höfn er skýrt dæmi um, hvernig unnt er að virkja fyrirtæki til að leggja fé af mörkum í því skyni að vernda menningarminjar. Nöfn styrktaraðilanna eru skráð á tankinn og blasa við öllum, sem um bæinn fara. Þótt þess sjáist þannig víðar merki, að einstaklingar og fyrirtæki þeirra hafi lagt sitt af mörkum til að efla menningarstarf, varðveislu gamalla húsa eða grundvöll safna, er ekki staðið jafnmarkvisst að því hér á landi og víða erlendis að hvetja til slíks stuðnings einkaaðila, til dæmis með skattaívilnunum.

Hér hafa yfirvöld skattamála lagst eindregið gegn ívilnunum innan skattkerfisins á þeirri forsendu, að skynsamlegra sé að lækka skatthlutfallið almennt. Árangur þeirrar stefnu sést í ákvörðunum um 18% tekjuskatt á fyrirtæki. Hann er óvíða svo lágur.


Hvert byggðarlag í landinu hefur mikið að bjóða, sem tengist sögu þess og náttúru og nýta má til að ýta undir safnastarf og sýningar. Í Hornafirði er menningarmiðstöð, sem fer með framkvæmd menningarmála og heldur af metnaði utan um þau. Sveitarfélagið sameinar inna vébanda sinna margt, allt frá þjóðgarðinum í Skaftafelli og austur í Lón, sem hefur menningarlegt og náttúrufræðilegt gildi.
Á Höfn er verið að þróa jöklasýningu, sem tengist nálægð byggðarlagsins við Vatnajökul. Er sýningin hugsuð sem vísir að varanlegu fræðslu- og sýningarsetri, Jöklasetri. Jöklasýningin er nú í gamla kaupfélagshúsnu í bænum, Þar má einnig skoða sýningu á verkum eftir Svavar Guðnason listmálara, en Ásta Eiríksdóttir, ekkja hans, hefur gefið um 150 myndverk Svavars til sveitarfélagsins Hornafjarðar, en þangað átti hann ættir að rekja.

Hugmyndir eru um að breyta Suðursveit í lifandi safn með vísan til þess, sem Þórbergur Þórðarson frá Hala ritaði um sveitina sína auk þess sem Þórbergssetur verði á Hala. Þar hefur þegar verið reistur einstæður minnisvarði um Þórberg og tvo bræður hans auk þess sem unnt er að fara í söguferð með Þórbergi eftir merktum skiltum.

Hornfirðingar hafa með skipulegum hætti nýtt gömul verslunarhús undir menningarstarf. Þeir hafa einnig ráðist í nýframkvæmdir í þágu mennta og menningar, því að fyrir skömmu hófst starfsemi í Nýheimum, miklu, nýju húsi í miðbæ Hafnar. Þangað flutti Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu í haust og bókasafn staðarins, auk þess sem þar er aðstaða fyrir háskólasetur í samvinnu við Háskóla Íslands. Mun setrið stuðla að samvinnu um rannsóknaverkefni við innlenda og erlenda aðila og nú í vikunni var alþjóðlegur hópur doktorsnema í jarðfræði við störf í Nýheimum.

Sveitarfélagið Hornafjörður var meðal fyrstu sveitarfélaga landsins til að samþykkja eigin menningarstefnu, Þar segir meðal annars, að viðurkenna beri menningarmál sem eitt af meginverkefnum sveitarfélagsins og efla vitund fólks um sérkenni og menningararf héraðsins og halda þeim sérkennum með fræðslu, kynningu og beinum aðgerðum.

Tilviljanir eiga ekki að ráða því, hvað er kallað safn eða hvernig opinberu fé er varið til safnastarfs eða annarra menningarmála. Gera á kröfur um metnað og markvissa stefnu, sem byggist á þekkingu, reynslu og nýtingu þeirra kosta, sem bestir eru á hverjum stað.