11.9.2002

Skattalækkun á eldri borgara felld - Morgunblaðsgrein


Skattalækkun á eldri borgara felld



FYRIR kosningar til borgarstjórnar í vor lögðum við sjálfstæðismenn áherslu á þrjú meginatriði varðandi hag eldri borgara:
Stórlækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts.

Fjölgun hjúkrunarrýma.

Öfluga heimaþjónustu.

Væri þessi þríþætta leið okkar farin yrði á skömmum tíma unnt að gjörbreyta aðstöðu eldri borgara.

Vítahringur málefna eldri borgara í Reykjavík yrði rofinn með framkvæmd þríhliða áætlunar okkar sjálfstæðismanna.

Með því að auðvelda eldri borgurum að búa áfram í eigin húsnæði við betri heimaþjónustu er dregið úr þörf fyrir hjúkrunarrými.


Skortur á hjúkrunarrými
Frumkvæði Reykjavíkurborgar með 250 milljóna króna framlagi á ári til að reisa hjúkrunarrými, eins og við sjálfstæðismenn leggjum til, sýndi í verki vilja borgaryfirvalda til samstarfs um þetta brýna verkefni.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið telur, að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum í Reykjavík um 236 fyrir árið 2007. Undir stjórn R-listans síðustu átta ár hefur hjúkrunarrýmum fjölgað um 79. - Árin á undan beitti Sjálfstæðisflokkurinn sér fyrir því því að reisa 230 hjúkrunarrými í Reykjavík auk mörg hundruð þjónustu-, leigu- og sjálfseignaríbúða. Þörf er á sambærilegu átaki nú og sjálfstæðismenn leiddu á sínum tíma.

Samkvæmt reglum Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem er farvegur fyrir fé frá ríkinu til að standa undir stofnkostnaði við hjúkrunarrými, má hann ekki lána nema 40% af byggingarkostnaði. Fáeinum dögum fyrir kosningar ritaði borgarstjóri hins vegar undir viljayfirlýsingu með heilbrigðis- og tryggingaráðherra, þar sem lýst var yfir, að reisa skyldi nýtt 100 rýma hjúkrunarheimili í Sogamýri. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hét að greiða 70% kostnaðar við byggingu heimilisins og Reykjavíkurborg 30%. Nú hefur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra sagt, að flokka beri hjúkrunarheimili sem sjúkrahús og ríkinu sé skylt að leggja fram 85% kostnaðar við byggingu og búnað þeirra, þótt annað hafi tíðkast. Samkvæmt þeim orðum samdi borgarstjóri af sér með kosningayfirlýsingunni með heilbrigðisráðherra.


Lækkun fasteignaskatta felld
Tillaga okkar sjálfstæðismanna um lækkun fasteignaskatta var til umræðu og afgreiðslu í borgarstjórn fimmtudaginn 5. september. Nú eru um 32 þúsund Íslendingar 67 ára og eldri. Ef litið er á heimilisaðstæður þeirra, sem eru á aldrinum 65 til 80 ára býr ríflega 91% í eigin húsnæði. Þess vegna skiptir mjög miklu, hvernig sveitarfélög koma til móts við eldri borgara með skattheimtu á heimili þeirra.
Eldri borgurum og öryrkjum hér í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum hefur áður verið veittur afsláttur á fasteignaskatti. Borgarráð samþykkti til dæmis reglur um slíkan afslátt til þessara hópa við álagningu þessa árs. Hækkaði þá tekjuviðmið um 19% frá fyrri álagningu. Við sjálfstæðismenn lögðum til, að þetta tekjuviðmið hækkaði um 50% frá því sem nú er.

Þegar athugað er hvað 50% hækkun á tekjuviðmiðun mundi hafa í för með sér í tekjutapi fyrir borgarsjóð, verður að byggja á spám. Varlegt er að áætla að það yrði milli 200 og 220 m. kr. Frá því að ný borgarstjórn var kjörin höfum við sjálfstæðismenn lagst gegn kaupum á eignum Jóns Ólafssonar við Laugaveg fyrir 140 milljónir króna og framkvæmdum vegna fornminja við Aðalstræti fyrir meira en 500 milljónir króna eða samtals um meira en 640 milljónir króna.

R-listinn felldi tillögu okkar sjálfstæðismanna um lækkun fasteignaskatta á eldri borgara með þeim höfuðrökum, að ekki mætti mismuna með þessum hætti í þágu þessa hóps.