10.7.2002

Greiðar götur í ógöngur - DV-grein

Greiðar götur í ógöngur

Undir kjörorðinu Greiðar götur hefur R-listinn samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur, að sett skuli á laggirnar stjórnkerfisnefnd í því skyni að hleypa „af stokkunum fjölþættu lýðræðisverkefni”, eins og það er kallað og síðan útskýrt á þann veg, að erfitt er að henda reiður á því, hvað í raun hangir á spýtunni. Virðist meira lagt upp úr orðum en innihaldi.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og helsti talsmaður verkefnisins, gefur til kynna í grein í DV 27. júní, að í greiðum götum felist að veita Reykvíkingum meiri réttindi en mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Lætur hann meira að segja einnig að því liggja, að ætlunin sé að ræða um að veita Reykvíkingum meiri mannréttindi en öllum Íslendingum er veitt í stjórnarskrá lýðveldisins.

Verður fróðlegt að kynnast því, hvernig unnt er að ganga lengra í mannréttindamálum í Reykjavík en mælt er fyrir um í stjórnarskránni. Hvort umræður á vettvangi borgarstjórnar eða að frumkvæði hennar geta tryggt Reykvíkingum meiri réttindi en aðrir landsmenn njóta í skjóli stjórnsýslulaga á einnig eftir að koma í ljós.

Dagur B. Eggertsson ritaði ekki aðeins um Greiðar götur í DV heldur einnig í Morgunblaðið hinn 26. júní. Þar segir hann meðal annars:

„Markmið réttlátrar stjórnsýslu er að sambærilegar úrlausnir séu veittar í sambærilegum málum. Skýrar reglur og málefnaleg vinna embættismanna og kjörinna fulltrúa er lykilatriði til að tryggja sanngirni að þessu leyti.”

Á sama borgarstjórnarfundi, hinn 20. júní 2002, og tillagan um Greiðar götur var samþykkt, var gengið til formannskjörs í stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar og kaus R-listinn ókjörgengan mann, kosningin var því ólögmæt og ógild. Í stað þess að leiðrétta þessi mistök með því að bjóða fram kjörgengan einstakling ákvað R-listinn að breyta skýrum og málefnalegum reglum og sérsníða þær að frambjóðanda sínum.

Með þessu er gengið þvert á markmið réttlátrar stjórnsýslu við val á stjórnarformanni í þeirri stofnun borgarinnar, þar sem mest og oftast reynir á vandaða stjórnsýslu við úrlausn mála, er snerta fjárhagslega hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja. Þarna var með ómálefnalegum hætti opnaður valdasess fyrir pólitískan samherja vegna hagsmuna Samfylkingarinnar innan R-listans, þvert á virðingu fyrir skýrum, efnislegum reglum.

Er skorað á Dag B. Eggertsson málsvara „lýðræðisverkefnis” R-listans að skýra, hvernig það samræmist góðum stjórnsýsluháttum og öðrum markmiðum verkefnisins að sérsníða almennar reglur að flokkspólitískri hagsmunagæslu eins og gert var við endurtekið formannskjör í stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkur.