3.8.2002

Leiðandi samstarf í Evrópu - vettvangur í Morgunblaðinu

Leiðandi samstarf í Evrópu

ÞESS er minnst um þessar mundir, að 50 ár eru liðin frá því að Kola- og stálsambandið var stofnað af sex Evrópuríkjum til að hafa stjórn á framleiðslu og sölu kola og stáls í þessum ríkjum. Tilgangurinn var ekki síst að útiloka til frambúðar hernaðarárekstra og ófrið milli Frakka og Þjóðverja. Var þetta samband undanfari Efnahagsbandalags Evrópu og síðan Evrópusambandsins.
Saga Evrópu kenndi, að tækist að uppræta tilefni átaka í samskiptum Frakka og Þjóðverja væri lagður grunnur að friði og öryggi í álfunni. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa ríki Vestur-Evrópu því lagt sig fram um að stuðla að góðu sambandi þessara öflugu ríkja. Hefur það gengið eftir og var enn staðfest hinn 30. júlí síðastliðinn þegar Jacques Chirac Frakklandsforseti fór með Jean-Pierre Raffarin, flokksbróður sínum og forsætisráðherra, til fundar við Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, í bænum Schwerin í austurhluta Þýskalands. Var þetta í 79. sinn sem æðstu menn Frakklands og Þýskalands hittust á tvíhliða fundi á grundvelli vináttu- og samstarfssamnings, sem þeir Charles de Gaulle og Konrad Adenauer rituðu undir 22. janúar 1963, en þess verður minnst með hátíðahöldum á næsta ári, að 40 ár eru frá því að þessi tvö öflugu meginlandsveldi Evrópu og gömlu fjendur tóku höndum saman með svo sögulegum hætti.

Tveimur vikum áður en þeir hittu Schröder höfðu Chirac og Raffarin rætt við Edmund Stoiber, forsætisráðherra Bæjaralands og kanslaraefni kristilegra demókrata í þingkosningunum í Þýskalandi 22. september næstkomandi. Stoiber sótti forystumenn Frakklands heim í París til að styrkja stöðu sína í kosningabaráttunni og ræða um mál á sameiginlegum hugsjónagrunni en eins og kunnugt er unnu Chirac og hans menn glæsilegan sigur á sósíalistunum, flokksbræðrum Schröders, í forseta- og þingkosningunum í Frakklandi í maí og júní.

Á tíunda áratugnum voru þær raddir háværar, sem sögðu, að þá væru dagar stjórnmálaflokka hægra megin við miðju taldir í Evrópu. Með Tony Blair og þriðju leiðinni, sem hann fylgdi, hefði sósíalistum tekist að tileinka sér bestu þættina úr stefnu hægri flokkanna og þar með búa svo í haginn fyrir sjálfa sig, að þeir yrðu lengi við völd.

Góður árangur Schröders í kosningunum í Þýskalandi 1998 var aðeins talinn staðfesting á óhjákvæmilegri sigurgöngu sósíalista í Evrópu og niðurlæging kristilegra demókrata vegna fjármálahneyksla, sem tengdust meðal annars Helmut Kohl, leiðtoga þeirra, var talin ógna sjálfri tilvist flokks þeirra. Fundur þeirra Chiracs og Schröders í þessari viku var þó ekki aðeins haldinn í ljósi hruns sósíalista í frönsku kosningunum heldur einnig í skugga skoðanakannana í Þýskalandi, sem sýna, að um þessar mundir mælast kristilegir demókratar með heldur meira fylgi í könnunum en sósíalistar og Stoiber dregur markvisst á Schröder, þegar persónuvinsældir eru mældar.


Efnahagsstjórn hefur ekki farist Gerhard Schröder vel úr hendi. Honum hefur til dæmis ekki tekist, eins og hann lofaði, að draga úr atvinnuleysi. 1998 sagði Schröder, að dæma ætti stjórn sína eftir því, hvernig hún tæki á atvinnuleysinu. Hann gekk meira að segja svo langt að segja, að hann ætti ekki skilið að ná endurkjöri, ef atvinnuleysið minnkaði ekki og fjöldi atvinnulausra yrði um 3,5 milljónir manna. Í lok júní var fjöldinn um 4 milljónir eða 9,5% af vinnufærum íbúum landsins, og sé litið á skiptingu eftir landshlutum sést, að í gamla Austur-Þýskalandi nemur atvinnuleysi sums staðar um 20%. Nýleg könnun, sem gerð var fyrir þýska tímaritið Capital meðal 600 stjórnenda stærstu fyrirtækja í Þýskalandi, sýnir að 74% þeirra telja, að þjóðin "geti ekki leyft sér" að endurkjósa stjórn Schröders. 1998 hvöttu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar til þess, að félagsmenn þeirra kysu Schröder frekar en Kohl, þeir hafa ekki ítrekað þessa stuðningsyfirlýsingu sína við Schröder núna. Menntamál setja einnig sterkan svip á kosningabaráttuna. Það vakti athygli á síðasta vetri, hve illa Þjóðverjar komu út í Pisa-könnuninni svonefndu á vegum OECD, sem mældi árangur grunnskólanemenda í 32 löndum. Samkvæmt könnuninni standa Þjóðverjar höllum fæti í menntamálum, til dæmis í samanburði við Norðurlöndin, Bretland, Frakkland og Bandaríkin, og lentu í 21. sæti. Íslendingar náðu töluvert betri árangri í þessari könnun en Þjóðverjar. Stendur það helst í vegi fyrir því, að íslenskir nemendur komist í efsta flokk, að hér er ekki lögð nægilega mikil rækt við góða og afburða nemendur. Hér hefur verið tekið skipulega á málum þeirra, sem standa höllum fæti í grunnskólum, án þess að ýta sérstaklega undir hina duglegu. Hvort heldur rætt er um efnahagsmál eða skólamál getur Edmund Stoiber, forsætisráðherra Bæjaralands, státað af því, að land hans standi betur að vígi innan þýska sambandsríkisins en almennt gerist. Nýleg samanburðarkönnun á árangri í skólastarfi innan Þýskalands sýnir, að nemendur í Bæjaralandi standa sig best, og almenna niðurstaðan er sú, að skólar í sambandslöndum undir stjórn kristilegra demókrata standa sig betur en þar sem sósíalistar stjórna.
Hollusta við Evrópusambandið (ESB) og hina nánu samvinnu við Frakka ræðst ekki af úrslitum kosninganna í Þýskalandi, því að allir flokkar vilja leggja rækt við þessa grunnþætti í utanríkisstefnu Þjóðverja, þótt áherslur séu mismunandi. Það mun hins vegar verða til þess að styrkja enn sjónarmið borgaralegra flokka innan ESB, ef Schröder tapar kosningunum, því að stjórnir sósíalista hafa fallið í hverju ESB-ríkinu eftir annað undanfarið. Eru þær fastastar í sessi í Bretlandi og Svíþjóð um þessar mundir.

Hin pólitíska forysta innan ESB hefur verið slöpp undanfarin ár vegna þess, að Frakkar og Þjóðverjar hafa ekki átt jafn kraftmikið og öflugt samstarf og oft áður. Er ástæðan annars vegar, að Schröder hefur ekki sama slagkraft á Evrópuvettvangi og Helmut Kohl hafði, og hins vegar, að erfið sambúð hægri mannsins Chiracs og Lionels Jospins, forsætisráðherra sósíalista í Frakklandi, dró úr stefnufestu og sóknarkrafti Frakka. Eftir sigur hægri manna í Frakklandi efast enginn um úrslitavald Chiracs í málefnum þjóðar sinnar á Evrópuvettvangi. Fái hann til samstarfs við sig borgaralegan kanslara í Þýskalandi er ekki ólíklegt að samvinna Frakka og Þjóðverja eflist fljótt og pólitískar áherslur skýrist.

Frakkar og Þjóðverjar hafa hins vegar ekki alltaf sömu hagsmuna að gæta á vettvangi ESB og sannast það best í umræðum um stuðning við landbúnað á ESB-vettvangi um þessar mundir. Frakkar eru þiggjendur styrkja til landbúnaðar en Þjóðverjar leggja þjóða mest af mörkum til þessa sjóðakerfis, sem sætir vaxandi gagnrýni. Þjóðirnar eru því í lykilhlutverki, ef ætlunin er að ná fram breytingum í þessu efni í því skyni að draga úr álögum í þágu þessa dýra og þunga kerfis.


Þótt Frakkar og Þjóðverjar deili um niðurgreiðslur úr sjóðum ESB til landbúnaðar eru stjórnmálasamskipti þeirra nú þannig, að engum dettur lengur í hug, að þessir fornu fjendur eigi eftir að vera annað en góðir vinir um aldur og ævi. Á þeim forsendum má því draga þá ályktun, að Kola- og stálsambandið og arftakar þess hafi náð þeim árangri, sem að var stefnt. Tekist hefur að stemma stigu við hættunni á hernaðarátökum og ófriði milli Frakka og Þjóðverja.

Sögu Evrópu lýkur þó ekki með því frekar en stjórnmálasögu samtímans lauk með því að valdakerfi kommúnismans hrundi í Evrópu. ESB hefur enn haft innra þrek til að bregðast við gjörbreyttum aðstæðum í stjórnmálum Evrópu með því að taka á móti umsóknarríkjum, sem áður lutu stjórn kommúnista. Það mun ekki síst ráðast af stefnu og samstarfi Frakka og Þjóðverja, hvenær og hvernig verður tekið á móti þessum ríkjum, því að eins og fyrir 50 árum eru þjóðirnar tvær leiðandi aflið meðal þjóða í Evrópusambandinu, arftaka Kola- og stálsambandsins.