26.7.2002

Fræðslumiðstöð Þingvalla opnuð


Fræðslumiðstöð
Þingvalla,
26. júlí 2002.





Fyrir hönd Þingvallanefndar býð ég ykkur öll velkomin til þessarar athafnar, þegar fræðslumiðstöð Þingvalla er formlega opnuð hér á Hakinu. Er sjaldgæft ef ekki einsdæmi, að Þingvallanefnd bjóði til mannfagnaðar af þessum toga, því að nefndin vill, að í þjóðgarðinum séu sem fæst mannvirki.

Þingvellir eru lögum samkvæmt friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og skal hið friðlýsta land ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis. Einkenni Þingvalla hefur jafnan verið, að náttúran fái að njóta sín sem best í tignarlegum skrúða sínum.

Í ár hefur Þingvallanefnd þó ekki aðeins staðið að því að þetta hús verði fullbúið heldur einnig ráðist í að reisa skála fyrir starfsmenn sína við þjónustumiðstöðina á Völlunum, eftir að gamla bæjarhúsið að Gjábakka hér fyrir handan brann til kaldra kola. Jafnframt hefur aðstaða fyrir ferðamenn verið stórbætt við þjónustumiðstöðina í sumar með nýju snyrtihúsi fyrir gesti á tjaldstæðum.

Þá hafa þau merku tíðindi einnig gerst í ár, að langþráð ósk Þingvallanefndar um að ríkið eignaðist Valhöll og þar með allt land innan þjóðgarðsins hefur ræst. Bíður það verkefni nú ríkisstjórnarinnar í samráði og samvinnu við Þingvallanefnd að ákveða framtíð þessa reits innan þjóðgarðsins og hvernig mannvirkjum og rekstri skuli háttað þar.

Áhugi fræðimanna á sögu og náttúru Þingvalla hefur jafnan verið mikill, en þó er það í fyrsta sinn í ár, sem ráðist er í vísindalegan fornleifagröft innan þinghelginnar og hafa þegar fundist á Biskupshólum vestan Þingvallakirkju vel varðveittar leifar margra fornra mannvirkja, sem ástæða er til að rannsaka betur og kann það að verða margra ára verkefni. Á öðrum stöðum er nauðsynlegt að bregðast við, svo að vatnsagi og trjágóður valdi ekki minjaspjöllum.

Fyrir skömmu kom út bókin Þingvallavatn, undraheimur í mótun, þar sem fremstu vísindamenn segja frá mótun svæðisins, jarðfræði, veðurfari, gróðri og dýralífi.

Er ánægjulegt að allt skuli þetta gerast sama árið og fræðslumiðstöð Þingvalla er opnuð, því að hér er ætlunin að miðla með nýjustu tækni og á fjölmörgum tungumálum sem bestum fróðleik um þennan einstæða stað. Þessi þróun fellur og vel að því markmiði, að Þingvellir komist á heimsminjaskrá UNESCO, en þar hljóta þeir staðir sess, sem njóta sérstakrar virðingar vegna þess, hvaða gildi þeir hafa fyrir alla jarðarbúa.

***

Á grundvelli samkomulags, sem Þingvallanefnd gerði við Davíð Oddsson forsætisráðherra, var sumarið 1999 hafinn undirbúningur að því að reisa þetta hús. Án góðs stuðnings og atbeina forsætisráðherra við útvegun fjár hefði aldrei verið unnt að ráðast í þetta verk og ljúka því.

31 tillaga barst í samkeppni meðal arkitekta og í september 1999 var tillaga frá Glámu/Kím valin og hefur henni verið hrundið í framkvæmd af aðalverktakanum Jónshúsi ehf., en samningur við hann var undirritaður í apríl 2001. Húsið er 220 fermetrar og þar af sýningarsalurinn 180 en snyrtiaðstaðan hér fyrir utan 40 auk þess eru 60 fermetrar undir þaki við anddyri hússins. Fellur mannvirkið vel að náttúrunni í einfaldleik sínum, tengist útsýnisstaðnum á Hakinu og Almannagjá og gjörbreytir allri aðstöðu á þessum fjölsótta ferðamannastað.

Árni Páll Jóhannsson, sýningarhönnuður og myndlistarmaður, hefur hannað sýninguna í húsinu. En eins og gestir sjá umlykur hún okkur í orðsins fyllstu merkingu, því að hér hafa verið hlaðnir veggir úr söguðu grágrýti sem sýna snið í berggrunn svæðisins og við blasa myndir úr lífríki Þingvallavatns á 6 fermetra glerskjá, þar sem vatn streymir niður. Breiddin á milli grágrýtisveggjanna hér í salnum er jafmikil og landrekið hefur verið síðustu 1000 ár.

Síðan er unnt að fræðast um sögu og náttúru Þingvalla og vatnsins með því að skoða hina stóru, snertistýrðu sjónvarpsskjái, sem hér eru. Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, ritstýrði texta og myndefni margmiðlunarefnisins en ráðgjafar voru Sigurður Líndal prófessor, Kristján Sæmundsson jarðfræðingur, Skúli Skúlason rektor, Orri Vésteinsson fornleifafræðingur og Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur. Undir verkefnisstjórn Hrings Hafsteinssonar hefur hugbúnaðar- og margmiðlunarfyrirtækið Gagarín unnið að tæknilegri útfærslu margmiðlunarinnar og notað efni úr sjónvarpi og kvikmyndum, ljósmyndir, teikningar og tölvuunnið efni.

Sýningin markar tímamót, því að hún er hin fyrsta á landinu, þar sem aðeins er notuð margmiðlunartækni

Sigurður K. Oddsson þjóðgarðsvörður hefur af vandvirkni og hagsýni haft yfirumsjón með verkinu og leitt það í samræmi við fjárveitingar, en heildarkostnaður við hús og sýningu er um 73 milljónir króna.

Þingvallanefnd þakkar þeim, sem hér hafa verið nefndir auk allra annarra, sem hafa lagt hönd á plóginn.

***

Mikil og aukin rækt er lögð við fræðslustarf innan þjóðgarðsins. Í því skyni ákvað Þingvallanefnd að ráða Einar Á. E. Sæmundsen sem fræðslufulltrúa undir stjórn þjóðgarðsvarðar.

Gönguferðir undir leiðsögn þjóðgarðsvarðar, fræðslufulltrúa, landvarða og annarra sérfróðra manna njóta vaxandi vinsælda og það sem af er þessu sumri hafa á annað þúsund manns nýtt sér þessar fræðsluferðir á vegum þjóðgarðsins.

Skipulögðum ferðum grunnskólabarna fjölgar einnig til Þingvalla. Í vor fengu um 2000 nemendur fræðslu um jarðfræði, vatnafar og náttúruvernd og kynntust þeir þingstaðnum forna og sögu Alþingis á Lögbergi. Þetta fræðslustarf hefur vakið áhuga á gerð sérstaks námsefnis um staðinn. Vinna nú fjórir kennaranemar í meistaranámi að því að setja saman námsvef um Þingvelli. Fellur það vel að markmiðum um rafrænt menntakerfi og sýningunni hér.

Vegna hins mikla áhuga á fræðslustarfinu hefur Þingvallanefnd leitað leiða til að auka alhliða þjónustu á þessu sviði með samstarfi við aðra í þeim tilgangi meðal annars að geta áfram veitt hana endurgjaldslaust.

Fyrir nokkrum árum tókst samvinna við Landsbanka Íslands um að hann stæði undir kostnaði við merkingar á leiðum innan þjóðgarðsins. Samvinnan þróaðist síðan á þann veg, að bankinn hefur stutt útgáfu á bæklingum og gerð göngukorts, sem Gylfi Gíslason myndlistamaður teiknaði og setur það sterkan svip á margmiðlunarsýninguna, sem nú er opnuð. Þá hefur bankinn staðið straum af kostnaði við þá þrjá margmiðlunarskjái, sem eru hér í salnum.

Mér er ánægja að skýra frá því, að um leið og fræðslumiðstöð Þingvalla tekur til starfa, munum við Halldór J. Kristjánsson bankastjóri hér við þessa athöfn rita undir samstarfssamning Þingvallanefndar og Landsbanka Íslands undir heitinu:


Landsbanki Íslands traustur bakhjarl
fræðslu í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Markmið samningsins er, að auka áhuga og skilning á stórbrotinni sögu og náttúru Þingvalla og veitir bankinn samtals 13 milljónir króna í þessu skyni á næstu árum. Unnið verður að stafrænum verkefnum á grundvelli samningsins, fræðsludagskrá með gönguferðum og móttöku nemenda, fyrirlestrum fræðimanna um rannsóknaverkefni, sem tengjast Þingvöllum, og útgáfu á almennu fræðsluefni.

Þá er ráðgert að nýta fé frá bankanum til að koma á fót gestastofu í Vatnskoti, sem verði tileinkuð lífríki Þingvallavatns og hönnuð þannig að veiðimenn og aðrir gestir geti staldrað þar við og sótt fróðleik. Auk þess sem skólabörn geti gert einfaldar tilraunir og rannsóknir í tengslum við nám sitt.

Vil ég þakka stjórnendum Landsbanka Íslands fyrir góðan hug þeirra í þessu samstarfi við Þingvallanefnd. Hann mun ekki aðeins auka hróður þjóðgarðsins og þekkingu fólks á honum heldur einnig verða bankanum til vegsauka.

Góðir gestir!

Ferðamenn á Þingvöllum skipta hundruðum þúsunda ár hvert. Þingvellir eru stolt okkar Íslendinga og einstakur staður á heimsvísu. Listamenn hafa skipað staðnum í öndvegi og öll þekkjum við, hve ánægjulegt er að kynnast undraheimum Þingvalla eða leiða ókunnuga um þá. Hingað beinist hugur þjóðarinnar á mestu hátíðarstundum sögu hennar og hér má sjá einstök merki um krafta náttúrunnar, þar sem meginálfur mætast.

Það er von Þingvallanefndar og allra, sem hafa komið að því að reisa þetta hús og vinna að sýningunni, sem það hýsir, að þessi verk standi undir miklum kröfum staðarins og hér hafi tekist með góðum hætti að tengja meginþræði sögu hans og náttúru.

Þjónustu kynslóðanna í þágu Þingvalla lýkur aldrei. Áfram ber að rannsaka sögu staðarins og náttúru og búa honum þá umgjörð, sem hæfir. Í anda hins góða starfs á þessu ári til að efla fræðslu um Þingvelli, væntir Þingvallanefnd þess, að Alþingi beri sem fyrst gæfu til að samþykkja frumvarp til nýrra laga um þjóðgarðinn og skapa þannig enn betri forsendur fyrir varðveislu Þingvalla, hins friðlýsta helgistaðar allra Íslendinga.