5.9.2002

Alfreð og dýru höfuðstöðvarnar - Morgunblaðsgrein
Alfreð og dýru
höfuðstöðvarnar7946187752_2a39af9b47_b

Alkunn er sagan um manninn, sem var kallaður þjófur, eftir að stolið var frá honum. Hún kemur í hugann, þegar litið er til þess, hvernig Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi R-listans og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR), kýs að fjalla um mig og nýjar höfuðstöðvar fyrir OR. Dæmi um það birtist í Morgunblaðinu 4. september.

Í fyrsta lagi kvartar Alfreð undan því, að fjölmiðlar hafi ekki fjallað nægilega mikið um úrslit borgarstjórnarkosninganna í vor með tilliti til Sjálfstæðisflokksins. Spurning er, hvort nægilega mikið hafi verið fjallað um þá staðreynd, að aðeins munaði örfáum atkvæðum, að Alfreð nyti stuðnings til framboðs innan eigin flokks og ekki var strikað oftar yfir nokkurt nafn á kjördag en hans.

Í öðru lagi leggur Alfreð endurreisn Þjóðminjasafnsins að jöfnu við þá ákvörðun að reisa OR höfuðstöðvar. Er það fráleitt. Ekki er ágreiningur um nauðsyn þess að endurreisa Þjóðminjasafnið. Leysa hefði mátt húsnæðismál OR án þessara dýru stórframkvæmda.

Þegar Alfreð nefnir fjárhæðir og ár vegna framkvæmda við Þjóðminjasafnið, birtir hann tölur, sem ég þekki ekki. Upphaf endurreisnar Þjóðminjasafns má rekja til áramóta 1990-1991. Ef litið er á heildarfjárhag þessa verkefnis, kostnað fram á síðasta vor og áætlaðan kostnað til loka þess, þ. m. t. frágang lóðar, hönnun sýningar og gerð ytra byrðis sýningarinnar og búnaðarkaup vegna þess, auk kostnaðar safnsins vegna flutnings og framvæmda í Vesturvör í Kópavogi, þar sem hinar nýju, traustu geymslur safnsins eru, og að Lyngási í Garðabæ, þar sem skrifstofur safnsins eru tímabundið, ásamt framkvæmdakostnaði, sem til féll við safnhúsið, áður en endurbygging þess hófst, var áætlaður heildarkostnaður 1.287 milljónir króna sl. vor. Heildarkostnaður við endurbyggingu safnhússins við Suðurgötu var í vor áætlaður 890 milljónir króna, en í frumáætlun bygginganefndar Þjóðminjasafns Íslands frá júní 1990 um endurbætur á húsi safnsins var gert ráð fyrir að kostnaður næmi 675 milljónum króna. Hvaðan Alfreð hefur upplýsingar um að kostnaður við endurbyggingu safnhússins fari yfir 1400 milljónir kemur ekki fram í grein hans. Þá er í raun ómarktækt að bera áætlunina frá 1990 saman við það, sem nú er verið að gera eða hefur verið gert í þágu safnsins.

Í þriðja lagi gerir Alfreð því skóna, að ég megi ekki gagnrýna áform um líkamsræktarstöð í höfuðstöðvum OR vegna þess að í sömu byggingu og hýsir menntamálaráðuneytið séu sturtur og gufubað fyrir starfsmenn stjórnarráðsins. Má draga þá ályktun af orðum hans, að ég hafi tekið ákvörðun um þessa aðstöðu í þessari stjórnarráðsbyggingu, vegna þess að ég vann í húsinu sem menntamálaráðherra. Ég hafði einfaldlega engin afskipti af þessum kjallaraherbergjum, þau voru í húsinu, þegar ég kom þar til starfa og eru undir forsjá umsýslumanna fasteigna ríkisins.

Í fjórða lagi segist Alfreð tilbúinn að hitta mig í umræðuþáttum, hvar og hvenær sem er, en ég hafi ekki verið á lausu fyrir Rás 2, þegar honum hentaði. Enn veit ég ekki til hvers Alfreð er að vísa. Haft var samband við mig í síðustu viku af Rás 2 og ég beðinn að ræða við Alfreð. Ég var að búa mig undir að gera það en þá sagði þáttarstjórnandi mér, að Alfreð vildi ekki hitta mig í umræðum. Eftir að grein Alfreð birtist í Morgunblaðinu varð hún tilefni til þess, að Rás 2 hafði samband við mig með tölvupósti og skýrði ég bréfritara frá því, að ég mundi svara Alfreð í Morgunblaðinu.

Eins og lesendur Morgunblaðsins sjá, eiga þessi skrif í raun ekkert erindi í umræður um höfuðstöðvar OR, frekar en ef ég færi að ræða störf Alfreðs við sölu varnarliðseigna. Verið er að þyrla upp ryki í stað þess að ræða efni málsins.

Athyglisvert er, að Alfreð hefur vaðið fyrir neðan sig, þegar hann ræðir um kostnað við þetta mikla mannvirki. Hann kemst þannig að orði, að samkvæmt „síðustu áætlun“ sé kostnaður við OR-húsið 2,485 milljónir króna. Í orðunum felst, að fleiri áætlanir komi, því að Alfreð veit sem er, að ekki eru öll kurl enn komin til grafar, til dæmis er ekki í þessari áætlun gert ráð fyrir kostnaði við að leggja hita í bílastæði við höfuðstöðvarnar.

Inn í heildardæmið vegna höfuðstöðvanna vantar einnig kostnað við kaup á húsi fyrir framkvæmdasvið OR undir verkstæði, skrifstofur og vinnuflokka, það er 4/5 hluta af Réttarhálsi 4 fyrir 395 milljónir króna, en starfsmannaaðstaða í nýju höfuðstöðvunum á að nýtast fyrir þá, sem vinna að Réttarhálsi 4. Ekki hefur verið lokið við að innrétta húsnæðið að Réttarhálsi 4 eða tengja húsin, en kostnaður við þær framkvæmdir hefur að sögn forstjóra OR einungis verið gróflega áætlaður um 150 milljónir króna.

Séu þessar tölur, sem allar eru opinberar frá OR, lagðar saman kemur í ljós, að kostnaður við nýjar höfuðstöðvar er að minnsta kosti kominn í 3030 milljónir króna.