26.7.2002

Greiðar götur - vanhugsað verkefni DV-grein


Greiðar götur – vanhugsað verkefni


Samkvæmt lögum skulu sveitarfélög vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna eftir því, sem fært þykir á hverjum tíma. Sveitarfélög geta jafnframt tekið að sér hvert það verkefni, sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum. Þá er sveitarfélögum að sjálfsögðu skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

Nauðsynlegt er að minna á þessi ákvæði sveitarstjórnalaganna , þegar rætt er enn á ný um verkefni á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur, sem R-listinn hefur kynnt undir heitinu Greiðar götur og kennt við lýðræði. Við skilgreiningu á inntaki verkefnisins er óhjákvæmilegt að taka mið af sveitarstjórnarlögunum. Sé farið út fyrir ramma þeirra, er til lítils unnið innan sveitarstjórnar, þótt markmið starfsins sé háleitt.

Til að skilja betur en ella hvað felst í verkefninu Greiðar götur beindi ég í DV-grein nokkrum fyrirspurnum um það til Dags B. Eggertssonar, talsmanns verkefnisins á vettvangi borgarstjórnar og nýkjörins formanns stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar, eftir að hann hóf að ræða um Greiðar götur hér í DV og Morgunblaðinu.

Lögfræðileg álitamál

Vegna þess heitis, sem R-listinn velur þessu verkefni sínu, eru vafalaust margir, sem telja það snúast um umferðar- og skipulagsmál. Því fer víðs fjarri. Greiðar götur eru um lögfræðileg álitamál, sem snerta stjórnsýslulögin, umboðsmann Alþingis, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að því er fram kemur í grein Dags B. Eggertssonar hér í DV 17. júlí, þar sem hann svarar spurningum mínum um inntak verkefnisins.

Nýorðinn formaður stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar telur brýnast að huga að eftirfarandi tveimur viðfangsefnum:

Í fyrsta lagi að bregðast við áliti fræðimanna, sem telja, að athuga þurfi ótalmargt í stjórnsýslu sveitarfélaga, þótt ekki falli það undir gildissvið stjórnsýslulaga.

Í öðru lagi að fjalla um það álitaefni, að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar veitir ekki jafnvíðtæka vernd og þeir mannréttindasáttmálar, sem Ísland hefur undirritað. Skal einkum efla umræður um mannréttindi á sviði Reykjavíkurborgar varðandi stöðu barna.

Hér skal ekki gert lítið úr þessum tveimur atriðum. Á hinn bóginn þarf að huga vel að því, hvernig á að standa að úrlausn þessara álitamála á þann veg, að ekki sé farið inn á lögboðinn starfsvettvang annarra stjórnvalda en sveitarstjórna.

Brýn verkefni

Líklegt er, að almennt telji Reykvíkingar önnur verkefni brýnni en þessi, þegar tekið er á stjórnkefismálum borgarinnar, þar sem boðleiðir milli borgarbúa og kjörinna fulltrúa hafa verið að lengjast með sífellt umsvifameira embættiskerfi og nýjum stjórnsýslusviðum. Þá blasir við, að í skipulagsmálum telja borgarbúar oft gengið fram, án þess að nægilegt tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra. Nýleg dæmi eru framkvæmdir í Suðurhlíðum og áform um nýtingu Alaskalóðar í Breiðholti og Landssímalóðar í Grafarvogi. Loks verður svonefnt hverfalýðræði í Reykjavík lítið annað en orð á blaði, á meðan verkefni hverfisráða eru ekki skilgreind í lögum.

Óvönduð stjórnsýsla

Greinar Dags B. Eggertssonar um Greiðar götur staðfesta aðeins þá skoðun, að þetta verkefni sé vanhugsað og skorti fótfestu í sveitarstjórnarlögum, eins og hann kynnir það. Léttvægust eru þó svörin, og raunar frekar útúrsnúningar en rök, þegar Dagur leitast við að afsaka þá óvönduðu stjórnsýslu R-listans að sérsníða kjörgengisreglur að frambjóðanda sínum til stjórnarformennsku í Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar í stað þess að velja frambjóðanda í samræmi við reglurnar. Bæði við val á forstjóra stofnunarinnar og kjör stjórnarformanns hefur R-listinn beitt aðferðum, sem sætt hafa málefnalegri gagnrýni vegna lélegrar stjórnsýslu.

Greiðar götur hefur verið kynnt sem stórverkefni R-listans í upphafi nýs kjörtímabils. Ef ekki býr meira að baki verkefninu en helsti talsmaður þess hefur lýst, snýst það um lögfræðileg álitamál, sem sífellt eru til umræðu og falla ekki sérstaklega undir sveitarstjórnir. Hitt veldur vonbrigðum og undrun, að helsti talsmaður R-listans um stjórnsýslurétt sjái ekki neitt athugavert við að sérsníða almennar kjörgengisreglur að pólitískum samherja.