7.9.2002

Eftrileikur 11. september - vettvangur í MorgunblaðinuEftirleikur 11. september


Hinn 11. september verður þess minnst, að liðið er eitt ár frá hinni hryllilegu árás á tvíburaturnana í New York og Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, í Washington. Minningu þúsundanna, sem týndu lífi, verður sýnd virðing og þeir hylltir, sem drýgðu hetjudáð við ótrúlegar aðstæður. Öll eigum við minningu um, hvar við vorum, þegar við heyrðum fréttirnar þennan örlagaríka dag, hver og einn rifjar það upp með sjálfum sér, sem þá gerðist, þótt hann væri víðsfjarri eyðileggingunni, eldhafinu og mannfallinu.
Við vitum, að heimsmyndin breyttist við þessi voðaverk, þó er enn ekki unnt að gera sér fulla grein fyrir því á hvern veg. Samúðarbylgjan í garð bandarísku þjóðarinnar var mikil og á ótrúlega skömmum tíma tókst Bandaríkjastjórn undir forystu George W. Bush forseta að sameina þjóðir heims til virkrar andstöðu við hryðjuverkamennina. Nutu ákvarðanir um að ráðast á Afganistan og koma talibönum frá völdum, trúarofstækismönnunum, sem veittu hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda og Osama bin Laden, foringja þeirra, skjól.

Þeir voru margir, sem spáðu því, áður en látið var til skarar skríða gegn talíbanastjórninni, að árás á hana leiddi til óróa og uppreisnar í arabaheiminum og öðrum löndum múslíma. Ný heimsstyrjöld milli ólíkra menningarheima væri yfirvofandi. Daglegu lífi í Bandaríkjunum yrði stefnt í voða. Þær spár hafa ekki ræst, þvert á móti studdu öflugir forystumenn múslímaríkja aðgerðir Bandaríkjamanna og munar þar ekki minnst um afstöðu Pervez Musharrafs, forseta Pakistans, næsta nágranna Afganistans, sem telur enn of snemmt fyrir Bandaríkjaher að draga saman seglin í Afganistan.

Hernaðurinn í Afganistan sannaði enn, að Bandaríkin eru öflugasta herveldi heims. Þótt 5. grein Atlantshafssáttmálans, stofnskrár Atlantshafsbandalagsins (NATO), um að árás á einn sé árás á alla, hafi verið virkjuð í fyrsta sinn í sögunni eftir árásina á Bandaríkin, hefur ekki komið til sameiginlegra hernaðaraðgerða á vegum bandalagsins í tilefni af árásinni 11. september. Þvert á móti mátu Bandaríkjamenn það svo eftir reynslu sína af þátttöku í sameiginlegum NATO-hernaðaraðgerðum í Júgóslavíu fyrrverandi, að þeir ættu einir að eiga síðasta orðið um beitingu herafla síns í Afganistan.


Stríð gegn hryðjuverkahópum er allt annars konar en sá hernaður, sem heimurinn hefur áður kynnst. Starfsemi hryðjuverkahópa hefur einnig breyst frá því á tímum kalda stríðsins, þegar þeir gátu næsta öruggir notið skjóls innan landamæra einstakra ríkja, eins og Austur-Þýskalands í Evrópu. Eitt af því fyrsta, sem talsmenn Bandaríkjastjórnar sögðu eftir árásina 11. september, var, að ekki yrði látið við það sitja að hafa hendur í hári þeirra, sem illvirkið unnu, heldur yrðu þær ríkisstjórnir, sem veittu ódæðismönnum skjól, látnar gjalda þess.
Skýrasta dæmið um framkvæmd þessarar stefnu sést í Afganistan. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar einnig látið að sér kveða annars staðar, þar sem talið er, að angar al-Qaeda teygi sig. Donald H. Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir, að hið hættulegasta við nýja andstæðinga Bandaríkjanna sé, að þeir fljóti um allt. Hryðjuverkasamtök starfi án tillits til landamæra, höfuðstöðva eða hefðbundins herafla, þau fylgist náið með ráðstöfunum Bandaríkjamanna gegn sér og hagi starfsemi sinni í samræmi við það.

Hryðjuverkum fjölgar um heim allan. Á milli áranna 1968 og 1989 voru að meðaltali unnin 1.673 hryðjuverk á ári, en á árunum 1990 til 1996 eftir að kalda stríðinu lauk fjölgaði hryðjuverkum um 162% (urðu 4.389 á ári). Hin síðari ár hefur þessum ódæðisverkum enn fjölgað og nú beinast þau frekar gegn almenningi en opinberum aðilum. Fimmtíu þúsund manns féllu fyrir hendi hryðjuverkamanna á milli 1990 og 1996.

Til að bregðast við þessum hættum þarf að grípa til öryggisráðstafana, sem eru allt annars eðlis en við skipulag varna þjóðríkja, til dæmis á tímum kalda stríðsins. Sameina verður krafta þeirra, sem sinna löggæslu, starfa í utanríkisþjónustunni, sinna njósnum og fjármálaeftirliti á annan veg en áður hefur verið gert. Eftir 11. september hefur verið leitast við að efla alþjóðasamstarf á þessum sviðum og í Bandaríkjunum hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja innra öryggi með því að endurskipuleggja stjórnkerfi ríkisins.


Forysta Bandaríkjastjórnar í baráttunni við hryðjuverkamenn er óvtíræð. George W. Bush hefur einnig dregið ríki í óvinadilk Bandaríkjanna og kallað þau möndulveldi hins illa. Eitt þessara ríkja, Írak, er nú sérstaklega í sigti og býr Bandaríkjastjórn sig undir að koma stjórn Saddams Husseins, einræðisherra Íraks, frá völdum, svo fljótt sem færi gefst og með beitingu hervalds, ef önnur úrræði duga ekki.
Þegar snúist var gegn al-Qaeda, var brugðist við árás. Í árás gegn Írak yrði markmiðið að koma í veg fyrir árás - slíkt forvarnarstríð yrði til marks um nýja varnarstefnu Bandaríkjanna. Bush vinnur nú að því að vinna fylgi við slíka stefnu, sem byggist á því, að á hættutímum sé réttmætt fyrir Bandaríkin að nota herafla sinn gegn hverju ríki, sem hefur burði og vilja til að afhenda hryðjuverkamönnum gereyðingarvopn.

Í bréfi, sem George W. Bush ritaði Bandaríkjaþingi 4. september, segir, að Bandaríkin og hinn siðmenntaði heimur standi frammi fyrir örlagaríkri ákvörðun á næstu mánuðum um, hvernig eigi að afvopna ólögmæta ríkisstjórn, sem hafi á valdi sínu og sé að þróa öflug gereyðingarvopn, þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða undanfarna áratugi og fordæmingu annarra. Undir forystu Bandaríkjanna skuli mótuð leið til að koma í veg fyrir, að ríkisstjórn Saddams Husseins geti hótað öðrum með þessum hættulegustu vopnum heims.

Forsetinn segir þinginu, að hann sé að undirbúa, hvernig staðið skuli að því að ná þessu markmiði. Ákvörðun um það verði ekki tekin án umhugsunar og ýtrustu varkárni. Þess vegna hvetji hann til umræðna um málið og segir fulltrúa stjórnar sinnar munu veita þingmönnum upplýsingar, þegar þeir taki málið fyrir á sínum vettvangi næstu daga.

"Það kemur ekki til álita að sitja auðum höndum gagnvart slíkri heimsógn," segir forsetinn. "Þegar tímabært er og eftir samráð við forystumenn, mun ég óska eftir stuðningi þingsins við allar aðgerðir á vegum Bandaríkjanna, sem eru nauðsynlegar til að bregðast við þeirri ógn, sem stafar frá ríkisstjórn Saddams Husseins. Þingið getur skipt miklu máli í viðleitninni til að skapa þjóðarsátt um þessar aðgerðir."

Forsetinn segist í bréfinu einnig ætla að ræða við leiðtoga annarra ríkja. Hittir hann Tony Blair, forsætisráðherra Breta, í dag. Þá muni hann hafa samband við Jacques Chirac Frakklandsforseta, Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Jiang Zemin Kínaforseta. Síðan muni hann taka mál Íraks upp á vettvangi SÞ. Allur heimurinn verði að svara spurningunni um það, hvernig unnt sé að leysa írösku þjóðina undan oki ríkisstjórnar Íraks og skapa þeim betri framtíð, sem í landinu búa.

"Við megum ekki leyfa ólögmætri ríkisstjórn, sem hvetur til hryðjuverka og beitir þeim í eigin landi og utan þess, að hóta heiminum með því að þróa hin mestu ógnarvopn. Næstu mánuðir verða mikilvægir og hinn siðmenntaði heimur verður að sameinast til að takast á við þann vanda, sem leiðir af ríkisstjórn Íraks," segir George W. Bush í lok bréfs síns til Bandaríkjaþings.


Þegar forsetaboðskapurinn er lesinn, þarf ekki lengi að velta vöngum yfir því, hvort Bandaríkjastjórn ætli sér að koma Saddam Hussein frá völdum. Það hefur verið ákveðið en ekki hvernig og hvenær.
Tony Blair sagði á fundi í kjördæmi sínu Sedgefield á þriðjudaginn, að á næstu vikum mundi hann leggja fram gögn, sem sönnuðu hótun Íraka með gereyðingarvopnum. Sama dag sagði Donald H. Rumsfeld í Washington, að næstu daga mundu Bandaríkjamenn veita upplýsingar um vopnabúnað Íraka.

Þessi ummæli minna á orð þessara sömu manna í aðdraganda árásarinnar á Afganistan um þau gögn, sem þá lágu fyrir um, að í landinu væri skjól fyrir hryðjuverkamenn. Voru þessi gögn ýmist birt opinberlega eða sýnd ráðamönnum þjóða heims í trúnaði, svo að þeir gætu tekið ákvörðun um stuðning á haldgóðum grunni.

Nú er þetta kynningarferli hafið af hálfu ráðamanna Bandaríkjanna og Bretlands til að virkja ríki heims til stuðnings við aðgerðir til að koma Saddam Hussein frá völdum. Jafnframt hefur verið lagt á ráðin, eins og gert var varðandi Afganistan, hver eigi að taka við stjórninni eftir Saddam. Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að verja 8 milljónum dollara til stuðnings Þjóðarráði Íraks, sem sameinar andstæðinga Saddams. Á meðal annars að nota fjármunina til undirróðurs innan Íraks.

Ári eftir 11. september 2001 er átökum gegn hryðjuverkasamtökum og bandamönnum þeirra alls ekki lokið. Enn getur enginn, sem er annt um heimsöryggi, andað léttar. Enn verða gerðar kröfur til þess, að við ræðum og gerum ráðstafanir til að tryggja eigið öryggi og annarra.

-