20.7.2002

Ofstopi vegna virkjana og stóriðju - vettvangur í Morgunblaðinu

Ofstopi vegna virkjana og stóriðju

Áform Alcoa um að reisa hér álver hafa kveikt umræður í bandarískum blöðum um virkjanir og umhverfisvernd hér á landi. Nægir þar að vísa til greinar í blaðinu The New York Times síðastliðinn þriðjudag.


Áform Alcoa um að reisa hér álver hafa kveikt umræður í bandarískum blöðum um virkjanir og umhverfisvernd hér á landi. Nægir þar að vísa til greinar í blaðinu The New York Times síðastliðinn þriðjudag. Hófst hún myndskreytt á forsíðu blaðsins, svo að fáar íslenskar fréttir hafa fengið þar jafnháan sess.
Greinin var rituð af meiri yfirvegun og víðsýni en einkennir málflutning þeirra, sem leggjast gegn framkvæmdum á hálendi Íslands með umhverfisvernd að leiðarljósi. Sá, sem sker sig úr með stóryrðum í greininni, er Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna. Er raunar ótrúlegt, að hún telji það málstað sínum til framdráttar að ganga fram með þeim hætti, sem hún gerir í viðtali við hinn bandaríska blaðamann. Helst virðist vaka fyrir henni að sverta stjórnarhætti á Íslandi, ef til vill í von um, að með því fæli hún erlenda fjárfesta frá því að eiga við okkur samskipti.

Lesendur The New York Times vita ekki af nokkurra ára reynslu eins og þeir, sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum, að Kolbrún Halldórsdóttir ræðst gjarnan á andstæðinga sína með innantómum hrakyrðum, þegar hún tekur til máls um virkjanir eða önnur pólitísk tilfinningamál sín. Þess vegna hljóta lesendurnir að hafa rekið upp stór augu, þegar þeir sáu í blaðinu, að ríkisstjórn Íslands væri \"ekki einu sinni lengur biðjandi álfélögin á hnjánum: hún hefur verið aflimuð; við stöndum á stúfunum\". Þetta er haft beint eftir þingmanninum og einnig, að hér væri aðeins stofnað til umhverfismats fyrir þrýsting frá Evrópusambandinu og leyndarhyggjan vegna raforkuverðsins gerði \"okkur að bananalýðveldi\".

Hugtakið \"bananalýðveldi\" er í Bandaríkjunum notað um smáríki, einkum í Mið-Ameríku, þar sem stjórnmál eru í uppnámi, oft vegna valdatöku einræðisherra, og efnahagurinn á allt undir einhæfum útflutningi á ávöxtum í höndum alþjóðlegra auðhringja. Þegar bandaríski blaðamaðurinn bar þessa lýsingu Kolbrúnar á ástandinu á Íslandi undir Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði hann, að hún væri til marks um, að andstæðingar virkjanaframkvæmdanna hefðu \"gone bananas\", eða farið af hjörunum.


Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að kynna sögu Íslands og menningu og íslenskt efnahags- og atvinnulíf í Bandaríkjunum. Árið 2000 náði þessi kynning hámarki og er skemmst að minnast starfa landafundanefndar, siglingar víkingaskipsins Íslendings, víkingasýningar Smithsonian-safnsins, sem enn er á ferð um Norður-Ameríku, og skipulagðrar dreifingar á safni Íslendingasagnanna á ensku. Þá má nefna markaðs- og ferðaátak undir slagorðinu Iceland Naturally, skráningu Íslenskrar erfðagreiningar á Wall Street, umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja í New York auk hinna hefðbundnu íslensku fyrirtækja í Bandaríkjunum, sem selja fisk. Síðast en ekki síst má minna á hið mikla landkynningarstarf, sem Flugleiðir hafa unnið í Bandaríkjunum. Tugþúsundir Bandaríkjamanna hafa í meira en hálfa öld haft kynni af Íslandi vegna dvalar í Keflavíkurstöðinni bæði sem hermenn og borgaralegir starfsmenn varnarliðsins.
Myndin, sem Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður kýs að draga upp af landi og þjóð í samtalinu við blaðamann The New York Times, stangast harkalega á við veruleikann. Hún er því í hróplegri andstöðu við allt, sem kemur fram í kynningu á Íslandi í Bandaríkjunum, hvort sem hún er stunduð af íslenskum eða bandarískum aðilum.

Vinstri/grænir telja sig af alkunnri hógværð meiri talsmenn íslenskra hagsmuna en alla aðra á vettvangi stjórnmálanna og undir þá hagsmunagæslu falla andleg og veraldleg efni þjóðarinnar auk sjálfrar náttúrunnar. Málflutningur þeirra byggist á því, að í breytingum felist meiri hættur en tækifæri, fjármunum sé betur komið í vörslu ríkisins en einstaklinga og ríkisrekstur sé betri en einkarekstur, skatta eigi ekki að lækka heldur hækka og mannvirkjagerð í óbyggðum sé óþolandi aðför að náttúrunni. Þeir eru andvígir aðild Íslands að NATO og vilja rifta varnarsamstarfinu við Bandaríkin.


Ógjörningur er að komast að þeirri niðurstöðu, að það þjóni íslenskum hagsmunum að tala um land og þjóð með þeim hætti sem Kolbrún Halldórsdóttir gerir í viðtalinu við The New York Times. Orð hennar eiga ekkert skylt við málefnalegar umræður um Kárahnjúkavirkjun eða samninga um álver við Alcoa. Þau eru einfaldlega óhróður.
Í raun er það sérstakt íhugunarefni, hvers vegna vinstrisinnar á Íslandi verða alltaf svona æstir, þegar þeir fjalla um land sitt í erlendum fjölmiðlum og málefni, sem þeir ná ekki fram heima fyrir, vegna þess að almannavilji stendur til annars auk meirihluta meðal þingmanna.

Æsingurinn vegna Kárahnjúkavirkjunar og samninga við erlenda aðila um stóriðju er síður en svo einsdæmi. Á sjöunda áratugnum var hávaðinn mikill, þegar ráðist var í virkjun Þjórsár við Búrfell vegna samninga við Alusuisse um álverið í Straumsvík, ÍSAL. Þá var ekki aðeins talað um aðför að náttúrunni heldur einnig barist harkalega gegn því að fá erlent fjármagn inn í landið. Dró það þó nokkuð úr andstöðunni við hina erlendu fjárfesta, að þeir komu frá hlutlausu, evrópsku smáríki, Sviss. Slá má föstu, að þá hefði ekki tekist að semja um álver hér, ef eigandi þess hefði verið bandarískur. Eignarhald Bandaríkjamanna á stóriðjuveri hér hefði verið talin stórhættuleg aðför að sjálfstæði þjóðarinnar í gini alþjóðlegra auðhringa.

Fyrir tveimur áratugum var Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra og setti sér það takmark að sverta sem mest samninginn við Alusuisse um ÍSAL. Lék allt á reiðiskjálfi í stjórnmála- og efnahagslífi þjóðarinnar, þegar erindrekar ráðherrans fóru víða um heim til að leita sönnunargagna um meinta sviksemi hins svissneska eiganda álversins í Straumsvík. Var þá rætt um óeðlilega \"hækkun í hafi\" á súráli frá Ástralíu. Eftir að Hjörleifur hætti sem iðnaðarráðherra voru skipaðar óháðar dómnefndir til að fjalla um ágreiningsmál auk þess sem raforkuverð hækkaði. Samningar tókust haustið 1984, ákveðið var að raforkuverð færi eftir heimsmarkaðsverði á áli, deilumál voru útkljáð með dómsátt og samið um að álverið stækkaði um helming.


Um miðjan júní 1998 hófst álframleiðsla í veri Norðuráls á Grundartanga, verksmiðjan þar reis á rúmu ári, en það var í október 1995 sem fyrst var sagt frá því hér í Morgunblaðinu, að Bandaríkjamaðurinn Kenneth Peterson hefði augastað á Íslandi fyrir álver. Reynsla okkar Íslendinga af samstarfi við hann spillir ekki fyrir Bandaríkjamönnunum í Alcoa, þegar þeir leita eftir samningum um starfsaðstöðu hér, enda byggist andstaðan við nýtt álver á Reyðarfirði að þessu sinni ekki á ótta við erlenda fjárfesta, jafnvel þótt þeir komi frá Bandaríkjunum, heldur á umhverfissjónarmiðum auk þess sem einhverjir draga í efa efnahagslegan ávinning af hinum miklu framkvæmdum.
Allir með þekkingu á íslenskum málefnum vita, að Kolbrún Halldórsdóttir fer langt út fyrir skynsamleg mörk í málflutningi sínum um ríkisstjórn Íslands og íslenska stjórnarhætti í viðtalinu við The New York Times. Flest bendir til að umhyggja hennar fyrir íslenskri náttúru byggist á álíka miklum hleypidómum. Þar sé hrapað að niðurstöðu á neikvæðum, vinnstrisinnuðum forsendum án minnsta vilja til þess að líta til nokkurra gagnraka.

Vilji þingmanna til að heimila Kárahnjúkavirkjun var afdráttarlaus, þegar greidd voru atkvæði um málið í þingsalnum. Umræður um þær miklu framkvæmdir og allt, sem varðar virkjunarkosti á hálendinu norðan Vatnajökuls, hafa verið langvinnar. Farið hefur verið að skýrum lýðræðislegum leikreglum og stuðst við margra ára rannsóknir vísindamanna. Ein af meginástæðunum fyrir því, að erlendir stórfjárfestar velja Ísland frekar en önnur lönd, er einmitt festa í stjórnarfarinu, lögbundnir stjórnarhættir, friðsamt þjóðfélag vel menntaðra og víðsýnna manna. Þegar allt um þrýtur er það kannski þessi mynd af Íslendingum, sem Kolbrún Halldórsdóttir vill spilla með ofstopa sínum