6.7.2002

Átökin um Spron - vettvangur í Morgunblaðinu



Átökin um SPRON

Með vaxandi eftirvæntingu er beðið niðurstöðu um framtíð tveggja mikilvægra fjármálastonana, Landsbanka Íslands og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Mikilvægum ákvörðunum vegna þeirra hefur verið slegið á frest, á meðan beðið er eftir afstöðu opinberra aðila.

Hluthafafundur Landsbanka Íslands samþykkti hinn 1. júlí að fresta kosningu í nýtt bankaráð. Ástæðan var tilboð frá innlendum fjárfestum, feðgunum Björgólfi Guðmundssyni, Björgólfi Thor Björgólfssyni auk Magnúsar Þorsteinssonar, í svonefndan kjölfestuhlut í bankanum, það er um 30% af hlutafé bankans.

Eru góð tíðindi, að íslenskir einstaklingar séu svo fjárhagslega sterkir, að þeir hafi burði til að standa að jafnháu tilboði, sem leiðir strax til þess, að kjöri nýs bankaráðs er frestað, á meðan einkavæðingarnefnd ríkisins skoðar málið. Gefur það til kynna, að eigendur bankans telji tilboðið áhugavert, eins og Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur staðfesti og boðað niðurstöðu nú fyrir helgina.

Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) frestaði í síðustu viku fundi stofnfjáreigenda SPRON, sem átti að halda hinn 28. júní, til að taka ákvörðun um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Vill stjórnin fá úrskurð frá fjármálaeftirlitinu, áður en fundurinn er haldinn, um það hvort tilboð fimm fjárfesta fyrir hönd Búnaðarbankans um að kaupa stofnfé SPRON fyrir fjórfalt hærra verð en stjórn sparisjóðsins býður sé löglegt.

Stjórnendur SPRON segjast í einu og öllu miða tilboð sitt til stofnfjáreigenda við lög, sem heimila að breyta megi sparisjóðum í hlutafélög. Stofnfjáreigendur hafi samkvæmt ákvæðum gildandi laga aldrei getað vænst þess að öðlast hlutdeild í eigin fé sparisjóðs umfram verðbætta stofnfjáreign sína. Tilboð Búnaðarbankans feli í sér um það bil tveggja milljarða króna greiðslu til stofnfjáreigenda til þess að ná yfirráðum yfir eigin fé sparisjóðsins, sem sé bókfært á 3,2 milljarði króna og metið á markaðsvirði fjórir til fimm milljarðir króna. Stofnfé sé ekki ígildi hlutafjár heldur hafi allt annað gildi að lögum og það sé ekki fyrr en eftir breytingu sparisjóðs í hlutafélag, að stofnfjáreigendur geti sem hluthafar gert tilkall til hluta og vaxtar eigin fjár eins og í öllum öðrum hlutafélögum.

***

Þeim, sem tekið hafa þátt í aðalfundum SPRON, kemur óeining innan hóps stofnfjáreigenda um málefni sparisjóðsins eða störf stjórnar hans í opna skjöldu. Á aðalfundunum hefur undanfarna áratugi jafnan ríkt mikill einhugur og hafa stjórnarmenn notið um og yfir 90% og allt að 100% stuðnings í óbundnu kjöri á fundunum. Hefur þetta ekki breyst, þótt stofnfjáreigendum hafi fjölgað hin síðari ár, en þeir eru nú milli ellefu og tólf hundruð.

Fjöldi stofnfjáreigenda er ekki lögbundinn heldur ræðst af samþykktum einstakra sparisjóða. Undanfarin ár hefur þeirri stefnu verið fylgt innan SPRON að fjölga í þessum hópi, en hver einstaklingur innan hans getur að hámarki keypt 20 stofnbréf. Með verðbótum er hvert bréf nú metið á 34.740 krónur og er það innlausnarverð tryggt með lögum. Með tryggingu Búnaðarbankans bjóða fimmmenningarinnar 138. 960 krónur í hvert bréf, eða 104. 220 króna yfirverð– er yfirverðið þannig 2. 084. 400, ef stofnfjáreigandi á 20 bréf.

Á síðasta aðalafundi SPRON var stofnfjáreigendum gerð nákvæm grein fyrir rétti þeirra í því ferli, sem fundurinn samþykkti einróma að hefja til að breyta SPRON í hlutafélag. Jón G. Tómasson stjórnarformaður, sem er fyrrverandi borgarritari og borgarlögmaður og síðar ríkislögmaður, fór af nákvæmni yfir alla þætti málsins og einnig Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri. Að loknu máli þeirra vöknuðu ekki spurningar hjá stofnfjáreigendum og stóðu þeir einhuga að samþykktum aðalfundarins.

Á grundvelli ákvarðana aðalfundarins steig stjórn SPRON næsta skref og boðaði stofnfjáreigendur til sérstakra kynningarfunda og loks til fundarins 28. júní, sem síðan var frestað. Eftir að dagskrá þess fundar hafði verið kynnt óskuðu tveir stofnfjáreigendur eftir að leggja tillögur fyrir hann, sem voru á svig við tillögur stjórnarinnar og kom hún til móts við tilmæli þeirra. Var dagskrá fundarins breytt og hann auglýstur að nýju, svo að taka mætti þessar breytingatillögur fyrir á honum. Það var hins vegar óvissan um lögmæti tilboðs fjárfestanna fimm í skjóli Búnaðarbankans og málskotið vegna þess til fjármálaeftirlitsins, sem leiddi til þess að fundinum var frestað um óákveðinn tíma.
***

Iðnaðarmenn í Reykjavík voru helstu hvatamenn að stofnun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis árið 1932, eða fyrir réttum 70 árum. Voru þeir löngum helstu bakhjarlar sjóðsins og ábyrgðarmenn, sem er eldra heiti á stofnfjáreigendum, en fjárhagsleg ábyrgð þeirra vegna sparisjóðsins takmarkast við stofnfjáreign hvers og eins. Sparisjóðurinn var fyrst til húsa á horni Smiðjustígs og Hverfisgötu en síðan að Skólavörðustíg 11. Það var ekki fyrr en á 50 ára afmæli hans, árið 1982, sem sjóðurinn fékk heimild til að opna útibú.

Á síðustu áratugum hefur starfsemi SPRON vaxið jafnt og þétt og stjórnendur hans hafa nýtt aukið frjálsræði í starfsemi fjármálastofnana til að þróa þjónustu hans og lagt rækt við sem nánust tengsl við viðskiptavini sína og einstaklingsbundna þjónustu. Helstu markmiðum hans er meðal annars lýst þannig: SPRON byggir samkeppnishæfni sína á ábyrgu og hæfu starfsfólki sem nýtur sjálfstæðis í starfi, ávinnur sér traust viðskiptavina og veitir þeim framúrskarandi lipra og skjóta þjónustu. SPRON er sjálfseignarstofnun sem lætur sér annt um menningu og umhverfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir viðskiptavina búa og starfa. SPRON er framsækið fyrirtæki sem stefnir að því að vera ávallt leiðandi á markaðnum og nýta þau sóknarfæri sem gefast af eigin rammleik eða í samvinnu við önnur fyrirtæki. SPRON stefnir að því að vera ávallt besta fjármálafyrirtækið á Íslandi.

***

Mikil saga, reynsla, viðskiptavild og fjármunir eru í húfi, hvort heldur litið er til Landsbanka Íslands eða Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Framtíðarhagur þessara fjármálafyrirtækja ræðst mjög af því, hvernig tekst að rækta traustið, sem þau hafa áunnið sér og því verði ekki spillt með sviptingum um eignarhald og stjórnendur. Þess vegna er mikilvægt að vel takist til við svar einkavæðinganefndar til þeirra, sem bjóða í Landsbankann, og einnig við að finna friðsamlega, löglega leið frá átökunum um SPRON.

Snemma árs 2000 kom mörgum á óvart, þegar tilkynnt var um sameiningu Íslandsbanka og FBA. Fréttir höfðu verið um hugsanlegan samruna Landsbanka og Íslandsbanka en þegar bankaráð Landsbankans frétti af samruna keppinautarins Íslandsbanka við FBA brást ráðið við með tillögu um, að Búnaðarbanki og Landsbanki sameinuðust. Í október 2000 ákvað ríkisstjórnin, að unnið skyldi að samruna þessara tveggja ríkisbanka, enda stæðist það samkeppnislög. Tveimur mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók ákvörðun sína hnekkti samkeppnisráð henni.

Setji fjármálaeftirlitið strik í reikning þeirra, sem nú reyna að ná undirtökunum í SPRON með tilstyrk Búnaðarbankans, yrði það ekki í fyrsta sinn, sem opinber eftilitsaðili hindraði samruna fjármálastofnana með vísan til landslaga. Reynslan hefði átt að kenna fjárfestunum fimm og stjórnendum Búnaðarbankans, að gott er að hafa vaðið fyrir neðan sig og skýrar lagalegar forsendur, áður en lagt er til atlögu af þessu tagi. Umræður á vettvangi Búnaðarbankans um samruna hans við aðrar fjármálastofnanir hefðu einnig átt að minna á nauðsyn þess að nálgast viðfangsefnið af nærgætni og virðingu, en stjórnendur og starfsmenn SPRON telja sótt að sér af óvild og fjandskap.

Telji fjármálaeftirlitið heimilt að nálgast stofnfjáreigendur sparisjóða með þeim hætti, sem fjárfestarnir fimm hafa gert með stuðningi Búnaðarbankans, hlýtur stjórn SPRON að bregðast skjótt við þeirri niðurstöðu. Er líklegt, að þá verði fleiri um hituna en þeir, sem nú bjóða stofnfjáreigendum gull og græna skóga í skjóli Búnaðarbankans.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að menn slíðruðu sverð sín, á meðan beðið er niðurstöðu fjármálaeftirlitsins um lögmætar leiðir. Átökin harðna frekar með gagnkvæmum ásökunum. Hvað sem þeim líður er ástæða að missa ekki sjónar á þeirri staðreynd, að löggjafinn ákvað, að hér væri rými fyrir sparisjóði með sérkennum þeirra, þótt þeir breyttust í hlutafélög.

bjorn@centrum.is