10.2.2017

Hættumat greiningardeildar takmarkast af rannsóknarheimildum

Morgunblaðið 10. febrúar 2017


Undanfarnar vikur hafa birst fréttir og greinar í erlendum fjölmiðlum um að hér á landi sé viðbúnaður vegna afbrota minni en almennt í nágrannalöndunum. Lögregla sé fámenn og óvopnuð. Enginn her sé í landinu og ekki heldur leyniþjónusta. Morð séu fátíð. Hryðjuverk þekkist ekki. Ferðamönnum fjölgi mjög enda líti margir þeirra til friðsemdar og öryggis við skipulagningu ferða sinna.

Allt fellur þetta vel að ímyndinni sem Íslendingar vilja að samfélag þeirra hafi út á við. Spurning er hvort myndin sé æskileg í heimi þar sem hryðjuverkum gegn almennum borgurum fjölgar og ferðamenn kunna að verða sérstakt skotmark.

Í París föstudaginn 3. febrúar skaut hermaður í varðstöðu í gestamóttökunni í glerpýramída Louvre-safnsins á mann sem sveiflaði sveðju. Yfirvöld segja að hryðjuverkamaður hafi verið á ferð þarna. Ódæðismaðurinn sé Egypti með vegabréfsáritun ferðamanns.

Þetta var fyrsta árás hryðjuverkamanns í Louvre, einu mesta aðdráttarafli í ferðamannaborginni París. Raunar fyrsta árásin á vinsælum ferðamannabletti í borginni. Borgaryfirvöld og forystumenn ferðamála hafa lengi óttast að til slíks atviks kæmi í París.

Forboði birtist í september 2016 þegar bifreið með gaskútum fannst skammt frá Notre Dame dómkirkjunni. Reyndust islamskar vígakonur í heilögu stríði eiga aðild að þessu misheppnaða ódæði. Fréttir hafa borist um að lögregla hafi komið í veg fyrir árás á Eiffelturninn og Disneyland fyrir utan París.

Ferðamönnum hefur fækkað í París síðan hryðjuverkin voru unnin þar í nóvember 2015. Gestir í Louvre-safnið voru 15% færri árið 2016 en árið 2015. Í ágúst 2016 birtist skýrsla sem sýndi að umferð um Charles de Gaulle flugvöll hefði minnkað um 3,9%, gestum í Disneyland fækkað um 11% og hótelbókanir í París dregist saman um 14,6%. Í annarri skýrslu sagði að vegna hryðjuverkanna hefði ferðaþjónustan í París tapað 750 milljónum evra (um 94 milljörðum ísl. kr).

Allt gerist þetta þótt neyðarlög séu í gildi í Frakklandi og hermenn gráir fyrir járnum eða lögreglumenn hvarvetna á verði.

Hættumat greiningardeildar

Greiningardeild ríkislögreglustjóra sendi 30. janúar 2017 frá sér mat á hættu af hryðjuverkum. Hættustigið er metið í meðallagi, almennt er ekki talið hægt að „útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum“. Vísað er til Evrópulögreglunnar (Europol) sem telur öryggisógnir fara vaxandi í Evrópu.

Greiningardeildin telur að hryðjuverk í Evrópu á árunum 2015 og 2016 leiði í ljós breytingu „hvað varðar ásetning, skotmörk, aðferðir og getu íslamskra hryðjuverkasamtaka til að valda miklu manntjóni í borgum í álfunni”.

Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtök og því telur greiningardeildin að ógn sem talin er stafa af heimsnúnum vígamönnum sé takmörkuð hér á landi. Lögreglu er ekki kunnugt um að á Íslandi hafi myndast hópar eða samfélög sem aðhyllast herskáan íslamisma eða annars konar ofbeldisfulla öfgahyggju. Áréttuð er hættan af því að einstaklingur hrífist af öfgahyggju og vinni þess vegna ódæði, þetta hafi gerst í gegnum internetið. Hætta vegna þessa sé „mikil og viðvarandiª.

Bent er á að á Íslandi séu vopn, aðgengileg almenningi, sem nýta megi til að framkvæma hryðjuverk og aðrar stórfelldar árásir. Rúmlega 72.000 skotvopn séu löglega skráð. Þá hafi hættuleg heimatilbúin vopn, sprengjur og sprengiefni ýmist fundist eða verið komið í hendur lögreglu.

Sá möguleiki er sagður fyrir hendi að á Íslandi fari fram skipulagning hryðjuverka sem ráðgert sé að fremja í öðru landi. Þá hefur greiningardeildin upplýsingar um að frá árinu 2015 hafi komið hingað til lands einstaklingar með tengsl við hryðjuverkasamtök og óskað eftir alþjóðlegri vernd, með öðrum orðum sem hælisleitendur. Þá eru fyrir hendi upplýsingar um að Ísland hafi verið notað sem „gegnumstreymisland“ manna frá Norður-Ameríku á leið til og frá þátttöku í bardögum í Mið-Austurlöndum í nafni Ríkis íslam.

Tillögur til úrbóta

Í hættumatinu nú vísar greinardeildinni til sambærilegs mats sem hún birti í febrúar 2015. Þar er að finna tillögur til úrbóta sem eru jafngildar nú og þá. 

Sett verði lög um auknar heimildir lögreglu vegna rannsókna brota gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórn þess. Lögregla verði efld til að sinna forvörnum vegna hættu á hryðjuverkum með fjölgun lögreglumanna, sérfræðinga og bættum búnaði. Viðbúnaðargeta almennrar lögreglu og sérsveitar vegna hryðjuverkaógnar og annarra alvarlegra voðaverka verði efld með auknum búnaði og þjálfun.

Vegna hættunnar af því að einstaklingar snúist til ofbeldisfullrar öfgahyggju er lagt til að myndaður verði samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda með auknum heimildum til að miðla upplýsingum um einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings. Þá verði þeim sem falla fyrir öfgahyggju sköpuð félagsleg úrræði.

Loks vitnar greiningardeildin til áhættumatsskýrslu frá árinu 2009 sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið þar sem meðal annars segir: „Veita þarf lögregluyfirvöldum sambærilegar heimildir á sviði hryðjuverkavarna og gert er í nágrannaríkjunum, en jafnframt tryggja fullt eftirlit Alþingis og dómstóla.“

Takmarkaðar heimildir

Hættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra takmarkast af vitneskju sem starfsmenn hennar hafa heimild til að afla innan ramma laga og reglna um deildina. Heimildir þeirra til upplýsingaöflunar eru takmarkaðar miðað við nágrannaríkin eins og segir í áhættumatsskýrslunni frá árinu 2009.

Sé lögregla svipt lykilvopni til að takast á við verkefni sem við blasa verður árangurinn í samræmi við það. Hættumat greiningardeildarinnar ristir ekki eins djúpt og mat stofnana annars staðar á Norðurlöndunum sem hafa víðtækari rannsóknarheimildir: PST í Noregi, PET í Danmörku, SÄPO í Svíþjóð og SUPO í Finnlandi. Greiningardeildin vitnar til skýrslna allra þessara öryggisstofnana í mati sitt.

Eitt eru heimildir til rannsókna annað gildi alþjóðasamstarfs á þessu sviði öryggismála. Hættumatsskýrslunni 30. janúar 2017 lýkur á þessum orðum:

„Hryðjuverkaógn í Evrópu stafar einkum, en ekki einvörðungu af öfgafullum íslamistum. Hún einskorðast ekki við þjóðerni og tilteknir þjóðfélagshópar verða ekki gerðir ábyrgir fyrir gjörðum einstaklinga sem tilheyra þeim. Skotmörk og aðferðir hryðjuverkamanna taka breytingum og starfsemi þeirra virðir engin landamæri. Alþjóðlegt samstarf verður æ mikilvægara gegn hryðjuverkaógninni sem ekkert vestrænt ríki getur talist óhult fyrir.“

Þetta alþjóðasamstarf sækir styrk sinn meðal annars til norrænu stofnananna sem nefndar eru hér að ofan. Sé greiningardeildin annars vegar með minni rannsóknarheimildir en tíðkast í nágrannalöndunum og hins vegar innan lagaramma sem gerir henni ókleift að eiga fullt og náið alþjóðasamstarf við öflugustu nágrannastofnanir skortir hættumat hennar nægilega dýpt.

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þetta og skýra hvaða rök ráða því að Íslendingar eigi að sætta sig við skert öryggi að þessu leyti.