5.9.2002

Lækkun fasteignaskatta - ræða í borgarstjórn


Lækkun fasteignaskatta
borgarstjórn, 5. september, 2002.


Fyrir kosningar til borgarstjórnar í vor lögðum við sjálfstæðismenn áherslu á þrjú meginatriði varðandi hag eldri borgara.

Í fyrsta lagi stórlækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts.

Í öðru lagi fjölgun hjúkrunarrýma.

Í þriðja lagi öfluga heimaþjónustu.

Væri þessi þríþætta leið okkar farin yrði á skömmum tíma unnt að gjörbreyta aðstöðu eldri borgara.

Umræður síðustu daga hafa sýnt í hvaða vítahring málefni eldri borgara í Reykjavík eru komin. Hann yrði rofinn ef unnið yrði að framkvæmd þríhliða áætlunar okkar sjálfstæðismanna. Hún er einnig í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga en samkvæmt þeim skulu sveitarfélög „stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða má. Jafnframt verði tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.“

Frumkvæðisskylda sveitarfélaga er ótvíræð á þessu sviði. Um það þarf ekki að deila. Þjónustuhópur aldraðra starfar á vegum Reykjavíkurborgar og er vistaður hjá Félagsþjónustunni. Þessi hópur hefur sýn yfir stöðu mála hjá öldruðum borgarbúum og gerir vistunarmat og metur aðstæður hjá öldruðum, sem sækja um að komast á öldrunarstofnanir. Því er ljóst, að upplýsingar um stöðu þessara mála eru fyrir hendi hjá borgaryfirvöldum og þar með einnig frumkvæði að úrlausn og mati á þörf fyrir öldrunarstofnanir.


Með því að auðvelda eldri borgurum að búa áfram í eigin húsnæði við betri heimaþjónustu er dregið úr þörf fyrir hjúkrunarrými.

Frumkvæði Reykjavíkurborgar með 250 milljón króna framlagi á ári til að reisa hjúkrunarrými, eins og við sjálfstæðismenn leggjum til, sýndi í verki vilja borgaryfirvalda til samstarfs um þetta brýna verkefni.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið telur að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum í Reykjavík um 236 fyrir árið 2007. Undir stjórn R-listans síðustu átta ár hefur hjúkrunarrýmum fjölgað um 79. – Árin á undan beitti Sjálfstæðisflokkurinn sér fyrir því því að reisa 230 hjúkrunarrými í Reykjavík auk mörg hundruð þjónustu-, leigu- og sjálfseignaríbúða. Þörf er á sambærilegu átaki nú og sjálfstæðismenn leiddu á sínum tíma.

Samkvæmt reglum Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem er farvegur fyrir fé frá ríkinu til að standa undir stofnkostnaði við hjúkrunarrými, má hann ekki lána nema 40% af byggingarkostnaði. Fáeinum dögum fyrir kosningar ritaði borgarstjóri hins vegar undir viljayfirlýsingu með heilbrigðis- og tryggingarráðherra, þar sem lýst var yfir, að reisa skyldi nýtt 100 rýma hjúkrunarheimili í Sogamýri. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hét að greiða 70% kostnaðar við byggingu heimilisins og Reykjavíkurborg 30%. Nú hefur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra sagt, að flokka beri hjúkrunarheimili sem sjúkrahús og ríkinu sé skylt að leggja fram 85% kostnaðar við byggingu og búnað þeirra, þótt annað hafi tíðkast. Samkvæmt þeim orðum samdi borgarstjóri af sér með kosningayfirlýsingunni með heilbrigðisráðherra.

Segir í yfirlýsingunni, að bygging heimilisins verði boðin út fyrir lok þessa árs. Er ástæða að spyrja borgarstjóra, hvernig staðið hafi verið að undirbúningi þess og hvenær útboðsgagna er að vænta.

Forseti!

Hér er til umræðu tillaga um lækkun fasteignaskatta, sem kynnt var fyrir kosningar og ætti efni hennar því ekki að koma á óvart. Tillagan er svohljóðandi:

„Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir borgarsjóð árið 2003 verði við það miðað, að hækka tekjuviðmið vegna niðurfellingar fasteignaskatta um 50% á íbúðarhúsnæði 67 ára og eldri og öryrkja, sem þeir eiga og búa í.

Jafnframt samþykkir borgarstjórn, að lækka holræsagjald um 25% árið 2003 sem fyrsta áfanga í að fella það niður á kjörtímabilinu.“

Í greinargerð með tillögunni er það rakið, hvaða áhrif samþykkt hennar hefði fyrir þá, sem nú greiða fasteignaskatta. Er ljóst, að með þessari lækkun minnka álögur á stóran hóp Reykvíkinga. Nú eru um 32 þúsund Íslendingar 67 ára og eldri. Ef litið er á heimilisaðstæður þeirra, sem eru á aldrinum 65 til 80 ára búa ríflega 91% í eigin húsnæði. Þess vegna skiptir mjög miklu, hvernig sveitarfélög koma til móts við eldri borgara með skattheimtu á heimili þeirra.

Lækkun holræsagjaldsins er ekki bundin við nein aldursmörk heldur nær til allra borgarbúa en heildartekjur af því eru nú um 860 milljónir króna á ári.

Það er ekki nýmæli að lækka fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja hér í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum. Borgarráð samþykkti til dæmis reglur um afslátt til þessara hópa á fasteignaskatti og holræsagjaldi við álagningu þessa árs. Hækkaði þá tekjuviðmið um 19% frá fyrri álagningu. Hér er lagt til að þetta tekjuviðmið hækki um 50% frá því sem nú er. Skilar það sér til einstakra hópa á þann hátt sem lýst er í greinargerð tillögunnar.

Það er ekki á öruggum upplýsingum að byggja, þegar athugað er hvað 50% hækkun á tekjuviðmiðum mundi hafa í för með sér í tekjurýrnun fyrir borgarsjóð. Miðað við 100% flokkinn má slá því föstu, að tekjurýrnunin verði um 130 milljónir króna. Ef byggt er á sambærilegri tekjudreifingu og verið hefur milli lækkunarflokka má gera ráð fyrir, að lækkun í 80% flokki verði um 81 milljón króna og lækkun í 50% flokki um 57 milljónir króna. Þannig gæti lækkun gjaldanna orðið 268 m. kr. á móti rúmlega 90 m. kr., sem áætlað er að gjöldin lækki í ár. Líklegt er, að 3200 verði í 100% lækkunarflokki, 3100 í 80% lækkunarflokki og 3100 í 50% lækkunarflokki. Þess vegna yrði tekjurýrnun vegna 80% flokksins um 101 m. kr. og vegna 50% flokksins um 63 m. kr. Heildarlækkunin yrði þannig um 294 m. kr. á móti um 9o m. kr. heildarlækkun í ár. Tekjutap borgarsjóðs vegna 50% hækkunar á viðmiðunartekjum framangreindra hópa yrði því 204 m. kr. Varlegt er að áætla tekjutapið milli 200 og 220 m. kr.

Sýnir þetta, hve miklu tillagan breytir fyrir þann hóp, sem á hlut að máli. Lækkun holræsagjaldsins leiðir til svipaðs tekjutaps fyrir borgarsjóð og erum við samtals að tala um 500 milljón króna tekjutap sjóðsins vegna skattalækkananna í þessari tillögu.

Frá því að ný borgarstjórn var kjörin höfum við sjálfstæðismenn lagst gegn kaupum á eignum Jóns Ólafssonar við Laugaveg fyrir 140 milljónir króna og framkvæmdum vegna fornminja við Aðalstræti fyrir meira en 500 milljónir króna eða samtals um 640 milljónir króna.

Samkvæmt því, sem skýrt var frá í borgarráði sl. þriðjudag hafa tekjur borgarsjóðs af fasteignasköttum hækkað um 19% á milli áranna 2001 og 2002 og námu tæpum 4 milljörðum króna í lok júní. Samkvæmt minnisblaði frá borgarhagfræðingi dags. 4. september kemur fram, að tekjur borgarsjóðs af fasteignagjöldum á íbúðarhúsnæði hafa sem næst staðið í stað milli 2001 og 2002 en hækkað um 10,8% af atvinnuhúsnæði.

Þegar rætt er um þann tekjustofn sveitarfélaga, sem fasteignir eru, ber að hafa í huga, að hann tekur mið af fasteignaverði og það hefur hækkað óeðlilega undanfarið vegna lóðaskorts hér í Reykjavík. Skömmtunar- og haftastefnan í lóðamálum segir víða til sín og leggst meðal annars á húseigendur, sem þyngri skattbyrði.

Fasteignamat ríkisins endurmat fasteigna- og brunabótamat húsa um land allt árið 2001 og leiddi það til 15% hækkunar á fasteignamati í Reykjavík. Brást borgarráð við þessu með því að lækka skatthlutföll á íbúðarhúsnæði í sama takti, þannig að ekki kæmi til hækkunar gjalda í heild, þó var vatnsgjald hækkað úr 84 kr. í 94 kr. á fermetra og fast gjald úr 2281 kr. í 2411 kr. á fasteign. Hafa heildartekjur af fasteignagöldum á íbúðahúsnæði því ekki hækkað, þrátt fyrir hækkun fasteignamatsins. Skatthlutföllin voru hins vegar ekki lækkuð á atvinnuhúsnæði og hafa tekjur vegna fasteignaskatts á þau hækkað um 14,1%.

Er nauðsynlegt að hafa þessa heildarmynd í huga, þegar þetta mál er reifað og einnig hitt, að af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis hefur verið stigið afgerandi skref með því að lækka eignaskatt einstaklinga úr 1,2% í 0,6% af eignarskattstofni yfir 4,7 milljónum króna miðað við árslok 2002 en breytingin kemur til framkvæmda á árinu 2003. Þá fellur hinn svonefndi Þjóðarbókhlöðuskattur – sérstakur eignaskattur einstaklinga – niður frá næstu áramótum, en hann hefur numið 0,25% á eignaskattstofn umfram 6,3 milljónir króna.

Er ljóst, að af hálfu ríkisvaldsins hafa verið teknar mun róttækari ákvarðanir til að lækka eignarskatta en hér á vegum Reykjavíkurborgar. Er sérstakt viðfangsefni að fjalla um áhrif hækkunar fasteignaskatta á atvinnuþróun í borginni, en það bíður annars tíma.

Forseti!

Eftir að ríkið lækkaði tekjustatt á einstaklinga, voru teknar ákvarðanir af skattglöðum fulltrúum hér á þessum vettvangi um að ná að minnsta kosti hluta af þeirri lækkun inn í borgarsjóð með hækkun útsvars. Hið sama má ekki gerast, þegar ríkið lækkar nú eignarskatta.

Ég hef þessi orð ekki fleiri. Tillagan, sem við sjálfstæðismenn leggjum hér fram um lækkun fasteignaskatta og holræsagjalds er skýr og ótvíræð. Með því að samþykkja tillöguna sýnir borgarstjórn Reykjavíkur í verki, að hún vill koma til móts við eldri borgara og öryrkja í borginni og lækka álögur á borgarbúa.