22.5.2002

Traust og trúverðugleiki
--------------------------------------------------------------------------------
Morgunblaðið
Miðvikudaginn 22. maí, 2002

Traust og trúverðugleikiFYRIR stjórnmálamann skiptir mestu, að hann njóti trausts umbjóðenda sinna og haldi þannig á málum, að hann glati ekki trúverðugleika sínum. Við höfum kynnst því í áranna rás, að það er ekki öllum gefið að halda þannig á málum, að tengsl þeirra við kjósendur byggist á þessum grunni.
Af andstæðingum mínum er það nú einkum talið rýra traust mitt og trúverðugleika, að Háskóli Íslands hefur ekki lokið smíði Náttúrufræðahúss í Vatnsmýrinni, og ekki hefur verið lokið við endurreisn Þjóðminjasafnsins, en að henni hefur verið unnið með markvissum hætti undanfarin ár á öllum sviðum, eins og fram kom í viðtali við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð hér í blaðinu fyrir skömmu.

Auðvitað er ég ekki dómari í eigin máli frekar en nokkur annar, en þó er ótrúverðugt, að staða þessara framkvæmda sé þess eðlis, að valdi trúnaðarbresti gagnvart mér eða nokkrum öðrum stjórnmálamanni í stöðu menntamálaráðherra undanfarin ár. Hér er um það að ræða, að unnið hefur verið í samræmi við fjárveitingar frá alþingi annars vegar og fjárráð Happdrættis Háskóla Íslands hins vegar. Þeir, sem líta þannig á, að það sé dyggð fyrir stjórnmálamenn að safna sem mestum skuldum á kostnað umbjóðenda sinna og tala síðan eins og þær gufi upp af sjálfu sér, láta fjárhagslegar röksemdir í umræðum um opinberar framkvæmdir auðvitað sem vind um eyru þjóta. Skuldasöfnun Reykjavíkurborgar í góðærinu er besti vitnisburðurinn um það.

Nei, góðir lesendur, það eru aðrir þættir en þeir, sem lúta að takmörkuðum fjárveitingum til opinberra framkvæmda, sem eru betri og sanngjarnari til að mæla trúverðugleika stjórnmálamanna. Má þar til dæmis nefna framgöngu þeirra í opinberum umræðum, hvort þeim er annt um að ræða á efnislegum forsendum um málefni eða aðeins í þeim tilgangi að koma höggi á andstæðing sinn. Hvort þeir snúast til varnar með haldgóðum rökum eða láta sér ósannindi og upphrópanir sæma. Hvort þeir leysa mál í samráði og á grundvelli viðræðna við umbjóðendur sína eða hrökkva inn í varnarskel, ef á móti blæs, og beita valdi sínu einhliða.

Í þessari kosningabaráttu hefur því hvað eftir annað verið haldið ranglega fram, að við sjálfstæðismenn ætlum að selja Orkuveitu Reykjavíkur. Tilgangurinn virðist sá að endurtaka lygina nægilega oft í þeirri von, að einhver trúi henni að lokum. Er með ólíkindum, hve langt málsvarar þessara ósanninda eru tilbúnir til að ganga í því skyni að gera þau trúverðug. Þetta eru hinir sömu, sem láta þannig, að örlög Kárahnjúkavirkjunar ráðist í borgarstjórnarkosningunum hér í Reykjavík!

Í þessari kosningabaráttu hefur verið ævintýralegt að sjá, hvernig R-listinn hefur farið í gegnum sjálfan sig. U-beygjurnar eru orðnar svo margar, að erfitt er að hafa tölu á þeim. Má nefna skipulag Laugavegarins, fyrst átti að friða allt en síðan sneri Bolli í Sautján málum á annan veg; framkvæmdir við Menntaskólann við Hamrahlíð og Menntaskólann í Reykjavík, fyrst átti allt að vera á vegum ríkisins en síðan skyldi borgin koma að málum með óljósum fjárstuðningi; umræður um skuldasöfnun Reykjavíkurborgar, fyrst var tölum hafnað en síðan voru þær viðurkenndar sem réttar og farið að spinna um fjárfestingar; Geldinganesið, fyrst var sagt, að kosið hefði verið um það 1998, síðan að þar ætti ekki að verða iðnaðarsvæði með höfn og loks að kort sýndi ekki iðnaðarsvæði, þótt það væri samþykkt með texta aðalskipulagsins; flugvallarmálið, sagt var, að stefna hefði verið mótuð til 2024, en síðan að stefna hefði verið mótuð til 2016 og það væri flugmálayfirvalda að móta stefnuna eftir það; hjúkrunarrými fyrir aldraða, fyrst var gefin fyrirvaralaus viljayfirlýsing með Frumafli, síðan var hún kölluð aftur með fyrirvaralausri viljayfirlýsingu með heilbrigðisráðherra og henni lýst sem samkomulagi Reykjavíkurlistans (!) við ríkisvaldið, en svo kom í ljós, að ráðherrann skorti samþykki í ríkisstjórn til að skrifa undir; Lína.net, sagt var að Kenneth Peterson hefði að fyrra bragði sýnt áhuga á að kaupa fyrirtækið, síðan kom í ljós, að ekkert slíkt hafði gerst en gengið hefði verið eftir fundi með honum af hálfu Línu.nets.

Listinn er lengri en hér skal numið staðar. Eiga þeir, sem þannig standa að málum, traust skilið? Eru þeir trúverðugir? Er líklegt að þeir muni einhenda sér í að ráðast í smíði hjúkrunarrýma fyrir aldraða, þegar þeir hafa haft átta ár til þess, án þess að lyfta litla fingri?