17.8.2002

Lettar og Rússar í heimsókn - vettvangur í Morgunblaðinu.





--------------------------------------------------------------------------------





Lettar og Rússar í heimsókn



Tuttugu og eitt skot til heiðurs Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, frá fallbyssum rússneska tundurspillisins Admiral Chabanenko í Reykjavíkurhöfn sunnudaginn 11. ágúst staðfesti, að um einstæðan atburð var að ræða. Hefur forseti Íslands ekki áður gengið um borð í rússneskt herskip hvorki í Reykjavíkurhöfn né annars staðar. Taldi Alexander Rannikh, sendiherra Rússlands, atburðinn til marks um, að samskipti Íslands og Rússlands væru að verða nánari. Þá sagði Haukur Hauksson, fylgdarmaður rússnesku sjóliðanna, í samtali í dægurmálaútvarpinu, að komu tundurspillisins mætti rekja til frumkvæðis Ólafs Ragnars í samtali við sjálfan Vladimir Pútín, forseta Rússlands, þegar þeir hittust í Rússlandi að Hauki viðstöddum.
Rússnesk herskip eru ekki tíðir gestir í íslenskum höfnum. Árið 1870 kom herskipið Varyag (Væringi) til Íslands, og var Alexíus Rússaprins, sonur Alexanders keisara, um borð. Prinsinn dvaldist hér í sex daga og fór meðal annars með Hilmari Finsen stiftamtmanni til Þingvalla. Tvö sovésk herskip komu til landsins árið 1969, þegar andrúmsloftið var allt annað en nú í samskiptum Íslendinga og Rússa.


Á sjöunda áratugnum tóku að birtast fréttir um sívaxandi umsvif sovéska flotans á hafsvæðinu umhverfis Íslands, einkum kafbáta. Jókst mikilvægi Keflavíkurstöðvarinnar fyrir öryggi Vesturlanda í réttu hlutfalli við aukin umsvif Sovétmanna í lofti og á legi.
Þá eins og nú var helsta flotastöð Rússa á Kólaskaga við austurlandamæri Noregs og þaðan voru herskip og flugvélar send út á Norður-Atlantshaf og heimshöfin fram hjá Íslandi. Á þeim tíma hefði verið óhugsandi að efna til knattspyrnuleiks eða keilukeppni milli sjóliða á rússnesku herskipi og bandarískra hermanna í Keflavíkurstöðinni.

Á níunda áratugnum mótaði Bandaríkjastjórn flotastefnu á Norður-Atlantshafi, sem miðaði að því að valda sovéska flotanum eins miklu tjóni og unnt yrði, eins nálægt stöðvum hans á Kólaskaga og frekast væri kostur. Vakti þessi stefna umræður á stjórnmálavettvangi og var Ólafur Ragnar Grímsson í hópi helstu andstæðinga hennar hér á landi, enda var hann bæði andvígur aðild Íslands að NATO og dvöl bandaríska varnarliðsins á Íslandi. Átti hann í því efni samleið með svonefndum friðarhreyfingum, sem létu verulega að sér kveða á þessum árum.

Staðfesta Bandaríkjamanna og NATO gagnvart útþenslu sovéska heraflans, réð úrslitum um hrun Sovétríkjanna. Styrkur sovéskra valdhafa fólst í heraflanum. Þegar hann stóðst höfuðandstæðingnum ekki lengur snúning, var ekkert eftir.

Þótt nú séu aðrir tímar, skiptir Kólaskagi Rússa enn miklu og Norðurfloti hans er hinn öflugasti innan flota þeirra. Eystrasaltsflotinn og Svartahafsflotinn eru svipur hjá sjón eftir hrun Sovétríkjanna og minni áhersla er nú lögð á Kyrrahafsflotann en Norðurflotann.


Norðurflotinn hefur dregist saman frá hruni Sovétríkjanna. 1989 til 1990 voru 22 tundurspillar í flotanum, nú er tundurspillirinn Admiral Chabanenko einn úr hópi aðeins sex tundurspilla á Kólaskaga. Hann er eina skipið í rússneska flotanum af Udaloy II-gerð og var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Kaliningrad árið 1992 en ekki tekinn í notkun fyrr en í janúar 1999. Um tíma lá við að hætt yrði við fullsmíði hans vegna fjárskorts. Eina flugmóðurskip rússneska flotans hefur legið í slipp á Kólaskaga síðan 1996.
Í nýlegu hefti af ritinu Proceedings, sem er gefið út af Bandarísku flotastofnuninni, fjallar dr. Ingemar Dörfer, sem er meðal helstu sérfræðinga Svía á sviði öryggismála, um Kólaskagann undir fyrirsögninni: Kóla hefur misst gildi sitt.

Hann lýsir því meðal annars, hve Rússar hafi átt í miklum erfiðleikum með að halda úti kjarnorkukafbátum sínum, sem búnir eru langdrægum kjarnorkueldflaugum. Þeir voru 38 á Kólaskaga 1990 en eru nú 12. Hinir risavöxnu kafbátar af Typhoon-gerð hafi reynst misheppnaðir, aðeins tveir af sex, sem smíðaðir voru, séu í notkun og á næsta ári verði líklega aðeins einn eftir. Fyrsta kafbátnum af Borey-gerð hafi verið hleypt af stokkunum í nóvember 1996 en SS-N-28-eldflaugin, sem hann átti að flytja, hafi reynst ónýt. Nú sé sagt, að 12 Borey-kafbátar eigi að koma til sögunnar 2005 en það verði líklega ekki fyrr en 2010 og telji Norðmenn, að þeir verði í Norðurflotanum, en komi ekki í stað Delta III-kafbátanna í Kyrrahafsflotanum. Delta IV-kafbátar reynist Rússum best undir langdrægar kjarnaflaugar og þeir eigi heimahöfn í Gadzhievo, utan við Múrmansk. 940 kjarnaoddar séu í Norðurflotanum en 240 í Kyrrahafsflotanum.

Þegar spennan var mest á Norður-Atlantshafi vegna útþenslu sovéska flotans, var reiknað með því, að Bandaríkjamenn yrðu jafnvel að beita kjarnorkuvopnum í Barentshafi til að halda honum í skefjum. Nú er málum þannig háttað, að talið er, að bandarískir kafbátar af Los Angeles-gerð, búnir stýriflaugum með hefðbundnum sprengjuoddum, gætu grandað öllum rússneska Norðurflotanum. Bandaríkjamenn geti þess vegna beint kjarnorkuvopnum sínum annað. Dygði að nota 150 Tomahawk-stýriflaugar í þessu skyni eða 7% af 2.000 slíkum flaugum Bandaríkjamanna.

Dörfer telur ólíklegt, að Rússar muni leggja áherslu á að efla herafla sinn á norðurslóðum, þeir hafi nóg með að halda honum í horfinu. Einkum sé fjarlægt, að Norðurfloti Rússa ógni siglingaleiðum yfir Atlantshaf og einangri þar með Skandinavíuskaga frá Vesturlöndum.

Grein sinni lýkur Ingemar Dörfer með þessum orðum: "Höfuðáherslan og hugsanlegur spennupunktur hefur færst sunnar - til Eystrasaltslandanna og stöðu þeirra sem fullvalda ríkja og framtíðaraðila að Evrópusambandinu og NATO."


Ef enn ríkti andrúmsloft kalda stríðsins, væri það ekki talin tilviljun, að rússneskt herskip væri í Reykjavíkurhöfn á sama tíma og Vaira Vike-Freiberga, forseti Lettands, kæmi í opinbera heimsókn og flytti erindi um réttmæti þess, að land sitt fengi aðild að NATO.
Lettlandsforseti tók þátt í hringborðsumræðum um NATO og hlutverk smáþjóða í Þjóðmenningarhúsinu. Þar spurði Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna og andstæðingur NATO, Vike-Freiberga, hvernig friðarhreyfingum liði í Lettlandi. Forseti Lettlands var ekki í neinum vafa um eðli og tilgang hinna svonefndu friðarhreyfinga frá áttunda og níunda áratugnum. Lettar hefðu ekki mikinn áhuga eða skilning á starfsemi þeirra, eftir að hafa mátt þola, að áróðri þeirra var troðið ofan í kokið á þeim af kommúnistum og marxistum undir stjórn Rússa. Friðarhreyfingar eins og þær, sem Kolbrún spurði um, væru enn svo nátengdar sovéska ánauðartímanum í huga Letta, að ekki væru miklar líkur á því, að menn tækju mark á málflutningi þeirra í bráð.

Vaira Vike-Freiberga taldi rússnesk stjórnvöld ekki lengur andmæla stækkun NATO með inngöngu Eystrasaltsríkjanna á þeirri forsendu, að hún ógnaði öryggi Rússlands, þótt Vladimir Pútín Rússlandsforseta þætti hugmyndin ekki góð. Er þess vænst, að leiðtogafundur NATO í Prag í nóvember næstkomandi ákveði að bjóða Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Slóvakíu, Slóveníu, Búlgaríu og Rúmeníu aðild að bandalaginu.


Heimsókn rússneska tundurspillisins og Lettlandsforseta í byrjun vikunnar staðfesta enn hinar miklu breytingar, sem hafa orðið í öryggismálum síðustu ár. Breytingarnar snerta ekki aðeins þróun flotamála í Rússlandi eða frelsi og stjórnarhætti Letta heldur einnig afstöðu þeirra, sem á sínum tíma voru andvígir þátttöku Íslands í varnarsamstarfi vestrænna ríkja innan NATO. Sumir þeirra hafa horfið frá villu síns vegar, aðrir halda enn í þá skoðun, að Íslendingum og öðrum frjálshuga þjóðum sé best að gæta ekki öryggis síns sameiginlega með aðild að NATO.
Landafræðin breytist ekki, hvað sem öðru líður. Í ljósi hennar og strauma í öryggismálum þurfum við Íslendingar eins og aðrir að gæta hagsmuna okkar. Spenna kann ef til vill að magnast við Eystrasalt verði Eystrasaltsríkjunum þremur veitt aðild að NATO. Rússar eiga þó ekki að hafa neitunarvald um stækkun bandalagsins, enda beinist hún ekki gegn neinum heldur er til þess fallin að treysta öryggi, frið og frelsi aðildarríkjanna.